Sigrún Björk Gunnarsdóttir fæddist 1. ágúst 1944. Hún lést 14. mars 2019.
Útför hennar fór fram 28. mars 2019.

14 mars. Fimmtudagur. Dagurinn sem gaf og tók.

Eftir að hafa verið erlendis og fengið þær fregnir að tengdamóðir mín, Sigrún Björk Gunnarsdóttir, væri ekki búin að taka á móti næringu í nokkra daga og væri komin í Lífslokaferli, flýttum við Anna Silfa heimferð okkar með þá veiku von í hjarta um að okkur myndi auðnast að ná tímanlega heim til að kveðja hana. Og fyrir miskunn þess sem allt gefur, en líka tekur, vorum við bænheyrð.

Sigrún sem alla sína ævi var þannig þenkjandi að allir skyldu fá jafnt og ekki gerði upp á milli sinna barna fremur en eðli er allra góðra foreldra brást ekki nú frekar en fyrr hvað þetta varðar. Af ósérhlífni og seiglu beið Sigrún komu Önnu Silfu og ekki fyrr en eftir þá kveðjustund var tengdamóðir mín sátt og reiðubúin að halda af stað í sína hinstu ferð. Reykjavíkurskáldið Tómas Guðmundsson kemst svo að orði:

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Einir fara og aðrir koma í dag,
því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Og til eru ýmsir, sem ferðalag þetta þrá,
en þó eru margir, sem ferðalaginu kvíða.
Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,
en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

Sigrún bar ekki mikinn kvíða fyrir ferðalaginu og kom þar bæði til þessi nærri sér geymda og þögla barnatrú á endurlausnarann, þessi vissa um líf eftir dauðann eins og frelsarinn hennar lofaði: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. (Jóh. 11:25-26).  Og með þessa vissu settist Sigrún við hótelgluggann sinn og beið róleg sinnar ferðar þegar ljóst var hvert stefndi og örlaði jafnvel lítillega á tilhlökkun yfir komandi endurfundum með horfnum ástvinum sem hún hafði fulla vissu um að myndi koma.


Og þessi seigla og ákveðni Sigrúnar að bíða aðeins lengur með sína kveðjustund til að hitta hana Önnu Silfu dóttur sína, var einmitt sama seiglan og ákveðnin sem áratugum áður leiddi til þess að hún ákvað ung að árum að kveðja bernskustöðvarnar við Patreksfjörð og halda suður til náms. Þá þegar hafði hún fengið að kynnast mótlæti, skorti og lært að vera gefandi, þegar Anna móðir hennar varð sjúklingur þess lömunarveikisfaraldurs sem reið yfir sveitir landsins rétt fyrir og um miðja síðustu öld. Þá enn á barnskóm og enn aðeins í fermingaraldurinn þurfti hún að ganga í heimilisverkin og vera birting móður sinnar við þá Einar sem nú er látinn og Kristján, sína yngri bræður, og þessu hlutverki sinnti hún af kostgæfni og alúð og ekki ólíklegt að í þessari reynslu megi finna upphafið að hennar köllun til að hjúkra fólki. Sigrún hóf nám af fullum krafti í upphafi hausts 1964 eftir smá hlé við Hjúkrunarskóla Íslands og það er einmitt á námsárunum sem hún kynnist Þorsteini Pálssyni múrarameistara og þúsundþjalasmiði hér syðra og þau fella hugi saman. Og þá brosti lífið enn og aftur og gaf ríkulega líkt og þegar það gaf henni áður drenginn sinn hann Hjört.
Þorsteinn, faðir Önnu Silfu og Gunnars Reynis, var harðduglegur maður sem með elju og dugnaði náði ungur að árum að byggja fyrst heilt einbýlishús í Vogalandi fyrir sig, sína eiginkonu og börn og svo síðar nýtt hús þegar þau hjónin ákváðu að byggja sér sitt framtíðar heimili í Arkarholti 14 í Mosfellsbæ. Þetta allt gerði Þorsteinn samhliða sinni eigin vinnu og líkt og algengt var þá líkt og nú, tók hann að sér skiptivinnu við aðra iðnaðarmenn enda aðgengi að fjármögnun ólíkt því sem nú. Á þessum tíma vann Sigrún næturvaktir gjarnan meðan hún sinnti hluta úr degi sínum börnum og heimilishaldi og Þorsteinn gætti síðan barna næturlangt meðan hann lét þreytuna líða úr sér. Arkarholtið var keypt með tilbúnum grunni á eignarlóð og á þessum styrka grunni með Grettistaki reis húsið upp sem enn stendur í dag og hún bjó í þegar kom að brottfarardegi.
Þegar örlögin knúðu aftur dyra hjá Sigrúnu með fréttir af sviplegu fráfalli Þorsteins í bílslysi á Vesturlandsveginum árið 1975, þá hann aðeins 32 ára, kom í ljós hversu mörgum var hlýtt til hans. Vinnufélagar og samferðarmenn hans mættu óbeðnir til Sigrúnar og buðu fram sína hjálp og sameinað átak þeirra kláraði frágang á húsinu að utan, enda stóð hugur þeirra til þess að tryggja Sigrúnu og börnum það öryggi sem fylgir góðu heimili, líkt og Þorsteinn hafði sjálfur metnað til. Og það er nú einu sinni svo að það er auðvelt að elska þann sem gefur ríkulega af sjálfum sér og því kom það ekki á óvart að hún segði eitt sinn við dóttur sína, þá sjálf ennþá við sæmilega góða heilsu, að hún vissi að Þorsteinn biði sín og hún myndi skila kveðju Önnu Silfu og Gunnars Reynis til hans þegar þar að kæmi. Og nú hafa þau náð aftur saman, góðum kveðjum verið skilað og Sigrún blessunin búin að sannreyna inntak hins góða Davíðssálms: Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vörnum þar sem ég má næðist njóta.
Sigrún var líkt og margir af sinni samtíðar kynslóð alin upp með þeim hætti að snemma skyldi hver og einn vera sinn eigin gæfusmiður, snemma skyldi hver og einn ganga einbeittur til starfa, harka skyldi af sér mótlætið og sparlega skyldi farið með muni sem og fé, virða skyldi maður sér eldra fólk og að festa og skorður þyrfti að vera í daglegu lífi. Þetta þekkir mín kynslóð sem þurfti að miklu leyti að sjá um sig sjálf og var hér áður fyrr oft vísað til sem Lyklabarna enda vegna mikillar vinnu foreldra þurftu börn oftar en ekki að sjá um sig sjálf að mestu daglega. Og þetta lífsins streð eðlilega skóp ákveðna fjarlægð milli barna og foreldra og því var það algengt að yngri systkinin nytu meiri samveru og afskipta en hin eldri við foreldra sína á uppvaxtarárum sínum.
Sigrún eins og ég kynntist henni var ekki kona sem fór mikið fyrir. Hún var hæglát og tilbaka, blíð, dulin, en átti þetta litla blíða feimna bros og tindrandi augu þegar eitthvað gladdi hana. Hún var við fyrstu kynni þá þegar orðin lituð aðeins af þeim sjúkdómi sem síðar krafðist hennar og fékk. Hún tók mér pínulítið hikandi þegar ég bankaði í fyrsta sinni upp á hjá henni forðum daga en ég fann fljótt að frá henni myndi ég ævinlega fá hlýju enda gladdi það hana að sjá dóttur sína hamingjusama og á góðum stað í sínu lífi. Sigrún naut þess að eiga samveru með börnum sínum og æði margar ferðir sem Anna Silfa tók hana með sér eftir að hún fór að veikjast á kaffihús og í verslanir voru gefandi og gleðilegar fyrir þær báðar líkt og þær mörgu stundir alla tíð sem hún sat og naut þess að láta dóttur sína klippa sig og laga.
Þótt við Sigrún gengum saman stutta stund og áttum aldrei þess kost að kynnast mikið líkt og verið hefði, hefði hún átt óskerta heilsu, þá eigum við tvö þó tvennt sameiginlegt. Og þetta tvennt skiptir mestu og lifir áfram. Ást okkar og stolt á Önnu Silfu dóttur hennar og fallegu dætrunum hennar tveimur, Ásrúnu Telmu og Iðunni Silfu. Í þeim lifir áfram minningin um góða konu og ljúfa sál.
Ég færi ástvinum Sigrúnar, systkinunum Signýju, Óðni og Önnu Margréti og stórfjölskyldunni allri óskir og bæn um styrk og innri frið á komandi stundum, nú þegar Sigrún Björk hefur kvatt og haldið til betri heims og bið hana að þiggja að lokum kveðju frá henni Önnu Silfu minni og telpunum tveimur sem sakna ömmu sinnar:

Ég man það sem barn að ég margsinnis lá,
og mændi út í þegjandi geiminn,
og enn get ég verið að spyrja og spá,
hvar sporin mín liggi yfir heiminn.

En hvar sem þau verða mun hugurinn minn,
við hlið þína margsinnis standa,
og vel getur verið í síðasta sinn
ég sofni við faðm þinn í anda.
(Þorsteinn Erlingsson)





Blessi þig ævinlega Sigrún mín og hafðu þakkir fyrir stutt en afskaplega indæl kynni og þá væntumþykju sem ég fékk að njóta frá þér

þinn tengdasonur,

Egill Örn Arnarson Hansen.