Hildur Magnúsdóttir fæddist í Ólafsfirði 7. febrúar 1942. Hún lést á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri 25. maí 2019.
Foreldrar hennar voru Magnús Jón Guðmundsson útgerðarmaður, f. 14.5. 1913, d. 7.2. 1980, og Jósefína Marsibil Jóhannsdóttir húsmóðir, f. 12.6. 1914, d. 28.6. 1996. Systkini Hildar eru Júlíus Fannberg, f. 1936, Sigurður, f. 1938, d. 2011, Guðrún, f. 1945, og Erla, f. 1947.
Börn Hildar eru Aðalbjörg Ólafsdóttir, f. 1961, Magnús Guðmundur Ólafsson, f. 1962, Helgi Jóhannsson, f. 1964, og Guðrún Pálína Jóhannsdóttir, f. 1969. Eftirlifandi eiginmaður Hildar er Jóhann Helgason húsasmiður, f. 1.10. 1940 í Ólafsfirði. Hildur og Jóhann gengu í hjónaband 26. desember 1964. Heimili þeirra er að Vesturgötu 14, áður Aðalgötu 29 í Ólafsfirði.
Útför verður frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 7. júní 2019, klukkan 14.
Elsku mamma mín.
Þú varst svo miklu meira en mamma mín, þú varst líka vinkona og
trúnaðarvinur minn, alltaf til staðar. Við höfum gengið saman í gegnum
eitt og annað við vorum nánar. Stundum hugsaði ég um hvernig veröldin
yrði þegar þessi stund kæmi og ég fann til sorgar, ég fann til ótta.
Núna ertu farin og ég finn sorgina og ég finn kvíðann. Hvað nú?
Við ræddum oft og mikið saman um lífið og þá atburði sem settu mark sitt á
þitt líf. Erfið veikindi fylgdu þér lengi. Þú varst greind með hjartagalla
í kringum 1964. Árið 1972 kom í ljós Hogdkins-eitlakrabbamein og því aldrei
gert við hjartameinið. Krabbameinið náði lokastigi og þú varst meira og
minna á sjúkrahúsinu á Akureyri í erfiðum kúrum til 1976. En þú læknaðist
af krabbameininu það þótti kraftaverk og þykir enn og ég trúi því. Þú
fékkst hjálp að handan.
Englar sátu við mömmu sæng,
og meinin öll burt hurfu
Öll umvafin birtu og bæn,
henni hjúkrað af heilum hug.
Æðruleysi hún státar af,
og visku kennir neyðin.
Hetjan hún mamma sigraði margt,
jafnvel feigðin hún beygði af leið.
(Guðrún Pálína, 2018)
Sú bæn var helst í brjósti þér að deyja ekki frá fjórum ungum börnum og
eiginmanni og það var hlustað. Þú trúðir því að það væri eitthvað annað
og meira eftir þetta líf og það er eitt af því sem við eigum
sameiginlegt.
Hún er þekkt fyrir elju
og hefur hug til gjafar.
Hann heimti hana úr helju
meðan aðrir gengu til grafar.
(Guðrún Pálína, 1990)
En erfið veikindi og krabbameinslyfin mörkuðu djúp spor þannig að þú
varðst aldrei alveg heil heilsu - vanlíðan var daglegt brauð en þú alltaf
samt ótrúlega jákvæð og þrautseig.
Ég vildi að ég gæti gefið þér
allt milli himins og jarðar;
gimsteina, já, hvað sem er,
sólskin og aldingarða.
Ef hjartalag væri gjaldmiðill
þinn auður væri mikill.
Og ef þrautir þínar regndropar
rigna myndi fyrir vikið.
(Guðrún Pálína 1998)
Þú reyndir eftir fremsta megni að fara aftur út á vinnumarkaðinn og gerðir
nokkrar tilraunir. Þú varst síðar með fyrstu starfsmönnum dvalarheimilisins
Hornbrekku í Ólafsfirði þar sem þú starfaðir ötullega í kringum 20 ár, þar
til þú neyddist að hætta að vinna vegna heilsubrests.
Þú varst listamaður og vandvirk með eindæmum öll handavinna lék í höndum
þér. Það eru til ófá meistarastykkin eftir þig; svo sem bútasaumur,
jólasokkar, ýmsir skrautmunir.
Ef þú værir að fara í nám í dag þá hefði upplýsingatækni örugglega átt vel
við þig. Þú varst mjög leikin við að stilla og tengja tæki og snúrur og
fljót að tileinka þér tölvutæknina.
Þegar ég hugsa um þig þá heyri ég tónlist sem þú hafðir mjög gaman af,
spilaðir á gítar, söngst vel og þér fannst gaman að dansa. Frasar á borð
við ég tekst á loft eða það fer um mig heyrðust oft þegar þú varst
uppnumin af lögum sem þú varst að hlusta á.
Jólin. Ein helsta ástæðan fyrir því að jólin skipta mig svo miklu er að þér
og pabba tókst alltaf að gera jólin okkar svo hátíðarleg og falleg, þótt
oft á tíðum væri þröngt í búi - jafnvel vegna veikinda ykkar
beggja.
Ofan á allt annað sem undan er gengið þá varstu greind með lungnaháþrýsting
á síðasta ári. Sá sjúkdómur og fylgikvillar urðu líklega til þess að
leggja þig að velli eftir hetjulega baráttu hjartað sem endalaust gaf
hætti að slá.
En fyrst og fremst varstu falleg, yndisleg, gjafmild manneskja með smitandi
hlátur og hjartað á réttum stað.
Hún hefur nokkra hildi háð
með vonina eina að vopni.
Á mörgu hefur hún sigrast á
en heldur því ekki á lofti.
(Guðrún Pálína, 2018)
Ég er heppin að hafa fengið að hafa þig, að eiga margar og yndislegar
minningar um þig sem eru sem ljós í lífi mínu. Ég er þakklát fyrir árin 50
og tímann sem við áttum saman.
Elsku mamma, takk fyrir allt. Ég sakna þín meira en ég kem orðum að. Sjáumst.
Guðrún Pálína (Gúlga).