Gústaf Óskarsson fæddist 3. júlí 1933 á Ísafirði. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 2. júlí 2019.
Foreldrar hans voru: Óskar Gústaf Ingjaldur Jensen prentari frá Ísafirði, f. 1906, d. 2009, og Hansína Kristrún Einhildur Hannibalsdóttir frá Kotum í Önundarfirði, f. 1905, d. 1995. Systkini voru Aðalheiður Óskarsdóttir Moskios, f. 1931, d. 2012, Málfríður Guðrún Óskarsdóttir, f. 1936, Anna Júlía Óskarsdóttir, f. 1940, og Ómar Óskarsson, f. 1949.
Eftirlifandi kona Gústafs er Kristbjörg Markúsdóttir, f. 30. ágúst 1935 á Ísafirði, dóttir Markúsar Þórðarsonar, f. 1910, d. 1990, og Auðar Ólafsdóttur, f. 1917, d. 2002.
Börn Gústafs og Kristbjargar eru Ólafur Jón, f. 1955, Ragnheiður Helga, f. 1956, Ósk, f. 1957, óskírð stúlka, f. 1958, d. 1959, Hans, f. 1960, Rúnar, f. 1962, d. 2017, Áróra, f. 1966, og Óðinn, f. 1969. Barnabörnin eru 17 og barnabarnabörnin eru 13.
Gústaf gegndi ýmsum störfum á æviferli sínum. Vann m.a. við húsbyggingar og í mjólkurvinnslu, bæði í Borgarnesi og á Ísafirði, auk þess að stunda grásleppuveiðar á Drangsnesi. Ævistarf Gústafs var þó kennarastarfið sem hann gegndi frá 1963 til 1993. Lengst af kenndi Gústaf á Ísafirði, en einnig á Barðaströnd, Kleppjárnsreykjum og í Hveragerði. Hann var skólastjóri barnaskólans á Drangsnesi frá 1967 til 1971. Síðasta kennsluárið sitt var hann skólastjóri grunnskólans á Núpi í Dýrafirði.
Gústaf var mikill söngmaður og söng bæði í Sunnukórnum og í kirkjukórnum á Ísafirði í mörg ár. Árið 2004 fluttu Gústaf og Kristbjörg til Hveragerðis og þar starfaði hann með kirkjukór Hveragerðiskirkju og með Hverafuglum, sem er kór eldri borgara í Hveragerði. Gústaf var mikill áhugamaður um leiklist og starfaði með Skallagrími í Borgarnesi og Litla leikklúbbnum á Ísafirði. Hann samdi og setti upp mörg leikrit með nemendum sínum.
Útför hans fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 12. júlí 2019, klukkan 14.
Tónlist og kennsla var honum hvoru tveggja í blóð borin. Hann var mjög músíkalskur og lærði bæði á fiðlu og selló og hann var góður söngmaður. Hann byrjaði snemma að syngja með kórum og í hartnær sjö áratugi var hann viðloðandi kórsöng. En köllun hans og ástríða var kennslan. Hann lagði mikið á sig til að geta sinnt þeirri köllun sinni. Sem unglingi stóð honum ekki til boða að mennta sig umfram þess tíma stutta skólaskyldu. Þegar hann var kominn með stóra fjölskyldu tók hann landspróf og byrjaði að kenna sem farandkennari. Til fjölda ára sótti hann sumarnámskeið á vegum kennarasambandsins, svo smátt og smátt safnaðist reynsla og menntun í sarpinn. Fór svo, eftir að hann hafði starfað í næstum tvo áratugi sem kennari, að hann fékk með forsetaúrskurði full kennararéttindi. Hann mætti kennslunni með því hugarfari að allir gætu lært eitthvað og væru einhverjir nemenda hans ekki miklir námsmenn á bókina, þá var hann alltaf sannfærður um að þeir hefðu einhverja aðra hæfileika sem myndu nýtast þeim. Eitt sinn hafði hann þó nemanda sem virtist eiginlega ekki geta orðið góður í einu eða neinu. Þessum nemanda gekk afleitlega með bóklestur og virtist mislagðar hendur í hverju sem hann tók sér fyrir hendur. Ég man að þetta olli pabba talsverðu hugarangri og svo virtist sem að þarna væri komin undantekning á kenningu hans um að allir gætu lært og orðið góðir í einhverju. Nokkrum árum seinna kom pabbi einn daginn inn um dyrnar heima, einstaklega hróðugur og virtist vera springa af spenningi og hálf sönglaði Ég vissi það & ég vissi það. Þá hafði hann séð þennan fyrrum nemanda sinn stjórna þungri vinnuvél af einstöku öryggi og nákvæmni. Þar með hafði kenningin hans haldið og hún hélt það sem eftir var af hans kennaraferli. Hann var ekki heldur sérstaklega hrifinn af normalkúrfum og reyndi alltaf að kenna öllum sínum nemendum þannig að þeir væru nokkurn veginn á sama stað í náminu. Það tókst honum yfirleitt og það án þess að það bitnaði á bestu námsmönnunum en hinir sem verr gekk námið nutu góðs af. Megnið af kennaraferlinum kenndi hann eldri bekkjum grunnskóla og hann sérhæfði sig í kennslu raungreina. Þó kom einstaka sinnum fyrir að hann væri með fyrsta árs nemendur. Einum slíkum bekk fylgdi hann í nokkur ár og kallaði alltaf, með smá kímni, bekkurinn minn sem ég kenndi aldrei að lesa. Hann notaði sönghæfileika sína til að kenna þeim ógrynni vísna og laga sem hann skrifaði upp á töflu, bar svo fingur undir orðin eftir því sem þau voru sungin. Á þennan hátt lærðu þau bæði lögin, vísurnar og að lesa. Og urðu allir nemendur þessa bekkjar fluglæsir án þess að hann tæki nokkurn tímann upp formlega lestrarkennslubók. Þannig var hann alltaf að leita að nýjum aðferðum sem hægt væri að nota við kennsluna. Það fór það orð af honum, og það hef ég eftir samkennara hans, að kennslan væri honum auðveld. Líklega er það þannig þegar maður er í því starfi sem maður hefur köllun til.
Ég ætla ekki að halda fram að hann hafi verið fullkominn og gallalaus. Því það var hann ekki frekar en aðrir. Allir sem einhvern tímann sátu til dæmis með honum í bíl, þar sem hann var undir stýri, uppgötvuðu fljótt að þar var enginn ökuþór á ferð. Og þótt hann hafi unnið við smíðar var margt annað sem lék honum betur að fást við. Ýmsir voru þannig kallaðir til af mömmu, þegar framkvæmdir voru fyrirhugaðar, til að hjálpa honum, en hann var nógu skynsamur til að átta sig á því að líklegra væri betra að hlutverkunum væri snúið við. Þannig tókst að koma mörgu í verk og alveg fram til þess síðast var hann að leggja á ráðin um einhverjar framkvæmdir. Núna í vor að planta út hlyn og elri við húsið en á óræktarspildu í eigu Hveragerðisbæjar sem hann tók í fóstur fyrir nokkrum árum. Í fyrra vildi hann reisa gróðurhús á pallinum fyrir mömmu ykkar. Þar sátu þau svo á sólardögum í vetur og drukku morgunkaffið sitt eða snæddu hádegismatinn. Og pallurinn var stækkaður fyrir þremur árum. En eftir því sem hann varð ónýtari til verka vegna heilsuleysis því fleiri urðu hendurnar sem tilbúnar voru að hjálpa.
Sá þáttur í fari pabba sem ég hef þó alla tíð borið mestu virðingu fyrir er heiðarleiki hans og hrifnæmni. Að stela, svindla eða ljúga var eitthvað sem var ekki til í hans bók. Hann skildi ekki að einhver hefði þörf fyrir að haga sér þannig. Og hann gat tárast ef eitthvað hreif hann; falleg tónlist, bíómynd eða góð bók. Sem unglingi fannst mér þetta vandræðalegt en seinna bara fallegt. Núna að leiðarlokum er ég vitanlega hryggur að geta ekki hitt hann aftur en um leið er ég óendanlega glaður og þakklátur fyrir að hann skuli hafa verið faðir minn. Hann kenndi mér margt og hefur alla tíð verið mér fyrirmynd. Ég mun sakna hans en á sama tíma ylja mér við dýrmætar minningar um mann sem fyrst og síðast var einstaklega falleg og heilsteypt manneskja. Það er því með hlýju í hjarta sem ég kveð hann pabba minn.
Hans.