Helgi Lárusson fæddist í Reykjavík 26. mars 1964. Hann lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 18. apríl 2019. Foreldrar hans eru Mary Walderhaug, f. 1936, og Lárus Helgason, f. 1938. Fósturfaðir Helga frá árinu 1981 er Ævar Þiðrandason, f. 1946. Systkini Helga eru Sigurlaug Hrönn, Vala, Ólöf Ýr, Andri, Tinna og Sölvi og Guðrún Þórisdóttir. Samfeðra á Helgi fimm systkini, þau eru Kristján, Sigurður, Guðrún, Anna Marie og Kristín.
Börn Helga eru Lárus Helgason, f. 1991, og Arnhildur Helgadóttir, f. 1993, móðir þeirra er Anna Sigríður Bjarnadóttir, og Felix Sömmering, f. 2005, móðir hans er Nicole Sömmering. Helgi átti eitt barnabarn, Írisi Ástu Lárusdóttur, og er eitt afabarn á leiðinni.
Helgi var fæddur í Reykjavík og sleit þar barnsskónum. Eftir að hann komst á legg eyddi hann mörgum sumrum hjá föðurömmu sinni á Kirkjubæjarklaustri. Helgi gekk í fyrstu í skóla í Reykjavík en lauk grunnskólaprófi frá Kirkjubæjarskóla á Síðu. Eftir það starfaði Helgi við bílasprautun í Kópavogi en flutti árið 1981 til Ólafsfjarðar þar sem hann vann við frystihúsið og var síðar á sjó á Ólafi Bekk til nokkurra ára, lauk meiraprófi og stundaði nám í vélavörslu. Eftir alvarlegt slys árið 1987 lamaðist Helgi en náði að komast aftur á fætur með þrautseigju og góðri hjálp endurhæfingardeildar Landspítalans á Grensásdeild og fjölskyldu sinnar. Helgi náði þó aldrei fullum mætti á ný og lifði með afleiðingum slyssins það sem eftir var.
Helgi flutti til Reykjavíkur 1990 þar sem hann hóf nám í rennismíði við Iðnskólann í Reykjavík og stofnaði þá fjölskyldu og sneri sér að ýmsum störfum. Fjölskyldan flutti svo til Ólafsfjarðar þar sem Helgi vann á bílverkstæði. Árið 1995 flutti Helgi ásamt fjölskyldu sinni á Kirkjubæjarklaustur þar sem hann byggði sér hús og starfaði við húsasmíði og sem grafari við kirkjugarðinn við Prestbakkakirkju á Síðu. Árið 1998 flutti Helgi til Reykjavíkur, skilinn að skiptum við Önnu Sigríði. Hann settist að á Akureyri á árinu 2002, vann við vélsmíði og bílaviðgerðir. Hann kynntist barnsmóður sinni Nicole. Þau eignuðust soninn Felix árið 2005 og voru í sambúð um tíma. Allt er tengdist vélbúnaði átti hug Helga alla tíð. Helgi var greindur með briskrabbamein 13. mars sl. og lést rúmum mánuði síðar.
Útför Helga fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 3. maí 2019, klukkan 13.30. Jarðsett verður síðar í kirkjugarðinum við Minningarkapellu Jóns Steingrímssonar á Kirkjubæjarklaustri.

Ég man þegar ég kom fyrst á Kirkjubæjarklaustur og var að kynnast henni Ólöfu systur þinni.  Þá heyrði ég oft rætt um Helga bróður.  Alltaf var talað um þig af mikilli hlýju af hinum systkinunum og maður heyrði oft hann Helgi bróðir sko,  já hann Helgi, hann gat svo margt.

Á þessum tíma á Klaustri varst þú sveitastrákur eða vinnumaður á bænum Syðri-Vík í Landbroti, og mjög upptekinn af þínum störfum enda fór það orð af þér að þú værir flestum klárari þegar dráttarvélar og önnur farartæki voru tekin til kostanna. Þetta hefur þú haft í genunum, enda voru Helgi afi þinn og frændur þekktir fyrir að hafa tileinkað sér hin ýmsu farartæki frá hernum og nýtt þau til margvíslegra hluta í sveitinni og voru þar öðrum landsmönnum fremri. Þetta hefur greinilega mótað þig sem ungan mann; að sjá þessar græjur að störfum í sveitinni og í hinum ýmsu verkum.  Þá var Gerða frænka þín einn helsti frumkvöðull Íslands við að koma á heimarafstöðvum á tugum bæja þar sem hún ötul þýddi tæknibækur um þessi efni úr dönsku fyrir eiginmann sinn Bjarna í Hólmi. Ekki er ólíklegt að sagan væri öðruvísi ef frænku þinnar hefði ekki notið við þannig að þú hafðir þessa framhugsun og tækjaáhuga bæði úr Klausturs- og Þykkvabæjarættinni.
Ég var búinn að hitta flest systkini þín áður en ég hitti svo þig á endanum, alveg hinumegin á landinu eða í Ólafsfirði.
Þér voru þessi hlutir mjög hugleiknir og þú brasaðir mikið með jeppa bæði Willýs og Land Rover eins og flestir strákarnir sem ég þekki úr þessari ætt.  En þú hafðir einnig mikinn áhuga á flugi og flugvélum og varst  alltaf með það nýjasta í þeim efnum á takteinum þegar maður hitti þig.
Eftir að hafa kynnst frændgarði þínum komst ég að því að þetta var mikið indælisfólk upp til hópa. Þar varst þú engin undantekning. Alltaf svo hjartahlýr.  Sagðir ekki mikið en maður fylltist alltaf ró við að tala við þig eins og þú værir búinn að lifa tímana tvenna og vissir meira en ég sem var eldri og átti að vera reyndari. Ég fékk engan botn í þetta fyrr en seinna þegar ég var einhverju nær um þína sögu.
Skilningur þinn á lífinu var nefnilega dýpri en flestra. Þú komst úr brotinni fjölskyldu og varst í því hlutverki að vera stóri og sterki bróðirinn. Réttlætiskennd þín var mikil og þú þurftir að verja fjölskylduna með orðum og afli en kvartaðir aldrei. Já þú skildir betur en ég, margt sem sá einn sem hefur upplifað skilur.
Þarna fékkst þú ungur maðurinn að reyna margt sem ætti ekki að vera hlutskipti ungs manns sem er að hefja lífið.
En enginn veit ævina sína fyrr en öll er. Árið 1987 lentir þú í alvarlegu slysi í sundlauginni í Ólafsfirði og lamaðist fyrir neðan háls.
Þetta var mikið áfall fyrir þig og alla í kringum þig og fólk getur aðeins ímyndað sér hvernig það er að lenda í því að lamast. Æðruleysi þitt var takmarkalaust, þú lést ekki bugast við þetta, nei þú hafðir þig á lappir af miklu harðfylgi með hjálp Grensásdeildarinnar.  En eftir þetta slys varstu alltaf haltur á öðrum fæti og með brunatilfinningu í húðinni á handleggjunum og varst oft með uppbrettar ermar í skítaveðri til að deyfa brunatilfinninguna, sem er svolítið táknrænt, því með þetta allt í farteskinu var bara oft skítaveður í lífinu hjá þér.
Með allar erfiðu minningarnar og hreyfihömlunina arkaðir þú af stað með uppbrettar ermar út í lífið.
Fljótlega lágu leiðir ykkar Önnu Siggu saman og þið byrjuðuð að búa og eignuðust tvö yndisleg börn; Lárus og Arnhildi. Eftir að Lárus fæddist fluttuð þið fljótlega á Klaustur og hófuð að byggja hús. Þetta hefur verið mikið átak fyrir þann sem búinn var að eyða miklu púðri í fyrsta fasa lífsins og glíma við fötlun eftir slysið en með miklar væntingar til lífsins fyrir nýstofnaða fjölskylduna. Það tekur á að byggja hús og sérstaklega ef innkoman er takmörkuð. Þetta var því mikið álag fyrir þig og ykkur og eitthvað brast í sálinni sem ekki er svo sýnilegt þannig að það er erfiðara að skilja það en beinbrot eða lömun.
Þetta reyndist of mikið álag fyrir ykkur fjölskylduna og það varð úr að þið skilduð. Þú þurftir á sálrænni aðstoð að halda sem tók tíma og var mikið rót á þínu lífi lengi eftir þetta. En þú virtist ódrepandi. Á endanum, með hjálp margra aðstandenda og AA-samtakana, hafðir þú þig út úr þessu að mestu og komst meira skikk á þitt líf. Þú keyptir þér íbúð á Akureyri og fljótlega kynntust þið Nicole og þið eignuðust hann Felix sem er nú að verða 14 ára.
Sem betur fer hafa líka verið góðar stundir, gleði og ást í þínu lífi, en engu að síður ert þú einn af þeim sem hafa lent í miklum hremmingum að ósekju að manni finnst.
Lengi skal manninn reyna. Síðasta áfallið var svo að þú greindist með langt gengið krabbamein í síðasta mánuði og enn og aftur sýndir þú okkur andlegan styrk þinn, æðruleysi og innri fegurð sem á engan sinn líka þar sem þú bara skipuleggur síðustu dagana og vikurnar í lífi þínu eins og þú sért að fara í ferðalag í aðra vídd. Ferðalag sem bara þurfi að skipuleggja aðeins til að allt fari vel, svona eins og flugmaður að fara yfir flugáætlunina áður en lagt er í hann.
Helgi minn, það róar okkur sem eftir eru að dauða þinn bar að með einstaklega fallegum hætti ef ég má nota það orð, en þú leiðst út af ókvalinn með þinn besta vin og bróður hann Andra haldandi í hönd þína og í hinni hendinni með blað sem Sölvi bróðir þinn færði þér með mynd af innviðum mannsins eða þar sem meinið þitt var.
Nú heldur þú á nýjar slóðir og það er óneitanlega freistandi að halda að það sé meira til en þessi jarðvist eða vídd sem við dveljum í um stund en eins og áður veist þú þetta betur en ég, enda ert þú búinn að deyja a.m.k. tvisvar.  Bæði þegar þú lentir í slysinu og þú lýstir því svo vel fyrir okkur hvað gerðist þegar þú í raun hafðir dáið og svo núna. Þú varst ekkert kvíðinn að deyja hafandi reynslu af fyrri dauða þínum.
Elsku Helgi farnist þér vel á nýjum slóðum.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.

Börnum og aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.










Bjarmi.

Elsku Helgi bróðir.
Ef ég mætti bara velja eitt orð til að lýsa þér þá yrði hugrekki fyrir valinu.
Þú varst alltaf fyrsti maður til að umbera og fyrirgefa enda hafðir þú einstakan hæfileika til að setja þig í spor annars fólks og dæmdir engan. Það er sjaldgæft hugrekki. Þú vissir og skynjaðir að yfirleitt er ekki allt sem sýnist, ekki síst í lífi þeirra sem reyndu hvað mest á þolrifin í þér. Þótt þú værir ljúfur og friðsamur og hafir borist lítið á þá gekkst þú jafnan hiklaust inn í aðstæður til að skakka leikinn ef þess þurfti. Skipti þá engu þó við ofurefli væri að etja, bæði líkamlega og andlega. Réttlætið var þér í blóð borið og þú varst hinn hljóðláti hermaður þess. Þó tíminn hafi verið ótrúlega skammur frá því þú greindist með krabbamein á lokastigi þar til þú kvaddir þá gerðist engu að síður kraftaverk hvern einasta dag á þeim tíma. Það var magnað að fylgjast með þér. Þarna stóðst þú enn og aftur frammi fyrir ofurefli og hvað gerðir þú? Það sama og þú hafðir gert allt þitt líf. Möglunarlaust tókst þú við verkefninu og tókst á við það með því einstaka, lítilláta hugrekki og þolgæði sem einkenndi þig.
Þú sagðir mér að þú litir á þetta verkefni sem þolinmæðisverk. Og ekki orð um það meir. Þetta hugarfar lýsir þér svo vel. Þú vissir að tíminn var af skornum skammti, yrði jafnvel aðeins mældur í klukkustundum. Ekki þýddi að eyða orku í það sem engu máli skipti. Líffærin sem í hlut áttu voru kortlögð, grúskað, spáð og spekúlerað með fjölskyldumeðlimum og einbeitt sér svo að því með frábærri hjálp starfsfólksins á Lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri og fleiri deildum þar, að bæta það sem tíminn og skynsemin leyfði. Enn og aftur tókst þér með góðri hjálp hið ómögulega eins og þegar þú lamaðist ungur. Þú komst aftur á fætur og nýttir tímann til hins ýtrasta í samverustundir með þínum nánustu. Á þinn milda hátt lést þú ekkert koma í veg fyrir að taka upp dýrmæta lífsþræði þar sem frá var horfið enda veitti það þér gleði, kraft og styrk í þessu erfiða ferli.
Elsku Helgi. Allt þitt líf hafðir þú einstakan hæfileika til að laga það sem var brotið, bilað og skemmt. Skemmtilegast var auðvitað ef það snéri að alls konar jeppum og bílum. En það þurfti líka stundum að bæta margt annað. Það var ekkert endilega víst að það sem var lagað liti út eins og í upphafi, en ef það var eitthvað heillegt í einhverju þá var það þess virði að koma því aftur í gang. Þú hirtir heldur ekki mikið um hvort yfirborðið væri fágað og fínt eða hvert álit annarra var á tímanum sem í viðgerðirnar var varið í samhengi við mælanleg verðmæti.  Fyrir þér skipti innihaldið, ekki útlitið, máli. Ferðalagið var mikilvægara en áfangastaðurinn.
Þú kenndir okkur hinum svo margt með fordæmi, ekki orðum. Að morgni skírdags kvaddir þú þetta líf í miðju spjalli með morgunkaffinu með þínum besta vini, Andra bróður, sem hélt í höndina á þér á meðan þú hélst af stað í ferli sem þú þekktir svo vel frá því að þú barðist ungur fyrir lífi þínu á sama sjúkrahúsi, lamaður í öndunarvél eftir hræðilegt slys. Þú hafðir aldrei haft mörg orð um þessa fyrri reynslu þína sem tryggði algert óttaleysi þitt við dauðann. Ekki frekar en aðra hildi sem þú hafðir háð í þínu lífi. Þú sem varst svo jarðbundinn og mikill áhugamaður um tækni, nýsköpun og eðlisfræðilega virkni allra hluta og lífvera. Þess merkilegri var einmitt lýsingin þín á þessu fyrirbrigði. Það var þér líkt að byrja að tala um þessa upplifun opinskátt þegar þú vissir hvert stefndi, því alltaf var þér efst í huga velferð og líðan þinna nánustu.  Að venju hafðir þú tekið eftir tæknilegum smáatriðum eins og að göngin með ljósið við endann voru kónísk. Magnaðast var þó að hlusta á þig lýsa því að þarna ríkti algjör friður. Þetta tvennt hlaut að boða eitthvað gott fyrir tækninörd og friðarsinna. Þú tókst þér líka góðan tíma til að stúdera og skrúfa saman ýmis praktísk mál til að tryggja að allt gengi smurt og í sem mestum friði áður en þú kvaddir.
Elsku bróðir minn Ljónshjarta. Þakka þér fyrir hugrekkið, æðruleysið og takmarkalausa kærleikann sem þú bjóst yfir og gafst af þér. Þakka þér fyrir styrkinn og endalausu þolinmæðina sem þú sýndir ávallt í verki. Þakka þér fyrir að kenna okkur hinum að allt sem þarf til að breyta því sem hægt er að breyta er kjarkur og að æðruleysið er ævinlega besta vopnið til að sætta sig við það sem fæst ekki breytt. Vonandi höfum við sem eftir verðum svo vit á að feta í fótspor þín í vinnunni við að greina þarna á milli. Þegar upp er staðið er lífið nefnilega einfaldlega eins og þú sagðir: þolinmæðisverk.
Það er gott og huggun harmi gegn að vita af þér á stað þar sem þú ert loksins laus frá öllum meinum.
Ég er ekki hræddur við að deyja. Ég hef alveg dáið áður og það er bara ljós, og algjör friður.
(Helgi Lárusson)
Farðu í friði elsku bróðir. Sjáumst síðar.
Þín systir,


Ólöf Ýr Lárusdóttir.