Einar Hannesson, lögmaður, fæddist í Reykjavík 16. janúar 1971. Einar lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 7. júní 2019.
Hann var sonur Hannesar Einarssonar og Ragnheiðar Gísladóttur. Eignuðust þau auk Einars soninn Grétar Hannesson. Þau skildu og síðari eiginkona Hannesar er Linda Saennak Buanak. Eignuðust þau tvo syni, þá Svein og Stefán.
Einar útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands. Starfaði hann fyrir samgönguráðuneytið og síðar fyrir Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel. Árið 2013 fluttist Einar til Íslands og starfaði við lögmennsku og sem fasteignasali. Árið 2018 var hann ráðinn aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.
Einar verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, 19. júní 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.
Einar skar sig úr og ögraði hefðbundnum viðhorfum: Olía var besta sólarvörnin; Skittles var stútfullt af næringarefnum; íþróttir voru stórhættulegar! Í eitt skipti var hann fenginn í viðtalsþátt í sjónvarpi allra landsmanna. Aðalstjarna þáttarins var Magnús Scheving, en Einar átti, að ég held, að mynda einhvers konar hugmyndafræðilegt mótvægi við hann, íþróttaálfinn sjálfan. Þátturinn er líklegast eina heimildin um að Einari hafi einhvern tíma á ævinni orðið orða vant. Íþróttaálfurinn var svo ákafur og sannfærandi í málflutningi sínum um gagnsemi þess að borða epli og gera armbeygjur að Einar koma varla orði að. Er íþróttaálfurinn tók síðan heljarstökk afturábak í beinni útsendingu játaði Einar sig endanlega sigraðan.
Einar hafði brennandi áhuga á stjórnmálum. Var afar vel upplýstur enda snemma sólginn í hvers kyns fréttatengt efni. Er klukkan sló tuttugu mínútur yfir tólf á hádegi var heilög stund, þá voru lesnar fréttir. Sagan endurtók sig klukkan sex. Hann var sjálfstæður og hafði sterkar skoðanir á bókstaflega öllu. Og aldrei skoraðist hann undan hressilegri rökræðu. Hann kom hreint fram og var fylginn sér. Hann var alltaf örlítið til hægri við þá sem almennt þóttu hægrisinnaðir. Hann varði Trump, en þar með var ekki sagt að hann félli sjálfur að staðalímynd hins gráðuga og samviskulausa kapítalista. Áhugi Einars og virk þátttaka í stjórnmálum hafði nefnilega ekkert með hans eigin hagsmuni að gera, heldur þá staðreynd að þau hafa svo mikla þýðingu fyrir líf fólks, eins og hann orðaði það við mig er hann lá á líknardeild og beið sinnar hinstu hvílu. Frelsi einstaklingsins, einkaframtakið og aðhald í ríkisfjármálum voru hans hugmyndafræðilegu leiðarljós. Á þau trúði Einar af einlægri sannfæringu og síst minni ákafa en íþróttaálfurinn á epli og armbeygjur.
Þrátt fyrir yfirlýst áhugaleysi Einars um íþróttir var hann meðal stofnfélaga Ungmannafélagsins Rögnunnar í Reykjavík, sem um nokkurra ára skeið tók þátt í utandeildinni í knattspyrnu. Eitt sumar atti Ragnan kappi við félag frá Vestmannaeyjum. Hafði þá einhver á orði að allir þyrftu að fá að vera með. Einar, sem jafnan sá um að grilla pylsur á leikjum, hafði ekkert spilað þótt langt væri liðið á tímabilið. Úr því varð að bæta. Á hliðarlínunni fékk Einar því lánaða takkaskó og stuttbuxur og bjó sig undir að koma inn á völlinn eftir upphitun sem samanstóð af stuttum sprettum og teygjuæfingum. Hann átti að vera frammi eins og sagt var. Þegar leikar höfðu stöðvast eftir mark frá Vestmannaeyingunum (sjálfsagt eitt af mörgum) gaf dómarinn grænt ljós á skiptingu. Einar hljóp þá skælbrosandi inn á völlinn eftir miðlínunni við mikinn fögnuð okkar félaganna og annarra áhorfenda sem til þekktu. En öllum að óvörum stöðvaði hann ekki við boltann á miðju vallarins eins og til var ætlast, heldur hélt för sinni áfram, þvert yfir völlinn og alla leið út af hinum megin. Stigvaxandi fögnuðurinn sem fylgdi því að Einari var skipt inn á rann saman við fagnaðarlætin sem urðu er hann fór út af vellinum. Þátttöku hans í leiknum var lokið. Einar var kannski ekki flinkur í fótbolta en svona gat hann óvænt lífgað upp á annars tilþrifalítinn fótboltaleik í utandeildinni.
Hitt er síðan, að þeir sem þekktu vel til Einars vissu að þar fór enginn aukvisi þegar kom að líkamlegu atgervi. Hann var þéttur á velli. Með firnasterka fætur og þyngdarpunktinn fremur neðarlega, var hann öruggur á skíðum, bæði á snjó og vatni. Hann fór lengi allra sinna ferða á hjóli óháð veðri og vindum; og fór svo greitt yfir að ógerningur var að halda í við hann. Hann hafði úthald í margra daga gönguferðir um hálendið; nestislaus, ef undan eru skilin nokkur hundruð grömm af Skittles. Og hann gat synt lengra í kafi en nokkur annar sem ég hef um ævina kynnst. Skútunni sinni sigldi hann síðan einn um heimsins höf, dögum og jafnvel vikum saman án þess að sjá til lands. Sannkallað þrekvirki.
Undir hið síðasta hafði verulega dregið af Einari vegna langvarandi veikinda. Er svo var komið að hann hafði ekki lengur þrek til að rökræða varð mér ljóst að tími væri kominn til að kveðja einn allra besta vin sem ég hef um ævina eignast.
Megir þú hvíla í friði.
Óttar Pálsson