Sigrún Sigurgeirsdóttir fæddist á Ísafirði 23. apríl 1935. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 15. júní 2019.
Foreldrar hennar voru hjónin Sigurgeir Bjarni Halldórsson frá Minni-Bakka í Skálavík, f. 2.3. 1908, d. 31.3. 1972, og Sveinsína Björg Guðmundsdóttir frá Tungugröf í Tröllatunguhreppi en alin upp í Bolungarvík frá 7 ára aldri, f. 17.5. 1908, d. 11.9. 1983. Sigrún var þriðja í röð tólf systkina en auk þess ólst upp á heimilinu systurdóttir hennar, Pálína K. Þórarinsdóttir.
Sigrún ólst upp á Ísafirði og bjó þar allan sinn aldur fyrir utan síðasta rúman áratug sem hún bjó í Stykkishólmi ásamt eiginmanni sínum, Gunnlaugi Valdimarssyni, f. 20.5. 1927, d. 27.3. 2019, en hún var nýflutt aftur heim á Ísafjörð þegar hún lést.
Systkini Sigrúnar eru: Hafsteinn, f. 16.9. 1930, d. 19.4. 2012. Ingibjörg, f. 14.5. 1932, d. 6.4.1997. Sæunn Marta, f. 12.11. 1936. Garðar Ingvar, f.15.11. 1938. Helga, f. 18.2. 1940. Halldór, f. 7.2.1943. Margrét, f. 23.8. 1944. Lilja, f. 3.3. 1946. Hafþór, f. 28.6. 1949, d. 27.5. 2006. Sveinsína Sigurveig, f. 13.7. 1950. Hörður Bergmann, f. 23.7. 1936, d. 5.12. 1998.
Börn Sigrúnar sem hún eignaðist með Jóni Gunnari Sigfúsi Björgúlfssyni, f. 29.9. 1931, d. 19.4. 1971, eru: Sveinsína Björg Jónsdóttir, f. 10.12. 1953. Hún á fimm börn.
Sigurgeir Hrólfur Jónsson, f. 31.5. 1955. Maki: Þórdís Mikaelsdóttir. Þau eiga saman tvö börn, fyrir átti Sigurgeir tvær dætur.
Börn Sigrúnar sem hún eignaðist með fyrri eiginmanni sínum, Sverri Halldóri Sigurðssyni, f. 6.9. 1936, d. 25.7. 1996, eru: Bjarnþór Haraldur Sverrisson, f. 3.9. 1957. Hann á tvær dætur. Sigríður Inga Sverrisdóttir, f. 16.7. 1959. Maki: Árni Sigurðsson. Hún á einn son. Kolbrún Sverrisdóttir, f. 4.5. 1961. Hún á þrjú börn. Guðmundur Bjarni Sverrisson, f. 22.9. 1965. Maki: Sakuntara Chantavong. Þau eiga einn son. Halldór Benedikt Sverrisson, f. 15.7. 1967. Hann á einn son. Hafsteinn Sverrisson f. 13.11. 1972. Maki: Margrét Björgvinsdóttir. Þau eiga saman þrjú börn, fyrir átti Hafsteinn eina dóttur. Barnabörn Sigrúnar eru 21 og barnabarnabörnin 32 talsins, von er á fyrsta barnabarnabarnabarninu í haust.
Útför Sigrúnar fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 22. júní 2019, klukkan 14.

Því aðeins færð þú heiðrað og metið þína móður,
að minning hennar verði þér alltaf hrein og skír,
og veki hjá þér löngun til að vera öðrum góður
og vaxa inn í himin þar sem kærleikurinn býr.
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Þessi orð minna mig um margt á hana mömmu mina, hún var af þeirri kynslóð sem kunni að heiðra og meta fólk, var nægjusöm og féll aldrei verk úr hendi. Hún kenndi okkur líka að vera góð hvert við annað og það var henni sérlega mikilvægt, að við værum góð við allt og alla. Þannig var hún og þannig munum við börnin hennar minnast hennar, með virðingu og þökk og það sem gleður mig kannski hvað mest, það er að þannig er hennar minnst af samferðafólki hennar.
Það fer enginn í skóna hennar mömmu, fyrst og fremst af því að á allri þessari vinnusömu ævi gekk hún um á fötluðum fæti, bar átta börn í heiminn, var í minningunni aldrei veik, þurfti aldrei að hvílast, hafði alltaf tíma fyrir allt og alla og sagði ekki nei væri hún beðin um aðstoð við einhvern hátt.
Hún var þriðja í röð af tólf systkina hópi svo hún lærði fljótt að lífið snerist um það að allir ynnu saman og hjálpuðust að. Þannig var og er systkinahópurinn hennar, stendur þétt saman, svo þétt að eftir því er tekið. Í þessum stóra hópi upplifði ég samt alltaf mömmu mína sem foringjann, hún kunni að miðla málum, hugga, hjúkra, hjálpa og gefa, hún kunni líka að samgleðjast fólki. Í minningunni stóð heimili mömmu alltaf opið og hún var til staðar. Meðfram vinnu og barnauppeldi sinnti hún svo ýmsum hjáverkum eins og að skella permanetti í hár, setja rúllur og lit, bursta skó og pressa föt ef einhver var á leiðinni út á lífið, hún opnaði faðminn fyrir fólki í sorg og gleði en hún las því líka pistilinn umbúðalaust ef þess þurfti. Hún nýtti barnahópinn sinn eins og lítið fyrirtæki til að létta undir með öðrum til dæmis í sendiferðir og barnapössun og stýrði fjarðlægðinni frá heimilinu okkar í Vallarborg hversu langt hún gaf leyfi fyrir að við færum í verkefni. Ég var yfirleitt barnfóstra í nærumhverfinu þar sem hún gat skorist í leikinn ef eitthvað brygði út af en hinir eldri voru sendir lengra, það var ekkert elsku mamma með það, við áttum að læra að vinna og taka ábyrgð. Í viðbót við allt þetta þá hnýtti hún á tauma fyrir línubáta og þar tóku allir þátt, ef einhver kíkti í kaffi þá var hinn sami að minnsta kosti kominn með eitt búnt í hendurnar og krekjukassa. Hún var konan sem hélt stórfjölskyldunni saman með einstakri tryggð og hún uppskar líka eins og hún sáði, systkinabörnin hennar mörg hver áttu í henni ígildi mömmu og ömmu, hún vakti yfir velferð þeirra og sum voru alin upp við fætur hennar.
Það verður aldrei hægt að minnast svo stórbrotinnar konu í einni minningargrein, það þarf klárlega að gera framhald og ég held að mömmu fyndist það ekki leiðinlegt enda sérlegur áhugamaður í seinni tíð um sjónvarpseríur eins og Glæstar vonir. Þar var hún, eins og með fjölskylduna, með allt á hreinu og það var með ólíkindum fallegt að grípa inn í samræðurnar hjá henni og Gulla stjúpa mínum þegar hann, sem vildi nú ekki alveg kannast við að horfa á þessa þætti, ræddu um Rick og Brook og hvert þetta stefndi. Ég hváði enda ekki inni í söguþræðinum.
Í sögunni hennar mömmu eru margar aðalpersónur, sá sem ber þar hæst er náttúrlega umræddur Gulli sem hún var í ástarsambandi við sem ung stúlka áður en hún eignaðist börn. Vegir þeirra lágu í sitthvora átt á lífsleiðinni en árið 1995, þegar mamma var sextug, bankaði þessi sjarmur uppá hjá henni heima á Ísafirði og hún þá fráskilin, eins og gerist í góðum framhaldsþáttum, og hann orðinn ekkill. Hann þáði kaffibolla og þá varð ekki aftur snúið, mamma var komin með kærasta. Þau geisluðu af hamingju, héldust í hendur og sumum afkomendunum þótti víst nóg um þegar hann var að segja frá kærastanum hennar ömmu heima hjá vini sínum svo fóru þau í bíó, héldust í hendur og þau kysstust . Honum var hreinlega ekki skemmt enda fannst honum amma orðin rígfullorðin.

Í sögunni hennar mömmu verða líka aðalleikarar eins og presturinn hennar, það hlutverk fær enginn nema séra Magnús. Í hlutverk læknisins, Þorsteinn Jóhannesson, og í hlutverki verkstjórans hjá Ísafjarðarbæ hann Doddi minn, sonur hans Jóa á Esso sem í minningunni þegar mamma hringdi á fullorðinsárum búandi í Grundargötunni og spurði: Doddi minn ætli þið ekkert að sanda, það er svo mikil hálka? Það var eins og við manninn mælt þegar hún lagði af stað labbandi út í Björnsbúð var búið að sanda leiðina.
Í sögunni hennar mömmu munu koma fram allskonar fallegir hlutir, sannir og sumir færðir í stílinn. Í lokakaflanum verður þessi yndislega mamma orðin rígfullorðin, skrokkurinn lúinn og þreyttur, hugurinn skarpur, stoltið á sínum stað og sjálfstæðið óheft, hún vissi hvað hún vildi.
Hún var komin heim í fjörðinn sinn fallega, komin heim til að heilsa sínu fólki og til að kveðja, komin heim með elsku Gulla sinn sem hún elskaði mest og saknaði svo sárt, komin heim buguð en ekki brotin og munið það, hún var ekki komin heim til að fara á neitt hjúkrunarheimili. En í minni útfærslu af sögunni þinni, elsku mamma mín, þá hefðir þú verið frábær kandídat á Hjúkrunarheimilið Eyri, þar sem allt er svo fallegt og gott, því þú varst svo skemmtilegur karakter. Elsku hjartans mamma, þú varst engill í mannsmynd, í sögu afkomenda þinna varst þú klárlega aðalleikarinn og þó hlutverkið væri oft á tíðum illa borgað þá held ég að þú getir stolt horft yfir hópinn þinn og verið sátt.
Guð geymi þig, hafðu hjartans þökk fyrir allt.
Þín

Kolbrún.