Friðrik Jón Kristjánsson Dýrfjörð fæddist á Siglufirði 16. mars 1931. Hann lést þar 14. júní 2019.
Foreldrar hans voru Þorfinna Marsibil Sigfúsdóttir matráðskona, f. á Siglufirði 3. maí 1903, d. þar 4. febrúar 1990, og Kristján Markús Dýrfjörð Kristjánsson rafvirkjameistari, f. á Ísafirði 22. júní 1892, d. í Hafnarfirði 16. ágúst 1976. Albræður Jóns eru þrír: Bragi, f. 27. janúar 1929, d. 20. mars 2004, giftur Sigrúnu Svanhvíti Kristinsdóttur, látin 2004. Guðmundur Skarphéðinn, f. 1. nóvember 1933, d. 27. júní 1935. Birgir, f. 26. október 1935, giftur Kristínu Viggósdóttur, f. 1939. Hálfbróðir Jóns samfeðra var Hólm, f. 21. febrúar 1914, d. 19. ágúst 2015, kona hans Sigurrós Sigmundsdóttir, látin 1999. Hálfsystkini Jóns sammæðra voru Margrét Ólafsdóttir, f. 1. september 1921, d. 12. ágúst 2005, gift Jónasi Þ. Ásgeirssyni, látinn 1996 og Baldur Ólafsson, f. 13. mars 1925, d. 6. desember 1967, giftur Kristínu Rögnvaldsdóttur, látin 2010.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Anna Erla Eymundsdóttir, f. 17. október 1934 á Seyðisfirði. Foreldrar hennar voru Eymundur Ingvarsson, f. 31. maí 1883, d. 9. júní 1959, og Sigurborg Gunnarsdóttir, f. 9. apríl 1906, d. 22. nóvember 1983. Erla og Jón giftu sig 16. mars 1956.
Börn Jóns og Erlu eru fimm: 1) Sigfús, f. 2. ágúst 1952, giftur Önnu Maríu Guðmundsdóttur, dóttir þeirra Anna Kristín, gift Þorleifi Sigurþórssyni og eiga þau tvo drengi. 2) Sólveig Dýrfjörð, f. 4. júlí 1955, d. 2. ágúst 2013. 3) Helena, f. 20. júlí 1960, gift Birni Jónssyni. Börn þeirra: Erla, gift Gauta Þór Grétarssyni, eiga tvö börn, þá á Gauti tvær dætur. Jón Ingi, giftur Þórgunni Lilju Jóhannesdóttur, eiga þrjú börn. Rakel Ósk, sambýlismaður Gísli Sigurðsson. 4) Baldur, f. 5. ágúst 1962, giftur Bergþóru Þórhallsdóttur. Börn Baldurs með Ástu Hrönn Jónasdóttur; María Rut, gift Halldóri Haukssyni, eiga tvær dætur, Friðrik Bragi, sambýliskona Hildur Sigurðardóttir, eiga eina dóttur, Kristján Atli, sambýliskona Kristín Björg Emilsdóttir. Börn Bergþóru og fósturbörn Baldurs eru fjögur; Svala, sambýlismaður Páll Hreinn Pálsson, eiga tvær dætur, Gísli Steinar, Telma og Björk, sambýlismaður Magnús Heiðdal. 5) Þórgnýr, f. 16. desember 1967, giftur Aðalheiði Hreiðarsdóttur. Börn þeirra Styrmir, sambýliskona Alex Steinþórsdóttir, Bjarmi og Embla.
Eftir að foreldrar Jóns skildu ólst hann upp hjá móðurafa sínum og ömmu, Sigfúsi Ólafssyni, f. 24.8. 1882, d. 3.11. 1980, og Sólveigu Jóhannsdóttur, f. 29.1. 1880, d, 9.4. 1948.
Jón lærði iðn sína við Iðnskólann á Sauðárkróki en lauk síðar prófi frá Iðnskólanum á Siglufirði. Fór til Seyðisfjarðar 1951 og starfaði hjá Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar í um þrjú ár. Árið 1955 flytja þau Erla til Siglufjarðar og Jón hefur störf á Rauðkuverkstæðinu. Árið 1957 hófu hann og Erla húsvarðarstarf við Gagnfræðaskólann á Siglufirði. Árið 1962 hóf Jón alfarið að vinna sjálfstætt í eigin rekstri, fyrst með Ragnari Sveinssyni en síðar með Erlingi Jónssyni. Á níunda áratugnum fór Erling út úr rekstrinum. JE Vélaverkstæði selja Jón og Erla þegar Jón er sjötugur til lykilstarfsmanna og nýir hluthafar komu inn í félagið. Tugir starfsmanna hafa starfað hjá vélaverkstæðinu og margir nemar tekið þar námstíma í iðn sinni.
Jón var mjög virkur í félagslífi Siglfirðinga. Var í forsvari fyrir skátafélagið Fylki. Sat í stjórn Æskulýðsheimilisins á Siglufirði og var fyrsti starfsmaður þess. Jón var virkur í starfi Skíðafélags Siglufjarðar, Skíðaborg, Slysavarnafélagsins, Lionsklúbbs Siglufjarðar, Frímúrarareglunnar og Rauðakrossdeildar Siglufjarðar. Þá var hann mörg ár í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju. Síðast en ekki síst voru Jón og Erla ötulir baráttumenn fyrir auknum réttindum fatlaðra og tóku virkan þátt í starfi Þroskahjálpar og gegndu þar ýmsum trúnaðarstörfum.
Jón var virkur þátttakandi í stjórnmálalífi Siglufjarðar og var bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins frá árinu 1978 til 1986 og fulltrúi hans í ýmsum nefndum. Þá sat hann í stjórn Útvegsbanka Íslands hf. í rúm tvö ár frá 1987 til 1989.
Jón og Erla voru heiðruð af Sjómannadagsráði Siglufjarðar fyrir störf sín í þágu sjávarútvegs um áratugaskeið. Þá hefur Rauði kross Íslands einnig heiðrað þau fyrir störf sín í þágu samtakanna.
Útför Jóns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 29. júní 2019, og hefst athöfnin klukkan 14.

Rík réttlætiskennd og náungakærleikur er það fyrsta sem kemur í hugann þegar hugsað er til pabba. Mótaður af kynslóðum tveggja alda. Alinn upp að stórum hluta til af afa sínum og ömmu sem fædd voru fyrir aldamótin nítjánhundruð og foreldrum sem voru virk í félagmálum og stjórnmálum í upphafi nýrrar aldar þar sem toguðust á bjartsýni um framtíð hins nýfrjálsa lands og brauðstritið þegar skiptust á skyn og skúrir í efnahag sveitarfélagsins og þjóðarinnar allrar.  Uppgangs- og átakatímar í verkalýðsbaráttu og kröfum um jafnræði borgaranna, sterkt öflugt félagslegt kerfi sem tryggði réttindi allra til heilbrigðisþjónustu og menntunar og annarra félagslegrar þjónustu. Jafnaðarmaðurinn í víðustu merkingu þess orðs var pabba þannig í blóð borinn og þar sló hjarta hans alla tíð.

Langömmu Sólveigar og langafa Fúsa í Hlíð minntist pabbi ávallt með sérstakri hlýju, virðingu og þakklæti.  Þau voru honum hugleikin alla ævi og síðar varð æskuheimili hans að fyrsta heimili fjölskyldu pabba og mömmu á Siglufirði þegar þau bjuggu fyrstu búskaparárin í kjallaranum í Hlíð og síðan aftur þegar langafi Fúsi var orðinn einn í Hlíð, eftir að Margrét systir pabba flutti til Reykjavíkur.  Þá fylltist húsið af lífi á ný þegar pabbi og mamma og við börnin fimm fluttum í Hlíð og þar bjó pabbi til æviloka. Sigfús afi bjó með okkur, í kjallaranum í Hlíð uns hann fór á Sjúkrahúsið á Siglufirði í hárri elli þar sem hann dvaldi til dauðadags 98 ára að aldri. Árin með afa í Hlíð voru einstök, þrjár kynslóðir saman og afi enn í vinnu kominn á níræðis aldur. Steig hvern morgunn út í gættina á kjallara dyrunum til að signa sig og taka veðrið.

Réttlætiskenndin og náungakærleikurinn einkenndu líf pabba jafnt í leik og starfi. Stundum var réttlætiskenndin svo rík að taka þurfti á honum stóra sínum að stilla skap sitt og gæta orða sinna. Langamma Sólveig kenndi honum að gæta orða sinna og stilla skap sitt, vera varkár í orðum, máttur þeirra er mikill. Langafi Sigfús að standa á sínu af rökfestu og ákveðni og Kristján afi að setja orðin á blað eða í vísukorn, þess vegna heilt pólitískt andsvar um áfengismál og vínsölu. Amma Þorfinna var fyrirmyndin í jafnréttismálum. Ung einstæð móðir tveggja ungra barna, hálfsystkina pabba, en svo kom afi Kristján, varð ástfangin upp fyrir haus af þessari myndalegu og stæðilegu konu og hún þáði ást hans og öryggi og sama áttu þau hugsjónir. Síðar kom í ljós að þau áttu ekki skap saman og leiðir skildu og aftur varð amma einstæð móðir. Þessi átök í lífi ömmu mótuðu æsku pabba og auðsætt að stundum hafði verið erfitt að skilja og átta sig á hvað gekk á í heimi hinna fullorðnu. Öll þessi reynsla mótaði pabba, en hann vann vel úr henni og miðlaði af reynslu sinni.

Minni samfélög einkennast oftast af nálægðinni milli fólksins sem þar býr. Þannig er Siglufjörður. Hjálpsemi þegar á bjátar, aðstoð í stóru og smáu. Þarna var karl faðir minn í essinu sínu og ekki vitum við um allt það, enda óþarft að stæra sig, en falleg og hlý orð, minningar ættingja og vina votta um. Náungakærleikurinn endurgoldinn og það hressir sálina í sorginni nú þegar hann er genginn.

Í minningunni var pabbi alltaf að redda hinu og þessu ef ekki vinnutengt þá í félagsmálunum, nú eða leggja lykkju á leið sína til að bjarga vinum og kunningjum eða þess vegna bláókunnugu fólki.  Oft tók hann upp puttalinga á ferð sinni um landið og tók stundum á sig allnokkurn krók til þess að koma þeim á sinn áfangastað. Um þetta eru til nokkrar bráðskemmtilegar sögur sem ekki verða raktar að sinni en pabbi brosti í kampinn og hafði gaman að.

Ævi pabba og mömmu hefur verið viðburðarík í meira lagi. Fjölskyldan, barátta fyrir réttinum fatlaðra og þar með Þroskahjálp, félagsmál í stóru og smáu. Skátarnir, Skíðafélagið, Slysavarnarfélagið, Lionsklúbburinn, Frímúrarnir, Rauði krossinn og ekki má gleyma sóknarnefndarstarfinu.

Í minningu æsku minnar var hún eitt allsherjar félagsmálavafstur, en allt svo eðlilegt einhvern veginn og við krakkarnir oft hluti af ævintýrinu. Brautargæsla við gönguskíðabraut á Hólsdalnum á Skíðalandsmóti eða á hliðarlínunni með björgunarsveitinni upp í Skarðsdal. Kakó, smurt og kökur og þessi búnaður allur maður minn, vélsleði, sjúkrakarfa og hvað eina. Enda þurfti að fara í sklysavarnaleik heima á Hlíðarveginum með vinunum þegar heim var komið. Landsmót Skáta við Hreðavatn er þarna í minningunni og seinna þátttaka mín í Skátunum með Hönnu Stellu og þá kom gamla dótið hans pabba og Fúsa bróður í góðar þarfir og nema hvað, hann hjálpaði mér náttúrulega að smíða minn eigin skátakistill fyrir Landsmótið 1977 við Úlfljótsvatn. Við krakkarnir fengum líka að koma sem gestir á Lionsfundi og að sjálfsögðu á jólaböllin. Seinni árin tók svo við starfið í Frímúrarareglunni og hjá Rauða krossinum.  Alltaf boðinn og búinn í sjálfboðaliðastarf og uppbyggingu. Var virkur þátttakandi í móttöku flóttamanna og tók sæti í viðbragðsteymi Rauðakrossins á sjötugsaldri.

Trúin var pabba mikils virði og í hana leitaði hann oft til leiðsagnar og í hugarró. Tilvísanir í Biblíuna voru honum töm og þar átti hann sín uppáhalds vers. Það kom því ekki á óvart að hann legði kirkjunni lið sitt í stóru og smáu og þar sat hann í sóknarnefnd árum saman og það gerði mamma líka.

Alinn upp undir merki jafnaðarmanna var þátttaka í stjórnmálum einhvern veginn eðlilegt skref, hugsjónin var skýr. Hann var kosinn í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn 1978 og 1982 og síðara tímabilið sem oddviti flokksins. Þá var hann fulltrúi í ýmsum nefndum bæjarins. Hann talaði máli Siglufjarðar af ákveðni og festu á vettvangi landsmálanna og ötull að minna á hverju Siglufjörður skilaði til þjóðarbúsins á síldarárunum og lengi síðan. Skrifaði m.a. um þetta hugvekju þegar átök vorum um hvort Héðinsfjarðargöng fengju framgang eða ekki.

Jón Sigurðsson ráðherra Alþýðuflokksins óskaði eftir því að hann tæki sæti í stjórn Útvegsbanka Íslands hf. við stofnun hans og var hann kosinn í stjórn árið 1987 og aftur árið 1988, sat þar í rúm tvö ár.

Hlutur pabba og mömmu í atvinnusögu Siglufjarðar er mikill og ánægjulegt að fyrirtækið sem hann lagði grunninn að í kringum 1960 skuli enn vera í blómlegum og öruggum rekstri. Þeir sem þekkja skin og skúrir í sögu Siglufjarðar vita að ekki var sjálfsagt að vélaverkstæðið lifði af þær sveiflur. Þá ber einnig að minnast þess að þótt mörg verkefni væru unnin fyrir fyrirtæki og útgerðir á heimavelli, þá voru þau ekki síður grunnur að öflugum rekstri og atvinnu fjölmargra iðnaðarmanna verkin sem pabbi sótti langt út fyrir bæinn. Þar skilaði sér og spurðist út, að strax var brugðist við, vandað til verka og verðlagningin hófleg og sanngjörn. Sérfræðingar tryggingafélaga áttuðu sig á þessu og mörg verk fékk pabbi í gegnum góð kynni þessara aðila af vandvirkni og sanngirni pabba og hans starfsmanna. Þetta smitaði síðan út til útgerða um allt land og mörg stórverkefni skiluðu sér í höfn á Siglufirði í orðsins fyllstu merkingu.

Pabbi sagði mér fá því hversu erfitt var á þessum árum að klára iðnnámið, þar sem allir bekkirnir voru ekki kenndir í einni beit heldur safnað saman á síðari ár og ekki auðvelt að fá námssamning og eða komast í röðina eftir námssamningi. Pabbi dó ekki ráðalaus í þessu og aflaði sér vottorða frá vinnuveitendum sínum um starfstíma og verkefni og sótti síðan um og fékk leyfi til þess að fara beint í sveinsprófið þó hann hefði ekki fengið formlegan námssamning.  Þarna var hann eins og oft fyrr og síðar á undan sinni samtíð, því í dag heitir þetta raunfærnimat.

Atvinnusaga pabba minnir líka á hversu mjög atvinnan var árstíðarbundin. Uppgrip að vori og fram á haust en síðan ládeyða yfir veturinn. Síldin kom og hún fór og fór svo alveg. Verkefna var leitað um allt Norðurland m.a. í Mývatnssveitina. Unnið var fyrir bændur og greitt eftir dúk og disk eða í matvælum. Allstaðar vandræði og allt gert til að bjarga sér. En það rofaði til og nýsköpunartogararnir komu og loðnan kom. Þrautseigja pabba og mömmu er engu lík í þessu sem öðru og áfram gekk reksturinn.

Pabbi var náttúrubarn og naut ferðalaga um byggðir og óbyggðir Íslands með myndavélina á lofti. Skátafélagar hans minnast með gleði og hlýju áranna þegar hann leiddi Skátafélagið Fylki og þar með skátaútilegur og gönguferðir um fjöll og dali í Siglufirði og nágrenni. Ég fékk nafnið Héðinsfjarðardrengurinn þar sem pabbi var í skátaútilegu þar þegar ég fæddist. Og við krakkarnir fengum líka að njóta útivistar og gönguferða og síðar barnabörnin einnig. Hann sá fegurðina í náttúrunni í ólíku ljósi og frá öllum hliðum, bæði það stórbrotna en einnig það smáa. Kenndi okkur að þekkja fuglana og herma hljóð þeirra, bergtegundir og blómin. Að hlaupa um fjöll og dali hvort sem var á fæti eða gönguskíðum á vetrum eða snemma vors varð okkur eðlislægt og sjálfsagt. Veiðiferð á Hraunamölina eða í Miklavatni og nesti með. Komið við í Kaupfélaginu í Haganesvík, Prins og Sinalco. Tjaldútilegur um allt land og tjaldað á óvæntum stöðum og gamli Landróverinn fór ótroðnar slóðir. Svo kom pabbi óhikað út til okkar krakkanna í götunni og kenndi okkur og startaði leikjum á Bretatúninu. Stuttu útivistarferðirnar voru líka mikils virði eins og þegar hann fór með okkur á stjörnubjörtu vetrarkvöldi inn á Almenninga þar sem engin rafljós trufluðu, gengið var í átt að sjónum. Örlítill ölduniður og stjörnuskarinn ljómaði á himninum þegar við lögðumst í snjóinn og horfðum til himins. Hann kenndi okkur stjörnumerkin og við horfðum á stjörnuhrap. Svo minnti hann okkur á að við værum órjúfanlegur hluti náttúrunnar og ættum að sýna henni virðingu. Munið börnin góð að þið eruð eins og sandkorn í óendanleika himingeimsins. Svona var hann pabbi.

Einhver orðaði það þannig að til væri barnalán og til væri foreldarlán og þess höfum við systkinin svo sannarlega notið í stóru og smáu alla okkar ævi. Sólveig systir okkar var þar engin undantekning. Fæddist daufblind og heyrnarlaus en samt þessi mikli snillingur sem kenndi okkur svo ótrúlega margt. Rauðir hundar voru orsökin og börnin oft kennd við það, rauðuhundabörn. Þessu verkefni sem öðrum tóku foreldrar okkar af yfirvegun og þrautseigju og eins og þeirra var von og vísa varð baráttan fyrir Sólveigu systur barátta fyrir réttindum fatlaðra á landsvísu með mikilli þátttöku í starfi Þroskahjálpar um áratuga skeið.

Um nónbil föstudaginn 14. júní kvaddi pabbi þessa jarðvist og er nú kominn í nýja vist með Guði sínum. Í raun friðsæl og falleg stund í ljós þess hvernig komið var hjá honum pabba gamla og táknrænt að mamma sat á sömu stundu með yngsta barnabarnabarnið, Freyju litlu í fanginu og fór með kvæði. Stuttri og snarpri baráttu við ólæknandi krabbamein var lokið. Veikindunum tók hann af einstöku æðruleysi eins og hans var von og vísa. Nokkuð er víst að hann tók líka ákvörðun um að stýra þessum síðustu metrum eins og hann átti kost á með því að hætta að nærast og sættast þannig við að stundin væri komin. Engu að síður hafði hann líka á orði að hann hefði nú átt eftir að klára nokkra hluti, sem minnir á atorkusemi hans alla tíð. En pabbi var hvíldinni feginn það er ég viss um.

Pabbi var lánsamur þegar hann hitti ástina í lífi sínu. Hann lýsti þeirri stundu svo að hann hafi verið á leiðinni heim til Siglufjarðar frá Vestmannaeyjum af vertíð en ákveðið að heimsækja móður sína sem þá var ráðskona við Sjúkrahúsið á Seyðisfirði og stoppa í nokkra daga milli ferða strandferðaskipsins. Þegar hann var í heimsókn hjá ömmu hafi mamma komið gangandi niður stigann milli hæða á Sjúkrahúsinu. Pabbi leit upp og sá að þarna var stúlkan hans. Ást við fyrstu sýn. Árin þeirra urðu þrjú á Seyðisfirði og sextíu og fimm á Siglufirði. Í mótbyr og meðbyr hafa þau siglt sínu fleyi farsællega í einlægri ást og gagnkvæmri virðingu. Kærleikur þeirra í garð okkar barnanna, tengdabarna og síðan barnabarna og barnabarnabarna er einstakur. Skilyrðislaus ást og kærleikur einkenndi pabba og streymdu frá hlýju faðmlagi. Einlægnin skein úr augum hans. Það er ómetanleg minning okkur öllum sem kveðjum hann í dag.

Hvíldu í Guðs friði elsku pabbi minning þín lifir.


Þinn

Baldur.