Guðfinna Karlsdóttir fæddist 16. janúar 1929 í Reykjavík. Hún lést í Sunnuhlíð 7. júní 2016.
Foreldrar hennar voru hjónin Karl Þorsteinsson bakari, f. 26. apríl 1900, d. 1978, og Jónína Þorkelsdóttir, f. 21. september 1904, d. 1987. Þau slitu samvistum.
Alsystkini Guðfinnu eru Erna, f. 1924, d. 1942, Ester, f. 1927, og Sigurður, f. 1930.
Seinni kona Karls var Ólöf Markúsdóttir. Börn þeirra eru Örn, f. 1936, Kalla Lóa, f. 1939, Guðrún Erna, f. 1941, d. 1945, og Óskar, f. 1943, d. 1992.
Seinni maður Jónínu var Samúel Ingi Olgeirsson. Börn þeirra eru Guðrún, f. 1933, d. 1991, Salóme Jóna, f. 1935, d. 1935. Valdís, f. 1936, og Þorkell, f. 1937.
Guðfinna giftist Geir Kristjánssyni. Hann er sonur Kristjáns Júlíussonar, f. 1889, d. 1986, og Geirlaugar Pálsdóttur, f. 1886, d. 1954.
Börn Guðfinnu og Geirs eru 1) Sólrún, f. 1947, sambýlismaður hennar er Sigurður H. Helgason. Hún var gift Baldri Hannessyni, f. 1946, þau skildu, börn þeirra eru a) Hlynur, f. 1966, kona hans er Anna Kristín Gústavsdóttir, börn þeirra eru Birna Íris, Sól Margrét og Máni Björn . b) Lilja Björk, f. 1971. Börn hennar eru Karen Ösp, Tinna Marín, Kristel Lind og Jökull Logi, c) Reynir, f. 1974, kona hans er Gladys Munoz, barn þeirra er Adrian Smári.
Langalangömmubörnin eru tvö, Margrét Ylfa og Úlfur Ari.
2) Róbert, f. 1949. Kona hans er Sigríður Ólafsdóttir, f. 1951. Saman eiga þau börnin a) Geir Ragnar, f. 1973, sambýliskona hans er Dröfn Stína Guðmundsdóttir. Saman eiga þau Ásthildi Öldu. b) Kjartan Róbertsson, f. 1976, eiginkona hans er Karitas Jónasdóttir. Börn þeirra eru Dagbjört Erla, Tristan Dúi og Karen Emma.
c) Róbert Ólafur, f. 1979, sambýliskona hans er Hrefna Núpdal. Börn þeirra eru Laura, Eygló og Erla. d) Finnur Örn, f. 1990.
Guðfinna ólst upp á Sólheimum í Grímsnesi fram á unglingsár og fluttist þá til Reykjavíkur. Þar fékkst hún við ýmis störf svo sem hjá Matstofu Austurbæjar, hjá Sælakaffi og seinna hjá bæjarútgerðinni. Einnig starfaði hún í Hagkaup við verslunarstörf.
Síðustu árin voru þau til heimilis að Skúlagötu 40 en Geir dvelur nú á Hrafnistu í Hafnarfirði.
Jarðarförin fer fram frá Digraneskirkju, Kópavogi, í dag, 22. júní 2016, kl. 13.

Það er svo ótrúlega margt fallegt sem ég get skrifað um hana ömmu mína. Ætla hér í örfáum orðum að reyna að lýsa henni ömmu.

Alveg frá því að ég var pínulítill kjáni og rétt farinn að muna eitthvað af viti kemur amma stöðugt fyrir í minningunum, sem konan sem var alltaf til staðar, alveg sama á hverju gekk, þá var hún þar. Hún var alltaf fyrst til að stíga fram ef einhver átti í erfiðleikum, hvort sem það voru fjárhagserfiðleikar eða annars konar vandamál. Hún mátti ekki sjá aumur á neinum. En amma Dodda var líka stjórnsöm og ákveðin, hún óð í verkin og kláraði þau.

Þær eru óteljandi gistinætur mínar hjá Ömmu Doddu og Geir afa, bæði í Bólstaðarhlíð og í Löngubrekku, þegar ég var krakki og hver einasta þeirra var eins og lítið ævintýri, þar sem ýmislegt var brallað, horft á einhverjar svart hvítar grínmyndir og hlegið svo tárin runnu, spjallað um heima og geima, farið í bíltúr eða dedúera eitthvað með afa út í skúr og svo farið inn að fá eitthvað gott í gogginn hjá ömmu, hún átti alltaf eitthvað gott að borða eins og auðvitað flesta ömmur eiga í búrinu sínu, en hún lét fylgja extra skammt af ást, umhyggju og hlýju með hverri kökusneið og hverju mjólkurglasi, svo horfði hún á mann maula þetta, spjallaði við mann og sagði sögur. Það má eiginlega segja að ég hafi á fyrstu árum ævi minnar alist upp hjá þeim hjúum ömmu og afa.

Ég hef einu sinni á ævinni strokið að heiman, milli fimm og sex ára, sennilega eitthvað fúll út í mömmu og pabba, man ekki ástæðuna, enda man ég ekkert eftir þessu, en ég ákvað greinilega að leggja af stað út í hin stóra heim frá Mávahlíðinni, og hvert fór ég, jú til til Ömmu og afa í Bólstaðarhlíð, stærri var heimurinn ekki hjá grísinum. Hvernig ég komst yfir Miklubraut veit ég ekki, en það voru allir voða fegnir þegar ég birtist hjá ömmu.

Amma átti skemmtara, sem okkur krökkunum fannst voða skemmtilegt að hamra á, en þar sem ég er alveg einstaklega illa lagheldur og tónlistargáfur mínar á pari við simpansa, kom aldrei neitt að viti frá þessu glamri mínu, þó tókst ömmu að kenna mér tvo lagastúfa og með einstakri þolinmæði og yfirsetu í marga klukkutíma varð ég hæfur til að spila brot úr þessum lögum og var alveg ótrúlega stoltur yfir því, annað lagið var Atti Katti Nóa man ekki hvað hitt hét, en svo þurfti aumingja amma að hlusta á þetta daginn út og inn, en alltaf klappaði hún og hrósaði manni fyrir snilldina" já þolinmæðin var endalaus.

Amma elskaði að tala um gamla daga, hún gat talað endalaust um gamlar minningar og fólk sem hún hafði þekkt og hitt á lífsleiðinni, sumt af því fólki hafði ég ekki hugmynd um hverjir voru, en það skipti bara engu máli. Sumar sögurnar heyrði maður oft og mörgum sinnum, en það var bara allt í lagi, það var samt gaman að heyra þær aftur og aftur, þegar amma talaði þá hlustaði maður, það var bara þannig. Þegar ég síðan komst á fullorðinsárin gátum við amma spjallað um allskonar hluti og málefni tímunum saman, mér þótti óskaplega gaman og vænt um það.

Þegar ég var á milli 12 og 13 ára gerðist ég þungarokkari, keypti Kiss plötu og spilaði fyrir ömmu, mig minnir að það hafi verið Live II platan og auðvitað fílaði hún hana í ræmur og við hlustuðum á hana aftur og aftur, í dag er ég ekkert viss um að hún hafi í alvöru verið að fíla hana, en ég man hvað litla metalhjartað í mér var að springa úr stolti að eiga ömmu sem fílaði þungarokk. mér fannst það geðveikt. En þannig var amma bara, hún setti sig inn í áhugamál okkar og studdi mann, sama hvaða vitleysu maður fékk í kollinn, þá var amma með manni alla leið. Ég er sem betur fer enn þungarokkari og að hluta til, held ég geti þakkað ömmu fyrir það, því að ef hún hefði sagt að maður hlustaði ekki á svona garg eins og svo margir sögðu á þeim tíma, þá hefði ég sennilega bara haldið áfram að hlusta á ABBA og hent Kiss plötunni í ruslið. Amma hlustaði aftur á móti Jazz og allskonar skemmtilega tónlist og mér fannst það mér cool líka.

Amma eldaði góðan mat, hryggurinn sem hún eldaði var svo góður að þegar hún hringdi og bauð manni í hrygg, þá droppaði maður öllum plönum og mætti í mat, það var bara þannig! Ég hef oft og mörgum sinnum reynt að elda hrygg eins og hún og eftir hennar leiðbeiningum, það hefur aldrei tekist, ég fattaði það snemma að það var vegna þess að það var ég sem eldaði hann en ekki amma, hún setti slatta af sál sinni í hverja máltíð, sama hvort það var soðin fiskur, kjúlli eða hryggur, allt sem kom á diskinn frá ömmu var klikkað!

Amma lifði fyrir börnin sín, barnabörn, barnabarna og barnabarnabarnabörn við vorum augasteinarnir hennar alla leið og við komum aldrei að lokuðum dyrum hjá henni eða afa Geir!

Elsku amma, ég veit að allar góðar vættir eru hjá þér og ég veit að þú færð til baka alla þá hlýju, umhyggju og ást sem þú sýndir öllum sem þú þekktir og þá sérstaklega barna og barnabarnabörnum þínum, við eru svo einstaklega heppin að hafa átt þig að.

Hvíl í friði elsku amma Dodda.

Hlynur Baldursson.