Einar Geir Þorsteinsson fæddist 7. ágúst 1930 á Vatnsleysu í Biskupstungum. Hann lést 27. júní 2019.
Foreldrar Einars Geirs voru Ágústa Jónsdóttir húsmóðir, f. 28. ágúst 1900, d. 25. september 1986, og Þorsteinn Sigurðsson bóndi, f. 2. desember 1893, d. 11. október 1974. Systkini Einars Geirs voru: 1) Ingigerður, f. 1923, látin 2) Sigurður, f. 1924. 3) Steingerður, f. 1926. 4) Kolbeinn, f. 1932, látinn. 5) Þorsteinn Þór, f. 1933, látinn. 6) Bragi, f. 1935, látinn. 7) Sigríður, f. 1938, látin. 8) Viðar, f. 1945.
Eiginkona Einars Geirs er Ingveldur Björg Stefánsdóttir, f. 2. apríl 1936. Börn Einars Geirs og Ingveldar eru: 1) Stefán Árni, f. 1960. Eiginkona hans er Sigurrós Ragnarsdóttir. 2) Þorsteinn, f. 1962. Eiginkona hans er Ásta Sigrún Helgadóttir. 3) Guðni Geir, f. 1968. Eiginkona hans er Andrea Gerður Dofradóttir. 4) Áslaug, f. 1975. Eiginmaður hennar er Einar Örn Ólafsson. Barnabörn Einars Geirs og Ingveldar eru 12 og barnabarnabörnin fimm.
Einar Geir ólst upp á Vatnsleysu í Biskupstungum. Hann flutti síðar til Reykjavíkur og síðar í Garðabæ.
Einar Geir starfaði sem gjaldkeri hjá Landsbanka Íslands og síðar sem gjaldkeri og bókari hjá Eggerti Kristjánssyni & Co. Einar Geir var framkvæmdastjóri samvinnufélagsins Hreyfils 1971 til 1989. Þá starfaði hann í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu 1989 til 1990. Einar Geir starfaði sem starfsmannastjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík frá 1991 og þar til hann lét af störfum sökum aldurs á árinu 1999. Einar Geir var formaður Ungmennafélags Biskupstungna um árabil. Hann var formaður Karlakórsins Fóstbræðra 1969 til 1974 og formaður Kötlu, sambands sunnlenskra karlakóra, 1977 til 1981. Einar Geir var bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Garðabæ 1978 til 1990 og formaður Framsóknarfélags Garðabæjar 1988 til 1991. Einar Geir sat í miðstjórn Framsóknarflokksins í fimm ár.
Útför Einars Geirs fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 9. júlí 2019, og hefst athöfnin kl. 13.
Minning mín um hann er mjög falleg og góð. Í hjarta mínu er mikið þakklæti fyrir að hafa kynnst þessum mikla sómamanni. Hann var einn af þeim sem var alltaf að og féll sjaldan verk úr hendi hvort sem það var á heimili sínu á Móaflöt í Garðabæ eða í sumarbústaðnum Kjarri í Biskupstungnum. Hann tók mér strax afskaplega vel og fann ég strax að um góðan og gegnheilan mann var að ræða. Hann reyndist mér og mínum alltaf vel í gegnum tíðina og var alltaf til staðar. Þegar sonur fæddist árið 1990 blasti það við að hann var skírður í höfuðið á honum enda um alnafna að ræða.
Einar Geir var með gagnfræðipróf frá Héraðsskólanum á Laugarvatni. Hann starfaði við ýmis ábyrgðarstörf. Hann kynntist Ingveldi Björgu Stefánsdóttur sem bjó á Syðri- Reykjum í sömu sveit og þau felldu hugi saman. Þau fluttu úr sveitinni og starfaði Einar sem gjaldkeri hjá Landsbanka Íslands frá árinu 1960 til 1965. Þá var hann gjaldkeri og bókari hjá Eggerti Kristjánssyni og co hf. frá árinu 1965 til 1971. Þá tók hann við sem framkvæmdastjóri samvinnufélagsins Hreyfils frá árinu 1971 til 1989. Þar starfaði hann einmitt þegar ég kynntist honum. Hann endaði starfsævi sína sem starfsmannastjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík. Hann var mikið í félagsmálum og Framsóknarmaður mikill. Hann var m.a. bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Garðabæ frá árinu 1978 til 1990. Einnig sat hann í miðstjórn Framsóknarflokksins til margra ára. Hann var einnig í Karlakórnum Fóstbræðrum allt frá sjöunda áratugnum og var formaður kórsins á árunum 1969 til 1974.
Einar Geir var mikið glæsimenni, glaðvær, mikill söngmaður og barngóður með eindæmum. Hann var Tungnamaður í húð og hár og undi sínum hag vel í sumarbústaðnum Kjarri í landi Vatnsleysu. Þar elskaði hann að vera og dunda sér við hitt og þetta. Einnig var hann alltaf mættur í réttir Tungnamanna og stýrði þar söng af mikilli röggsemi. Oftar en ekki kom í sjónvarpsfréttum réttarsöngur Tungnamanna með Einar Geir í fararbroddi söngmanna.
Einar Geir var mikill fjölskyldumaður og unni henni framar öllu. Hann eignaðist 4 börn og átti fjöldann allan af barnabörnum og einnig barnabarnabörn. Hann hafði mikinn áhuga á þeim og fylgdist vel með þeirra lífi. Hann hafði unun af yngstu börnunum og fundu þau það og vildu alltaf hitta afalang. Barnabarn mitt hafði mikla ástúð á honum, spurði oft um hann og vildi fara og hitta hann. Ekki var verra að fá kex hjá honum. Mér er minnistætt að hann hafði fyrir því að koma með kex með sér ef hann vissi að hann myndi hitta lítinn vin.
Einar Geir og Ingveldur Björg Stefánsdóttir gengu í hjónaband árið 1959 og var hjónaband þeirra gæfuríkt. Þau kynntust í Biskupstungum en byggðu sér framtíðarheimili í Garðabænum. Það var á Móaflötinni og hafa þau búið þar síðan. Ber heimilið vitni um natni og snyrtimennsku. Samband þeirra var einstaklega náið og er missir Ingveldar mikill.
Dýrmætar eru minningar um hinstu ferð Einars sem var ferð stórfjölskyldunnar til Króatíu dagana 13. júní til 24. júní sl. en þar áttum við yndislega samveru og gleðistundir. Einar Geir lést einungis 2 dögum eftir heimkomuna. Hann var fram á hið síðasta hress og kátur og undi hag sínum vel með fjölskyldunni sinni sem hann unni svo heitt.
Það er svo sárt að kveðja en ég veit að Einar Geir mun lifa áfram í hjörtum okkar og minningum. Einar var glæsilegur maður sem átti gott líf. Ég lærði margt af honum og minning hans mun lifa í mínu hjarta um ókomna tíð.
Ég kveð kæran tengdaföður minn með virðingu og er mér þakklæti nú efst huga fyrir að hafa kynnst þessum góða manni. Hafðu þökk fyrir allt. Hvíl í friði.
Draumalandið
til landsins fjalla heiða
með sælu sumrin löng.
Þar angar blóma breiða
við blíðan fuglasöng.
Þar aðeins yndi fann ég
þar aðeins við mig kann ég
þar batt mig tryggða band
því þar er allt sem ann ég,
það er mitt draumaland.
(Jón Trausti)
Þín tengdadóttir,
Ásta Sigrún Helgadóttir.