Ingveldur Geirsdóttir fæddist hinn 19. nóvember 1977 á Sjúkrahúsinu á Selfossi. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut hinn 26. apríl 2019. Foreldrar hennar eru Geir Ágústsson, f. 11.1. 1947, og Margrét Jónína Stefánsdóttir, f. 19.8. 1948. Ingveldur var önnur í röð fjögurra systkina en þau eru: Þórdís, f. 27. janúar 1976, eiginmaður Þórir Jóhannsson, f. 18. ágúst 1972, og eiga þau tvo syni; Stefán, f. 30. maí 1981, eiginkona Silja Rún Kjartansdóttir og eiga þau fjórar dætur; Hugrún, f. 28. nóvember 1985, eiginmaður Hörður Sveinsson og eiga þau þrjú börn.
Eiginmaður Ingveldar er Kristinn Þór Sigurjónsson, f. 23. febrúar 1972. Börn Ingveldar eru Ásgeir Skarphéðinn Andrason, f. 15. mars 2008, og Gerður Freyja Kristinsdóttir, f. 6. apríl 2015, og þrjú stjúpbörn, Steinunn Helga Kristinsdóttir, f. 2. júní 1991, og á hún einn son, Alan Þór Solquist, f. 1. september 2016, Sigurjón Þór Kristinsson, f. 14. apríl 2004, og Kristín Þórunn Kristinsdóttir, f. 21. apríl 2005.
Ingveldur ólst upp á heimili foreldra sinna að Gerðum í Gaulverjabæjarhreppi, nú Flóahreppi. Hún gekk í Barnaskóla Gaulverja til 13 ára aldurs og fór þaðan í Gagnfræðaskólann á Selfossi. Hún hóf nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSU) árið 1993 en gerði hlé á námi sínu árið 1996 þegar hún fór til Bretlands sem au pair. Hún brautskráðist af viðskiptabraut Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1997 og flutti þá til Reykjavíkur og vann þar ýmis þjónustustörf. Árið 1999 hóf hún nám við bændadeild Landbúnaðarháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur árið 2001. Sama ár hóf hún nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BA-próf í bókmenntafræði með þjóðfræði sem aukagrein árið 2004. Að því loknu lá leið hennar beint í mastersnám í blaða- og fréttamennsku við HÍ sem hún kláraði árið 2011 þegar hún skilaði mastersritgerð sinni: Er landsbyggðin í fréttum?
Ingveldur hóf störf hjá Morgunblaðinu árið 2005 og var blaðamaður fyrir Daglegt líf og menningardeild áður en hún hóf störf á fréttadeild. Ingveldur venti kvæði sínu í kross um áramótin 2013 og hóf störf hjá 365 miðlum sem fréttamaður Stöðvar 2 en flutti sig aftur yfir á Morgunblaðið undir lok árs. Þar starfaði hún sem blaðamaður fréttadeildar til loka og sinnti aðallega innlendum fréttaskrifum auk þess að gegna stöðu kvöld- og helgarfréttastjóra og fréttastjóra í afleysingum.
Ingveldur sat í stjórn Blaðamannafélags Íslands, fyrst í varastjórn árin 2014-2015 og síðan í aðalstjórn árin 2015-2019.
Eftir að Ingveldur greindist með krabbamein árið 2014 starfaði hún um tíma með samtökunum Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur, og sat m.a. fyrir á mynd sem notuð var í herferð til vitundarvakningar um ungt fólk og krabbamein.
Útför hennar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 14. maí 2019, klukkan 13.

Farandi í gegnum lífið gerir maður einhvern veginn bara ráð fyrir því að systkini manns verði alltaf til staðar og taki þátt í flestu því sem lífið býður manni upp á. Samband systkina er sérstakt, fólk sem hefur ekki endilega sömu áhugamál eða velur sér misjafna leið í lífinu en er sameinað af sameiginlegum grunnstreng þannig að suma hluti þarf ekkert að ræða, fólk einfaldlega skilur hvert annað og þekkir. Þannig var samband okkar við Ingveldi, á yfirborðinu erum við systkinin að mörgu leyti ólík en undir niðri alveg eins. Hún vissi alveg hvað okkur fannst um hluti þó hún væri ekki sammála og gekk til verka við hlið okkar án þess að það þyrfti eitthvað að ræða, við einfaldlega gengum í takt.

Ingveldur var frá barnæsku kraftmikil, atorkusöm og sjálfstæð. Á heimili okkar fann hún upp á ýmsum leikjum með okkur, sinnti dýrunum og átti samverustundir með fjölskyldunni. Á vetrarkvöldum fannst henni gaman að spila og hlusta á tónlist og svo jafnvel taka nokkur dansspor á eldhúsgólfinu. Hún var áhugasöm um allt í umhverfi sínu og vildi taka þátt í sem flestu. Hún var foringi í leikjum í barnaskólanum, æfði frjálsar íþróttir og glímu og tók virkan þátt í félagslífi sveitarinnar. Á námsárum hennar var hún fljót að kynnast samnemendum sínum og eignaðist alls staðar góða vini sem hún var iðin að rækta sambandið við. Hún var rösk til verka og var vinsæll starfsmaður hvar sem krafta hennar naut hvort sem var í sveitastörfum, afgreiðslustörfum eða blaðamennsku.

Áhugamál Ingveldar voru fjölbreytt en kannski var aðaláhugamálið fólk og allt það sem fólk tekur sér fyrir hendur. Hún tók fólki með opnum huga, gat notið sín hvar sem er og átti félaga og vini úr ólíkum hópum þjóðfélagsins. Ingveldur setti sér nefnilega aldrei nein mörk um að hún væri einhver ákveðin týpa. Eina stundina var hún við mjaltir í fjósagallanum en hina var hún komin í  sparidressið, mesta skvísan að skemmta sér í miðbænum eða á tónleikum. Svo gat hún líka notið einverunnar, verið sjálfri sér næg upp í sófa að lesa fagurbókmenntir.

Það var auðséð þegar Ingveldur náði í hann Kidda sinn að þarna var sá rétti fundinn. Karlmannlegur nútímamaður, jafnvígur á bílaviðgerðir og excel-útreikninga. Þeim tókst vel að skapa sér sameiginlega tilveru, virtu sjálfstæði og áhugamál hvors annars og eignuðust ný saman. Þeirra samvistir voru skammt á veg komnar þegar líf þeirra tók óvænta stefnu. Barn undir belti og heilsu móðurinnar ógnað. Í gegnum gleðistundir og erfiðleika reyndist Kiddi Ingveldi ómetanlegur lífsförunautur, sannkölluð stoð og stytta.

Það dýrmætasta í lífi Ingveldar voru börnin hennar og Kidda. Við sáum hvað hún fann sig vel í því að búa sér heimili með Kidda og börnunum sem fóru á skömmum tíma frá því að vera eitt yfir í að vera fjögur. Móðurhlutverkið fór Ingveldi einna best, hún hugsaði um börnin af hlýju og reglufestu en var alltaf til í að gera eitthvað með þeim til að brjóta upp hversdagsleikann. Að sama skapi hvatti hún þau til að vera sjálfstæð og áhugasöm um umhverfi sitt á sama hátt og hún.

Systkinabörn hennar nutu einnig hlýju hennar en hún var dugleg að sinna þeim og sýndi þeim mikinn áhuga. Oft tók hún sig til og bauð okkur og fjölskyldum okkar í kaffi með engum fyrirvara eða dreif alla með sér í sveitina á sunnudegi. Afmæli lét hún ekki fram hjá sér fara og mætti alltaf með pakka sem oft innihélt einhverja góða bók. Sambandið við stórfjölskylduna var henni verðmætt og lagði hún mikla áherslu á að mæta og taka virkan þátt í jólaboðum og ættarmótum enda átti hún marga góða vini úr stórum hópi frændsystkina.

Þegar ástvinur tekst á við jafn hörð veikindi og Ingveldur undir lokin er það ákveðinn léttir þegar fólk er leyst undan kvölum og sjúkralegu. Aldrei verðum við samt sátt við að hafa hana ekki með okkur í stóru og smáu í framtíðinni. Þá verðum við að láta okkur nægja að hugsa til hennar, þakka fyrir tímann sem við áttum saman og skynja í þeim grunnstreng sem tengir okkur saman  hvernig hún hefði gengið í verkin, skipst á skoðunum við okkur eða einfaldlega glaðst yfir einhverju með okkur, hlegið og dansað á eldhúsgólfinu. Við höldum áfram að ganga saman í takt með Ingveldi með okkur í hverju skrefi.


Þórdís Geirsdóttir, Stefán Geirsson, Hugrún Geirsdóttir.