Elín Elísabet Sæmundsdóttir fæddist á Ísafirði 16. júní 1930. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 16. febrúar 2019.Foreldrar hennar voru hjónin Sæmundur Ingimundur Guðmundsson og Ríkey Þorgerður Eiríksdóttir. Systkini hennar voru Engilgerður, Ingimundur Vilhelm, Steinþór, Kristín, Ester Kristjana, Hafsteinn, Guðríður og Dóra. Þau eru öll látin.

Eiginmaður hennar var Sigurjón K. Nielsen, f. 6. júlí 1928, d. 1. júní 2015. Börn þeirra eru: 1) Gísli, f. 1949, maki Jóhanna Halldóra Bjarnadóttir f. 1950. 2) Guðmundur Pétur, f. 1951 maki Þóra Björg Ágústsdóttir, f. 1951. 3) Birgir, f. 1953, maki Laufey Sigurðardóttir, f. 1954. 4) Nína Guðrún, f. 1955, d. 2000. 5) Hreinn, f. 1957, d. 1958. 5) Ósk, f. 1959, maki Stefán Örn Magnússon, f. 1958. 6) Sigurjón S. Nielsen, f. 1961, maki Helga Hillersdóttir, f. 1963. 7) Hrönn, f. 1965, d. 1966.

Barnabörnin eru 13 og barnabarnabörnin 27.

Elín fór tveggja ára gömul í fóstur til hjónanna Guðmundar Péturs Valgeirssonar búfræðings og Jensínu Óladóttur ljósmóður í Bæ, Trékyllisvík og ólst þar upp.

Fósturbræður Elínar voru Jón, Pálmi og Hjalti, þeir eru látnir.

Í tvö ár stundaði Elín nám við Húsmæðraskólann í Hveragerði.

Útför Elínar fór fram í kyrrþey 28. febrúar 2019, að ósk hennar.

Ég sit hér og horfi á hendurnar á mér sem hvíla í kjöltu minni og leita að orðum til að setja á blað til minningar um Elínu ömmu mína, þegar að tilfinningarnar eru í flækju þá getur verið erfitt að stoppa nægilega lengi við hverja minningu til að koma henni á blað.

Ég vaknaði við vídeó-símtal frá mömmu í gærmorgun, ég fann hvernig hugur minn og líkami dofnuðu áður en að ég ýtti á hnappinn og svaraði, ég sagði mömmu að ég myndi hringja í hana aftur þegar að ég væri komin á fætur, ég vissi af hverju hún var að hringja, mér lá ekkert á. Ég hellti mér upp á kaffi og í rólegheitunum gerði mig klára til þess að fara út og fá mér kaffi og sígó í minningu um ömmu. Ykkur finnst þessi athöfn kannski ekki viðeigandi en þið skiljið þetta ef að þið þekktuð ömmu. Við Elín systir vorum í pössun hjá ömmu á tímabili á meðan að mamma og pabbi voru í vinnunni, það gerðist ekkert áður en að amma var búin að fá sér kaffi og sígó. Elín systir segir þetta best: Það var alveg sama hvað maður var spenntur að segja ömmu eitthvað þegar að maður kom á morgnanna, amma sagði bara Elín mín, leyfðu ömmu nú að fá sér kaffi og sígó fyrst.


Ég sem sagt sit hér og horfi í gaupnir mínar og ég tek eftir fótleggjum mínum, ætli ég sitji nægilega dömulega fyrir ömmu?
Einn daginn er við sátum uppi í stofu í Vesturberginu sagði amma við mig: Hrönn reyndu nú að sitja svolítið dömulega, ég var unglingur í gallabuxum og mér fannst þessi athugasemd bæði krúttaraleg og fyndin. Amma ég er í gallabuxum en ekki kjól. En amma lét ekki þar við sitja heldur fór að sýna mér hvernig ég ætti að halda fótleggjunum saman og svolítið til hliðar og jafnvel að setja annan fótlegginn fyrir aftan hinn. Ég gerði mitt besta til að vera pínu dömuleg fyrir ömmu eftir það.

Ég horfði oft á Sigurjón afa raka sig og mér fannst þessi athöfn ekkert smá flott, frá því hvernig hann bjó til sápulöðrið með burstanum þar til að hann setti rakspírann á sig með lófunum. Svo einn morgunninn ákvað ég að raka mig... Ég lokaði mig inni á klósetti og rakaði mig, ég var nú ekki alveg jafn tignarleg og afi en ég tók hvert skref fyrir sig. Þegar að ég kom aftur fram sagði amma: Varst þú að raka þig...? Neihhh, ég skildi ekki hvernig hún gat vitað að ég var að raka mig, ætli ég hafi kannski skilið eftir sápu á andlitinu? Ég fór og kíkti í spegil og nei, enginn sápa, en það voru littlar bólur farnar að myndast og andlitið á mér var orðið rautt og upphleypt. Mér var líka farið að svíða. Ég man ekki alveg hvað amma gerði en hún sá að mér var farið að verkja, ég held að hún hafi skolað andlitið á mér upp úr köldu vatni og án þess að saka mig um lygar hafi hún komið því að að húðin á afa væri öðruvísi en mín. Ég var ekkert að segja henni það en mér fannst lyktin af rakspíranum hans afa líka betri á honum en mér.

Amma átti alvöru snyrtiborð, fullt af litlu skúffum með skartgripum og málningardóti, ég gat setið við þetta borð tímunum samann. Ég mátti skoða allt og prufa með því skilyrði að allt færi aftur á sinn stað þegar að ég var búin.
Það voru há ljósbrún leðurstígvél með reimum í skápnum í anddyrinu, þau náðu mér hátt upp í nára og ég elskaði þau, ég get fundið tilfinninguna þegar að ég sat á gólfinu og reimaði stígvélin. Amma leyfði mér einhvern tímann að fara í þeim út í búð og Vá hvað ég var flott! Mér fannst ég bera mig eins og drottning í þeim en er sjálfsagt bara heppin að hafa komist fram og til baka án þess að meiða mig svona þar sem að þau voru sirka 10 númerum of stór.

Þegar að ég eldist fór ég að eyða minni og minni tíma hjá ömmu og afa en þegar að ég var í FB skaust ég oft til ömmu, ég kíkti í moggann og spjallaði við hana á meðan að hún tók til mat handa mér, við fengum okkur kaffi og sígó og svo hljóp ég aftur í skólann. Þessar pásur með ömmu eru það besta við tímann minn í FB.
Ég er búin að vera búsett í Bandaríkjunum stærsta partinn af síðustu 27 árum svo að ég hafði ekki eins mikið samband við ömmu og ég vildi hafa haft, það var ekkert stokkið í kaffi, en við strákarnir mínir fórum alltaf til hennar þegar að við komum til Íslands. Síðustu árin var mjög krúttaralegt hvernig hún horfði á hann Alexander mið strákinn minn, það kom mjúkur svipur á andlitið hennar og augun hennar ljómuðu svo sagði hún: Hann er svo líkur honum afa sínum þegar að hann var ungur. Augun hennar leituðu alltaf aftur til Alexanders þótt að hún væri að ræða við einhvern annan og eitt sinn sagði hún meira að segja Æjj hann er bara svo líkur honum afa sínum svo fallegur að ég á erfitt með að hætta að horfa á hann, hún sagði þetta með afsökunartón í röddu en hún gaf honum Alexander mínum mikið með þessu, hún gaf honum minningu sem að hann talar um, hún horfði á hann með ást og blíðu sem var kannski ætluð öðrum ungum manni en hann mun aldrei gleyma þessum stundum.

Amma var ekkert mýksta amman í heimi og var ekkert að sýna of miklar tilfinningar en hún mýktist með árunum og fór að sýna meiri ást og hlýju. Ég endaði alltaf símtölin okkar á ég elska þig amma mín, heyri fljótt í þér aftur. Amma svaraði ofast eitthvað á leið við: Já Hrönnin mín við gerum það. En svo einn daginn sagði hún: Ég elska þig líka Hrönnin mín. Í smá stund var allt frosið, ég vissi ekki hvað ég átti að segja, fyrir utan það þá var ég með kökk í hálsinum og tárin runnu niðar kinnar mínar, þetta var í fyrsta skipti sem að amma hafði sagt mér að hún elskaði mig. Það kom stundum fyrir þegar að ég hringdi í hana að hún hélt að ég væri Ósk frænka, við amma áttum báðar erfitt með að skilja hvað hin var að tala um og af hverju (héldum örugglega báðar að hin væri nú endalega búin að tapa vitinu) þangað til að amma fór að hlæja: Æjj ég hélt að þú værir Ósk.

Þegar að ég var að athuga hvort að strákarnir mínir væru í lagi eftir að ég sagði þeim frá andláti ömmu sögðu þeir allir: Já hún var tilbúin til að fara, þetta var það sem að hún vildi. Þegar að ég hef kvatt hana síðustu árin þá hef ég verið að kveðja hana því að maður vissi aldrei hvort að þetta væri í síðasta sinn sem að maður fengi að sjá hana. Og það er bara nákvæmlega þannig amma var tilbúin til að fara og við höfðum kvatt hana í hinsta sinn mörgum sinnum.

Amma var 12 ára þegar að hún lofaðist Sigurjóni afa, ég bað hana um að segja strákunum mínum söguna af því þegar að við vorum heima síðast. Andlitið á ömmu varð undur mjúkt og hálf feimnislegt svo sagði hún með lágri mjúkri röddu: Við vorum út á túni og hann afi ykkar sagði Elín mín vilt þú giftast mér þegar að við verðum eldri og ég sagði já. Afi er örugglega búinn að vera að kalla á ömmu lengi rétt eins og að hann var vanur að gera heima ef að þau voru ekki í sama herbergi, ég held að hann hafi alltaf gert þetta ég man allavega eftir þessu frá því að ég var stelpa: Elííín...Eeeelín...Elín mín..! Amma var ekkert að svara honum og hann var heldur ekkert að biðja um svar. Nú dansar amma og syngur í faðmi Sigurjóns síns frjáls við kvöl og sorg.

Hvíldu í friði elsku amma mín og njóttu þess að vera með ástinni þinni og börnunum ykkar sem fóru á undan ykkur.


Ég Hrönn Ólöf Guðmundsdóttir, eiginmaður minn David Wallach og synir okkar Michael Þór, Alexander Már og Christopher Ágúst sendum samúðarkveðjur til allra ættingja og vina hennar Elínar ömmu.

Ég elska þig alltaf.
Þín sonardóttir

Hrönn.