Ísleifur Guðmannsson fæddist 12. desember 1939 í Jórvík í Álftaveri, V-Skaftafellssýslu. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 21. mars 2019.
Foreldrar hans voru Guðmann Ísleifsson bóndi og organisti við Þykkvabæjarklausturskirkju, f. 11.11. 1901, d. 22.2. 1985, og Guðríður Bárðardóttir húsfreyja, f. 30.4. 1902, d. 10.11. 1984.
Ísleifur var næstyngstur sex systkina, en þau eru: Guðbjörg, f. 29.8. 1926, Óskar, f. 24.2. 1929, Ingibjörg, f. 30.7. 1931, Sigríður, f. 18.10. 1932, Ástdís, f. 13.1. 1941, d. 23.1. 2000.
Auk þess tóku foreldrar hans að sér tvö börn systur Guðríðar, þau Sigrúnu Ágústsdóttur og Kristin Ágústsson, en móðir þeirra lést við fæðingu Kristins.
Ísleifur ólst upp í foreldrahúsum að Jórvík I í Álftaveri. Unnusta hans var Björk Ragnarsdóttir frá Höfðabrekku, f. 17.5. 1944, d. 6.7. 1963. Hann kvæntist Sóleyju Ragnarsdóttur, f. 24.5. 1947, þau skildu.
Börn þeirra eru: 1) Trausti, f. 25.6. 1966, kvæntur Hafdísi Rósu Jónasdóttur, f. 8.11. 1968. Þeirra börn eru: Linda María, f. 5.5. 1992, Davíð Þór, f. 15.1. 1996, og Helga Dís, f. 6.10. 2006. 2) Guðmann, f. 27.1. 1970, kvæntur Benný Huldu Benediktsdóttur, f. 25.9. 1972. Synir þeirra eru Ísleifur, f. 31.7. 1996, og Hafsteinn, f. 25.4. 2002. 3) Ásgeir Logi, f. 8.2. 1972, kvæntur Helgu Karlsdóttur, f. 23.4. 1972. Þeirra börn eru: Andri Freyr, f. 11.5. 1995, Magnea Rut, f. 11.3. 1997, Emelía Sara, f. 8.1. 2005, Þorsteinn Mikael, f. 8.4. 2007.
Sambýliskona Ísleifs um árabil í Vík var Áslaug Kjartansdóttir.
Starfsferill hans hófst hjá Landssíma Íslands, síðan starfaði hann hjá Vegagerð ríkisins, m.a. á jarðýtu, uns hans stofnaði fyrirtækið Reynir og Ísleifur ásamt mági sínum, Reyni Ragnarssyni frá Höfðabrekku. Störfuðu þeir saman að ýmsum vegabótum fyrir Vegagerð ríkisins og síðan fyrir Ræktunarsamband Mýrdælinga og Eyfellinga. Eftir að þeirra samstarfi lauk starfaði Ísleifur um árabil á Bifreiðaverkstæði Kaupfélags Skaftfellinga í Vík og öðlaðist réttindi sem bifvélavirki og vann síðar sem bifvélavirki hjá verktakafyrirtækinu Hagvirki. Að lokum starfaði hann hjá Fjölverk ehf., verktakafyrirtæki sem synir hans, Trausti og Guðmann, ráku um árabil.
Hann tók ungur einkaflugmannspróf hjá Flugskólanum Þyt og keypti af þeim flugvélina TF-KAS af gerðinni Piper Cub og átti flugið hug hans allan alla tíð.
Útför Ísleifs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 29. mars 2019, klukkan 15.
Við ræddum í umræddri bílferð hvenær á sinni starfsævi hann hefði fundið sig hvað best og hann svaraði því til að hvergi hefði hann fundið sig betur en á rennibekknum á verkstæðinu í Vík. Þar hefði hann fengið að búa hluti til frá grunni og smíðað allt sem vantaði hverju sinni, allt frá skrúfum og upp í flóknari og stærri hluti en á þeim tíma tók oft mjög langan tíma að panta varahluti. Pabbi sérhæfði sig í sérsmíði fyrir verkstæðið í mörg ár og var frábær í því starfi er mér sagt.
Foreldrar mínir skildu þegar ég var ungur og mamma flutti með okkur bræður til Reykjavíkur svo ég man fyrst eftir pabba þegar hann var í sambúð með Áslaugu í Vík. Við bræður komum í okkar skólafríum austur í Vík til pabba og Áslaugar og þar brölluðum við bræður mikið í öllu frelsinu þar, m.a. við að reisa sandvirki í fjörunni, klifra í klettum í Hrapinu og stíflu- og brúargerð í skurðum.
Pabbi var barn síns tíma og var alltaf frekar lokaður en ég áttaði mig ekki á því þá, hann var bara pabbi og sem slíkur auðvitað hafinn yfir allan vafa varðandi allt. Hans leið til að vera með sonum sínum var því að fara í bíltúra og oft var farið í heimsókn austur í Álftaver til ömmu og afa í Jórvík. Skondin minning er þegar ég og Guðmann bróðir erum að kafna í vindlareyk aftur í bíl hjá pabba (London docs) en við máttum ekki opna glugga þar sem þá kæmi svo mikið ryk inn í bílinn. Hann hætti reyndar að reykja þessa vindla nokkru síðar og reykti aldrei aftur.
Pabbi var einnig flugmaður og átti flugvél, tveggja sæta Piper Cub, sem skapaði einnig hálfgerðan ævintýraljóma um hann. Hann gat tekið einn farþega í einu og flaug stundum með okkur bræður þegar vel viðraði til flugs í Vík okkur til ómældrar ánægju. Þegar ég var unglingur og var að ljúka sumarvist í sveit undir Eyjafjöllunum kom hann og sótti mig á flugvélinni og flaug með mig til Reykjavíkur sem mér þótti hápunktur sumarsins. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á flugvélum og flugi.
Pabbi var, ásamt Reyni Ragnarsyni móðurbróður mínum, brautryðjandi í bókstaflegri merkingu þar sem þeir félagarnir stofnuðu fyrirtækið Reynir og Ísleifur um ýtu sem þeir keyptu og saman ræstu þeir mýrar og ruddu vegi um árabil. Bræður mínir Trausti og Guðmann reka í dag ferðaþjónustufyrirtæki sem fer með ferðamenn upp á Laka einmitt eftir vegi sem pabbi og Reynir bjuggu til í gamla daga og upplýsa þeir sína viðskiptavini um þessa merkilegu staðreynd.
Pabbi hafði alla tíð mjög gaman af allri tækni og nýlegur bílinn minn vakti með honum endalausa undrun og áhuga og öll sú tækni sem þar bar fyrir augu. Hann hafði mjög gaman af því þegar ég útskýrði hina ýmsu þætti í tæknibúnaði bílsins og hvernig þeir virkuðu. Fyrir um ári þá hjálpaði Jólín, nágrannakona hans í Víkurási og hjálparhella, honum að kaupa sér snjallsíma. Ég tók að mér að kenna honum á tækið en ekki tókst honum að læra á símaskrattann. Ég stofnaði þó reikning fyrir pabba á samskiptaforritinu Snapchat og þannig fékk hann nýja innsýn í líf barna og barnabarna úr stólnum sínum heima sem var mikil upplifun fyrir hann. Eftir þetta var það orðið að venju hjá okkur við hverja heimsókn að ná í snjallsímann og sjá það sem fólkið hans hafði fyrir stafni, jafnvel alla leið til Danmerkur til Eyglóar, dótturdóttur Áslaugar, og fjölskyldu hennar sem hann hafði ómælda ánægju af. Eygló og pabbi voru alla tíð mjög náin og er ég mjög þakklátur fyrir allt sem hún gaf honum.
Þrátt fyrir að það væri farið að hægjast mikið á hjá pabba undir það síðasta, bjó hann alla tíð heima hjá sér og var sjálfum sér nægur með flest. Samfélagið í stigaganginum hans í Víkurási 2 er dásamlegt og passaði vel upp á hann og allir voru boðnir og búnir að aðstoða hann þegar hann þurfti á því að halda og þakka ég þeim fyrir það.
Hann vissi þó að bráðum þyrfti hann að færa sig um set yfir á dvalarheimili en vildi helst ekki ræða það og sá tími var aldrei kominn, að hans mati. Ég er ánægður fyrir hans hönd að hann hafi fengið að fara með þessum hætti þar sem hann hélt sínu sjálfstæði og virðingu allt til enda og kvaddi á sínum forsendum á sínu heimili. Margt fleira kemur upp í hugann við að skrifa þessi orð. Pabbi að kenna mér ungum að reima einn sumarmorgun í gamla húsinu í vík, ferðir í flugskýlið í gegnum kríuvarpið með öllum sínum árásagjörnu kríum, gula Ladan(Z 72) með víniltoppnum sem hann lánaði mér sumarið sem ég var 17 ára og margt fleira.
Eftir stendur hlý minning um góðan mann sem gerði alltaf sitt besta eins og hann var fær um hverju sinni.
Hvíl í friði elsku pabbi.
Ásgeir Logi Ísleifsson.