Brynjar Axelsson fæddist 6. maí 1931 á Akureyri. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð 16. júní 2019.
Foreldrar hans voru Sveina Jóhanna Randíður Jakobsdóttir frá Akureyri, f. 15.11. 1911, d. 7.11. 1967, og Aksel Oshaug frá Melbu Noregi, f. 9.8. 1900, d. 27.2. 1966. Brynjar átti fimm hálfsystkini, fjögur samfeðra, þau Monrad Roger Oshaug, f. 2.2. 1919, d. 18.9. 1990, Brynjulf Oshaug, f. 6.8. 1926, d. 30.12. 2015, Kolbjørn Oshaug, f. 6.11. 1930, d. 4.1. 1999, og Ellen Johanne Steimoeggen (Oshaug), f. 15.1. 1934, d. 8.3. 2011, öll búsett í Noregi. Sammæðra átti Brynjar einn bróður, Benedikt Hallgrímsson, f. 23.6. 1940, búsettur á Akureyri.
Brynjar fór sem ungt barn til vistar í Hólum í Reykjadal hjá Kristínu Jakobsdóttur vefnaðarkennara, f. 7.7. 1891, d. 21.3. 1978, og bróður hennar Haraldi Jakobssyni, bónda í Hólum, f. 25.4. 1906, d. 30.5. 1996. Sú vist varð örlagarík þar sem Brynjar festi rætur og ólst þar upp til fullorðinsára.
Árið 1950 flutti Brynjar í Glaumbæ í Reykjadal þar sem hann hóf sambúð með Guðnýju Kristjánsdóttur, f. 22.7. 1932, d. 15.5. 2017. Guðný var dóttir hjónanna Kristjáns Jónssonar frá Úlfsbæ, f. 22.7. 1900, d. 1.6. 1976, og Evu Tómasdóttur frá Brettingsstöðum, f. 11.5. 1907, d. 27.5. 1982.
Þann 19. nóvember 1955 kvæntist Brynjar Guðnýju, þeirra börn eru fjögur. 1. Kristín, f. 29.1. 1951, hennar börn eru: Sveina Björk, Guðný og Sunna Hlín. 2. Jón Kristján, f. 21.8. 1952, maki Jo Ann Hearn, hans börn eru; Margrét, Hulda Guðný, Brynja Herborg og Andri Freyr. 3. Lilja, f. 7.3. 1961, hennar börn eru: Janus Þór, Ingibjörg, Birgir, Halla og Alexander. 4. Valþór, f. 24.4. 1963, maki Valdís Lilja Stefánsdóttir, börn þeirra eru: Eva Kristín, Brynjar, Þórgnýr og Stefán.
Í byrjun bjuggu Brynjar og Guðný félagsbúi með foreldrum Guðnýjar, síðar tóku þau alfarið yfir búskapinn og bjuggu hefðbundnum búskap í Glaumbæ þar til árið 1979 að þau brugðu búi og fluttu til Akureyrar.
Brynjar var bóndi að aðalstarfi en vann þó tímabundin störf meðfram búskap, bauðst tækifæri til þess, helst við byggingarvinnu og var uppbygging Laxárvirkjunar þar einna fyrirferðarmest.
Á Akureyri var hann um tíma verkstjóri hjá Plasteinangrun hf. en síðar aðstoðarmaður á rannsóknarstofu fóðurverksmiðjunnar Laxár hf. þar sem hann lauk sinni starfsævi.
Útför Brynjars fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 28. júní 2019, kl. 13.30.

Það er ögn tómlegt nú þegar þú ert farinn, fastur punktur í tilverunni var orðinn að kíkja á gamla á Hlíð og endalokin voru þér kærkomin langar mig að trúa, fyrir tveim árum fór mamma og þú lofaðir henni við kveðjustund hennar að þú kæmir eins fljótt og þú gætir. En þú barðist hetjulega við þinn sjúkdóm og ég er ekki endilega viss um að hann hafi haft betur, tíminn var bara kominn og þú orðinn saddur, lái þér hver sem vill.

Ég verð að viðurkenna það að það reynist mér erfitt að skrifa, minningarnar eru margar í gegnum árin, uppvaxtarárin mín í Glaumbæ, flutningurinn þaðan og hingað til Akureyrar, og þrátt fyrir að hafa verið tölvuvert lengur á Akureyri, er tíminn í Glaumbæ einhvern veginn sá sem kemur oftar uppí hugann, sennilega vegna þess að þá er maður barn, síðar unglingur og bjó að sjálfsögðu hjá ykkur mömmu. Það úir og grúir af minningarbrotum sem einkennist af miklu lífi, fjörugu, stundum dramatísku og gestagangi þar sem nálægðin við sambýli við ömmu og afa og nálægð við næsta bæ var svo mikil að þetta rennur svolítið saman hjá mér. Þegar maður lítur til baka þá var kannski full mikið í gangi fyrir þinn smekk ,ekki sóttist þú eftir athygli,  varst hljóður, íbygginn og dróst þig gjarnan í hlé þegar aðrir á torfunni þurftu sitt pláss. Þá var gott að eiga stund í fjósi eða hlöðu með þér og spjalla, oft um fjárbúskap en á honum hafðir þú meiri áhuga en kúnum en sagðir svo þegar ég spurði hvort við ættum ekki bara að vera með rollur ja maður verður nú að lifa á einhverju, svo kom glottið sem kom svo oft þegar þú hugsaðir eitthvað með sjálfum þér, megnið var samt geymt í kollinum , já þú varst fámáll og djúpt var oft á þínum meiningum en hnyttinn varstu þegar það kom, þá var það yfirleitt beint í vinkilinn.

Heilan vetur áttum við saman þegar mamma vann í mötuneytinu á Laugum og vaktir og veður stundum þannig að við vorum bara tveir, og það sem við átum af slátri þennan vetur og drukkum kaffi, tefldum og ræddum framtíðina, ég sá  auðvitað um spurningarnar, þá var heilsan farin að dala og mögulega væri skynsamlegt að skipta um umhverfi og starfsvettvang og þá kom Akureyri strax upp sem fyrsti kostur þar sem Bensi bróðir þinn og Halli afi áttu heima og tvö elstu börnin ykkar mömmu búin að koma sér fyrir á þeim slóðum, svo þangað sótti hugurinn þrátt fyrir að vera alinn upp í dalnum, og Hólamaður varstu nú alltaf, það skynjaði maður þegar ég ósjaldan fékk að fljóta með í útibúið, þá var gjarnan komið við hjá Gunnu og Halla og auðvitað Stínu meðan hennar naut við, þá leið þér eins og þú værir kominn heim, maður pældi bara ekkert í því þá en auðvitað var eðlilegt að þér liði vel þar, innan um þitt fólk, komst þangað í vist um fjögurra ára aldur, tímarnir þá voru aðrir, svokallað millistríðsáratímabil og seinni heimstyrjöldin í uppsiglingu, það var ekki auðvelt fyrir einstæða unga móður að heyja lífsbaráttuna, hvað þá að sjá á eftir kornungum syni sínum í vist þótt um tímabundna ráðstöfun væru um að ræða, til fólks sem hún vissi svo sem lítið um en þetta var svo sem ekki óalgengt á þessum árum.

Fáum árum eða misserum síðar er Sveina amma komin í aðra stöðu þá er Halli afi kominn og þvílík himnasending var að fá hann í líf okkar, dásamlegur afi og húmoristi og svo var Bensi frændi  á leiðinni. Því miður náði ég ekki að kynnast Sveinu ömmu að neinu ráði enda bara fjögurra ára þegar hún dó en man þó eftir heimsókn á sjúkrahús, klappi á kollinn og stroku um vangann.

Þegar þarna var komið fórst þú aftur til Akureyrar í barnaskóla sem partur af þessari litlu fjölskyldu en þá hafðir þú þegar skotið rótum í dalnum og Halli og Stína í Hólum búin að sigra hjartað þitt a.m.k. hluta af því þannig að  þangað fórstu strax um vorið og varðst Hólamaður.

Á spjalli okkar bar líka stundum á góma að þú væri útlendingur meira að segja með ættarnafn, ég vissi að ég átti afa í Noregi og fannst ekki lítið spennandi, skyldi hann vera á lífi? ætti hann fleiri börn? Eigum við ekki að reyna að finna hann? Nei það fannst þér ekki vera viðeigandi það gæti ruggað einhverju og skapað sundrungu en undir niðri skynjaði maður löngun en það var bara ekki þinn stíll að vera með vesen, svo liðu árin og þið mamma fluttuð til Akureyrar 1979, hófuð nýtt líf, keyptuð ykkur fyrstu íbúðina fyrsta sófasettið í ykkar fyrstu stofu, já lífið var öðruvísi, nú var Halli afi innan seilingar, Bensi bróðir með sinn hóp og nú þrjú af fjórum börnum ásamt barnabörnum í nágrenni við ykkur, bæði þú og mamma í vinnu og vinahópurinn stækkaði hratt, auðvitað togaði dalurinn eitthvað en þó kannski meira í mömmu en þig fannst mér, þú varst einhvern veginn algerlega tilbúinn í þessar breytingar, en þið stóðuð saman í þessu eins og öðru.

Með árunum jókst forvitni annarra um að vita eitthvað meira um uppruna þinn og um leið okkar og nógu mikið vissum við til að senda bréf til Noregs og árið 2001 létum við verða af því og sendum á kirkjusókn í norður Noregi,  svarið var einfalt afi Axel  Åshaug hét  Aksel Oshaug og hafði dáið fyrir mörgum árum barnlaus,  þá var það afgreitt, eða það héldum við en 2003 kemur svo auglýsing í blaði sem var svo sláandi að ekki var annað hægt en að bregðast við og setja sig í samband, og þvílíkir fagnaðarfundir verð ég að segja og allt í einu eignaðist þú föðurfjölskyldu, alveg risastóra með enn stærri faðm. Skrýtið var svarið samt tveimur árum áður en það var ekki þinn stíll að vera með vesen og fögnuðurinn yfir því að loksins finna föðurfólkið var einhverju tækniatriði yfirsterkara.

Nú var ekki annað í stöðunni en að reyna að koma á ferð til gamla landsins og loka hringnum, signa gröf föðurins og heilsa uppá frændfólkið sem beið í ofvæni að hitta týnda frændann, að sjálfsögðu tókstu öllu með ró og varst ekki alveg viss hvernig ætti að nálgast þetta en undir niðri var stoltið og léttirinn að eygja nú möguleikann á að hitta þitt fólk og með sameiginlegu átaki og hvatningu frá börnum og barnabörnum fórum við Stína systir með ykkur mömmu í ógleymanlega ferð eftir endilöngum Noregi því ekki var annað í stöðunni en komast á slóðir Aksels afa. Þar hittum við all marga ættingja og af mörgum hápunktum fannst mér standa upp úr þegar þú komst að gröf afa, tilfinningar barstu ekki utan á þér en þarna kom eitthvað og fór alveg inn að kviku það sá maður og þegar eitthvað gerist sem er óvenjulegt tekur maður sérstaklega eftir því, eins þegar við sátum kaffiveislu hjá Ola frænda sem býr nú á Villaveien 11, húsinu sem afi byggði, var ómetanlegt að sjá og upplifa með þér. Í þessari ferð sýndirðu nýja hlið á þér og settir saman ræðu sem ég flutti svo fyrir þig fyrir norska frændfólkið, hún var fáorð, einlæg og hitti í mark.

Nú er komið að kveðjustund gamli minn, þrátt fyrir sorg og trega er líka huggun að vita að nú ertu kominn til mömmu sem þú saknaðir svo mjög.

Minning um yndislegan pabba, tengdapabba og afa mun ávallt lifa með okkur, þið mamma voruð best.

Góða ferð pabbi og takk fyrir mig

Þinn sonur

Valþór.