Gunnar Kristinn Þórðarson, bifvélavirkjameistari, fæddist á Sauðárkróki 4. desember 1948. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki 12. febrúar 2019.
Foreldrar hans voru hjónin Þórður Eyjólfsson, f. 23. júní 1927, og Jörgína Þórey Jóhannsdóttir, f. 25. apríl 1926, d. 8. janúar 2014. Gunnar Kristinn var næstelstur í fjögurra systkina hópi. Systkini hans eru Páll Hólm Auðunn, f. 18. júlí 1947, Hólmfríður, f. 16. maí.1950, d. 24. mars 2008, og Sigurmon, f. 22. október 1955.
Gunnar Kristinn kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Sólveigu Jónasdóttur, f. 30. apríl 1953, grunnskólakennara, 9. desember 1972, og eignuðust þau þrjú börn, þau eru 1) Þórey, f. 1972, maki Eiður Baldursson, f. 1969. Börn þeirra: Sandra Sif, f. 1996, Sólveig Birta, f. 2000, Arnar Smári, f. 2005, og Árdís Líf, f. 2008. 2) Jónas Kristinn, f. 1974, maki Kristín Anna Hermannsdóttir, f. 1971. Börn þeirra: Eva Katrín, f. 2002, Aron Kristinn, f. 2009, d. 2010, og Lena Kristín, f. 2012. 3) Brynjar Þór, f. 1979, maki Sigríður Garðarsdóttir, f. 1982. Börn þeirra Brynjar Morgan, f. 2012, og Nína, f. 2014.
Gunnar Kristinn ólst upp í Stóragerði í Skagafirði. Hann hóf nám í bifvélavirkjun á verkstæðinu á Sleitustöðum og lauk því námi frá Iðnskólanum í Reykjavík 1971 og hófu þau hjónin þá hjúskap sinn í Stóragerði. Þaðan fluttu þau suður 1972 þar sem Gunnar starfaði við hin ýmsu störf eftir nám m.a. hjá Ýtutækni, akstur á strætó og hjá B&L þar sem hann lauk meistararéttindum í bifvélavirkjun. Gunnar opnaði bílaverkstæðið Bíltak ásamt Páli bróður sínum 1978 ásamt því að reka vikurflutninga og ráku þeir fyrirtækin allt til ársins 1985. Þá fluttu þau hjónin aftur norður í Skagafjörð og hóf þá Gunnar störf hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sem umsjónarmaður fasteigna allt til ársins 2006. Gunnar og Sólveig opnuðu Samgönguminjasafnið í Stóragerði 2004 og fluttu þau svo alfarið þangað 2006 og hafa búið þar allt til dagsins í dag.
Útför Gunnars Kristins fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 22. febrúar 2019, klukkan 15.
Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja enda er af svo miklu að taka eftir mann eins og þig, yndislegan, einstakan, hlýlegan, já og kannski örlítin furðufugl.
Það er nú ekki hægt að minnast þín án þess að segja frá þinni miklu bíladellu sem þú hafðir. Þú hafðir mikið dálæti á gömlum bílum og brotajárni og öllu sem því tengist, enda voru þær ófáar ferðirnar keyrðar þvers og krus um landið í leit að réttu bílhræjunum sem þú settir svo listilega vel saman í heila bíla og við systkinin fengum í gegnum þetta áhugamál þitt að þekkja hin ýmsu farartæki og já landið okkar um leið. Eftir skilur þú við þetta jarðlíf stórt og mikið bílasafn, Samgönguminjasafnið í Stórgerði, sem við mamma og systkinin munum varðveita vel í þinni minningu.
Þú varst góður pabbi og hafðir gaman af því að leika við okkur systkinin, taka þátt í alls kyns vitleysu með okkur fram eftir öllum aldri. Þú leyfðir mér að taka inn hin ýmsu gæludýr sem ég taldi að við þyrftum inn á heimilið þegar þegar ég var lítil enda varstu mikill dýravinur svo ég þurfti ekki að sannfæra þig lengi til að fá þau inn á heimilið, mömmu stundum til armæðu. Ég hef varla tölu á því hvað þau voru mörg en nokkur voru þau. Þú varst mikil vinnuþjarkur og hörkuduglegur alla tíð en þó svo að að þú hafir þurft að vinna mikið þegar við börnin þín vorum lítil, enda þið hjónin ung og að reyna koma undir ykkur fótunum. Þá reyndir þú stundum að sameina foreldrahlutverkið og vinnuna þína með því að leyfa okkur að fara með þér í Scaninua þína þegar þú varst að keyra vikursteina austan úr Heklu og til Reykjavíkur. Þær ferðir þóttu okkur ekki leiðinlegar, eða að fá að heimsækja þig á bílaverkstæðið þitt Bíltak sem þú byggðir frá grunni og varst svo stoltur af.
Ófáar voru ferðirnar okkar norður í Skagafjörðinn, oftast á Lödum, en það var bíltegund sem þú hafðir dálæti á. Rætur þínar voru í Skagafirðinum, sem toguðu sterkt í þig þegar við bjuggum í Kópavoginum sem síðar endaði með að fjölskyldan fluttist norður á Sauðárkrók eftir að þú varst búin að fara í tvær bakaðgerðir og þurftir að hætta öllum rekstri þínum. Það var þér afar mikilvægt að við fengjum að kynnast sveitalífinu og sveitin var þér mjög kær alla tíð.
Ferðirnar þá tóku aðeins lengri tíma en í dag og var þá ávallt tekið með nesti og góður staður á leiðinni fundinn til þess að stoppa og fá sér kaffi og hvíla sig í smá stund í góðri laut. Þú varst svo mikill náttúrumaður og naust þín vel á grænum bala.
Eftir að ég flutti sjálf aftur suður, þegar ég varð eldri, og fór í nám þá hringdir þú nánast daglega bara til að heyra í mér og vita hvernig ég hefði það og það gerðir þú líka eftir að ég flutti síðan aftur heim á Krók síðar með fjölskylduna mína. Þessara símtala sakna ég eftir að sjúkdómurinn tók röddina þína.
Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur ungu hjónin þegar við þurftum á hjálp þinni að halda hvort sem var að mála, parketleggja eða bara að passa barnabörnin þín. Aldrei var það vandamál.
Þú varst yndislegur afi, barnabörnin þín unnu þar í afalottóinu, afi sem var alltaf til staðar, alltaf til í leika við þau og brasa eitt og annað með þeim ávallt með gleði í hjarta en því miður fengu þau þó ekki öll að kynnast þessum afa því sjúkdómurinn tók það dálítið af þér. En þú reyndir eins lengi og þú gast að brasa með þeim öllum og alltaf var húmorinn og glettnin til staðar.
Já, það var nefnilega vondur draugur sem bankaði uppá fyrir ca. 12 árum og við þurftum öll að takast á við. MND kom óboðinn í heimsókn og settist að á heimili þínu og mömmu. Með þennan vágest í lífi okkar, eins vondur, ógeðslegur og miskunnarlaus og hann er, þurftum við að mæta honum og reyna að sættast við hann. Gekk okkur misvel með það og ég lái þér það ekki að þú hafir aldrei náð sáttum við hann. Hann tók af okkur öllum nokkur ár sem hefðu getað verið svo miklu skemmtilegri. Þessi óboðni gestur settist upp á fjölskylduna í óþökk allra og urðum við öll að reyna okkar allra besta til þess að láta þér líða sem best meðan hann hertók þig. Það var erfitt og mikil raun fyrir okkur öll að horfa upp á sjúkdóminn taka af þér fæturna, málið, kyngingu, hendurnar og fleira. Undir það síðasta átti hann það líka til að stríða hausnum á þér inn á milli, en þó tók hann ekki vitsmunina. En eitt tók hann ekki og það var ást okkar til þín og það hefði hann aldrei fengið sama hversu illur hann var.
Ég er óendanlega þakklát fyrir öll miðvikudagskvöldin og næturnar sem við áttum saman síðastliðinn vetur þó það hafi stundum verið kvíðvænlegt líka. Það voru kósy kvöldin okkar, ég, þú og mamma.
Þú flaugst svo burt úr örmum mínum á heilbrigðisstofnuninni svo friðsællega eina nóttina eftir nokkrar erfiðar nætur á undan. Mikið varð ég glöð og döpur í senn að hann, þessi fjandi, gaf þér loksins smá mildi og leyfði þér að fara þannig.
Ég viðurkenni að ég var dálítinn tíma að átta mig á að þú værir farinn en glöð í hjarta mínu hvernig þú laumaðir þér burt yfir móðuna miklu, en það var þér líkt að fara þegar engin tæki eftir.
Við fjölskyldan mín eigum svo margar góðar og fallegar minningar um þig sem við munum varðveita um ókomna tíð, elsku pabbi minn, við söknum þín strax óendanlega.
Að lokum vil ég þakka öllu því yndislega NPA fólki sem sinnti föður mínum svo vel síðustu árin, við hefðum ekki getað þetta án ykkar.
Nú veit ég að þú hefur fengið hvíldina og friðinn eftir langt og strangt strit með veikindi þín sem gersamlega átu þig upp langt fyrir aldur fram.
Eitt er það sem aldrei gleymist, aldrei það er minning þín.
Elsku pabbi hafðu þökk fyrir allt og allt.
Nú ertu horfinn í himnanna borg
og hlýðir á englanna tal.
Burtu er kvíði, sjúkdómur, sorg
í sólbjörtum himnanna sal.
Þeim öllum sem trúa og treysta á Krist
þar tilbúið föðurland er.
Þar ástvinir mætast í unaðarvist
um eilífð, ó, Jesú, hjá þér.
(Ingibjörg Jónsdóttir)
Þín dóttir Þórey og fjölskylda.