Tryggvi Jóhannes Gestsson fæddist 14. september 1930. Hann lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 23. júní 2019.
Foreldrar Tryggva voru Gestur Jóhannesson, f. 1897, d. 1992, verkamaður og Lísbet Tryggvadóttir, f. 1904, d. 1989, verkakona á Akureyri. Systkini hans voru Bára, f. 1925, d. 1999, Ragna, f. 1928, d. 2005, og Sigurður f. 1932, d. 2014.
Tryggvi kvæntist hinn 22.5. 1954 Guðbjörgu Einars Þórisdóttur, f. 15. júlí 1933, d. 15. desember 2007. Þau eignuðust þrjú börn: 1) Þórir Ólafur, f. 29.4. 1956, kvæntur Kristínu A. Hallgrímsdóttur, f. 25.6. 1959. Börn þeirra: 1. Ólafur Már, f. 10.5. 1983, maki: Anna Gerður Ófeigsdóttir, 2. Lilja Sif, f. 15.2. 1989, maki: Ragnar Freyr Guðmundsson, 3. Hákon Ingi, f. 21.3. 1995 maki: Linda Margrét Eyþórsdóttir. 2) Stúlka, f. 12.6. 1959, d. 12.6. 1959. 3) Lára Hólmfríður, f. 26.4. 1961, gift Ómari Ólafssyni, f. 26.11. 1961. Börn þeirra: 1. Tryggvi Jóhannes, f. 15.11. 1980, maki: Lísbet Reykjalín Elvarsdóttir, 2. Ólöf Rut, f. 13.2. 1984, maki: Einar Már Þorgeirsson. 3. Aníta Bóel, f. 6.10. 1992, maki : Heimir Guðmundsson. Barnabörnin orðin sjö. Tryggvi fæddist á Akureyri og ólst þar upp og lauk þar hefðbundinni skólagöngu, fór síðan að vinna ungur við ýmis störf, tók meirapróf og vann sem bílstjóri á vöruflutningabílum. Tók ökukennararéttindi árið 1963. Hann hóf störf hjá Slökkviliði Akureyrar 1967 og lauk starfsævinni þar. Tryggvi starfaði einnig lengi með Flugbjörgunarsveit Akureyrar. Fyrstu búskaparár Tryggva og Guðbjargar voru í Strandgötu 41, Akureyri, en þau byggðu sér svo heimili í Kringlumýri 29, Akureyri, og fluttu þangað 1958 og bjuggu þar alla tíð síðan.
Útför Tryggva fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 2. júlí 2019, klukkan 13:30.
Í dag er borinn til grafar minn kæri tengdafaðir Tryggvi Gests. Langar
að kveðja hann hér með nokkrum orðum, hef þekkt þennan einstaka mann í
næstum hálfa öld og það hefur aldrei hallað orði á milli okkar þó svo að
hann hafi verði glettinn og látið flakka eins og honum var lagið. Treysti
mér meira að segja fyrir kennslu-Ópelnum eitt sumarið og þurfti ég að opna
húddið alltaf til að setja hann í gang með skrúfujárni. 17 ára stelpunni
fannst það bara töff. Hann og Lillý tengdamamma voru töluvert mikið
samstiga þó að þau væru ólík í sér að mörgu leyti. Maður man helst eftir
Tryggva vera að fara á vaktir hjá Slökkviliðinu eða í vaktafríi sem var
yfirleitt vel nýtt. Hann var einn af þessum mönnun sem var alltaf að, það
var auðvitað í genunum því ekki var langt að sækja það eigandi Gest
(sótara) Jóhannesson fyrir föður. Ökukennslan var auðvitað í hjáverkum og
það væri gaman að vita hversu mörgum hann hafi komið í gegnum bílprófið og
sumum þurfti hann að kenna ansi lengi. Hef heyrt að hann hafi verið
framúrskarandi ökukennari, þar sýndi hann mikla þolinmæði. Lillý var hans
fyrsti nemandi og svo kláraði hann þetta með stæl og kom öllum
barnabörnunum í gegnum bílprófið. Mikil og mjög vönduð vinna var þegar
hann ásamt Sigurði bróður sínum byggðu fjárhús í Gránugötu og einnig var
byggt hesthús við og hlaða. Svo við hliðina byggðu Þórir og Björn Jónsson
málari sitt hesthús svo að þetta voru ansi skemmtileg ár þegar þetta var
allt fullt af lifi og fjöri. Og fór mikill tími okkar Þóris í að vera í
húsunum í Gránugötunni. Kindabúskapurinn vatt alveg upp á sig og þetta var
mikil vinna og svo auðvitað heyannir líka. Þau höfðu líka fengið sér mjög
blandaðan fjárhund hana Pollý sem var með Tryggva alltaf og hún var í
allra uppáhaldi. Það var oft þannig að þegar þau voru i heimsókn og
Tryggvi var farinn að ókyrrast þá sagði hann að nú þyrftu þau að fara að
drífa sig heim, Polli biði og væri ein heima. Og hann notaði þetta líka
lengi eftir að hún dó. Árið 1988 var ákveðið af þeim Lillý að byggja sér
bústað í Bárðardal. Lillý hafði verið í sveit í Lundarbrekku og hafði
sterkar taugar til dalsins. Þau leigðu land út frá Kálborgará og svo hófst
allt ferlið og þetta tók mörg ár og er enn verið að breyta og bæta. Þetta
voru ótal ferðir því allt efni var flutt á staðinn og bústaðurinn byggður
þar og margir komu til hjálpar. Bæði vinir og ættingjar. Lillý og Tryggvi
voru óstöðvandi í að gera þetta að sælureit og gerðu oft hið ómögulega að
manni fannst. Prikuðu oft á veturna í snjónum þegar þurfti að koma
einhverju með sleða og sukku í hverju skrefi í þúfunum því ekki var hægt að
fara vegaslóðann sem lá upp að bústaðnum.
Húsið þeirra í Kringlumýri 29, var afar fallegt og alltaf opið fyrir gestum
og gangandi. Falleg og skemmtileg jólaboð og ég veit að það var mjög
lífleg og skemmtileg stemmning oft hér áður fyrr í Kringlumýrinni þegar það
var meira um að vinir kæmu í heimsókn og einnig áttu þau nokkra góða
ættingja erlendis sem voru mjög dugleg að koma og dvelja hjá þeim og þá
var mikið stuð. Alla laugardaga var boðið í graut og tilheyrandi. Þetta
gerði mikið fyrir alla að hittast þarna vikulega. Tengdamamma Trygga hún
Lára Jónsdóttir flutti með þeim í Kringlumýrina og bjó hjá þeim þar til hún
lést 2004. Hún var þeim öllum mjög mikils virði og ekki síst Þórir og Láru.
En oft hefur það örugglega verið þannig að of margir hafa viljað vera með
puttana í málunum og þó að Tryggvi hafi verið fastur á sínu fann maður hvað
hann bar mikla virðingu gagnvart tengdamóður sinni. Eftir að Lillý lést
2007 þá hefur hann haldið heimili í Kringló með myndarbrag , einstakt
snyrtimenni sem hann var, alltaf finn og vel til hafður. Hann var fram á
hið síðast stálminnugur og bara fletti upp í sér ef eitthvað þurfti að
muna, hrukkaði svolítið brýrnar og þá kom þetta og hafði frá mörgu fróðlegu
frá fyrri árum og skemmtilegu að segja. Maður hefur oft fundið þegar hann
var síðustu ár að segja frá einhverju sem hafði gerst í útköllum í
slökkviliðinu, hvað þetta starf hefur verið honum mikils virði og þakklát
vinna. Mér er efst í huga þakklæti til hans, hann var góður og hlýr
tengdafaðir og kom manni oft á óvart hversu tilfinningaríkur hann var,
barnabörnin og litlu barnabarnabörnin fundu það líka.
Hvíl þú í frið elsku Tryggvi.
Þín tengdadóttir
Kristín Hallgrímsdóttir.