Guðrún Beta Grímsdóttir, fæddist 25. maí 1923 í Leiti í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Hún andaðist í Brákarhlíð, hjúkrunar- og dvalarheimilinu í Borgarnesi, 17. febrúar 2019.Foreldrar hennar voru hjónin María Jónsdóttir, húsmóðir, f. 11.4. 1893, d. 1.11. 1946, og Grímur Árnason, útvegsbóndi, f. 30.11. 1891, d. 2.1. 1972. Guðrún var þriðja í röðinni í 10 systkina hópi, en systkini hennar eru: Ólína Sigríður, f. 19.7. 1920, d. 1934, Hrefna, f. 22.9. 1921, d. 15.2. 1924, Arngerður Jóhanna, f. 13.6. 1925, Guðmundur Bjarni, f. 21.10. 1926, d. 24.1. 2001, Rakel, f. 25.6. 1928, d. 18.7. 2016, Elín Gréta, f. 3.1. 1930, Kristrún, f. 3.7. 1931, Sólveig, f. 20.1. 1933, og Óskar Veturliði, f. 11.4. 1934.
Eiginmaður hennar var Einar Tómas Guðbjartsson, f. 27. júlí 1911, d. 23. ágúst 1979. Hann var frá Láganúpi í Kollsvík. Kjördóttir þeirra er María Jóna Einarsdóttir, f. 13.2. 1953 í Súðavík. Eiginmaður hennar er Hreggviður Hreggviðsson, f. 14.2. 1951. Sonur Maríu og Halldórs Guðlaugssonar, f. 28.8. 1953, er Einar Guðmar, f. 10.6. 1975, eiginkona hans er Halla Kristjánsdóttir, f. 16.4. 1981, dóttir þeirra er Elísabet María, f. 2016. Börn Maríu og Hreggviðs eru: 1) Magnús, f. 15.8. 1982, unnusta hans er Fía Ólafsdóttir, f. 25.2. 1989. 2) Guðrún Jóna, f. 21.3.1984, eiginmaður hennar er Sigurður Hjalti Magnússon, f. 30.4. 1983, þeirra börn eru: Signý Ylfa, f. 2001, Hreggviður Magnús, f. 2008, og Starkaður Enok, f. 2010. 3) Sesselja Hreggviðsdóttir, f. 23.8. 1992.
Guðrún ólst upp á Grundum í Kollsvík á næsta bæ við Einar. Hún reri til fiskjar með föður sínum ung að árum og vann öll almenn sveitastörf og aðstoðaði við uppeldi systkina sinna. Þegar heimili foreldra hennar leystist upp í kjölfar veikinda föður hennar, þá bjó Kristrún hjá henni og Einari. Fyrstu sambúðarárin voru þau Einar í Kollsvíkinni, en fluttust síðan í Örlygshöfn og byggðu sér lítið hús á Gjögrum, en þar var Einar kaupfélagsstjóri, við Sláturfélagið Örlyg. Árið 1950 fluttu þau úr sveitinni sinni til Súðavíkur. Eftir það bjuggu þau í Flatey, á Ásum í Saurbæ, Vegamótum á Snæfellsnesi, Hellissandi, Selfossi og Laugarvatni, þar sem hann vann við kaupfélögin, sem útibús- eða kaupfélagsstjóri. Þau fluttu í Borgarnes 1967. Guðrún starfaði einnig í verslunum kaupfélaganna og sá um veitingarekstur á Vegamótum. Í Borgarnesi vann hún í verslunum Kaupfélags Borgfirðinga til sjötugs. Þau voru bæði mikið samvinnufólk. Þau Einar unnu mikið við byggingu á húsi sínu, sem þau reistu á Böðvarsgötu 17, er þau fluttu í Borgarnes. Einnig gerðu þau upp lítinn sumarbústað. Síðustu fimm árin bjó hún í Brákarhlíð.
Útför Guðrúnar fór fram frá Borgarneskirkju 22. febrúar 2019.
Það hefur eflaust mótað ömmu mikið að alast upp í 10 systkina hóp og að verða fljótt elst systkina sinna, þar sem tvær eldri systur hennar dóu ungar að aldri. Frá unga aldri þurfti amma því að sinna yngri systkinum sínum og hjálpa til við heimilisstörfin. Samkvæmt ömmu fylgdu þau henni nánast hvert fótspor, svo hún átti oft erfitt um vik að bregða sér af bæ. En amma var mikill prakkari og hafði alltaf ráð undir rifi hverju. Stundum bjó hún því til ansi skrautlegar sögur til að komast hjá því að hafa systkinin alltaf í eftirdragi. Rakel systir ömmu, sem var fimm árum yngri en hún og sóttist sérstaklega eftir félagsskap hennar, fékk oftast að heyra þær.
Til dæmis voru amma og fjögur yngstu systkini hennar einu sinni ein heima á bænum. Þau höfðu verið úti í móa að skoða brekkusnigla, þegar nokkrar beljur komu allt í einu askvaðandi inn á tún. Amma þurfti því að reka þær af túninu hið snarasta, en var smeyk um að krakkaormarnir yrðu henni til trafala. Þá fann hún upp á því að segja þeim að þau yrðu að sitja kyrr þar sem þau voru, því það væri naut uppi á Blakknesinu (sem var þarna rétt hjá), sem gæti rekið hornin út úr sér eins og sniglarnir. Ef þau væru ekki stillt myndi hún gefa frá sér hljóð sem fengi nautið til að kippa þeim upp á hornin. Þau sátu svo auðvitað kyrr á sama steininum allan tímann.
Prakkaraskapurinn og uppátækjasemin fylgdu ömmu alla tíð. Í hinum ýmsu kaupfélögum, sem hún vann í um landið í áratugi, hélt hún uppi góðri stemningu með smávægilegum og góðlátlegum hrekkjum. Við amma brölluðum líka ýmislegt saman og höfum ófá prakkarastrikin að baki.
Verslunarstarfið átti vel við ömmu sem var ákveðin í því frá unga aldri að verða búðarkona. Hún var sölumaður fram í fingurgóma og eitt af því skemmtilegasta sem hún gerði í seinni tíð var að selja eigið handverk á föstudögum á sumrin í anddyri Samkaupa og síðar Nettó (sem komust nokkuð nálægt því að geta kallast kaupfélög).
Ömmu fannst líka alltaf mjög gaman í búðum, sérstaklega kaupfélögum og galleríum með handverkum. Hvert sem hún ferðaðist var henni ávallt efst í huga að komast í kaupfélögin og galleríin á hverjum stað. Heima í Borgarnesi fór hún yfirleitt í kaupfélagið á hverjum degi. Þegar ég var yngri og oft í pössun hjá ömmu fórum við iðullega í labbitúr út í kaupfélag. Þá keypti amma alltaf eitthvað gotterí sem við borðuðum á heimleiðinni þegar við settumst á bekk í Buskanum eða upp á hæð til að hvíla okkur og fá okkur nesti.
Amma átti langa og góða ævi. Að lifa í nærri 96 ár við góða heilsu lengst af er meira en flestum er gefið og ekki hægt að biðja um mikið meira. Ég er sannarlega heppin að hafa fengið að hafa ömmu svona lengi hjá mér og það voru virkileg forréttindi að fá að alast upp með henni í sama húsi. Það var alltaf gott að geta skroppið niður til ömmu þegar maður vildi og þurfti, sem var iðullega oft á dag. Þar áttum við ófáar gæðastundir saman við handavinnu, spjall, sögustundir og gripum oft í spil og þá sérstaklega þjóf. En einu skiptin sem amma fékk útrás fyrir að stela voru í því spili. Annars lagði amma mikið upp úr því að standa þjófa að verki í búðunum sem hún vann í í gegnum tíðina.
Niðri hjá ömmu stóðu dyrnar alltaf opnar, til að mynda okkur systkinunum og okkar vinum og einnig köttunum okkar og nágrannaketti sem sóttu mikið til ömmu þar sem þeir voru, líkt og aðrir sem heimsóttu hana, ofdekraðir í mat og öllu atlæti. Enda amma mikill dýravinur og þótti afar vænt um okkar ketti, þó hún væri sjálf mest gefin fyrir fugla. Smáfuglarnir fengu því alltaf nóg æti fyrir neðan eða jafnvel innan í eldhúsgluggann hjá ömmu. Hún hjúkraði líka oft og náði stundum að bjarga fuglum sem kettirnir komu með særða.
Hjálpsemi og dugnaður eru eiginleikar sem einkenndu ömmu hvað mest, auk stundvísi. En hún sagði manni stundum söguna af því þegar hún mætti í eitt skipti aðeins of seint til vinnu. Þá leið henni mjög illa og þeirri stundu gleymdi hún aldrei. Amma var líka mjög hreinskilin. Hún sagði bókstaflega það sem henni fannst. Málshátturinn oft má satt kyrrt liggja hafði lítið vægi fyrir henni. Henni fannst allir eiga rétt á því að heyra sannleikann, hvernig svo sem hann kunni að koma við þá sem hann heyrðu.
Amma var líka mjög forvitin eða fróðleiksfús eins og hún kaus að kalla það. Hún var án efa forvitnasta manneskja sem ég hef kynnst. Flestir lesa jólakortin sín á aðfangadag eða um jólin. Það gerði amma að vísu líka, en það var þá ekki í fyrsta skipti sem hún las þau. Hún gat aldrei stillt sig um að opna og skoða jólakortin sín um leið og hún fékk þau, þar sem forvitnin hafði ansi sterk tök á henni.
Amma var mjög flink á hinum ýmsu sviðum. Hún þurfti alltaf að vera að gera eitthvað í höndunum og sat aldrei aðgerðalaus. Handverk hennar sem var mjög fjölbreytilegt gæti eflaust fyllt heilan íþróttasal. Hugmyndaauðgi hennar í handverki voru fá takmörk sett, en sjálf sagði hún að hún væri bölvað fiktrassgat. Hún var mjög vandvirk og fljót við verkin, eins og til dæmis að prjóna. Hún gat verið búin að prjóna heilan vettling, þó að maður liti ekki nema örskotsstund af henni.
Einnig verð ég að nefna að amma var mikil bindindismanneskja. Hún bragðaði aldrei á ævinni áfengi utan eins messuvínssopa í fermingunni sinni, sem hún reyndi að geyma í munninum út messuna, en neyddist þó til að kyngja fyrir messulok. Að sama skapi reykti hún aðeins eina og hálfa sígarettu á ævinni. Það gerði hún því hún hafði heyrt að það læknaði tannpínu að reykja. Eftir að hafa reykt þessa einu og hálfu sígarettu varð hún þó enn ákveðnari en áður í að reykja ekki, þar sem hún sagðist hafa komist að því hvað þetta væri mikið eitur.
Amma var ákveðin og stóð fast á sínum skoðunum - vestfirska þrjóskan gat stundum gengið býsna langt. Fyrst og fremst var amma þó góð, hjálpsöm og glettin. Hún var alltaf létt í lundu og vestfirska glottið loddi alltaf við hana, hvar sem hún bjó á landinu.
Nú er amma farin yfir í sumarlandið. Ég er nokkuð viss um að hún hafi fyrst af öllu farið til Einars afa sem hún missti alltof snemma eða fyrir 40 árum og til Rakelar systur sinnar sem dó fyrir þremur árum og var henni afar náin og kær.
Elsku amma, takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, fyrir allt sem við brölluðum saman og fyrir allt sem þú hefur kennt mér og ég mun halda áfram að reyna að tileinka mér betur. Efst í huga mér er mikill söknuður, enn meira þakklæti og heill hellingur af góðum minningum sem munu aldrei fara neitt.
Þín ömmustelpa,
Sesselja Hreggviðsdóttir.