Margeir Ingólfsson fæddist á Fáskrúðsfirði 16. desember 1928. Hann lést 10. maí 2019.
Margeir var sonur hjónanna Ingólfs Þórarinssonar og Klöru Sveinsdóttur, Melbrún Fáskrúðsfirði. Þar ólst hann upp ásamt þremur systrum, þeim Þórunni Ingólfsdóttur sem er látin, Stefaníu Ingólfsdóttur sem einnig er látin og Gyðu Ingólfsdóttur.
Margeir kvæntist 16. desember 1951 Elsu Birgitt Guðsteinsdóttur leiðsögumanni, f. 16. desember 1932, d. 26. október 2018. Börn þeirra eru: 1) Ingólfur Steinar Margeirsson, sambýliskona Linda Húmdís Hafsteinsdóttir. Börn hans eru Margeir Steinar, Gísli Steinar, Harpa, Þorbjörg Elsa og Ingólfur Steinar. 2) Gyða Hafdís Margeirsdóttir, BA í ensku, gift Páli Árnasyni viðskiptafræðingi. Börn hennar eru Haraldur Kristinn, Arnar Steinn og Alexandra Bergdís. 3) Erla Margrét Margeirsdóttir. Dætur hennar eru Rut og Rakel Ragnarsdætur. Alls eru afkomendur Margeirs orðnir 32.
Margeir flutti til Reykjavíkur árið 1945 til þess að mennta sig. Hann fór í Iðnskólann og útskrifaðist þaðan sem húsasmiður árið 1949 og var meistari hans Guðjón Vilhjálmsson. Margeir fékk meistararéttindi árið 1952. Hann kom að smíði fjölmargra bygginga á höfuðborgarsvæðinu. Árið 1969 stofnaði Margeir byggingafyrirtækið Dagfara ásamt þeim Þór Kristinssyni, Sigurgeiri Gíslasyni, Sverri Gunnarssyni og Gunnari Lárussyni. Dagfari byggði meðal annars Kjarvalsstaði. Þau hjónin byggðu sér þrisvar sinnum hús fyrir fjölskylduna. Fyrsta húsið var Melgerði 17 í Kópavogi, síðan byggðu þau húsið Faxatún 11 í Garðabæ og loks Engimýri 12 í Garðabæ. Árið 1995 keyptu þau sér hús á Spáni, þar dvöldu þau í ellefu ár, vetrarlangt. Einnig byggðu þau sér sumarbústað í Munaðarnesi.
Útför Margeirs verður frá Garðakirkju í dag, 23. maí 2019, klukkan 15.

Elsku pabbi okkar Margeir Ingólfsson kvaddi eftir mjög stutt veikindi. Hann er nú kominn til mömmu, Elsu Guðsteinsdóttur, sem hann þurfti að kveðja með miklum trega fyrir hálfu ári, eftir sjötíu ára sambúð. Þótt árin hans hafi talið níutíu þá var hann eins og unglamb, var vel inni í allri þjóðfélagsumræðu, vissi hvaða íþróttafélög voru á toppnum og fylgdist grannt með ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hélt með Liverpool og fór oft með okkur að horfa á leiki. Þau áttu sumarbústað í Munaðarnesi þar sem við fjölskyldan áttum saman margar gleðistundir. Síðastliðið sumar var hann óstöðvandi við að huga að öllu því viðhaldi sem bústaðurinn þarfnaðist og þetta vorið var hann byrjaður að klippa og snyrta gróðurinn. Í vetur pantaði hann sér nýjan Citroën jeppa og beið spenntur eftir afhendingu sem átti að verða í júní. Hann var mikill aðdáandi þeirra og elskaði yfirleitt allt sem kom frá Frakklandi. Mamma  og pabbi fóru tvisvar til Frakklands til þess að kaupa Citroën bifreiðar. Sá fyrri var mjög framúrstefnulegur, með beygjuljósum og glussakerfi og ekki var hlaupið að því að fá viðgerðir á svona tæki. Pabbi var hins vegar ekki í vandræðum með að lesa sig til og ef eitthvað þurfti að laga þá sá hann oftast um það sjálfur. Hann gerði við nánast allt sem bilaði á heimilinu og ef við systkinin tíndum einhverju þá var það oftast pabbi sem fann hlutinn. Við ólumst upp við að hlusta á fransarann í útvarpinu, en pabbi hlustaði á franskar útvarpsstöðvar á langbylgjunni þar sem djassinn var í hávegum hafður. Hann sótti mjög oft djasstónleika og við systkinin lærðum að meta þá tónlist. Núna síðast mætti hann á alla viðburði á Djassdögum í Garðabæ. Honum auðnaðist líka sú gæfa að fara á tónleika hjá bæði Louis Armstrong og Ellu Fitzgerald. Fáskrúðsfjörður átti hug hans og hjarta. Á stríðsárunum 1940 - 1941 var hann í sveit á Hafranesi í Reyðarfirði sem var símstöð og þurfti hann oft að ganga yfir fjallgarðinn til Fáskrúðsfjarðar með skeyti. Í Reyðarfirði var norsk herstöð með miklum umsvifum og minntist hann oft þessa tíma þegar hann sá eldglæringar frá sjóorustum. Öll sumur var farið til Fáskrúðsfjarðar að hitta ömmu Klöru í Melbrún og systur hans sem þar bjuggu með fjölskyldum sínum. Þetta var alltaf tilhlökkunarefni og fundum við borgarbörnin hversu gott þetta frelsi var sem pabbi ólst upp við og dásamaði. Fjaran, bryggjan og fjöllin, þetta heillaði allt. Ferðalög voru þeirra líf og yndi. Þau ferðuðust jafnt innanlands sem utan. Fyrst var notast við tjald, seinna keyptu þau sér tjaldvagn og síðan var keyptur húsbíll. Á honum ferðuðust þau bæði innanlands og utan. Fyrir okkur börnin voru þessar útilegur og ferðalög hreint ævintýri og erum við þeim ævarandi þakklát fyrir að hafa kynnt okkur fyrir töfrum Íslands. Árið 1995 keyptu þau hús á Spáni þar sem þau dvöldu veturlangt í ellefu ár. Þangað þótti okkur börnunum og barnabörnunum  gott að koma og njóta með þeim alls þess sem Spánn hefur uppá að bjóða. Það var stjanað við okkur á allan máta og farið með okkur á markverða staði um allan Spán. Pabbi, smiðurinn, tók húsið allt í gegn, einangraði það og setti upp lokað hitakerfi, smíðaði sólskála og bílskúr fyrir Citroëninn. Þau nostruðu við garðinn þar sem þau voru með appelsínu- og sítrónutré, rósir og pálmatré. Árið 2000 eignuðust þau sumarbústað í Munaðarnesi sem leiddi til þess að vetrardvölin á Spáni varð sífellt styttri því að þau kusu frekar að vera hér heima, sérstaklega vegna þess að barnabarnabörnum fjölgaði ört. Síðustu tíu árin bjuggu þau að Maltakri 7 í Garðabæ. Ekkert dró úr ferðagleðinni hjá þeim þrátt fyrir að árin færðust yfir og fóru þau í ótal siglingar með skemmtiferðaskipum um öll heimsins höf. Pabbi var mörgum kostum gæddur og var mikill fjölskyldumaður. Hann hafði mikla ánægju af því að elda og var listakokkur. Hann gerði hverja máltíð að veislumat og alla okkar æsku sá hann oftast um að matreiða bæði hversdags og spari. Pabbi var maður fárra orða, en þegar hann lagði eitthvað til málanna voru það gullkorn. Hann var okkar klettur í lífinu og æðruleysi hans er eiginleiki sem við varðveitum í hjörtum okkar.

Nú hefur okkar ástkæri pabbi þegið hvíldina og eftir sitjum við sem elskum hann og þökkum honum fyrir allt sem hann hefur gefið okkur. Hvíl í friði elsku pabbi, þín elskandi börn

Ingólfur, Gyða og Erla.