Jens Ingi Magnússon fæddist á Meistaravöllum í Reykjavík 22. júlí 1943. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 25. júní 2019.
Foreldrar Jens voru Una Eyjólfsdóttir saumakona, f. 4. febrúar 1925, d. 6. maí 1988, og Magnús Ólafsson, múrari, f. 19. júlí 1923, d. 29. nóvember 2017. Fósturfaðir Jens var Eiríkur Sigfússon verkamaður, f. 20. janúar 1923, d. 29. maí 2008.
Sammæðra syskini Jens eru: 1) Kristbjörn Margeir, f. 25. mars 1946, kona hans er Aldís. 2) Sigfús, f. 7. maí 1947, kona hans er Hanna. 3) Finnur Eyjólfur, f. 7. febrúar 1949, kona hans er Gunnhildur. 4) Guðbrandur Búi, f. 18. desember 1953, d. 21. maí 1986. 5) Halla Matthildur, f. 25. desember 1955, maður hennar er Fróði, og 6) Sigríður Una, f. 14. janúar 1957, maður hennar er Guðmundur.
Samfeðra systkini Jens eru: 7) Sigurður Valur, f. 11. nóvember 1941, 8) Svandís, f. 3. janúar 1949, 9) Guðmann, f. 24. ágúst 1955, 10) Sigurður Bjarki, f. 10. nóvember 1963, og 11) Kristín Halla, f. 27. júlí 1976.
Jens kvæntist Önnu Hannesdóttur, f. 16. nóvember 1945, hinn 31. desember 1969. Þau eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Unnar Eyjólfur, f. 26. maí 1966, 2) Anna Rós, f. 1. desember 1969, 3) Guðjón Ingi, f. 1. desember 1969, og 4) Garðar Kristinn, f. 15. febrúar 1978.
Barnabörnin eru átta og barnabarnabörnin þrjú. Börn Önnu Rósar með barnsföður sínum Ásgrími Ásgrímssyni eru 1a) Lilja Björk, f. 4. desember 1986, maður hennar er Siggeir, f. 30. júlí 1984. Börn þeirra eru: 1aa) Sunneva, f. 24. janúar 2011, og 1ab) Gísli Dór, f. 21. júlí 2014. 1b) Bergþór Dagur, f. 9. mars 1993. Barn hans með barnsmóður sinni Aniku er 1ba) Hafþór Breki, f. 13. júlí 2011. Börn Önnu Rósar með seinni barnsföður sínum Guðlaugi Birgissyni eru 1c) Ástrós Erla, f. 1. júní 1998, 1d) Birgir, f. 5. júlí 2001.
Börn Guðjóns Inga með barnsmóður sinni Gretu Hesselund eru 2a) Anna, f. 7. september 1991, 2b) Jasper, f. 30. janúar 1994, 2c) og Tara, f. 13. desember 1996. Barn Guðjóns með seinni barnsmóður sinni Katrine Brødreskift 2d) er Benjamín, f. 1. apríl 2011.
Jens, eða Jenni eins og hann var alltaf kallaður, átti heima í Reykjavík allt til níu ára aldurs. Árið 1952 er Jenni var níu ára gamall flutti hann með móður sinni og fósturföður ásamt þremur yngri bræðrum að Stóru-Hvalsá í Hrútafirði.
Árið 1965 kom Jenni til Akraness og réð sig á vertíðarbátinn Sæfara. Um þetta leyti kynntist Jenni eftirlifandi eiginkonu sinni, Önnu. Þau hófu búskap á Suðurgötu 23 á Akranesi, síðar að Merkigerði 10.
Jenni vann við ýmis verkamannastörf. Meiraprófið tók Jenni árið 1974 og starfaði lengst af sem bifreiðarstjóri. Um miðbik ævinnar vann Jenni sem rútubílstjóri og var í áætlunarferðum. Síðustu árin fór Jenni af og til í ferðir innan ferðamannabransans.
Jens lætur eftir sig eiginkonu, fjögur börn, átta barnabörn og þrjú barnabarnabörn.
Jens Ingi verður jarðsunginn frá Akraneskirkju í dag, 5. júlí 2019, klukkan 13.

Jens, eða Jenni eins og hann var alltaf kallaður, átti heima í Reykjavík allt til níu ára aldurs. Fyrsta heimili hans var að Meistaravöllum rétt við Kamp Knox braggahverfið sem þá var í Vesturbænum og átti hann þar heima til fimm ára aldurs. Fluttist Jenni þá að Lækjarbrekku í Blesugróf í Reykjavík. Árið 1952 er Jenni var níu ára gamall fluttist hann búferlum með móður sinni og fósturföður ásamt þremur yngri bræðrum að Stóru Hvalsá í Hrútafirði. Jenni hafði haft á orði hversu mikil viðbrigði það hafi verið fyrir borgarbarnið að flytjast svo langt í burtu frá heimahögunum. Inn í aðstæður sem voru honum framandi en þá var ekkert rennandi vatn né rafmagn að finna í sveitinni. Jenni hafði greint frá því að þá hafi hann verið sendur niður að læk með tvær 20 lítra fötur sem hann átti að sækja vatn í. Hann mundi eftir sér þannig fyrst er hann var 10 ára gamall. Þá var það honum þungbært að vera sendur í heimavistarskóla að Borðeyri að hausti og yfir veturinn, fram að vori. Að skólaári liðnu var hann sendur með hestvagni til síns heima. Jenni hafði haft á orði hversu mjög hann hafði saknað móður sinnar við þessar aðstæður. Jenni elst upp við að sinna hefðbundnum sveitastörfum eins og þau komu fyrir í þá daga.
Á unglingsárum fór Jenni fyrst á vertíð þá 15 ára gamall. Árið 1965 kom Jenni snemma árs á Akranes og réði sig um borð á vertíðarbátinn Sæfara. Um þetta leyti kynntist Jenni eftirlifandi eiginkonu sinni Önnu Hannesdóttur. Þau hófu búskap að Suðurgötu 23 á Akranesi, í kjallara húss foreldra Önnu sama ár. Frumburður þeirra fæddist þeim svo ári síðar eða árið 1966. Er tvíburar þeirra komu í heiminn 1969 fjárfestu þau í sinni fyrstu húseign að Merkigerði 10 og áttu þar heima allar götur síðan. Yngsti sonur þeirra Önnu og Jenna bjó enn í heimahúsum er Jenni lést.
Jenni vann við ýmis verkamannastörf, svo sem við fiskvinnslu hjá H.B. og co. og á eyrinni á Akranesi, í slippnum, síldarverksmiðjunni, keyrði steypubíl við sigöldu og var til sjós tímabundið á Reykjanesi með viðveru í Keflavík. Meiraprófið tók Jenni árið 1974. Var hann með og sá um öskubílinn fyrst um sinn en í kjölfarið var hann að mestu bifreiðastjóri á vörubíl sínum eftir það. Um miðbik ævinnar vann Jenni sem rútubílstjóri í hjáverkum og ók í áætlunarferðum vinnuhópum til vinnu sinnar og til síns heima. Síðustu árin, fór Jenni af og til í ferðir innan ferðamannabransans, er hann tók sig til og keyrði sem rútubílstjóri ferðamenn þvers og kruss. Gerði hann sér til að mynda lítið fyrir og fór hringinn í kringum landið með þá. Þrátt fyrir tungumálaörðugleika heillaði Jenni ferðamennina upp úr skónum með glaðlyndri framkomu sinni, hlátri, útsjónarsemi og fúsleika til þjónustu. Var Jenna minnisstæð ein ferðin sem hann fór er hann ók ferðamenn frá Kína um landið. Þá brá kínverski leiðsögumaðurinn á það ráð að útbúa símtæki sitt þannig, að Jenni gat talað íslensku í viðtækið og á örskotsstundu var því snarað yfir á þeirra ilhýra tungumál - með eigin blæbrigðum hljóðsins, þannig að raddir þeirra urðu mjög raunverulegar og þýddust á víxl. Þetta þótti Jenna skondið og áhugavert fyrirbæri.
Jenni var einnig duglegur að ferðast um landið hvort sem það var einn síns liðs eða með öðrum fjölskyldumeðlimum og hafði hann farið til flestra kaupstaða á Íslandi í gegnum tíðina. Jenni lét sig sjaldan vanta á mannamót og mætti með Önnu konu sinni og öðrum í fjölskyldunni, hvort sem það var innanlands eða utan. Þau hjónin heimsóttu barnabörnin sín í útlöndum og mættu í alla stóra viðburði þeim tengdum.
Jenni var ákaflega mikill bílaáhugamaður, sérstaklega gagnvart eldri bílum. Hann hafði unun af því að tala um gamla bíla og minntist hann stundum á að bilanir og vandræði í sambandi við tölvur í nýju bílunum væri honum ekki að skapi. En bílar og sér í lagi vörubílar ásamt bílum í eldri kantinum voru í uppáhaldi hjá Jenna. Þeir spiluðu ákaflega stóran sess í lífi hans allt fram til seinasta dags er Jenni var að vinna í gamla Volvo bílnum sínum sem hann var harðákveðinn í að koma á götuna á ný.
Þá var Jenni mikið fyrir harmonikku tónlist og gat hann spilað á nikkuna sína tímunum saman. Eins þótti Jenna gaman að því að spila á skemmtara. Seinast var Jenni beðinn um að spila á nikkuna sína í Strandamannakaffi Strandamannafélagsins í maí síðastliðnum, sem hann og gerði, enda var hann bónfús maður og stökk til þess að hjálpa ef þess var nokkur kostur.
Jenni glímdi lengi við Bakkus og var þar á stundum við ofurefli að etja. Hafði hann þó betur í þeirri glímu fyrir rest en Jenni var búinn að vera án áfengis sleitulaust í langan tíma og urðu tímamót er hann fagnaði 20 ára edrúafmæli sínu í janúar á  þessu ári. Hann var sáttur með að hafa náð þeim áfanga. AA- samtökin hjálpuðu þar mikið. Anna konan hans fann það oft, ef það fór að lengjast á milli þess að Jenni fór á AA fund, að hann yrði að gera bragarbót þar á og skella sér af stað, því með því hélt Jenni edrúmennsku sinni í horfinu. Jenni átti sína heimadeild á Akranesi og fór gjarnan á AA fund kl. 11 á sunnudagsmorgnum. Margt mátti oft bíða þangað til sá fundur var búinn.
Jenni var hláturmildur maður þar sem hann hló hátt og mikið með miklum tilþrifum. Oft sagði hann brandara og hló manna mest sjálfur - í háværari kantinum og hafði gaman að. Jenni var ákaflega mannkær maður og fannst honum mjög gaman að spjalla um daginn og veginn við sem flesta er á vegi hans varð. Það skipti hann engu máli hver eða hvar viðkomandi var - Jenni gaf sér ávallt tíma til að sinna náunganum.
Þá var Jenni mjög barngóður maður. Hann hafði gaman að því að skemmta börnum með leik og galsagangi þannig að börn hópuðust iðulega í kringum hann þar sem hann var staddur. Í æsku barnanna sinna lék hann við börnin sín - tók þau oft í kleinu, lék óþekkan hest/Bikkju, þannig að krakkarnir þurftu að hafa sig alla við að vera á baki. Hann spilaði, tefldi við þau og fleira í þeim dúr. Jenni lék alla tíð við barnabörn sín með galsagangi og líflegum hlátri og var enn að gagnvart langafabörnunum sínum. Jenni þótti afar vænt um börn.
Nýverið hafði Jenni fengið þær fregnir frá lækni að heilsa hans væri góð. Blóðið hafi verið í stakasta lagi og hjartslátturinn eins og hjá ungabarni, átti læknirinn að hafa sagt. Það var því reiðarslag fyrir fjölskylduna er Jenni hné niður að morgni 25. júní síðastliðinn. Rof hafði komið á ósæð hans en stór ósæðargúlpur hafði myndast yfir langan tíma og hafði gefið sig með þeim afleiðingum að Jenni fór í hjartastopp.
Jenni barðist hart fyrir lífi sínu allt til þess síðasta. Allt tiltækt lækna- og hjúkrunarlið Sjúkrahússins á Akranesi gerði hvað það gat, til að koma honum aftur til lífs. Barátta þeirra náði til þess, að um stund tókst að koma á púls og að halda honum stöðugum. Sjúkraflutningamenn keyrðu Jenna í ofboði til Reykjavíkur og alla leið í sjúkrabílnum, á leiðinni suður, barðist Jenni fyrir lífi sínu. Framkvæmd var bráðaaðgerð af hjartalæknum Landspítalans en varð það honum um megn og lét hann lífið á skurðarborðinu.
- Bestu þakkir eru færðar til starfsfólks bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akranesi, til sjúkraflutningamanna og til þess heilbrigðisstarfsfólks er sinntu Jenna síðustu stundir hans við Landspítalann í Fossvogi.
Jenni var þakklátur og sáttur er hann leit til baka og hafði haft á orði að hann hefði ekki getað gert hlutina öðruvísi - en hann gerði - á miðað við það sem hann hafði úr að spila.
Við kveðjum þig nú kæri Jenni okkar. Minningarnar um þig munu lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð. Góðmennska þín, einlægni, kjarkurinn, dugnaðurinn, staðfesta þín og kraftur að halda áfram, þó að oft hafi á móti blásið, var aðdáunarvert að fylgjast með og til eftirbreytni fyrir okkur hin sem eftir lifum. Þú gafst aldrei upp.
Blessuð sé minning þín.




Anna Hannesdóttir, Unnar Eyjólfur, Guðjón Ingi og Garðar Kristinn.