Jón Guðmann fæddist í Reykjavík 24. október 1952. Hann lést 15. júlí 2019 á Landspítalanum í Fossvogi.
Foreldrar hans eru Fanný Guðbjörg Guðmannsdóttir, f. 24.10. 1932, d. 27.1. 2017, og Már Sveinsson, f. 16.11. 1933. Bróðir Jóns var Sigurður Sveinn, f. 1955, d. 2008. Svenni var giftur Vaidu Másson og eignuðust þau einn son, Samúel, f. 1999, d. 2014. Fanný giftist Magnúsi Jónssyni, f. 1924, d. 1968. Sammæðra systur eru Halldóra Elín, f. 1959, gift Guðmundi A. Sæmundssyni. Valdís, f. 1960, gift Unnsteini Hermannssyni, og Sólveig Fanný, f. 1961 gift Hallgrími Gröndal.
1973 giftist Fanný Kristni Ólafssyni, f. 1932, d. 2006. Már giftist Margréti Björnsdóttur, f. 1962, d. 2015. Samfeðra systkin eru Sigþór Sveinn, f. 1959, giftur Kristínu Arnþórsd. Ingvar, f. 1964, giftur Kim McDonnell. Sigurður, f. 1968, giftur Arnfríði Ragnarsdóttur, og Sveina María, f. 1973. Eftirlifandi eiginkona Jóns er Dorian Obando Gomez, f. 17.11. 1968. Sonur Dorian er Andres Ivan Robayo Obando.
Jón kvæntist Guðrúnu Auðunsdóttir frá Kálfhóli á Skeiðum árið 1974 og eignuðust þau tvö börn. Magnús Jónsson, f. 1973, kvæntur Huldu Grímsdóttur, þau eiga þrjú börn, Kristófer, f. 1994, Sigrúnu Köru, f. 1999, og Grím Guðmann, f. 2003. Fanný Guðbjörg, f. 1981, gift Bjarna Kristjánssyni, f. 1980, eiga þau tvær dætur, Pálínu Guðrúnu, f. 2015, og Rögnu Lovísu, f. 2018, auk þeirra er drengur væntanlegur í heiminn í ágúst 2019.
Yngstu dóttur sína eignaðist Jón með Heiðu Leifsdóttur, Karitas Sól, f. 1995, og ólst hún upp hjá föður sínum.
Jón ólst upp í Laugarnesi og var varla byrjaður í grunnskóla þegar hann var farinn að bera út og selja Vísi. Ásamt blaðasölunni vann hann með afa sínum hjá Reykjavíkurborg.
Hann fór ungur með afa sínum vestur í Hítardal og kynntist hjónunum að Staðarhrauni. Vann hann hjá þeim nokkur sumur.
Útför Jóns fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 22. júlí 2019, klukkan 13.
Engar fleiri daglegar hringingar, ekki fleiri mánaðarleg stefnumót á
krabbameinsdeildinni, ekki fleiri sterk innileg og löng faðmlög, allt í
einu er allt búið.
Elsku besti bróðir minn, Jón Guðmann, er búinn að kveðja þetta líf og er
farinn til indíánanna sinna, þar er partíið byrjað.
Jón bróðir var fæddur 24. október árið 1952 á 20 ára afmælisdegi mömmu,
hann var elstur af okkur fimm systkinum. Næstur í röðinni var Svenni bróðir
hann var fæddur 1955. Fyrstu ár þeirra bræðra ólust þeir upp saman í
kjallaranum hjá ömmu og afa á Laugarnesvegi 81. Mamma og pabbi Jóns slitu
samvistum og varð úr að afi og amma ættleiddu Jón. Við ólumst öll upp saman
bæði heima og hjá ömmu og afa og það voru mikil samskipti á milli okkar
allra.
Jón var stóri bróðir okkar þriggja systra og Svenna, hann passaði upp á
okkur öll þegar við vorum yngri og mamma var orðin ein með okkur systkinin
eftir að pabbi dó. Hann var töffarinn okkar, gleðigjafi og mikill
húmoristi. Hann var svo dásamlega hlýr og fallegur og hafði mjög fallegt
bros, það birti upp hvar sem hann kom. Allar konur elskuðu Jón og allar
vildu þær eiga hann, hann vissi vel af því og elskaði það. Jón hafði mjög
góða nærveru, dæmdi engan og gaf öllum séns. Hann átti félaga út um allan
heim.
Jón lifði lífinu í orðsins fylgstu merkingu um leið og hann fór að hafa vit
til. Á unglingsárum var hann fjörugur og frekar áberandi í Vogahverfinu.
Hann fór snemma að vinna fyrir sér. Fór í Bændaskólann á Hvanneyri og var
mikið í sveit á Skeiðum. Hann átti sterkar taugar til Hlemmiskeiðs og
kallaði þann stað uppáhaldsstaðinn sinn. Hann talaði mikið um þá tíma við
mig og sagði að þetta hefðu verið bestu ár lífs síns. Hann hafði mikinn
áhuga á búskapnum hjá okkur hér í Langholtskoti og fylgdist vel með öllu
sem honum við kom, hann var bóndi í hjarta sínu. Einnig var Jón á sjó í
nokkur ár og vann á vinnuvélum í fjölda ára. Jón fluttist til Noregs með
Gunnu þáverandi konu sinni og son þeirra Magnús þar eignuðust þau Fanný
Guðbjörgu. Þau bjuggu þar í nokkur ár, hann eignaðist vini um allan heim og
á enn. En aldrei var djammið langt undan sem setti mark á fjölskylduna. Jón
og Gunna fluttu aftur til Íslands og slitu samvistum. Jón giftist aftur og
eignaðist Karitas Sól sem var dekurrófan hans eins og við kölluðum það, en
jafnframt augasteinninn, aftur varð hann einn á báti en Karitas fylgdi
pabba sínum og átti fastan samastað hjá honum, þau voru mjög náin.
Jón hafði sterkar skoðanir á öllu og var mjög fróður, vel lesinn og mikill
heimspekingur. Hann hafði miklar skoðanir á pólitík, þjóðmálum og þorði að
tjá sig um það.
Jón var sá sem fór til Litháen og sótti Svenna bróður þegar hann dó árið
2008. Hann sagði að það hefði verið það erfiðasta sem hann hefði gert á
ævinni. Setti það mikið mark á hann og þegar sonur Svenna tók líf sitt
stuttu síðar var það eitthvað sem ekkert okkar náum að vinna úr. Hann
myndaði tengsl við mágkonu okkar í Litháen og hélt því sambandi. Þannig
maður var Jón, aldrei nokkrun tíma kvart eða kvein.
Jón fór ekki alltaf vel með sig, hann var túrakall sem hafði slæm áhrif
á hann og hans nánasta fólk, oft voru það erfiðir tímar. Hann vildi engum
illt og var miður sín yfir því að hafa valdið öðrum erfiðleikum og
áhyggjum.
Jón sagði oft við mig Valdís mín, það er ekki út af neinu sem ég er búinn
að lifa svona hátt, ég vissi þetta alltaf og ég bara nýtti tímann vel. Það
er líka svo sterkt í mér manstu við erum komin af Fjalla-Eyvindi. Þessar
umræður áttum við oft þetta síðasta ár. En fyrir ári síðan þá greindist Jón
með blóðsjúkdóm sem var ólæknanlegur. Síðastliðið ár er hann búinn að heyja
baráttu til að reyna að halda sjúkdómnum niðri. Ég fór með honum í þessar
meðferðir og reyndi að styrkja hann og hvetja. Á þessu síðasta ári
mynduðust ennþá sterkari bönd á milli okkar. Hann sagðist vera búinn að
gefast upp fyrir löngu ef hann ætti ekki stelpurnar sínar tvær, Karitas og
senjorítuna hana Dorían sem hann var svo heppinn að finna og giftast. Þær
gat hann ekki hugsað sér að skilja eftir og sagði: hver á að hugsa um þær?
Hann vildi ekki missa af litlu barnabörnunum sínum í Svíþjóð og stóru
afabörnunum í Grafarholti. Hann talaði mikið um þau öll við mig en kunni
kannski ekki alltaf að haga sér eins og allir vildu eða koma orðum að því.
Mikið sýndi hann mér oft snöpp af þeim og var svo stoltur, ég skoðaði þetta
allt en var ekkert að segja frá því að ég væri nú líka með þau á snappi og
væri búin að sjá þetta.
Jón var meira en viss um framhaldslíf og ætlaði að lifa því. Sögu
indíána var hann búinn að kynna sér vel og ætlaði að hitta þá. Hann
hlakkaði til að hitta fólk okkar og fylgjast með og passa okkur hér niðri,
er ég viss um að hann gerir það. Honum var mjög umhugað um okkur öll og
fjölskyldurnar okkar og fylgdist vel með hvað allir væru að gera.
Vinnan var verkfærið hans til að komast í gegnum lífið þetta síðasta ár og
fór hún oft fram úr hófi að margra mati. Jón var fluttur úr leigubílnum sem
hann vann á sunnudaginn 14. júlí á bráðamóttökuna og lést á
gjörgæsludeildinni mánudagskvöldið 15. júlí. Það síðasta sem hann sagði við
mig þann sunnudaginn var: Valdís mín, manstu við erum oft búin að ræða
þetta, þetta fer eins og það fer, við ráðum engu, ekki hafa áhyggjur, bið
að heilsa öllum, farðu varlega elskan mín, við sjáumst.
Elsku Dorían og krakkar mínir, Magnús, Fanný og Karitas og fjölskyldur,
missir ykkar er mikill, passið og elskið hvort annað. Ég samhryggist ykkur
svo mikið, guð veri með ykkur ég veit að indíána bróðir minn verður það
líka.
Valdís Magnúsdóttir.