Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, þroskaþjálfi og brautryðjandi í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á Íslandi, fæddist 8. nóvember 1955 í Reykjavík. Hún lést á líknardeild Frederikssund-sjúkrahúss í Danmörku 2. apríl 2019.
Foreldrar hennar voru Ingvar Alfreð Georgsson, f. 15. september 1929, d. 29. júlí 1996, og Elísabet Óskarsdóttir, f. 26. febrúar 1934, d. 20. nóvember 2006. Albróðir Sigrúnar Pálínu er Óskar Heimir, f. 29. janúar 1954, hálfbróðir hennar samfeðra er Helgi, f. 15. júní 1950, hálfsystkin hennar sammæðra eru Helga Björg, f. 19. desember 1958, og Indriði, f. 31. mars 1965.
Sigrún Pálína lauk námi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1977 og starfaði við fag sitt fram til 1996 er hún flutti búferlum til Danmerkur þar sem hún starfaði lengst af sem þroska- og markþjálfi og meðferðarráðgjafi.
Fyrri eiginmaður Sigrúnar Pálínu var Sigurður Blöndal, d. 1. mars 2019, og þau eignuðust börnin Elísabetu Ósk, f. 19. júní 1976, hennar börn eru Aron Pétur og Viktor; Bjarka Blöndal, f. 11. janúar 1981, börn hans eru Tómas Valur, Elísabet Pála og Sigurbjörn; og Sólveigu Hrönn, f. 1. mars 1985, börn hennar eru Pálína Dís og Ísak Örn.
Síðari maður Sigrúnar Pálínu er Alfred-Wolfgang Gunnarsson, gullsmíðameistari og steinasetjari, en þau giftu sig 2008 og lifir hann konu sína. Börn Alfreds eru: Árni Reynir, f. 31. júlí 1977, hans börn eru Steinþór Nói og Kolbrá Eva; og Guðrún Lára, f. 5. september 1982, hennar börn eru Ragna Lára og Krumma Liv.
Útför Sigrúnar Pálínu verður frá Vídalínskirkju í dag, 24. apríl 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.
Það er stórskrítið að sitja hér og skrifa minningargrein um þig, stærsta
ástin mín. Það er óraunverulegt og ósanngjarnt, en einhvern veginn er það
það sem við áttum von á, en að sjálfsögðu vonuðum við alltaf að þú myndir
sigrast á þessum sjúkdómi. En það vita allir að það er ekki auðvelt að
sitja hér heima án þín og skrifa þessi síðustu orð til þín, ástin
mín.
Leiðir okkar lágu fyrst saman í Templarahöllinni Reykjavík, þar sem við
dönsuðum vals, polka og hvað þeir nú heita allir þessir gömlu dansar.
Aldrei varð það að við tvö dönsuðum saman þá, þú varst ljóshærð falleg
stelpa, ég var rauðhærður strákur með krullur og freknur, og þorði ekki að
bjóða þér upp í dans. Þú sagðir við mig eftir að við byrjuðum líf okkar
saman, að þú skildir aldrei af hverju ég bauð þér ekki upp í dans, því þú
sást að ég gat alveg dansað.
Árin liðu og leiðir okkar skildi, þú stofnaðir fjölskyldu og eignaðist þrjú
yndisleg börn, ég stofnaði mína fjölskyldu og eignaðist tvö yndisleg börn,
við lentum bæði í skilnaði við maka okkar, og árin liðu. Haustkvöld eitt
1993 í stórri afmælisveislu á stað sem hét Amma Lú sást þú mig síðan í
fjarlægð þegar Milljónamæringarnir byrjuðu að spila vínarvals, og þar sem
þú vissir að ég kunni að dansa, þá tókst þú strikið yfir til mín, og varst
ekkert að bjóða mér upp í dans, sagðir einfaldlega: Nú kemur þú og dansar
vals við mig.
Þegar ég sé hver daman er, var ekki hikað, við fórum út á gólfið og
byrjuðum að snúast, gólfið var yfirfullt af fólki, en þegar fólk tók eftir
að þarna var par sem gat dansað vínarvalsinn eins og átti að gera það, þá
flutti fólkið sig af gólfinu og klappaði í takt við tónlistina og leyfði
okur að eiga gólfið.
Við höfðum aldrei dansað saman áður, en það var eins og við hefðum ekki
gert annað allt okkar líf.
Þarna skildi svo leiðir okkar aftur, en hugsanirnar voru margar, og
föstudag einn í desember hringir þú til mín í verslunina mína og kynnir
þig, og við ræðum aðeins saman um vínarvalsinn á Ömmu Lú, og þú spyrð mig
síðan hvort ég vilji ekki hitta þig yfir kaffibolla á Café Paris, annað
hvort það kvöld eða kvöldið eftir, þú gafst mér í raun ekki möguleika á að
segja nei.
Fyrir mig sem gullsmið þá voru síðasti föstudagur fyrir jól og
laugardagurinn ekki bestu dagarnir til að fara á kaffihús, svo ég valdi
föstudaginn.
Þarna hófst samband okkar, við eigum okkar fyrsta koss rétt fyrir jól 1993,
og þessi 26 ár með þér hafa verið einhver hamingjuríkustu ár ævi
minnar.
Við vorum alltaf sammála um að allt í lífinu hefur sinn tilgang, við ræddum
oft um hvað það hefði verið yndislegt ef við hefðum fundið hvort annað
fyrr, átt okkar líf saman og okkar börn saman, en vissum líka að þá hefðum
við ekki átt þau yndislegu börn og barnabörn sem við eigum nú.
Við vissum líka að þá hefðir þú ekki lent í þeim hremmingum sem þú varðst
fyrir sem ung stúlka af völdum kirkjunnar manns, og misgjörðir hans
gagnvart þé, hefðu sennilega aldrei komið upp á yfirborðið.
Við ræddum um að það var Guðs vilji á einhvern óskiljanlegan hátt að þú,
konan sem aldrei lést neinn vaða yfir þig með óréttlæti eða yfirgangssemi,
skyldir lenda í þessum hremmingum eftir að hafa verið í viðtali hjá
prestinum, sem hafði gift þig og manninn þinn, þegar þið áttuð í
hjónabandserfiðleikum.
Mörgum árum seinna, þegar við byrjum líf okkar saman, 1993, kemur í ljós að
þessi kirkjunnar maður ætlar að bjóða sig fram til æðsta embættis innan
kirkjunnar, embættis biskups yfir Íslandi, og þú segir mér sögu þína,
hverju þú hafir lent í af hálfu þessa manns, og hvort ég muni standa við
hlið þér og styðja þig ef það skyldi opinberast. Ég svaraði þér án þess að
hugsa, að það myndi ég að sjálfsögðu gera, og restina af þeirri sögu þekkir
þjóðin.
Líf okkar saman hefur boðið upp á margar góðar og eftirminnilegar stundir
og einnig erfiða tíma, þar sem við höfum þurft að takast á við veikindi og
erfiðleika. Þú stóðst alltaf sem klettur á bak við þá sem lentu í veikindum
eða erfiðleikum, bæði innan og utan fjölskyldunnar.
Þegar Sólveig dóttir þín varð hjartveik, og var ekki hugað líf fyrstu
dagana, þá gekkst þú í móðurhlutverkið fyrir börnin hennar, og að fylgjast
með þér hvernig þú stóðst sem klettur við hlið hennar og barnanna og hans
Theis í þessum veikindum, þá fór ekki fram hjá neinum sem kom að þessum
veikindum hvaða persónu þú hafðir að geyma. Sama var með Bjarka son þinn er
hann greindist með sykursýki á háu stigi, þar var það sama upp á teningnum,
þú fórnaðir þér fyrir þitt fólk og aðra.
Í gegnum starf þitt hér í Danmörku hjálpaðir þú háum sem lágum við að
takast á við vandamál sín, þú gerðir engan greinarmun á hvaðan fólk kom úr
þjóðfélaginu, þú sagðir mér eitt sinn að til þín hefði komið skjólstæðingur
sem átti í erfiðleikum með líf sitt, þú tókst á móti honum sem hverjum
öðrum dönskum manni, maðurinn kynnir sig og þú kynnir þig, hann spyr þig
síðan svolítið undrandi, hvort þú vitir ekki hver hann sé, þú segist ekki
vita það og hann varð svo glaður að hann gat komið og rætt við persónu án
þess að vera þetta andlit sem allir þekktu, og vissu ekki alveg hvernig
ætti að ræða við hann. Hann hefur síðan sagt hvað þú varst frábær og
yndisleg kona, og hvað þú varst næm á að finna hvar skóinn kreppti og hvað
hann gæti gert betur til að verða sá maður sem hann er í dag.
Það var alveg sama hvert vandamálið eða erfiðleikarnir voru, þú byrjaðir
aldrei að leggjast í neikvæðni eða uppgjöf, þú leist alltaf á hvernig væri
hægt að leysa vandann, og gekkst síðan í að gera það.
Í starfi þínu á Íslandi sem þroskaþjálfi var greinilegt hvílíka manngæsku
þú hafðir til að bera, að sjá hvernig þú umgekkst t.d. fólk sem hafði
Downs-heilkenni, hvernig þú sagðir alltaf hvað það fólk var yndislegt, hvað
það var fullt af ást og sagðu hlutina eins og þeir voru, þar kenndir þú mér
mikið með fáum orðum.
Eitt sinn, 1994 eða 1995, varstu beðin um að taka að þér að breyta
starfsháttum á einu af þeim heimilum þar sem fólk með Downs-heilkenni bjó,
þú notaðir fyrstu dagana til að sjá hvernig starfsfólkið kom fram við
heimilisfólkið, og þar sástu strax hluti sem þér fannst engan veginn fólki
sæmandi. Heimilisfólkið var rekið í sturtu, starfsfólkið klæddist
stígvélum, gúmmíhönskum og gúmmísvuntum, og síðan var heimilisfólkið
skrúbbað og þvegið eins og gripir í gripahúsi. Einhverjir hefðu sennilega
rekið þetta starfsfólk, en þú vissir að það myndi engu breyta, svo þú baðst
starfsfólkið um að klæðast baðfatnaði, og þú fórst og klæddist stígvélum,
gúmmíhönskum og gúmmísvuntu, og spurðir síðan starfsfólkið hvernig því liði
að sjá þig standa svona fyrir framan þau, tilbúin í stórþvott.
Einnig fannst þér undarlegt að heimilisfólkið hafði ekki lykla að
herbergjum sínum, það var læst inni eins og fangar. Þessum hlutum, og
öðrum, fékkst þú breytt, þannig að fólk sem minna mátti sín fékk betri
lífsskilyrði.
Sama var þegar þú greindist með krabbameinið, þá gekkstu staðföst inn í það
að finna út hvaða möguleika aðra þú hafðir fyrir utan lyfjameðferðina til
að verða heilbrigð aftur, og allt virtist ganga vel þar til í vetur að það
fór að ganga verr. Það að upplifa hvernig þú gekkst í gegnum veikindi þín
með æðruleysi, og kenndir okkur öllum sem eftir sitjum, hvernig við eigum
að halda áfram lífi okkar, og lifa því án þín, hefur verið ómetanleg hjálp
í að komast í gegnum þetta. Þú sagðir við mig einn dag þegar við ræddum
framtíðina án þín, að þinn kyndill myndi bara slokkna og að þinni vist hér
væri lokið og að þú þyrftir ekki að hafa meiri áhyggjur, eða meiri verki,
en við þyrftum að lifa áfram og læra að lifa við söknuðinn. Það lýsti þér
svo vel, að þú hugsaðir ekki um þig, heldur um okkur sem eftir lifa.
Þú sagðir einnig, sem mér þótti svolítið undarlegt fyrst þegar ég heyrði
það, að ef maður gæti séð eitthvað jákvætt við þennan sjúkdóm, þá hefði
maður tíma til að fara yfir líf sitt og gæti sagt það sem hafði verið
ósagt, og hefði möguleika á að kveðja og þakka fyrir sig, og óska öllum
hins besta.
Við fengum sagt við hvort annað það sem við höfðum ekki sagt, og náðum að
kveðja hvort annað.
Að fylgjast með þér í veikindunum síðustu vikurnar, og sjá hvað þér leið
illa, og vita að það væri ekkert hægt að gera fyrir þig, það var sárara og
erfiðara en allt annað sem ég hef reynt í lífi mínu, að sjá hvernig
sjúkdómurinn tók lífsneistann frá þér og hvernig lífið fjaraði út, og vona
að þú fengir að deyja svo þú þyrftir ekki að þjást meira, það var erfiðara
en allt sem erfitt er.
Það hafa verið forréttindi að fá að eiga þig og eiga þessi ár með þér ástin
mín, allt það sem þú hefur kennt mér um manngæsku, framkomu við fjölskyldu,
vini og ókunnuga, hvernig þú fékkst mig til að breyta lífi mínu og sýndir
mér hvernig maður á að taka á móti ást og endurgjalda ástina, og hvernig ég
gat elskað sjálfan mig, svo ég gæti elskað aðra.
Ó, elsku Pála mín, núna veit ég ekki hvernig ég á að geta lifað án þín, en
ég mun eflaust læra það með tímanum og læra að lifa glaður með þær
yndislegu minningar sem ég á um þig og allt sem við höfum upplifað
saman.
Við sjáumst aftur þegar minn kyndill slokknar, þá dönsum við vínarvalsinn
okkar aftur, og aftur, og aftur. Guð blessi þig og varðveiti þig ástin
mín.
Þinn ástkær eiginmaður,
Alfred-Wolfgang Gunnarsson.