Sigrún Magna Jóhannsdóttir (Día) fæddist á Eiríksstöðum á Jökuldal 22. júní 1946. Hún lést á Sjúkrahúsinu í Neskaupstað 18. febrúar 2019.

Foreldrar hennar voru Jóhann Björnsson, bóndi á Eiríksstöðum, f. 28. desember 1921, d. 3. september 2000, og kona hans Karen Petra Jónsdóttir Snædal, f. 26. ágúst 1919, d. 14. júní 2005. Systur Sigrúnar eru Birna Stefanía, f. 21. ágúst 1944, maki Ragnar I. Sigvaldason, f. 1926, og Nanna Snædís, f. 18. ágúst 1948, maki Guttormur Metúsalemsson, f. 1947.

Eiginmaður Sigrúnar er Björgvin Vigfús Geirsson frá Sleðbrjót í Jökulsárhlíð, f. 18.3. 1945, þau giftu sig 29. júlí 1967. Foreldrar hans voru Guðmóður Geir Stefánsson, f. 1915, d. 2004, og Elsa Ágústa Björgvinsdóttir, f. 1920, 1977. Börn Sigrúnar og Björgvins eru: 1) Bragi Steinar, f. 11. nóvember 1967, sambýliskona hans er Sonja Valeska Krebs, f. 9. september 1977, börn þeirra Jódís Eva, f. 2007, og Ragnar Jökull, f. 2010. 2) Garðar Smári, f. 29. janúar 1970, sambýliskona hans er Hrafnhildur Helgadóttir, f. 19. október 1968, sonur þeirra er Björgvin Geir, f. 2002, dætur Garðars og Þórdísar Þorbergsdóttur eru Berglaug Petra, f. 1995, og Þorbjörg Jóna, f. 1997, börn Hrafnhildar frá fyrra sambandi eru Helgi Már Jónsson, f. 1989, og Alexía Jónsdóttir, f. 1994. 3) Elsa Guðný, f. 25. janúar 1984, eiginmaður hennar er Kjartan Róbertsson, f. 17. júlí 1979, börn þeirra Jóhann Smári, f. 2010, og Sigrún Heiða, f. 2013, dóttir Kjartans úr fyrra sambandi er Linda Elín, f. 1998.

Sigrún ólst upp á Eiríksstöðum og bjó þar lengst af. Hún var í barnaskólanum á Skjöldólfsstöðum og stundaði svo nám við Hússtjórnarskóla Suðurlands á Laugarvatni veturinn 1963-1964. Ung fór hún á vertíð í Grindavík og í síldarsöltun á Seyðisfirði. Björgvin og Sigrún hófu búskap sinn á Sleðbrjót en fluttu í Eiríksstaði 1975 og stunduðu þar sauðfjárbúskap. Meðfram bústörfum starfaði Sigrún m.a. sem ráðskona í vegagerð og í sláturhúsum KHB á Fossvöllum og Verslunarfélags Austurlands í Fellabæ. Þá rak Sigrún sumarhótel undir nafninu Dalakaffi í Skjöldólfsstaðaskóla í nokkur sumur ásamt Kolbrúnu Sigurðardóttur. Björgvin og Sigrún fluttu aðsetur sitt í Egilsstaði í lok 10. áratugarins er Bragi sonur þeirra tók við búinu en voru áfram mikið viðloðandi búskapinn. Á Egilsstöðum starfaði Sigrún á nokkrum stöðum en lengst í mjólkursamlagi KHB, mötuneyti Menntaskólans á Egilsstöðum, leikskólanum Tjarnarlandi og á sambýli aldraðra. Sigrún var um árabil í kvenfélaginu Öskju á Jökuldal og síðustu ár starfaði hún sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands.

Útför Sigrúnar fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 2. mars 2019, og hefst hún klukkan 11.

Það er óraunverulegt að setja á blað minningarorð um móðursystur mína
Sigrúnu Mögnu eða Díu eins og hún var ætíð kölluð sem hefur kvatt sína
jarðvist.

Mörg minningarbrot hafa komið upp í hugann nú á síðustu dögum eftir fráfall hennar, enda var Día mikill persónuleiki, hjartahrein, góðhjörtuð og vinamörg. Án þess að geta útskýrt það á ákveðinn hátt þá stóð hún mér mjög nærri enda frá fyrstu tíð sýnt mér einstaka ljúfmennsku, gjafmildi og velvilja á allan hátt. Día ólst upp á rótgrónu sveitaheimili og kirkjustað þar sem gestrisni og rausn við alla þá sem áttu leið um þótti sjálfsagður hlutur og ekki talið eftir sér að veita greiða, þvert á móti tekið á móti öllum með gleði og gæsku. Heimilisfólk gekk úr rúmum ef bærinn fylltist af gestum ekkert þótti annað sjálfsagðra. Þetta tók Día með sér úr uppeldinu út í lífið sem eðlilegan hlut og hugsun hennar ætíð að hugsa fyrst um aðra.
Ég held að lífsgildi hennar hafi komið frá innstu hjartarótum að sælla er að gefa en þiggja. Það var oft mjög gestkvæmt hjá þeim hjónum enda þau bæði gestrisin og rausnarleg. Hún töfraði fram kræsingar úr búri og eldhúsi og fór enginn svangur frá þeirra borðum. Allt til hinsta dags var hugsun hennar að veita og þjóna, er skemmst frá því að segja að ekki löngu fyrir andlát hennar, hún þá mikið veik á spítala, átti ég leið heim til hennar þar sem synir hennar voru. Hún fréttir af mér þar hjá frændum mínum, síminn
hringir með skilaboðum frá henni að jólakökur og annað bakkelsi væru á
tilteknum stað sem ætti að bera á borð fyrir mig. Skemmtilegur húmor
og léttleiki hennar urðu oft að hinni bestu skemmtun hvort sem var í vinnu eða heima fyrir. Frænka mín hafði góðan frásagnarhæfileika, kunni ótal vísur, gat endursagt og kryddað svo mikil skemmtun var af en án þess að meiða eða særa. Día hlífði sér aldrei við vinnu eða kvartaði undan þreytu þó ástæða væri til. Hún var víkingur til vinnu hvort sem var innan dyra eða utan. Sterk líkamlega og eitt af þeim minningarbrotum sem hafa komið upp í hugann var að sjá hana í baggahirðingu, kasta blýþungum heyböggum í efstu hæð án þess að víla það fyrir sér, berhandleggjuð með tilheyrandi rispum sem þurrt heyið gerði oft á óvarða leggi, nei aldrei kvartað bara brosað. Í huga mínum gat hún sigrast á öllu enda var hún eins og klettur sem þoldi allt og vílaði ekkert fyrir sér. Díu var margt til lista lagt og gat í raun gert hvað sem var og í raun var hún listamaður, þótt hún hafi ekki talið sig slíkan. Minnugur sem barn fylgdist ég með hvernig sauma- og prjónavélar léku í höndum hennar eins og undratæki. Ljósmyndun var eitt af hennar áhugamálum og hafði hún gott auga fyrir þeirri list. Þá má ekki gleyma hennar fallegu rithönd sem var stílhrein og fögur. Fyrir rúmum tveimur árum kvaddi dyra hjá frænku minni gestur, að þessu sinni ekki velkominn þrátt fyrir alla hennar gestrisni. Öllum sem til þekktu var ljóst að langt í frá væri sjálfgefið að kveða þann óvelkomna burt enda búinn að hreiðra um sig. En með eigin viljastyrk, bæn og trú nákominna tókst á undraverðan hátt að flæma hinn óboðna í burtu með aðstoð læknavísinda. Það var aðdáunarvert að sjá frænku mína takast á við þetta mótlæti á opinskáan og jákvæðan hátt. Með sinn einstaka húmor og lífsvilja sigldi hún í gegnum þennan dimma öldudal. Góður tími kom og heilsan virtist í lagi, frænka sjálfri sér lík, ósérhlífin og vann sín verk að venju. Undirbúningur síðustu jólahátíðar var eins og hennar var einni lagið,
kökur tilbúnar, komnar á borð fyrir heimamenn og gesti eins og ætíð var
hjá henni á aðventunni, hátíð ljóss og friðar á næsta leyti. En nú var aftur
kvatt dyra hjá frænku minni og ljóst að ekki var allt með felldu. Líkt og
áður ætlaði hún að komast í gegnum þessa raun enn með sinn húmor og
jákvæðni. En nú hafði þessi sterka og mikla kona, sem maður hélt að
alltaf yrði á meðal okkar, ekki betur í glímunni við óboðna gestinn. Sorg og harmur okkar sem að Díu frænku stóðu er mikill en þó er hugur minn
og minna hjá kærri fjölskyldu hennar, Björgvini, Braga, Garðari, Elsu,
tengdabörnum og síðast en ekki síst barnabörnum hennar sem sjá á eftir
ástríkri og umhyggjusamri ömmu.
Guð blessi ykkur og styrki í sorginni og jafnframt ylji ykkur með öllum
góðu minningunum um ástríka fjölskyldumóður. Elsku Día mín, ég mun
alltaf muna okkar síðasta samtal sem við áttum saman á Sjúkrahúsinu
á Akureyri, þú sárþjáð en jákvæð og bjartsýn á framhaldið. Innst inni
vildi ég ekki trúa öðru en við ættum eftir að eiga fleiri stundir saman hér í okkar jarðvist þó svo að ég gerði mér grein fyrir að brugðið gæti til beggja vona. Þó ég telji mig ekki berdreyminn ætla ég að leyfa mér að líta svo á að draumur minn tveimur nóttum fyrir andlát þitt hafi verið kveðjustund. Í draumi þeim birtist þú mér ásamt kærri látinni frænku okkar þar sem þið voruð sælar og glaðar sameinaðar á ný lausar við líkamlegar þrautir og sjálfum ykkur líkar eins og ég minnist ykkar.
Hafðu þakkir fyrir öll þín gæði og góðmennsku í minn garð. Guð blessi
og heiðri minningu Sigrúnar Mögnu frænku minnar.

Sigvaldi H. Ragnarsson