Sólveig Guðjónsdóttir Blöndal fæddist á Kjörvogi í Árneshreppi í Strandasýslu 17. júlí 1939. Hún lést 26. maí síðastliðinn. Sólveig var dóttir hjónanna Guðmundu Þorbjargar Jónsdóttur frá Kjörvogi, f. 2. apríl 1916, d. 14. desember 2005 og Guðjóns Magnússonar frá Kjörvogi, f. 28. júní 1908, d. 25. janúar 1993.
Systkini Sólveigar eru:
1) Alda f. 14. sept. 1933, d. 3. nóv. 2013, maki Ásgeir Gunnarsson.
2) Magnús Guðjónsson f. 27. júní 1936, d. 24. feb. 2000, maki Laufey Kristinsdóttir,
3) Guðfinna Elísabet, f. 15. desember 1937, maki Bragi Eggertsson d. 24. sept. 2015,
4) Guðmundur Hafliði, f. 22. desember 1940, maki Dagný (Deng) Pétursdóttir. 5) Guðrún Magnea, f. 26. september 1942, maki Óskar Pétursson.
6) Haukur, f. 20. ágúst 1944, maki Vilborg G. Guðnadóttir.
7) Fríða, f. 11. mars 1946, maki Karl Ómar Karlsson.
8) Jörundur Finnbogi, f. 12. júní 1948, d. 4. ágúst 1999, maki Rannúa Leonsdóttir.
9) Kristín, f. 9. júní 1950, maki Þórir Stefánsson.
10) Daníel, f. 30. júní 1952, maki María Ingadóttir.
11) Þuríður Helga, f. 25. desember 1955, maki Garðar Karlsson d. 8. júní 2011.
Sólveig giftist Sigurði Blöndal f. 26. mars 1928, fæddur á Esjubergi á Kjalarnesi, 11. júlí 1964. Þau skildu. Foreldrar hans voru Helga Sigurðardóttir f. 6. júní 1899, d. 25. janúar 1988 og Magnús Jónsson Blöndal f. 9. apríl 1899, d. 5. júlí 1979.
Börn Sólveigar og Sigurðar eru 1) Helgi Þorbjörn f. 8. nóv. 1964, 2) Guðmundur f. 2. sept. 1970, maki Ingibjörg Hilmarsdóttir f. 14. sept. 1966. Þau skildu. Sonur þeirra er Guðjón Breki f. 19. júlí 2001, sonur Ingibjargar er Hilmar Númi f. 24. júní 1992, og 3) Dagný f. 12. nóv. 1971, maki Bjarni Reynir Kristjánsson f. 28. sept. 1963. Dætur þeirra eru Brynhildur Eva f. 9. nóv. 2010 og Hrafnhildur Eyja f. 14. okt. 2014. Börn Dagnýjar og fyrrverandi maka, Eiríks Bergmann Einarssonar f. 6. feb. 1969, eru Sólrún Rós f. 14. nóv. 1994, hennar dóttir er Dagný Birna f. 15. nóv 2018, og Einar Sigurður f. 2. júní 1999.

Sólveig stundaði nám í Reykjaskóla í Hrútafirði veturna 1956 – 1958. Þá flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún hóf stórf hjá Iðnaðarbanka Íslands. Frá árinu 1987 starfaði Sólveig í Íslandsbanka til þar hún fór á eftirlaun, árið 2004.

Sólveig var hagleikskona þegar kom að hvers kyns hannyrðum. Vandvirkni hennar og færni var alkunn þeim sem hana þekktu. Hún var hamhleypa til verka, ósérhlífin og greiðvikin. Sólveig var einnig bókelsk og safnaði að sér bókum, einkum um söguleg efni og ættfræði og gat oftar en ekki glöggvað sig á ætterni fólks, venslafólks síns sem annarra. Sólveig eignaðist sex barnabörn og eitt langömmubarn og var alla tíð mikilvægur hluti af lífi þeirra, með hlýju sinni, lifandi áhuga og nærveru.

Útför Sólveigar fer fram frá Fossvogskirkju þriðjudaginn 11. júní kl. 11.

Ég hafði ekki haft mjög mikið af Strandafólki að segja áður en ég kynntist Sólveigu tengdamömmu minni. Ég vissi auðvitað eins og aðrir að þeir væru göldróttir og margir miklar kempur. En með tengdamömmu og hennar stóru fjölskyldu kynntist ég líka höfðingsskap, hlýju og vinsemd sem ég hef notið allar götur síðan.

Sumir segja að fólk beri svipmót af þeirri náttúru sem það elst upp við. Það er því ef til vill ekki að undra að persóna Sólveigar hafi verið svipsterk eins og fjöllin fyrir norðan, í sveitinni hennar sem hún talaði oft um og bar í hjarta sér. Það var þess vegna ekki heiglum hent að vera öndverðrar skoðunar við hana þegar kom að pólitískum málefnum en þá gat þessi ljúfa kona orðið hvöss og ákveðin. Henni sveið hvers kyns óréttlæti og hún bar íslenska náttúru mjög fyrir brjósti og óttaðist oft það sem henni þótti skammsýni þeirra sem fara með okkar sameiginlegu mál. Góðu heilli lágu skoðanir okkar oftast saman en þá sjaldan við tókumst á brosti hún góðlátlega eftir á, glöð yfir debattinu.

Á fyrstu búskaparárum okkar Dagnýjar, dóttur hennar, reyndi ég stundum að skáka tengdamömmu í kökuskreytingum á tyllidögum. Ég lagði mig þá allan fram við að gera að minnsta kosti eina rjómaköku svo fallega að hún yrði að játa sig sigraða. En svo kom hún svífandi inn úr dyrunum með hnallþóru í hvorri hendi, því alltaf lagði hún með sér til hverrar veislu, og þurfti svo að fara aftur út í bíl að sækja meira. Og afreksverkin mín urðu hálf ræfilsleg þegar meistarverkin röðuðust upp allt um kring á veisluborðinu. En það brást ekki að hún hrósaði mér og hældi á hvert reipi og hvatti mig áfram. Ég fór hins vegar smám saman að láta mér nægja að rúlla upp pönnsum.

Á jólum og afmælum var það alltaf sérstakt tilhlökkunarefni þegar amma Solla kom með pakkana sína. Hún vær næm og fundvís á góðar gjafir og svo var þeim pakkað inn af ótrúlegu listfengi og smekk sem gerði pakkana svo fallega og ómótstæðilega lokkandi. Maður veigraði sér jafnvel við að opna þá til að þurfa ekki að eyðileggja þá. Það var augljóst að hún tók sér langan tíma til að nostra við þá og gera þá sem fallegasta fyrir okkur, fólkið sitt. Því þannig var hún einmitt, umhyggjusöm og hlý við okkur, fjölskylduna sína.

Sólveig var greind kona og bókhneigð og vel fróð um um sögu og ættfræði. Ég man varla eftir því að hafa komið til hennar í heimsókn án þess að rekast þar á nýjar bækur sem hún hafði sótt í bókahillurnar í Góða hirðinum eða á öðrum bókamörkuðum. Stundum fór hún heim með fulla innkaupapoka af bókum og þó hún skilaði mörgum þeirra aftur á markaðinn að lestri loknum voru skápar og hillur troðnar bókum og líklega enginn þeirra ólesin.
Ósjaldan fann ég bækur heima hjá mér sem ég kannaðist ekkert við að eiga. Þá vissi ég að tengdamamma hefði sem snöggvast litið við á heimleið af einhverjum bókamarkaðnum og skilið eftir handa mér eitthvað sem ég gæti haft áhuga á. Svona voru bestu gjafir hennar, hógværar og einlægar.

Það verður erfitt fyrir okkur öll að venjast því að amma Solla kíki ekki framar við í heimsókn eða slái á þráðinn til að heyra hvernig litlu trítlurnar hafi það. Barnabörnin hennar öll voru augasteinarnir hennar sem hún laðaði að sér með sinni rólegu nærveru. Og það var eftirsóknarvert að fá að gista hjá ömmu og lenda í alls kyns ævintýrum og dekri. Hjá henni var hægt að fá táneglurnar lakkaðar og fara í búningaleik með gömlu síðkjólana og hælaskóna. Kanínurnar í Elliðaárdalnum voru skammt undan og svo var líka auðvelt að draga ömmu í kósí undir teppi inni í litla sjónvarpsherberginu að horfa á spennandi teiknimyndir. Alls þessa og svo ótalmargs annars eiga litlu stelpurnar þínar eftir að sakna. En fyrst og síðast sakna þær elsku ömmu sem var óspör á faðminn sinn og ævinlega nálæg í lífi þeirra.

Nú kveðjum við þig, elsku Sólveig, í þakklæti fyrir allt það góða sem þú gafst okkur. Við vorum fólkið þitt og verðum það ætíð. Þú sýndir okkur sífellt í verki hvað þér þótti vænt um okkur og við geymum innra með okkur allar dýrmætu minningarnar um gæsku þína og gjafmildi.

Hvíl í friði elsku tengdamamma.

Bjarni

Bjarni Kristjánsson.