Sigurður Magnússon fæddist á Heiðarseli í Hróarstungu 1. júlí 1930. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 6. apríl 2019.Hann var sonur Svanfríðar Björnsdóttur, f. 1894, d. 1965, og Magnúsar Björnssonar, f. 1883, d. 1955. Sigurður átti þrjú systkini: Björn albróður, f. 1923, d. 1991, og hálfsystkinin Guðnýju, f. 1932, og Hauk, f. 1935, d. 2017.
Sigurður hóf sambúð með Ingibjörgu Lárusdóttur frá Skagaströnd, f. 1930, d. 2010, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur Haukur, f. 1951, sambýliskona Ragnheiður Sjöfn Jóhannsdóttir, hann á tvær dætur og eitt barnabarn. 2) Sigurður, f. 1953, sambýliskona Seeka Butprom. 3) Svanfríður, f. 1958, hún á einn son og tvo sonarsyni. 4) Þórdís, f. 1960, hún á þrjú börn, fimm barnabörn og eitt barnabarnabarn.
Seinni kona Sigurðar er Margrét Lilja Arnbergsdóttir, f. 4. maí 1939. Foreldar hennar voru Jóna Stefanía Ágústsdóttir, f. 1915, d. 1986, og Arnbergur Gíslason, f. 1905, d. 1997. Börn þeirra eru 1) Björk, f. 1969, eiginmaður Heimir Guðlaugsson, þau eiga fjögur börn. 2) Sjöfn, f. 1974. 3) Víðir, f. 1983, kvæntur Margréti Dögg Guðgeirsdóttur Hjarðar, þau eiga þrjú börn. Börn Margrétar, fósturbörn Sigurðar, eru 1) Ásgerður Linda Ásbjörnsdóttir, f. 1961, maki Andrés Óskarsson, þau eiga tvö börn. 2) Arnbergur Ásbjörnsson, f. 1963, hann á tvær dætur.
Sigurður ólst upp á Hauksstöðum á Jökuldal. Hann gekk í farskóla á Jökuldal en stundaði síðan nám við Alþýðuskólann á Eiðum. Sigurður stundaði búskap á Jökuldal, fyrst á Hauksstöðum og síðan á Gilsá, en lengst af bjó hann í Bláskógum í Breiðdal þar sem þau Margrét reistu sér hús. Sigurður vann lengst af starfsævinni við akstur, einkum vörubifreiða, m.a. í brúarvinnu og vegagerð. Seinni árin stundaði hann líka skólaakstur í Breiðdal. Sigurður sinnti einnig kennslu barna í nokkra vetur, lengst á Staðarborg í Breiðdal. Sigurður lét félagsmál nokkuð til sín taka, m.a. innan Lionshreyfingarinnar og Þroskahjálpar á Austurlandi. Síðustu árin bjuggu Sigurður og Margrét að Lagarfelli 9b í Fellabæ, en Sigurður dvaldi síðasta eitt og hálft árið á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum.
Sigurður verður jarðsunginn frá Egilsstaðakirkju í dag, 13. apríl 2019, klukkan 14.

Mín fyrstu kynni við Sigurð voru sumarið 2005. Þá var ég á ferðalagi um landið með foreldrum mínum, 15 ára gamall. Ég hafði mikinn áhuga á hestum svo reynt var að stoppa við þær hestaleigur sem urðu á vegi okkar og mér hleypt á bak. Ein slík hestaleiga var í Breiðdal. Eigandi hennar var Sigurður á Bláskógum. Á meðan ég var á hestbaki gaf móðir mín sig á tal við hann. Hún tjáði honum að ég hefði áhuga á að vinna í kringum hesta. Að reiðtúrnum loknum skrifaði mamma ávísun fyrir reiðtúrnum sem Siggi geymdi hjá sér.
í maímánuði ári seinna hringdi heimasíminn og mamma svaraði. Siggi var á línunni. Málalok urðu þau að ég færi austur í Breiðdal og yrði þar allt sumarið. Ég fékk far hjá bróður mínum, aksturinn var ekki nema 8 klukkustundir. Ég var skilinn eftir á tröppunum við nærliggjandi sveitahótel. Hótelstjórinn hringdi í Sigga og lét hann vita að mættur væri hestasveinn og biði eftir honum. Þetta var mjög sólríkur dagur. Áður en ég vissi af rann fagurhvítur gamall Landcruiser í hlað, útúr honum steig þessi ævaforni maður og heilsaði mér með þéttu vinalegu handabandi og bauð mig velkominn. Á leiðinni heim í Bláskóga stöðvaði Siggi jeppann, sagðist þurfa að reka niður einn girðingastaur. Mér fannst sá gamli hreyfa sig full hægt. Ég vissi ekki hvernig þessi gamli maður ætlaði að koma þessum svera staur niður í túnið, sem lá við malarveg. Siggi fór aftur í skott og náði í stóra sleggju og góðan staur, ég í humátt á eftir honum eins og andarungi. Allt þetta gerði Siggi á sínum tíma, allar hreyfingar voru hægar en hárnákvæmar. Siggi mótaði fyrir holunni með járnkarli og stillti síðan upp staurnum og bað mig um að halda við staurinn svo hann hlypi ekki til. Þá runnu á mig tvær grímur, sleggjan var mjög þung og sá sem hana mundaði mjög gamall. Ég gerði hinsvegar eins og mér var sagt og greip um staurinn með báðum höndum og lokaði augunum. Siggi þreif sleggjuna á loft upp fyrir haus og lét svo vaða með öllum þunga niður á staurinn. Hann smellhitti í hvert einasta skipti og staurinn á bólakaf. Mér var óneitanlega mikið létt að hendurnar mínar sluppu í heilu lagi. Það má segja að nokkuð traust hafi myndast á milli okkar eftir þessar æfingar. Þetta traust átti eftir að styrkjast með hverjum deginum sem leið.
Þegar í Bláskóga var komið tók Margrét, eiginkona Sigga, á móti okkur. Húsið var fallegt timburhús á steyptum grunni og mjög gróðursælt í kring. Á þvottasnúrum blakti tandurhreinn þvottur og innan úr húsinu lagði ilmandi bökunarlykt. Margrét faðmaði mig innilega og bauð mig velkominn og sagði mér að ég skyldi koma og fá mér að borða. Ég hlýddi því og át á mig gat. Mér leið umsvifalaust mjög vel hjá þessu góða fólki sem ég hafði bara þekkt í örskamma stund.
Morguninn eftir vakti Siggi mig fyrir klukkan 7. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, enda vanur að sofa til hádegis. Siggi sagði að við þyrftum að sækja hestana út í haga, ég spratt þá strax á fætur. Frammi í eldhúsi hafði Magga lagað morgunmat. Ég held ég hafi ekki borðað mikið þann morguninn enda tæknilega séð ennþá nótt hjá mér, þó að úti væri sólin risin hátt.
Þessu átti ég eftir að venjast. Alltaf var morgunmatur, morgunkaffi, hádegismatur, miðdegiskaffi og svo kvöldmatur. Alltaf tryggt að ég yrði ekki svangur. Heilu dögunum varði ég með Sigga gamla, hvort sem það var í kringum hestana eða hin almennu sveitastörf. Við ræddum allt milli himins og jarðar. Þó Siggi væri rúmlega 60 árum eldri en ég gátum við talað saman eins og jafnaldrar. Siggi var mikill húmoristi og höfðum við svipaðan húmor. Við gátum hlegið saman svo tímunum skipti. Okkur var einnig eðlislegt að eiga innihaldsrík samskipti, hvort sem það voru léttvæg eða erfið málefni.
Afar mínir báðir höfðu látist áður en ég fæddist. Með tímanum leit ég því á Sigga sem bæði náinn trúnaðarvin og afa. Möggu að sjálfsögðu líka en hún var burðarstólpinn í þessu öllu saman.
Tíminn stóð í stað í sveitinni. Tíminn sem fór í að girða af létt beitarhólf sem í tímaþröng hefði tekið korter tók mun lengri tíma með Sigga. Aldrei brugðust hnútar né staurar sem Siggi kom að, vandvirkur, nákvæmur og yfirvegaður. Allt stóð eins og stafur á bók. Þetta var eiginleiki sem ég dáðist að. Enn þann dag í dag eru ummerki eftir handverk okkar Sigga, eitthvað sem átti bara að endast út sumarið stendur enn, rúmum áratug seinna.
Sumar eftir sumar kom ég til Sigga og Möggu í Bláskóga, vann þar í hestaleigunni í þessum fallega dal. Mér þykir erfitt að kalla þetta vinnu því ég naut hverrar mínútu og vildi helst hvergi annars staðar vera. Í minningunni skein alltaf sól í Breiðdal og minningarnar eru endalausar sem ég mun varðveita að eilífu.
Seinna fluttust Siggi og Magga til Egilsstaða í fallegt hús, ekki ósvipað gömlu Bláskógum. Við héldum áfram sterku og góðu sambandi. Ég heimsótti þau til Egilsstaða og Siggi átti stundum erindi til Reykjavíkur auk þess að vorum við í reglulegu símasambandi.
Vinátta okkar Sigga var einstök. Ég minnist hans oft. Stundum vildi ég óska að við hefðum verið nær í aldri og við hefðum kynnst fyrr. Það hefði verið gaman að vera samferða honum lengur. Hann lifir í minningu minni um ókomin ár.
Ég á engin orð til að lýsa þakklæti mínu gagnvart þessum yndislegu hjónum, Sigga og Möggu í Bláskógum. Tíminn sem ég varði hjá ykkur er mér ómetanlega dýrmætur. Fyrir barn í uppvexti var þetta eitt allra mesta gæfuspor. Ég ætla ekki að kveðja þig í hinsta sinn gamli vinur, frekar en venjulega. Við sjáumst brattir einn góðan veðurdag. Ég geymi gamla sixpensarann þinn áfram heima á hillunni.
Hugur minn er allur hjá ástkærri eiginkonu Sigurðar, Margréti Lilju Arnbergsdóttur, og fjölskyldu. Guð gefi ykkur styrk.

Ykkar,

Friðrik Elí Bernhardsson.