Arnþór Kristján Jóhannes Jónsson var fæddur í Möðrudal, N-Múl., 21. febrúar 1933. Hann lést á dvalarheimilinu Ísafold í Garðabæ 15. febrúar 2019.
Foreldrar hans voru Jóhanna Arnfríður Jónsdóttir frá Möðrudal á Hólsfjöllum, f. 16. janúar 1907, d. 6. maí 1986, og Jón Eyjólfur Jóhannesson frá Fagradal á Fjöllum, f. 9 apríl 1906, d. 5. október 1981.
Arnþór var annar elstur af átta systkinum: 1) Gunnlaugur Aðalsteinn, látinn. Maki Sigríður Jóna Clausen. 2) Þórlaug Aðalbjörg, látin. Maki Sigbjörn Sigurðsson 3) Gunnþórunn Anna. Maki Helgi Eiríkur Magnússon, látinn. 4) Viggó Arnar, látinn. Maki Herdís Eiríksdóttir. 5) Valgerður Steinunn. Maki Jón Sæmundsson. 6) Halldóra Jóna. Maki Jóhann Marion Magnússon Snæland, látinn. 7) Kristín Dúlla. Maki Ólafur Rúnar Þorvarðarson.
Sambýliskona Adda til margra ára var Guðbjörg Ásgeirsdóttir, alltaf kölluð Stella. Þau héldu góðum vinskap eftir að þau slitu sambúð. Stella lést árið 2012.
Arnþór var tónlistarmaður mikill og var lengi með eigin hljómsveit, Tónatríóið, og spilaði um land allt og einnig með öðrum hljómsveitum. Addi var einnig með í leikritum og kvikmyndum.
Sem ungur maður vann Addi hjá Geir í Eskihlíð. Hann starfaði einnig lengi á þungavinnuvélum og við vörubílaakstur hjá Véltækni og fleiri fyrirtækjum.
Addi flutti til Hafnar í Hornafirði og bjó hjá Jóhanni og Halldóru systir sinni, eftir að hafa lent í alvarlegu slysi árið 1976. Síðar flutti hann með þeim suður þar sem hann fyrst bjó í Kópavogi og síðan í Garðabæ.
Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 22. febrúar 2019, klukkan 15.
Möðrudalur á Fjöllum er hæsta byggða ból á Íslandi og Jón bóndi jafnan hátt uppi og hress. Stundum nefndur Konungur Öræfanna, maður sem reisti kirkju til minningar um konu sína, málaði þar fræga altaristöflu og söng iðulega við eigin organleik fyrir gesti og gangandi, meðal annars stemmuna
Sjö sinnum það sagt er mér sem hækkaði í tóntegundum jafnt og þétt, allt að endimörkum mannsraddarinnar.
Addi ólst upp við fótskör afa síns að Möðrudal og gerðist snemma söngelskur, lærði á orgel, harmónikku, gítar og saxófón. Stofnaði hljómsveitir og hóf að skemmta um land allt. Meðal þeirra sem léku með Adda í þá daga voru bræðurnir Halli og Laddi og þekktustu sveitirnar hétu Tríó Arnþórs Jónssonar og Jónsbörn. Frægastur varð Addi á sjöunda áratugnum er hann kom nakinn fram í Glaumbæ við Reykjavíkurtjörn í uppfærslu leikstjórans Brynju Benediktsdóttur á Hárinu.
Þá vakti Addi athygli á sínum tíma fyrir hagsýni er hann veitti uppsagnarbréf trymbli sínum og kynnti til sögunnar fyrsta trommuheila Íslands. Sá lifir víst enn góðu lífi.
Fyrsti rokkarinn sem undirritaður barði augum var títtnefndur Addi, jafnan nefndur Addi Rokk.
Á uppvaxtarárunum í Eskihlíð 10 vorum við krakkarnir svo lánsamir að meðal íbúa blokkarinnar var hinn ástsæli útvarpsmaður og umboðsmaður skemmtikrafta, Pétur Pétursson, sem bauð okkur iðulega upp á gleðistundir með skemmtikröftum sínum. Seint mun okkur gleymast er boðuð var koma Adda, sem birtist loks á Scania Vabis vörubíl sem hann parkeraði á lóðinni heima, stökk niður úr - beint í drullupoll, hljóp í hús skítugur upp fyrir haus, með rauðan rafmagnsgítar í hendi og brast von bráðar í söng. Þarna í hjólageymslunni upplifðum við barnaskólabörnin fyrsta sinni hvernig alvöru rokkstjarna hagar sér: Hristir sig og skekur, hendir sér á hnén í gítarsólói og stekkur síðan hæð sína í herklæðum öllum.
Svo kappsamur var Addi, að þó lasinn gerðist, lét hann aldrei bilbug á sér finna. Á fjölmennu sveitaballi í sixtís þar sem hann var mjög skekinn af skæðri magakveisu var hann staðráðinn í að gefa hvergi eftir í sviðsframkomunni. Addi var á hnjánum í miðju gítarsólói í Elvis laginu Blue suade shoes þegar ljóst mátti vera að kvöldmaturinn vildi upp - og út. Í stað þess að hætta leik þá hæst stóð, biðjast forláts og hverfa af sviðinu, lét Addi skötuna bara gossa fremst á sviðið, vinstra megin, svo nokkrir ballgesta fóru ekki varhluta af. Af gufum þeim er upp stigu sem og sjónarspilinu öllu hnigu þegar í ómegin tvær hispursmeyjar frá Dalvík auk næmgeðja starfsmanns herrafataverslunarinnar JMJ á Akureyri. The show must go on voru að sönnu einkunnarorð skemmtikraftsins.
Um árabil ferðaðist Addi með Stuðmönnum, kom fram sem sérstök gestastjarna og vakti hvarvetna verðskuldaða athygli fyrir bæði söng, þrek og limaburð. Á frægri Atlavíkurhátíð lágu leiðir hans og Ringo Starr saman með ýmsum hætti. Addi afhenti honum vandað og vel með farið eintak af tímaritinu Hár og fegurð og vatt sér síðan í sviðsklæði kvöldsins sem vöktu að sönnu áhuga breska trymbilsins: Þau samanstóðu af gulleitu pungbindi, svörtum Frímúrarasokkum og gljáandi lakkskóm. Rétt áður en Addi vatt sér inn á sviðið spurði hann stjörnuna leiftursnöggt: Hvernig er hárið á mér?!!
Hófst þá skemmtiatriðið: Á sviðinu lagðist hann láréttur með hnakkann á tiltækum eldhúskolli og hæla á jafnháum eldhúskolli, spennti vöðvana og hrópaði: Tómas! Stattu á maganum á mér! Og skömmu síðar: Þórður! Stattu á bringunni á mér! Opinmynntir gestirnir furðuðu sig að vonum á þeirri ótrúlegu sjón er við blasti: Að sjá þarna um miðja nótt, harðfullorðinn mann í pungbindi með smjörgreiðslu, nánast í lausu lofti milli tveggja eldhúskolla, liggja sallarólegan með tvo fullveðja Stuðmenn standandi ofan á sér, báða vopnaða þungum rafgígjum - samanlagt á þriðja hundrað kílóa að þyngd! Addi blés ekki úr nös.
Hann kom, ásamt Bjarna Böðvarssyni jafnaldra sínum, reglulega fram sem dansari með Stuðmönnum árum saman, um víða veröld. Vöktu þeir sérstaka athygli í Þýskalandi þar sem þeir voru kynntir til leiks sem Addi & Baddi: Elstu og virtustu break-dansarar Norð-vestur Evrópu.
Það setti síðar tímabundið strik í reikninginn er 3 tonna bjarg féll á fót Adda svo af var hællinn. Þrátt fyrir viðvaranir lækna lét Addi það ekki trufla sig, heldur gekk á vit skósmiðs sem hannaði innlegg í hægri dansskóinn og Addi var mættur til leiks eldkeikur og hress 3 vikum eftir slysið - dansandi sem aldrei fyrr.
Addi átti að því er virtist allgott til kvenna þó aldrei gengi hann í hjónaband. Barngóður var hann með eindæmum og löðuðust að honum bæði börn og dýr svo eftir var tekið.
Eina fyrirmynd átti hann til hinsta dags en það var Elvis Presley sem hann taldi vera af Ínúítakyni eins og hann sjálfur. Hann kunni söngbók Elvis utan að, auk þess að sérhæfa sig í djúprödduðum rússneskum söngstíl í lögum á borð við Bjórkjallarann.
Þó tónlistargyðjan væri lengst af förunautur Adda var leiklistin honum einnig í blóð borin og lék hann eftirminnilega í mörgum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og leikritum.
Í gær, hinn 21.febrúar, hefði Arnþór Jónsson - Addi Rokk - orðið 86 ára. Í dag, 22. febrúar, verður hann til grafar borinn - á hefðbundnum hátíðardegi fjölskyldunnar, afmælisdegi afa Jóns frá Möðrudal.
Megi minningin um Adda Rokk dvelja ljóslifandi með okkur og komandi kynslóðum ekki síður, því þessi góði drengur frá hæsta býli Íslands var sannarlega engum líkur - nema sjálfum sér.
Jakob Frímann