Stefán Jónsson fæddist á Akureyri 10. september 1944. Hann lést á Akureyri 6. janúar 2019.
Foreldrar hans voru Jón Arason Jónsson málarameistari, f. 3. júní 1913, d. 26. febrúar 1974, og Hjördís Stefánsdóttir húsmóðir, f. 18. desember 1918, d. 12. apríl 2004.
Bræður Stefáns eru Eiríkur, f. 5. október 1945, verkfræðingur, kvæntur Sigríði Jóhannesdóttur, kennara og tannsmíðameistara, og Teitur, f. 8. mars 1947, dósent við Tannlæknadeild Háskóla Íslands, kvæntur Valgerði Magnúsdóttur sálfræðingi. Hálfsystir Stefáns samfeðra er Svala Jónsdóttir Mambert, f. 4. nóvember 1939, búsett í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum.
Stefán giftist 14. október 1967 Heiðrúnu Björgvinsdóttur, fyrrverandi rekstrarstjóra, f. 10. ágúst 1947, en við sömu athöfn giftust bræður hans báðir einnig.
Börn Stefáns og Heiðrúnar eru Hjördís, kennari og málarameistari, f. 4. mars 1970, maki Heiðar Konráðsson málari, f. 27. nóvember 1967, dætur þeirra eru Heiðrún Valdís, háskólanemi, f. 7. ágúst 1997, og Hildur Védís, nemi, f. 4. ágúst 2003, og Jón Ari, viðskiptafræðingur, f. 19. apríl 1975.
Stefán var málarameistari og starfaði við þá iðn alla tíð, lengst af sem framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis, sem enn er starfandi og í eigu fjölskyldunnar.
Stefán sinnti félagsstörfum í stjórnmálum; hjá Alþýðubandalaginu 1960-1970 og síðan Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Árið 1982 gekk hann til liðs við Framsóknarflokkinn og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Stefán var meðlimur í Rótarýklúbbi Akureyrar frá árinu 1986. Hann sat í starfsgreinaráði bygginga- og mannvirkjagreina, stjórnum og nefndum fyrir byggingasvið Iðunnar og i fagnefnd málara. Hann sat í bygginganefnd og skólanefnd Verkmenntaskólans, nefnd vegna byggingar íbúða fyrir aldraða við Víðilund, bygginga- og skipulagsnefnd sem og í umhverfisráði. Þá var hann virkur í félagsstarfi innan Samtaka iðnaðarins, sat í ráðgjafaráði samtakanna og var formaður Meistarafélags byggingamanna á Norðurlandi.
Útför Stefáns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 18. janúar 2019, klukkan 13.30.
merlaðan sólargliti.
Aldrei hélt ég þann unaðsreit
augað á jörðu liti.
Fegurðin ríkir frjáls og heit
svo faðmlaga þinna ég nyti.
(Rögnvaldur Rögnvaldsson)
Mývatnssveit var unaðsreitur okkar frændsystkinanna í æsku, í skjóli afa og ömmu í Haganesi. Stebbi var mættur þangað áður en snjóa leysti á vorin í sauðburðinn og fór síðastur okkar heim, eftir réttir á haustin. Stebbi var svolítið stríðinn með glampa í augum, hláturmildur og skemmtilegur, laus við kerskni og í endurminningunni finnst mér að okkur hafi alltaf komið vel saman. Afi smíðaði skammel handa okkur barnabörnunum svo við gætum setið á tröðinni og hlustað á ömmu segja sögur og kenna okkur kvæði. Hún bað fyrir okkur á hverju kvöldi og um leið og hún bauð okkur góða nótt, þá fylgdi stundum piparmyntubrjóstsykur með, sem þætti nú ekki góð latína í dag. Hún trúði á mátt bænarinnar, aldrei kom neitt alvarlegt fyrir okkur þessi sumur, sem hún þakkaði almættinu. Oft var mikið líf við eldhúsborðið, Ívar er síðar tók við búi foreldra sinna, var sá er sagði fréttir úr sveitinni, en amma hélt uppi stjórnmálaumræðunni og gleymist ekki hve inngangan í NATO gekk nærri þessari konu, sem fór í eina bændaferð suður á land á sinni löngu ævi. Afi var rólyndari, kaus sinn Framsóknarflokk, svo það kom ekki á óvart að Stebbi fylgdi þeirri skoðun þegar hann hafði kosningarétt. Ég sé nú að vera okkar í sveitinni hefur haft ótrúlega mótandi áhrif á skoðanir okkar í lífinu. Stebbi var hægri hönd afa í tengslum við allan búskap, á varptímanum var það Stebbi sem hlotnaðist sá heiður að skríða að hreiðri við Tjörnina, sem engum öðrum var leyft, hann var grannur og lipur og eins gott að láta öndina vita áður en skriðið var inn, því ekki var að sögn útskot til að mætast á þeirri leið. Aldrei hefði Stebbi stigið á unga í Kálfshólmanum, eins og kom fyrir mig, hann var svo næmur á umhverfið. Fjárglöggur var hann svo orð var á haft. Ég fylgdist með honum í einu réttunum sem ég upplifði, hann átti ekki í vandræðum með að draga Haganesféð úr hjörðinni, fyrir mér voru allar kindur suðursveitunga eins.
Eitt sinn lögðum við frænkur tvær netspotta fyrir smávík í Selhagalæknum í þeirri von að veiða eins og Stebbi. Var þá ekki urriði fastur í spottanum þegar við vitjuðum hans næsta dag. Nú voru góð ráð dýr, við kunnum ekki að drepa urriðann og skammarlegt að segja frá því að við komum með hann hálflifandi heim. Þetta fannst Stebba nú ekki í lagi og við fengum kennslustund hjá honum, svo þetta endurtæki sig ekki. Hann tók auðvitað þátt í öllu sem sneri að veiðiskap í Haganesi, og ég er ekki í vafa um að hann hefði orðið góður bóndi.
Þegar Stebbi var um tvítugt fékk ég hringingu frá Hjördísi mömmu hans, þar sem hún fór þess á leit við mig að ég tæki hann í fæði þá um veturinn, því hann væri að fara að vinna hjá SÍS í Austurstræti. Ástæða beiðninnar tengdist því að hún hafði sagt honum að ef hann víkkaði ekki út matseðilinn, yrði honum fljótlega skilað, ef hann færi að búa. Þetta var í raun heiður fyrir mig, þarna gæti ég kennt Stebba eitthvað. Á þeim árum þurfti ég að elda heitan mat tvisvar á dag og gat af augljósum ástæðum ekki alltaf verið með það sama á borðum. Einnig var hringt frá Siglufirði og ég beðin fyrir annan frænda heimilisins sem var á aldur við Stebba og verður að segjast eins og er að það var ekki leiðinlegt að hafa þessa hressu stráka ásamt föður mínum við matborðið um veturinn. Pabbi var einkar laginn við að fá þá til þess að segja okkur frá ævintýrum helganna, því menn voru nú að læra fleira en að borða fjölbreyttan mat. Það eina sem gat orðið svolítið þreytandi var umræðan um veðrið fyrir norðan, samanborið við veðrið fyrir sunnan, það var munur á stillunum fyrir norðan eða helv. rigningunni fyrir sunnan. Þegar Stebbi hafði fundið hana Heiðrúnu sína var okkur hjónum ekki í kot vísað þegar við komum norður og þau buðu okkur í mat, sannkallaðir höfðingjar heim að sækja. Ég hitti þau hjón síðastliðið sumar og glampinn var enn í augum frænda. Við töluðum fátt en hann fór með mig inn á skrifstofuna sína þar sem hann sýndi mér gamlar myndir úr sveitinni, unaðsreitnum sem umfaðmaði okkur í æsku. Blessuð sé minning Stefáns Jónssonar frænda míns.
J. Bryndís Helgadóttir