Svanhildur Árney Ásgeirsdóttir fæddist á Bræðraborgarstíg í Reykjavík 24. nóvember 1937. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 27. maí 2019.Foreldar hennar voru Ásgeir Árnason vélstjóri, f. 24. maí 1901, d. 7. feb. 1958, og Theódóra Einhildur Tómasdóttir húsfreyja, f. 7. jan. 1906, d. 17. okt. 1969.
Systkini hennar eru Tómas, f. 26. okt. 1929, d. 16. maí 1984, Sigrún Erna, f. 18. maí 1932, d. 5. júní 1991, Theodóra Kolbrún, f. 12. des. 1933, d. 24. mars 1971, og Ásgerður, f. 11. mars 1942.
Svanhildur giftist 28. júní 1957 Sveinbirni Kristinssyni, f. 4. okt. 1932, d. 7. des. 1989. Börn þeirra eru Theodóra Ásgerður Svanhildardóttir, f. 25. mars 1955, Aðalheiður Svanhildardóttir, f. 7. apríl 1959, og Tómas Ásgeir Sveinbjörnsson, f. 19. júní 1961.
9. apríl 1966 giftist hún seinni manni sínum, Regin Valtýssyni símvirkjameistara, f. 9. apríl 1936, d. 16. okt. 2007. Börn þeirra eru Valtýr Reginsson, f. 9. júní 1967, og Kolbeinn Reginsson, f. 12. des. 1968.
Svanhildur bjó fyrstu árin sín í Reykjavík en fluttist ung til Akureyrar og sleit þar barnsskónum. Með fyrri manni sínum, Sveinbirni, fluttist hún síðar til Reykjavíkur og bjuggu þau þar með sín þrjú börn. Eftir skilnað fluttist hún, ásamt börnum sínum, að Brú í Hrútafirði þar sem hún hóf störf sem talsíma- og matráðskona. Þar kynnist hún seinni manni sínum, Regin, en þar starfaði hann sem símvirki. Þau giftust og eignuðust tvo syni og fluttust þau síðan á höfuðborgarsvæðið og bjuggu þar lengst af í Kópavogi.
Svanhildur fór ung í Húsmæðraskólann á Laugalandi og starfaði síðar sem húsmóðir eftir það þar til hún hóf störf í fiskverkun í Ísbirninum í Reykjavík. Að því loknu hóf hún störf á Landspítalanum á skiptiborðinu við símsvörun. Var hún síðar með þeim fyrstu er störfuðu á tölvudeild Landspítalans. Seinna stofnaði hún innan Landspítalans nýsigagnadeildina Tölvuverið, gegndi þar starfi forstöðumanns til fjölda ára og var síðar heiðruð fyrir störf sín þar á Landspítalanum.
Svanhildur verður jarðsungin frá Digraneskirkju í dag, 31. maí 2019, klukkan 13.
Fyrir utan móðurhlutverkið þá var hún einnig besti vinur sem ég hef átt, besti ráðgjafi minn og hvatningastjóri. Hún færði mér óteljandi tækifæri í lífinu, hamingju og gleði. Nærvera hennar gaf svo mikið og gleðin sem fygdi henni var svo hlý en um leið svo glettin og kát. Hún var sterk, ákveðin og úrræðagóð, uppfull af hæfileikum sem hún náði að nýta sér að fullu.
Ég er svo þakklátur fyrir að hafa átt hana sem móður og ég veit það nú að hún er komin á góðan stað, ásamt pabba, þar sem hún mun halda áfram að láta gott af sér leiða þangað til ég hitti hana næst.
Mamma eignaðst sín fyrstu börn mjög ung og átti þess vegna ekki kost á því sækja sér mikla mennt á sínum yngri árum en fór þó í Húsmæðraskólann á Laugalandi og kláraði það nám. Á þeim tímum þótti sjálfsagt að konur yrðu húsmæður og urðu því að kunna á því fagi góð skil.
Það gerði hún svo sannarlega og man ég það vel sem ungur drengur hve yndislegt það var að koma heim úr skólanum og mamma var heima og beið með góðan mat og hlýjan faðminn, fullkomið hvað mig varðaði.
Henni fannst þó meira fyrir henni í lífinu liggja en þetta hlutverk og ég man sérstaklega þegar Kvennafrídagurinn var haldinn árið 1975, sem baráttudagur kvenna, hvað allt breyttist. Mamma kom heim með baráttuplötuna, Áfram stelpur, og við hlustuðum á hana saman út í eitt en ég hlustaði aðeins meira en hún því ég var orðinn einn helsti áhangandi kvennabaráttunar. Í kjölfarið ákvað hún að leita sér að vinnu því hana langaði að komast út á vinnumarkaðinn til fá að taka þátt.
Ljóst var að námið í húsmæðraskólanum var ekki að fara að fleyta henni langt í þeirri leit og að lokum fékk hún vinnu í fiskvinnslu í Ísbirninum í Reykjavík. Í fyrsta sinn eftir þetta þegar ég kom heim úr skólanum þá vantaði mömmu. Löng stund leið þar til hún kom heim eftir erfiðan vinnudag, þreytt en mjög sátt.
Fram að þessu þá var pabbi okkar eina fyrirvinna en nú var komin önnur fyrirvinna til viðbótar og það mátti svo sannarlega merkja þegar mamma fékk útborgað í fyrsta sinn en þá sá hún til þess að veglegri kræsingar væru á borðum en við áttum að venjast, hagurinn hafði vænkast, allir glöddust.
Svona gekk þetta um nokkurt skeið og við vöndumst því að vera ein heima, svokölluð lyklabörn, sem um leið veitti okkur mikið frelsi. En vinnan í frystihúsinu var erfið fyrir mömmu og kuldinn í vinnslusalnum tók á þannig að hún fór að falast eftir annarri vinnu og fékk að lokum vinnu á Landspítalanum við símsvörun á skiptiborðinu. Hún hafði áður unnið á Brú í Hrútafirði þar sem hún vann á skiptiborðinu þar og þaðan hafði hún reynslu sem landaði henni þessari vinnu. Vinnan á Lansanum hentaði henni vel og dafnaði hún vel í þessu starfi sem um leið var ekki eins líkamlega krefjandi og fiskvinnslan var. Hún tók að sér að endurskipuleggja vaktakerfi starfsmanna sem var flókið verkefni og fórst henni það svo vel að hún vann sig upp í vaktstjórastöðu. Ljóst var að framlag hennar til atvinnulífsins var farið að skipta einhverju máli.
Um þetta leyti var Heiða systir að fermast og í fermingargjöf fékk hún vasareiknivél frá foreldrum okkar. Á þessum tíma þótti þetta vera mikið undratæki, knúið straumbreyti, straumlínulagaður búkur með upphækkuðum litlum tölvuskjá sem sýndi upplýstar rauðar tölur og með svörtu og gljándi lyklaborði með hvítum stöfum. Fór vel í báðum höndum samtímis og leðurhulstur fylgdi með til að geyma gripinn í. Man ég að að ég sat stundunum saman og lagði flókar þrautir fyrir þetta galdratæki en hægt var að leggja saman, draga frá, deila, finna kvaðratrót, prósentu og geyma í minni. Þetta þótti mikið tækniundur á þessu heimili og mömmu fannst ekki síst til þessarar undratækni koma.
Það var svo síðar í einu dagblaðinu, sem mamma sá, að auglýst var námskeið þar sem kenna átti á tölvur. Hennar reynsluheimur var sá að hún tók því sem svo að kenna ætti á vasareikni og hún var uppfull af fróðleiksfýsn og hafði strax samband og skráði sig á þetta námskeið því það væri frábær viðbót að kunna á slíkan tæknibúnað.
Þegar hún svo mætir á námskeiðið þá sér hún enga vasareikna eins og hún átti von á heldur var kennslustofan full af einhverjum litlum sjónvörpum" með áfastri ritvél svona við fyrstu sýn. Við nánari athugun var henni sagt að þetta væru míkrótölvur eða örtölvur. Á þessari stundu uppgötvaði hún að þetta var vitlaust námskeið! Í stað þess að hrökklast út þá ákvað hún að sitja a.m.k. fyrsta tímann og sjá síðan til. Eftir þetta var ekki aftur snúið því þarna hafði hún fundið fjölina sína og kláraði námskeiðin með glæsibrag og í kjölfarið þá fékk hún sér svokallaða míkrótölvu sem síðar fengu nafnið heimilistölvur og var hún ein sú fyrsta sem fékk sér slíkan grip til heimabrúks. Að sjálfsögðu varð uppnám heima fyrir þegar hún kom heim með þennan furðugrip sem svo síðar varð að vinsælum heimilisvini sem allir kunnu að meta.
Upp frá þessu kynntist hún fljótt þeim sem lengst voru komnir á þessu sviði hér heima og þannig var hún fljót að öðlast mikla þekkingu og færni í notkun þessara furðutækja. Síðan kom það til að hún fékk síðar vinnu á Tölvudeild Landspítalans og þaðan upp frá því stofnaði hún Tölvuverið á Landspítalanum sem annaðist nýsigagnagerð (nýsigagn=rafrænt kennslugagn). Þar starfaði hún í fjölda ára og síðar var hún heiðruð fyrir sín störf í þágu Lanspítalans. Á þessum tíma sinnti hún kennslu og fræðslu ásamt því að útbúa ýmis nýsigögn fyrir spítalann. Tölvuverið var afar vinsælt meðal þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem þurftu að sinna fræðslu og háskólaskyldu sjúkrahússins. Tölvuverið var að lokum lagt niður þegar sameiningarferli stóru spítalanna hófst.
Af þessu má sjá að mamma var ein af þeim fjölmörgu konum sem sannarlega nýttu sér til fulls inntak Kvennafrídagsins, að konur gætu komist áfram á eigin verðleikum og staðið jafnfætis karlmönnum á vinnumarkaðnum. Vissulega var það ekki átakalaust því ég varð vitni að þessari vegferð. Sannarlega dáðist ég að hennar frumkvæði og frumkvöðlastarfi sem hún sýndi okkur svo rækilega og alltaf náði hún að vera í fararbroddi við að kynna sér nýjustu strauma og stefnur á sviði tölvumála. Í dag rek ég mitt eigið tölvufyrirtæki eingöngu vegna þess að sú þekking sem hún færði heim varð til þess að hún fluttist yfir til okkar líka. Til vonar og vara þá tók ég líffræðina til að útvíkka minn reynsluheim því ekki þurfti ég á frekari háskólamenntun í tölvufræðunum að halda þar sem ég fékk hana með móðurmjólkinni.
Mamma mín, það er alltaf jafn gaman að rifja þetta upp og sérstaklega fannst mér ég þurfa þess núna því það hjálpa mér að geyma fallegu minningu þína. Ég vildi bara segja þessa sögu fyrir þig því mér fannst ég þurfa að koma henni á blað fyrir okkur. Þegar við svo hittumst aftur þá skulum við taka upp þráðinn aftur og halda áfram á sömu braut.
Elska þig mamma mín, þinn sonur
Kolbeinn (Kolli).