Sigrún Guðmundsdóttir fæddist 18. október 1927 í Reykjavík. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 24. júní 2019.
Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Sigurðsson bóndi og sjómaður og Helga Jónsdóttir húsfreyja. Sigrún var sú fjórða í röð sex systkina. Alsystkini Sigrúnar eru Björn, látinn, Vigdís og Ingi Sigurjón. Systur Sigrúnar sammæðra voru Fanney Breiðfjörð og Benedikta Ketilríður Breiðfjörð, báðar látnar.
Sigrún giftist 1947 Halldóri Þ. Ásmundssyni, f. 15. júní 1917, d. 17. janúar 2001, múrara. Foreldrar hans voru Ásmundur Helgason, útvegsbóndi og rithöfundur, og Sveinbjörg Stefánsdóttir húsfreyja.
Börn Sigrúnar og Halldórs eru Ásmundur Birgir, f. 10. mars 1948, maki Sigrún Harðardóttir, Helga Guðný, f. 7. nóvember 1949, Erna Bryndís Halldórsdóttir, f. 3. ágúst 1951, d. 17. júní 2014, og Bjarni Guðberg, f. 11. júní 1957, maki Annika Maria Frid. Sigrún og Halldór eignuðust 12 barnabörn auk allmargra stjúpbarnabarna og barnabarnabarna.
Skömmu eftir fæðingu Sigrúnar flutti fjölskyldan úr Reykjavík til Þorlákshafnar og var þar í sjö ár. Þar voru þau með fé og Guðmundur starfaði einnig við sjómennsku. Þaðan fluttu þau að Hlíðarenda í Ölfusi og bjuggu þar í þrjú ár. Síðan settust þau að á jörðinni Hlíð í Grafningi, en þá var Sigrún 11 ára. Sigrún vann að bústörfum sem barn en fór á unglingsaldri að vinna í Reykjavík með föðursystur sinni, Vilborgu, og síðar með systur hennar, Sigrúnu Ástrósu, við saumaskap. Hjá þeim lærði hún margt um hannyrðir, einnig að sníða og sauma alls kyns fatnað. Sigrún og Halldór hófu búskap hjá foreldrum Halldórs að Grettisgötu 44 en byggðu síðan hús að Borgarholtsbraut 19, Kópavogi sem þau fluttu í árið 1951 og voru þau með þeim fyrstu sem settust að í Kópavogi. Síðar byggðu þau og bjuggu að Mánabraut 11 og þaðan fluttu þau að Hamraborg 16.
Sigrún vann við heimasaum framan af og saumaði meðal annars herrafatnað og prjónaði barnaföt. Síðar vann hún við flatkökubakstur hjá Friðriki Haraldssyni, bakara.
Sigrún dvaldi á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð síðustu árin sem hún lifði.
Útför Sigrúnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 8. júlí 2019, klukkan 13.

Komið er að kveðjustund, móðir mín andaðist 24. júní síðastliðinn á nítugasta og öðru aldursári. Við það myndast óhjákvæmilega skarð sem erfitt er að fylla. Hún var mér mjög náin. Margt fer í gegnum hugann á slíkum tímamótum, fallegar minningar um gefandi augnablik og góðar samverustundir. Þakklæti fyrir allt sem hún gaf okkur með nærveru sinni og ljúfmennsku. Móðir mín var áhugasöm um sitt fólk, fylgdist vel með hverjum og einum, fagnaði velgengni þeirra, hvatti til dáða og gaf hrós. Hún var réttsýn, traust og einstaklega dugleg. Fór í gegnum misstrembin verkefni með jafnaðargeði og sterkum vilja. Hún fékk heilablóðfall aðeins 49 ára gömul og lamaðist hægra megin og var um tíma í hjólastól. Hún þurfti að læra fjöldamargt upp á nýtt, svo sem að ganga, tala og skrifa. Hún var reyndar málhölt það sem eftir var ævinnar, en gekk þó vel að tjá sig og lærði skrautskrift með vinstri hönd til að efla sig í ritun. Hún gerði krossgátur og Sudoku lengst af og spilaði bridds. Krafturinn var mikill við endurhæfinguna og hún komst á fætur, þó að hún drægi annan fótinn og önnur höndin væri máttlítil. Það kom ekki í veg fyrir að hún bakaði og sinnti ýmsu sem mörgum hefði þótt ómögulegt. Hennar einkunnarorð voru: ég geri það sem ég get og stóð við það allt sitt líf þó að lömunin gerði henni oft á tíðum erfitt fyrir. Hún var góð fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina.

Henni var alveg ljóst að heilbrigt líferni væri mikilvægt til að halda heilsu. Hreyfing var þar lykilatriði en hún stundaði leikfimi með Halldóru á Rúv á árum áður og fylgdi vídeóspólu Sigurðar Guðmundssonar íþróttarfrömuðar, fór í göngutúra m.a. með Hana nú klúbbnum í Kópavogi sem var félagsskapur eldri borgara. Þegar veður voru válynd á vetrum og hálka, gekk hún í bílakjallaranum í Hamraborginni til að ná hreyfingu dagsins. Hún hafði gaman af dansi og gerði ótrúlegustu hluti í þeim efnum en tognaði reyndar í Tangó í eitt skipti sem henni fannst svolítið fyndið. Jákvæðni var mömmu í blóð borin.

Hún hafði gaman af ferðalögum, náttúruskoðun og að kynnast mismunandi menningarheimum, ferðaðist bæði innanlands og til fjarlægra landa bæði með föður okkar á meðan hann lifði, einnig með börnum og barnabörnum. Fyrsta ferðin sem þau fóru saman til útlanda var með Gullfossi á 25 ára brúðkaupsafmælinu sínu og gerði hún stormandi lukku. Í þeirri ferð eignuðust þau vini til langframa. Þau komust á bragðið og voru dugleg við að ferðast eftir það. Farið var vítt og breitt um Ísland enda bæði utan af landi, hún af Suðurlandi og hann frá Austfjörðum. Tjaldútilegur og berjatínsla voru meðal annars fastir liðir þegar við krakkarnir vorum ung að árum.

Við systkinin fórum með móður okkar í eftirminnilega ferð til Ungverjalands á 75 ára afmælinu hennar. Við tókum til öryggis og til að létta ferðina hjólastól með en skiptumst svo á að sitja í honum og bruna um Búdapest sem móðir okkar var mjög ánægð með. Nítíu ára afmælið hélt móðir mín upp á í Næstved í Danmörku hjá Ragnhildi dóttur minni og fjölskyldu og var alsæl með þá tilhögun.

Mamma var aðeins 19 ára þegar hún giftist pabba og þurfti forsetaleyfi til þess. Við stríddum henni stundum á þessu. Hjónaband þeirra var reyndar mjög farsælt, þau voru samrýmd og samtaka um allt sem skipti máli í uppeldi og áhugamálum. Þau stóðu saman í blíðu og stríðu.

Eitt af því sem móðir mín sótti árlega voru Hinsegin dagar alveg frá upphafi Gleðigöngunnar hér á landi, henni fannst viðburðurinn skipta máli til að auka skilning á að minnihlutahópar eigi tilverurétt í samfélaginu eins og aðrir. Hún hafði gaman af íþróttakappleikjum og alla tíð fylgdist hún með landsleikjum í fótbolta og handbolta, með strákunum og stelpunum okkar. Hún var stemningsmanneskja.

Söngleikurinn Ellý vakti mikla hrifningu, tónlistin rifjaði upp skemmtilega tíma og viðburði. Þetta átti hún reyndar sameiginlegt með allri þjóðinni.

Móðir mín var mikil hundagæla og alltaf þegar einhver fjölskyldumeðlimur var með hund uppgötvaði viðkomandi vin í mömmu og var fljótur að setjast við fætur hennar.

Foreldrar mínir byggðu í Kópavoginum árið 1951 eða áður en hann varð kaupstaður og bjuggu í því bæjarfélagi upp frá því. Þarna ólumst við systkinin upp og nutum okkar í nágrenni við Rútstúnið og klettana í Borgarholtinu.

Þorsteinn Valdimarsson yrkir um Kópavogsbæ:

Vagga börnum og blómum
borgin hjá vogunum tveimur
risin einn árdag úr eyði
heill undrunar heimur;
og blikið í bernskum augum
er bros gegnum tár
sögunnar, sem oss fæddi
og signir oss þurrar brár.





Móðir mín var trúuð og var viss um að hitta sitt fólk á nýjum slóðum eða tilverustigi þegar hún kveddi þennan heim. Megi henni verða að ósk sinni.



Helga G. Halldórsdóttir.