Sveiney Sverrisdóttir fæddist í Reykjavík 4. desember 1951. Hún lést á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn 15. júní 2019.
Hún var dóttir Sverris Jónssonar, flugstjóra, f. 16. ágúst 1924, d. 18. janúar 1966, og Sólveigar Þorsteinsdóttur húsmóður, f. 4. mars 1931. Systur Sveineyjar eru Olga Sverrisdóttir, f. 16. maí 1953, Kristín Sverrisdóttir, f. 10. október 1957, og Þórhildur Sverrisdóttir, f. 14. október 1961. Samfeðra er Björn Sverrisson, f. 15. nóvember 1943.
Eiginmaður Sveineyjar var Jens Marius Dalsgaard, f. 23. mars 1948, d. 22. nóvember 2015. Börn þeirra eru 1) Sverrir Jensson Dalsgaard, f. 23. nóvember 1974, uppeldisdóttir Sverris er Chloe, f. 12. desember 2010. 2) Sigrid Jensdóttir Dalsgaard, f. 1. maí 1977, börn hennar Tórur, f. 30. júní 2005, og Bryndis, f. 22. apríl 2010, eiginmaður Sigridar er Oddmar Dam, f. 14. október 1973, dóttir hans er Sandra, f. 8. september 2008.
Sveiney lauk prófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni 1970, prófi frá Gymnastikinstitut Lis Burmesters, Kaupmannahöfn, í fimleikum. Fimleikakennari hjá fimleikafélaginu Stökk í Runavík Færeyjum. Kennari í menntaskólanum í Götu. Ritari hjá FKF og síðar fulltrúi hjá Kommunufélaginu (Samband færeyskra sveitarfélaga).
Sveiney var jarðsungin frá Glyvra-kirkju í Saltangará í Færeyjum 22. júní 2019.
Hún þurfti að segja nafnið sitt þrisvar áður en ég náði því að hún héti Sveiney. Við kynntumst þegar við komum á Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni haustið 1970. Hún var best í fimleikum, hún fór í splitt á ólympíuslánni og allra best var hún í jassballett. Hún reykti. Í skólanum reykti hún í laumi, að sjálfsögðu. Það varð brottrekstrarsök ef það uppgötvaðist að einhver nemandinn reykti. Ég reykti með henni, ekki vegna tóbakslöngunar heldur vegna þess að það var bannað. Það forboðna er jú best. Við urðum Bestuvinkonur (í einu orði, með stórum staf) og fengum okkur vinnu saman á hóteli á Selfossi sumarið eftir að við útskrifuðumst. Við kenndum við í sitt hvorn heimavistarskólann á Norðurlandi veturinn á eftir, hún á Reykjarskóla í Hrútafirði og ég í Varmahlíðarskóla í Skagafirði. Við vorum að safna fyrir ferðinni miklu sem tilstóð að fara sumarið á eftir. Við sigldum með Gullfossi til Edinborgar, tókum ýmist rútur eða lestar til London þar sem við mættum á götu Paul McCartney og Lindu konunni hans leiðandi börnin á milli sín. Þau veittu okkur enga athygli svo við héldum ferðinni áfram niður að Ermasundi. Yfir það svifum við á svifnökkva til Frakklands. Þar keyptum við okkur hjól og hjóluðum á milli þess sem við tókum lestir lengstu kaflana niður til Barcelóna á Spáni. Sveiney hafði skipulagt alla ferðina og var með kort og áttavita og kunni þetta allt. Hún hafði pantað fyrirfram á farfuglaheimilum en öðru hvoru sváfum við í svefnpokum okkar úti undir berum himni. Hún talaði reiprennandi ensku og las enskar pocketbækur sem hún dró upp úr bakpoka sínum í hvert sinn sem við stoppuðum, fékk sér sígarettu og sökkti sig niður í lestur á meðan ég sötraði bjór. Hún var fararstjórinn og ég fylgdi henni eftir eins og lambið ánni, án þess að skeyta neitt um hvar í veröldinni við vorum staddar hverju sinni, leið bara um í mínum draumaheimi og trúði á að allt myndi reddast sem það gerði þegar ég hafði Sveineyju. En svo allt í einu hafði ég hana ekki. Hún var horfin og ég rammvillt í ókunnri borg, fann ekki vinkonu mína hvernig sem ég leitaði, vissi ekkert í minn haus, hafði enga ferðaáætlun og næstum enga peninga. Sveiney komst fljótlega að því á ferðarlaginu að það væri best fyrir mig að hún passaði upp á peningana mína. Það reyndist rétt hjá henni, þeir hættu að týnast. Við vorum búnar að fara eins langt suður og við ætluðum okkur og vorum á norðurleið, ég á leiðinni heim til Íslands en hún í framhaldsnám til Kaupmannahafnar þar sem hún síðar hitti hann Jens og gerðist með því Færeyingur. Ég man að þegar ég að var orðin úrkula vonar að finna Sveineyju fyrir myrkur, hitti ég sænska krakka á aldur við okkur sem voru á intnerrail-ferðalagi. Þau voru að leita að náttstað. Ég slóst í för með þeim. Við fórum niður í fjöru og sváfum þar á milli stórra steina. Daginn eftir ætluðu þau að halda til München á Ólympíuleikana og buðu mér mér að slást í hópinn. Ég velti því alvarlega fyrir mér, ég gæti selt hjólið mitt fyrir lestarmiða þangað, ég hlyti að hitta einhverja Íslendinga á Ólympíuleikunum sem myndu örugglega lána mér fyrir farmiða heim(!) Ekki fór ég með krökkunum því ég fann Sveineyju, ég hjólaði í flasið á henni á einhverju götuhorninu snemma um morguninn. Ég gleymi aldrei hversu fegin ég var, ég hef aldrei á ævi minni orðið eins glöð að sjá nokkra manneskju! En af hverju við urðum viðskila minntumst við aldrei á. Við urðum svo glaðar að sjá hvora aðra aftur að það var nóg.
Síðast þegar við hittumst á 45 ára útskriftarafmæli okkar sem haldið var
á Ísafirði 2016 fórum við að rifja þetta atvik upp í fyrsta skiptið. Þá
sagði Sveiney að hún hefði leitað að mér alla daginn og þegar hún var orðin
úrkula vonar að finna mig, hitti hún sænska krakka sem voru á leiðinni á
Ólympíuleikana í München og að hún hefði farið með þeim niður í fjöru og
sofið þar á milli stórra steina!
Mér finnst gott að hugsa um það núna, daginn sem Bestavinkona mín er jörðuð
í Glyvra Kirkju í Færeyjum, að eiga þessa sameiginlegu minningu. Hún er
táknræn fyrir vináttu okkar. Þó við yrðum viðskila þá urðum við það í
rauninni ekki í minningunni. Við upplifðum báðar að hafa leitað hvor að
annarri allan daginn og farið síðan með sænsku krökkunum niður í fjöru og
sofið þar um nóttina milli stórra steina.
Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta.
Geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
(Úr Hávamálum)
Ingibjörg Hjartardóttir.
Hún var Stóra systirin með stóru Essi. Elst og hæst.
Frá því við munum eftir okkur var hún fyrirmyndin okkar og styrkur fyrir mömmu eftir að pabbi féll frá 1966, er hún var 14 ára.
Minningarnar streyma fram. Hún var alltaf að sauma og skapa frá því hún var smá stelpa. Ljósblár silfraður tískukjóll sem hún fór í á skólaball líklega 14 ára. Silfraðir sokkar við og ljósbláir skór. Dásamleg minning. Hún var eins og prinsessa.
Jólin sem hún fór með okkur yngri stelpurnar og frænkur í bæinn að velja jólagjafir og skoða ljósin í bænum og um leið koma okkur frá mömmu í jólaamstrinu.
Það var mikið líf og stelpufjör á Dyngjuveginum, enda fjórar systur og fullt af frænkum og vinkonum í hverfinu. Við dönsuðum mikið uppi í stofu eftir nýjustu Bítlamúsíkinni og Sveiney og Olga fóru snemma í jassballett og steppdans hjá Sigvalda, tóku þátt í steppdanssýningum og hvaðeina.
Sveiney var í jassdanstímum hjá Dansskóla Sigvalda öll sín unglingsár og sá áhugi hefur örugglega orðið til þess að hún valdi íþróttakennaranám á Laugarvatni eftir undirbúningskennslu í Kennaraskólanum. Eftir það nám fór hún árið 1971 til Kaupmannahafnar að læra fimleikakennslu hjá Lis Burmester Gymnastikinstitut.
Í Kaupmannahöfn kynntist hún Jensa sínum, Jens Maríus Dalsgaard, Færeyingnum góða, en hann var að læra þjóðhagfræði í Kaupmannahöfn. Þar bjuggu þau í tíu ár og eignuðust börnin sín Sverri og Sigrid. Hugurinn stóð þó alltaf heim og urðu Færeyjar fyrir valinu þar sem Jens fékk vinnu við sitt hæfi hjá Sambandi sveitarfélagana, þau fengu lóð á hagstæðu verði til að byggja húsið sitt. Þarna undi Sveiney hag sínum vel og kenndi fimleika í fimleikafélaginu Stökk. Hún kom nokkrum sinnum til Íslands á fimleikamót með sína hópa en fór líka til Evrópu á mót. Má segja að þarna hafi sköpunarkrafturinn notið sín vel, bæði við hönnun á húsinu sem var ekki hefðbundið færeyskt hús og eins í fimleikafélaginu. Þar laðaði hún að sér marga sem langaði að vera í fimleikum, voru ekki keppendur en gátu tekið þátt í hópfimleikum.
Á þessum árum saumaði hún öll föt á börnin sín, svo sem jogginggalla í mörgum litum sem þá voru í tísku og færeyska þjóðbúninga. Og ekki bara á sig og Jens og börnin heldur líka fyrir móður sína og börnin uppi á Íslandi. Það var prjónað og saumað og balderað og bútasaumað.
Börn okkar systra nutu þess að fara í sumarheimsóknir til Færeyja og dvöldu þar í góðan tíma í hvert skipti. Þau eiga ómetanlegar minningar frá þessum tíma. Farið var í bátsferðir, veitt og ferðir út á strönd þegar costa del Færeyjar sýndu sig. Það var líka yndislegt að geta heimsótt þau með þrjá litla stráka, eins og tveggja ára eitt sumarið og fá aðstoð hjá stóru systur sem alltaf gaf vel af sér og með ráðleggingar á hverju strái fyrir unga móður. Eldaði gómsætan mat svo Kristín systir gat virkilega notið og hvílt sig.
Um 1992 varð kreppan í Færeyjum til þess að Jens færði sig til Íslands og hóf störf hjá Vestnærræna sjóðnum og starfaði á Íslandi í um 6 ár. Hann bjó hjá tengdamóður sinni á Garðsenda þar sem fjölskylda Kristínar bjó líka. Jens var okkur mömmu og systrum mjög kær. Hann hugsaði vel um mömmu og tók þátt í stórfjölskyldulífinu, fór með okkur á skíði, í göngur og ferðalög. Hann hafði mikinn áhuga á fornum tungumálum og sérstaklega á uppruna íslensku og færeysku og miðlaði því skemmtilega til okkar. Einnig hafði hann mikinn áhuga á stærðfræði og gerði sitt besta að hjálpa ungviðinu í stærðfræðináminu. Jens hafði einstakan húmor sem féll okkur vel og var mikið horft á Monty Python myndir og þætti. Yngstu barnabörnin kölluðu hann afa.
Á þessu tímabili var Sveiney beðin um að sjá um skrifstofu sveitarfélaganna í stað Jens og gerði hún það með dyggri aðstoð hans frá Íslandi sem varð til þess að sú vinna varð hennar ævistarf. Jens fór heim aftur og vann þá hjá Norræna sjóðnum.
Það var áhugavert að fylgjast með þróuninni í vinnu Sveineyjar. Fyrst eini starfsmaðurinn, svo bættust tveir við og með árunum sameinuðust sveitarfélögin á eynni og á eftir Þórshafnar kommúna um skrifstofu.
Sveiney hafði gott orð á sér fyrir mikla reynslu og þekkingu á málefnum sveitarfélaganna. Hún fékk líka að njóta sín í sérstökum verkefnum varðandi aldraða og eins umhverfismálum þar sem hún kom nýjum hugmyndum áfram.
Jens lést í nóvember 2015 eftir erfiða baráttu við krabbamein í vélinda, en rúmlega þrítugur greindist hann með ólæknandi ónæmissjúkdóm. Hann átti þó gott líf og lifði mun lengur en spáð hafði verið í upphafi.
Sveiney var mikill lestrarhestur, alltaf með vasabók í töskunni og hafði unun af bókum með spennu, ævintýrum og frumlegheitum. Þar voru John Le Carré og Terry Pratchett í uppáhaldi og ekki má gleyma Harry Potter sem hún las löngu fyrir vinsældir hans. Hún fylgdist vel með heimsmálum las erlend fréttatímarit. Við gátum alltaf rætt heimsmálin, um kvikmyndir og bækur þótt við værum ekki á sömu bókmenntalínunni og áhuginn mismunandi.
Sveiney var alla tíð mjög meðvituð um að fara sínar eigin leiðir og að hver og einn fengi að njóta sinna hæfileika. Hún náði að smita þessum viðhorfum vel til barna sinna og þau njóta þess í dag.
Hún var alltaf lágstemmdari en við hinar systurnar, enginn læti eða óþarfa galsi. Vissi hvað hún vildi og lá ekki á skoðunum sínum. Kom með sínar ráðleggingar á rólegum nótum og var með sinn skemmtilega hráa húmor. En hún var líka viðkvæmt blóm. Það var ekki auðvelt að missa föður sinn á unglingsaldri og horfa upp á móður sína langveika þegar hún var sjálf að verða móðir. Við systur ræddum þessi mál oft seinni árin og sóttum styrk í hver í aðra. Hin síðari ár höfum við systur einnig verið duglegar við að njóta samvista með skemmtilegum ferðum sem geymast í minningunni.
Við sitjum hér við gluggann í Grannatúni og horfum út á fjörðinn sem systir okkar hafði fyrir augunum stóran hluta ævinnar. Fegurðin er ævintýraleg. Hér kaus hún að vera. Hún bjó sér fallegt heimili með Jens sínum og börnunum, var listfeng, skapandi, elskaði góðar bækur, að elda mat, ætíð frumleg á þeim slóðum. Hún skapaði sér sinn eigin stíl, hafði ekki áhyggjur af því hvað meðaljóninn hugsaði, talaði beint út um hlutina ef hún var ekki sammála.
Barnabörnin voru henni og Jens allt. Þau voru ætíð til staðar ef á þurfti að halda og elskuðu að sinna þeim. Það er sár missir þeirra Tórur og Bryndísar, að sjá á bak ömmu sinni, aðeins fjórum árum eftir að afi þeirra deyr.
Við söknum þín elsku Stóra systir með stóru Essi.
Olga, Kristín og Þórhildur.