Stefán Brynjólfsson fæddist í Stykkishólmi 28. ágúst 1952. Hann lést á Krabbameinsdeild Landspítalans 11. júlí 2019.
Foreldrar: Ásta Þorbjörg Beck Þorvarðsson, húsfreyja frá Sómastöðum í Reyðarfirði, f. 14. september 1913, d. 22. febrúar 2011, og Brynjólfur Þorvarðsson, verslunarmaður frá Stað í Súgandafirði, f. 6. maí 1902, d. 19. desember 1974.
Systkini Stefáns: Ragnheiður, f. 17. mars 1935, d. 20. apríl 1971, Þorvarður, f. 4. maí 1938, Anna, f. 19. júlí 1939, d. 28. maí 1993, Ásthildur, f. 3. ágúst 1944, Ríkharður, f. 2. janúar 1946, og Eiríkur, f. 28. desember 1950.
Stefán giftist Sigrúnu Magnúsdóttur, f. 12. júní 1945, hjúkrunarfræðingi og ljósmóður, árið 1982. Eiga þau eina dóttur saman, Apríl Eik, f. 15. nóvember 1982. Maki hennar er Brynjar Bergþórsson og eiga þau tvær dætur, Emmu Rós og Sigrúnu Ósk. Uppeldissonur Stefáns er Jón Júlíus Þórisson, f. 16. ágúst 1973. Maki hans er Sólveig E. Jacobsen og eiga þau þrjár dætur, Sonju Mist, Eydísi Völu og Þórunni Elísabetu. Sonur Stefáns fyrir hjónaband er Róbert, f. 10. ágúst 1977. Móðir hans er Guðbjörg Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Maki Róberts er María Lea Ævarsdóttir, saman eiga þau soninn, Storm Ými, en María Lea á fyrir dótturina Amelíu Líf.
Stefán lauk grunnskólaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar árið 1970. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík og lauk hann stúdentsprófi frá MR árið 1975. Eftir menntaskóla fór hann út til Noregs í nám við Gjøvik Ingeniørhøgskole í byggingartæknifræði og lauk hann námi 1981. Eftir nám vann hann við landmælingar í Noregi. Árið 1983 flutti hann ásamt fjölskyldu aftur heim til Íslands þar sem hann vann hjá Íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli til 1985. Hafði hann unnið hjá þeim yfir sumartímann með námi frá 1981. Snemma árs 1986 fluttust Stefán og fjölskylda til Ísafjarðar þar sem hann starfaði sem byggingarfulltrúi allt til ársins 2006. Með starfi á Ísafirði bætti hann við sig menntun tengdri skipulags- og byggingamálum. Um mitt árið 2006 fluttu hann og Sigrún til Reykjavíkur og hóf hann störf hjá Fasteignamati ríkisins, seinna Þjóðskrá Íslands, þar sem hann vann til dánardags.
Stefán verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 19. júlí 2019, klukkan 13.
Þar sem ég sit hér og hugsa til þín fara svo ótal margar minningar um hugann að ég fæ ekki við neitt ráðið. Það er svo óendanlega sárt að þurfa að skrifa hinstu kveðjuna til þin í dag því kveðjustundin kom alltof fljótt. Fyrir 15 árum hittumst við fyrst þegar þú og Sigrún komuð í kaffi til okkar Apríl í Hraunbæinn, þar sem við byrjuðum okkar sambúð og eins og lög gera ráð fyrir var ég stressaður að hitta tengdó í fyrsta skipti. En eftir nokkrar mínútur var stressið farið og ég fann að við náðum vel saman. Þegar við hittumst næst eyddum við jólunum 2005 saman hjá ykkur á Ísafirði, það var yndislegur tími þar sem við kynntumst betur. Mér leið eins og einum af fjölskyldunni, við spiluðum kana, hlógum og höfðum gaman. Svo þegar leið að áramótum lá allt flug niðri og við Apríl þurftum að komast suður í vinnu þá hikaðir þú ekki við að lána okkur bílinn, þannig varst þú, alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum ef þú mögulega gast. Ferðirnar til ykkar vestur urðu fleiri og alltaf jafn góðar.
Ég man hvað Apríl var glöð þegar þið ákváðuð svo að flytja suður því þá fengi hún meiri tíma með pabba til að fara í bíó og ég fann það strax að það voru ykkar stundir sem voru ykkur báðum svo dýrmætar. Því þú varst mikill og góður pabbi með stórt og hlýtt faðmlag og frábær afi sem elskaði barnabörnin sín út fyrir allt. Ég mun alltaf muna hversu stoltur þú varst þegar þú komst í bóndadagskaffið hjá Emmu Rós og Sigrúnu Ósk í leikskólanum og þær voru að sýna þér listaverkin sín. Já, minningarnar eru margar og allar góðar, enda ekki hægt að finna geðbetri og þægilegri mann í umgengni en þig. Aldrei sá ég þig í vondu skapi og þegar veikindin dundu yfir tókstu þeim af æðruleysi, rósemi og kvartaðir aldrei þó svo við hin í kringum þig yrðum bæði sorgmædd, reið og vanmáttug. En lífið hélt áfram og í oktober sl. fórum við öll í ferðina okkar til Tenerife og áttum þar frábæran tíma sem mun aldrei gleymast. Við tveir spiluðum pool og fengum okkur kokkteil við laugina, auðvitað hefðu ferðirnar átt að vera miklu fleiri en það gafst ekki tími til þess, en þessi ferð er okkur Apríl og stelpunum gríðarlega dýrmæt minning sem lifir áfram. Veikindi þín versnuðu og sjúkdómurinn dreifði sér hratt og fljótlega var ljóst að baráttan yrði erfið við að eiga en aldrei kvartaðir þú og þegar ég spurði þig hvernig þér liði sagðirðu bara: Jú mér líður bara mjög vel og get ekkert kvartað.
Svo í lok júní fengum við þær fréttir að ekkert meira væri hægt að gera og í mesta lagi væru nokkrir mánuðir eftir, en ég vissi innst inni að það yrði styttri tími, þó ekki grunaði mig svo hversu stuttur hann varð. Það gaf okkur mikið að geta verið öll hjá þér þegar þú kvaddir þessa jarðvist umkringdur þínum nánustu og mikið vorum við þakklát fyrir að þú kvaldist ekki og fékkst fallegt og friðsælt andlát. Því þó sorgin sé mikil þá er svo ótal margt sem við getum verið þakklát fyrir að eiga í minningabankanum um þig elsku tengdapabbi. Takk fyrir að vera alltaf til staðar þegar við þurftum á þér að halda. Takk fyrir stóru faðmlögin þín. Takk fyrir að vera konunni minni sá besti pabbi sem hægt er að eiga. Takk fyrir að vera börnunum mínum sá allra besti afi sem nokkurt barn getur hugsað sér að eiga. Takk fyrir að kynna mig fyrir Pink Floyd. Takk fyrir að vera besti tengdapabbi sem ég get hugsað mér.
Blessuð sé minning þín elsku tengdapabbi.
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
( Bubbi Morthens)
Brynjar B.
Ég hef alltaf verið pabbastelpa, kannski (og líklega) af því ég líkist mömmu svo mikið. Ég og pabbi vorum alltaf góðir félagar, hann kenndi mér á skíði heima á Ísafirði, hjálpaði mér með stærðfræðina og fór með mig á ísrúnt um firðina og fjöllin sem gátu varað í nokkra klukkutíma. Stundum sátum við bara og þögðum og hlustuðum á útvarpið, stundum spjölluðum við um heima og geima og stundum var hann að koma einhverjum merkilegum fróðleik að hjá mér sem oftar en ekki fór inn um eitt og út um hitt. Þannig var pabbi, hafsjór af þekkingu sem hann vildi miðla áfram til okkar og vonlaust var að fara með honum í Trivial (við gerðum það einu sinni, við á móti honum og við skíttöpuðum). Pabbi var líka mikill rólyndis maður, eitt af fáu skiptunum sem ég man að hann varð pirraður út í mig að einhverju leyti var þegar ég teiknaði þessa fínu regnboga/sólsetursmynd á vegginn í forstofunni meðan hann var að elda matinn. Mikið meira var það nú ekki. Annað sem einkenndi hann pabba líka voru hinir blessuðu Pink Floyd sem hann vildi endilega að ég hlustaði á og kynni að meta. Mér fannst þetta allt saman frekar hallærislegt þar til mér var bent á að pabbi minn væri nú reyndar ógeðslega töff, þar sem hann var áskrifandi að National Geographic, reykti pípu og hlustaði á Pink Foyld, Deep Purple og Jethro Tull. Litla gelgjan sem þá var fór að kunna að meta pabba sinn aðeins betur aftur.
Þar sem við bjuggum á Ísafirði alla mína æsku voru bæjarferðir til Reykjavíkur ekki óalgengar. Eitt af því sem var hefð í bæjarferðinni var að fara í bíó og fá sér pylsu á Bæjarinns bestu. Eftir að við vorum öll flutt suður, varð þetta að reglulegum hittingi hjá okkur feðginunum, að kíkja í bíó á þriðjudagskvöldi. Ég man ekki hvaða mynd við sáum í síðasta skiptið, en það var þegar við fórum fjögur saman, ég, pabbi, Róbert og Júlli. Ætlunin var að fara með honum aftur í eitt síðasta skiptið ef heilsan leyfði, en það varð ekki.
Og svo eru það stelpurnar mínar, litlu afastelpurnar, sem hann sá ekki sólina fyrir. Og þær dýrkuðu hann, að fara til ömmu og afa vakti alltaf mikla kátínu hjá þeim litlu því amma og sérstaklega afi, segja aldrei nei. Afi safnaði líka fullt af allskonar hlutum, sem margir mundu kalla drasl, en geta verið algjörir fjársjóðir fyrir litla fingur. Lítil hávaðsöm hljóðfæri, upptrekt leiktæki af götumarkaði á Tene og svo bara gömlu góðu púslin eða blöð og litir. Hann var mikill barnakall, þótti vænt um börn, hafði endalausa þolinmæði til að sýna þeim og kenna, og fannst best að fá frá þeim knús. Hann var endalaust stoltur af barnabörnunum sínum og alltaf boðinn og búinn til að hjálpa eins og hann gæti.
Þegar pabbi greindist með krabbamein reyndi ég að vera bjartsýn. Það væri hægt að halda krabbameini niðri í einhver ár, ég þekkti nú sjálf dæmi um það. En svo fór að halla undan fæti, hver lyfjameðferðin á fætur annarri virkaði ekki nægilega vel. Við höfðum ákveðið að fara með mömmu og pabba til Tenerife um vorið en það frestaðist þar sem hann þurfti að byrja strax í lyfjameðferð. Við ákváðum því að fara um haustið, en þá þegar var ljóst hvert stefndi. Þessar tvær vikur með þeim úti á Tenerife eru gull og gimsteinar í kistu minninganna fyrir okkur öll. Pabbi var hress og fór ýmislegt með okkur eða bara slappaði af á sundlaugarbakkanum með kokkteil í hönd. Jólin komu og voru yndisleg, pabbi og mamma voru hjá okkur í mat á aðfangadag og gamlársdag en þrekið var greinilega minna en áður, þó hann kvartaði aldrei. Og svo kom 2019, árið sem við vissum að yrði erfitt. Í lok júní fengum við að heyra frá læknunum að pabbi ætti bara nokkra mánuði eftir. Tveim vikum seinna var hann farinn. Síðasta sólarhringinn gekk allt upp eins vel og það gat orðið. Hann komst af bráðamóttökunni yfir á rólegri stað á krabbameinsdeildinni og við vorum öll þar hjá honum þegar hann kvaddi, sem hann gerði átakalaust og friðsællega. Hann kvaldist ekki lengi og fyrir það munum við vera ævinlega þakklát.
Elsku pabbi. Ég er þakklát fyrir að hafa haft þig hjá mér í 36 ár. Ég er þakklát fyrir að þú fylgist með mér að útskrifast sem hjúkrunarfræðingur, eignast stelpurnar mínar og stóðst við hlið mér þegar ég gifti mig. Ég er þakklát fyrir að þú kynntist honum Binna mínum fyrir 15 árum síðan og tókst honum opnum örmum. Ég er þakklát fyrir þær stundir sem stelpurnar mína áttu með þér.
Ég syrgi líka að fá ekki að hafa þig lengur, að fara með þér í bíó eða borða ís, hlusta á Pink Floyd og halda jólin. Mesta sorgin er að þú fáir ekki að sjá stelpurnar mínar vaxa úr grasi og verða að fullorðnum einstaklingum sem geta ekki beðið með að segja afa frá hvernig gekk í stærðfræðiprófinu, leiklistarnámskeiðinu eða bara almennt hvernig lífið gengur hjá þeim.
Elska þig pabbi og sakna þín. Ég vildi að þú værir hér.
Apríl Eik.