Þórir Helgason fæddist í Reykjavík 15. febrúar 1932. Hann lést 27. júlí 2019.
Foreldrar hans voru Sesselja Þ.G. Vilhjálmsdóttir listmálari, f. 26.12. 1897, d. 17.10. 1978, og Helgi Bjarnason trésmiður, f. 24.5. 1892, d. 7.10. 1988. Bróðir hans var Hallgrímur Helgason smiður, f. 24.1. 1929, d. 9.6. 2009.
Hinn 2. ágúst 1955 giftist Þórir Auði Jónsdóttur, f. 29.4. 1933, yfirflugfreyju og síðar læknaritara. Foreldrar hennar voru Klara Bramm húsfreyja, f. 24.7. 1905, d. 29.4. 2008, og Jón Helgason kaupmaður, f. 22.9. 1904, d. 17.5. 1973. Börn Þóris og Auðar eru: 1) Hilda Klara, f. 19.2. 1956, læknir, maki Bogi Andersen læknir. Börn þeirra Þórir, f. 31.8. 1983, tónlistarmaður og frumkvöðull, unnusta Jarþrúður Karlsdóttir. Anna Guðrún, f. 2.11. 1986, ritstjóri. Tómas, f. 4.10. 1989, læknir, unnusta Annie Toulmin. 2) Anna Sesselja, f. 14.2. 1958, læknir, fyrrv. sambýlism. Ian Cameron iðnhönnuður. Barn þeirra er Þorsteinn, f. 31.8. 1991, BA í ljósmyndun, mastersnemi í umhverfisvernd. 3) Helga, f. 15.7. 1968, lögfræðingur, maki Theodór Jóhannsson sjúkraþjálfari. Börn þeirra Auður Katarína, f. 9.11. 1998, nemi í hugbúnaðarverkfræði, Kolbeinn, f. 25.8. 2000, nýstúdent, Lilja Dórótea, f. 5.9. 2011.
Þórir ólst upp í Skerjafirði en flutti síðan ásamt fjölskyldu sinni á Bollagötu í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1952 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1959. Þórir hlaut almennt lækningaleyfi 29. apríl 1961 og sérfræðingsleyfi í lyflækningum, sérstaklega efnaskiptasjúkdómum, 29. desember 1966. Þórir sótti sérnám til Bretlands frá 1961-1966, m.a. á Ruchill Hospital í Glasgow, Bolton Royal Infirmary í Bolton í Lancashire, Northern General Hospital í Edinborg og Aberdeen General Hospital – Diabetic Clinic lyflækningadeild. Þórir starfaði á Landspítala, lyflækningadeild, frá árinu 1966. Hann stofnaði göngudeild sykursjúkra við Landspítalann árið 1974 og var yfirlæknir þar frá upphafi til starfsloka árið 1998. Hann var einnig dósent í innkirtlasjúkdómum við læknadeild Háskóla Íslands um sex ára skeið. Síðan prófdómari við embættispróf í lyflæknisfræði við Háskóla Íslands. Þórir var formaður félags læknanema 1957-58. Gjaldkeri Félags lyflækna 1967-68. Varaformaður Samtaka sykursjúkra í Reykjavík frá stofnun þeirra árið 1971-1980. Hann var í stjórn Styrktarsjóðs lækna 1976-80 og í stjórn Vísindasjóðs Landspítalans og Rannsóknarstofu Háskólans við Barónsstíg 1978-80. Þórir var brautryðjandi í meðferð sykursjúkra á Íslandi. Eftir hann liggur fjöldi vísindagreina sem birtar hafa verið í innlendum og erlendum tímaritum, einkum byggðra á rannsóknum hans á orsökum og eðli sykursýki. Þórir var kjörinn heiðursfélagi Samtaka sykursjúkra í Reykjavík árið 1981. Hann hlaut heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands árið 1998 fyrir framlag sitt til alþjóðlegrar þekkingar og framfara á sviði sykursýki.
Útför Þóris fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 6. ágúst 2019, klukkan 13.

Tengdafaðir minn, Þórir Helgason læknir, kom heim 1966 úr sérnámi og breytti horfum íslenskra sykursýkisjúklinga.

Þórir hafði numið lyflæknisfræði í Bretlandi og lagði fyrir sig sérnám í sykursýki síðustu tvö árin á sykursýksideild Aberdeen General Hospitals. Þar vann hann undir handleiðslu John M. Stowers yfirlæknis, sem sjálfur var með sykursýki. Stowers innleiddi ýmsar nýjungar í meðferð sjúkdómsins og var fyrirmynd Þóris og samstarfsmaður í rannsóknum til langs tíma. Það var í Aberdeen sem Þórir sannfærðist um að hægt væri að koma í veg fyrir fylgikvilla sykursýkisjónskemmdir, taugaskemmdir, nýrnabilanir, aflimanir, og háan burðarmálsdauða hjá ófrískum konum með sykursýkimeð því að halda blóðsykrinum eins nálægt eðlilegum gildum og mögulegt var.

Nú er það svo að á þessum tíma voru alls ekki allir sannfærðir um að ströng meðferð á sykursýki hefði áhrif á tíðni fylgikvilla hennar. Það var líka erfitt að halda blóðsykrinum nálægt eðlilegum gildum og oft var talið að ekki væri hægt að gera betur í meðhöndluninni en að koma í veg fyrir einkenni eins og þorsta og tíð þvaglát. Það var svo ekki fyrr en 1993 að stór alþjóðleg rannsókn, The Diabetes Control and Complications Trial, sýndi fram á að ströng meðferð sykursýki minnkaði tíðni fylgikvilla. Undir lok síðustu aldar leiddu þessar rannsóknarniðurstöður til aukinnar áherslu á strangri meðferð sykursýki um allan heim.  Þrjátíu árum áður hafði Þórir veðjað á réttan í strangri meðferð sykursýki og margir íslenskir sykursýkisjúklingar fengu áratuga forskot á bestu mögulegu meðferð sjúkdómsins.

Það var líka á sykursýkisdeildinni í Aberdeen sem Þórir sannfærðist um mikilvægi þess að sjúklingarnir væru meðhöndlaðir og þeim fylgt eftir ævilangt á göngudeild háskólasjúkrahúss. Eingöngu þar væri hægt að setja saman margmannað teymi heilbrigðsstarfsmanna sem var nauðsynlegt til að kenna sjúklingunum stranga meðferð, þar á meðal um mikilvægi mataræðis. Með slíkri göngudeild var líka auðveldara að hafa náið samstarf við aðra lækna sem koma að meðferðinni, þar á meðal fæðingarlækna og augnlækna. Og eingöngu á slíkri deild væri nægilegur fjöldi sjúklinga saman kominn til að hægt væri að stunda rannsóknir á sykursýki.

Allt frá heimkomu barðist Þórir ötullega fyrir stofnun slíkrar deildar á Landspítalanum. Í því sambandi tók Þórir þátt í stofnun Samtaka Sykursjúkra 1971 og með þeirra hjálp tókst honum að koma göngudeild sykursjúkra á laggirnar á Landspítalanum þremur árum síðar, 1974. Að stofnun samtakanna kom fjöldi kraftmikilla einstaklinga. Fyrsti formaðurinn var Hjalti Pálsson og Þórir varð fyrsti varaformaðurinn, hlutverk sem hann gengdi um langa tíð. Samkvæmt lögum samtakanna höfðu þau þann tilgang m.a. að styðja við starfsemi göngudeildar sykursjúkra á Landspítalanum, sem þau gerðu. Samtök Sykursjúkra eru ekki fyrstu sjúklingasamtökin á Íslandi, en vissulega gott dæmi um áhrifamátt þess að sjúklingarnir sjálfir taki sig saman og krefjist umbóta í heilbrigðiskerfinu.

Árangur af bættri meðferð sykursýki kom fljótt fram. Samfélagsleg áhrif af starfi deildarinnar mögnuðust því langflestir sjúklingar á Íslandi með tegund 1 sykursýki leituðu til deildarinnar og sömuleiðis margir með tegund 2 sykursýki, sem þá var óalgengari en hún er í dag. Þannig varð burðarmálsdauði hjá sykursjúkum konum mjög sjaldgæfur, en hafði verið allt að 10% áður. Þessi árangur náðist m.a. vegna góðrar samvinnu göngudeildar sykursjúkra við fæðingarlækna Landspítalans, þar á meðal Reyni Tómas Geirsson fyrrverandi prófessor, sem sýndi þessu sviði sérstakan áhuga og vann vel og náið með Þóri.

Þórir þrýsti snemma á skimun vegna augnsjúkdóms í sykursýki og komu augnlæknarnir Guðmundur Björnsson og Friðbert Jónasson slíkri skimun á um 1980. Þetta er líka áhugasvið Einars Stefánssonar prófessors í augnlækningum sem sérstaklega hefur sinnt forvörnum gegn blindu í sykursýki. Enda er blinda af völdum sykursýki sjaldgæfari hér en í öðrum löndum. Það sama má reyndar segja um endastig nýrnabilunar og aflimanir af völdum sykursýki, að þær voru, a.m.k. lengi vel, sjaldgæfari á Íslandi en í öðrum vestrænum löndum. Það er í raun ekki hægt að finna aðra skýringu á þessum góða árangri en stranga sykursýkismeðferð og góða samvinnu milli læknisfræðigreina í forvarnarstarfi vegna fylgikvilla sykursýki.

Þórir var nákvæmismaður. Þetta persónueinkenni kom meðal annars fram í því hvernig hann beitti insúlínmeðferð í tegund 1 sykursýki. Hver insúlín skammtur var ákvarðaður eftir kolvetnamagni matarins og gildi sykurs í þvagi og svo seinna í blóði þegar slíkar aðferðir komu til sögunnar. Þessi aðferð, þar sem sjúklingurinn sjálfur breytir insúlín skammti sínum við hvert mál, er í dag nauðsynlegur hluti góðrar meðferðar á tegund 1 sykursýki. En hún var óalgeng á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, a.m.k. vestan hafs og á Norðurlöndum.

Niðurstöður tvíblindra og slembiraðaðra klínískra rannsókna eru grundvöllur sumra ráðlegginga lækna. En í raun byggjast margar ákvarðanir í læknisfræðinni meira á innsæi þar sem læknirinn notar dómgreind til að raða saman þekkingu úr mörgum áttum. Þórir hafði nánast yfirnáttúrulegan hæfileika til að veðja á réttar aðferðir áður en sýnt var fram á gildi þeirra með traustum klínískum rannsóknum. Farsæli hans byggðist á góðri dómgreind og djúpum skilningi á lífeðlis- og lífefnafræði efnaskipta og á eðli sykursýki. Hann hafði líka nægilegt sjálfstraust og sannfæringarkraft til að bera út kraftmikinn boðskap um stranga meðferð á sykursýki.

Það var ekki eingöngu trúin á gildi strangrar meðferðar við sykursýki þar sem innsæi Þóris hefur reynst rétt.  Þannig trúði hann því að hægt væri að greina forstig tegundar 2 sykursýki með sykurþolsprófum og að koma mætti í veg fyrir sjúkdóminn með réttu matarræði, megrun, og lyfjum. Það var síðan ekki fyrr en 2002 að niðurstöður úr The Diabetes Prevention Program rannsókninni sýndu að hægt er að koma í veg fyrir tegund 2 sykursýki með þessum aðferðum.  Í dag er lögð mikil áhersla á fyrirbyggingu tegundar 2 sykursýki, sem fáir gerðu fyrir lok síðustu aldar. Annað dæmi er sú ofuráhersla sem Þórir lagði á kjörþyngd sjúklinga. Þessi áhersla, sem sumum fannst jaðra við ofstæki á þeim tíma, reyndist líka rétt. Það er öllum ljóst nú þegar tíðni tegundar 2 sykursýki eykst ofurhratt í takt við hækkandi þyngd Íslendinga.

Þórir hafði fágaða og fallega framkomu og sást aldrei, fyrr né síðar, nema óaðfinnanlega klæddur. Hann bjó yfir persónutöfrum og fallegri og kraftmikilli rödd. Hann hafði þokkafullan sannfæringarkraft sem nýttist honum vel þegar sannfæra þurfti sjúkling um megrun eða betri stýringu á blóðsykri. Hann var afskaplega áhugasamur um árangur sjúklinganna og kunni að beita hrósi á áhrifaríkan hátt. Þessir persónueiginleikar voru sennilega stór hluti af árangursfullri sykursýkismeðferð Þóris.

Þórir lét af störfum 1998, þá 66. ára. Hann hafði fengið krabbamein í barka og þó hann læknaðist af meininu þá átti hann erfiðara með að beita röddinni góðu við sjúklinga og kollega. Þá fannst honum líka að göngudeildin væri komin í styrkar hendur Ástráðs Hreiðarssonar sykursýkissérfræðings sem hafði komið til starfa á deildinni 1981 og hafði reynst Þóri afskaplega dýrmætur samstarfsmaður. Hagur deildarinnar hafði þá batnað.

Það sem Þórir tók að sér sótti hann af staðfestu, elju og þrautseigju, og gaf oft lítið eftir. Hann hafði líka sterka réttlætiskennd. Þetta voru persónueinkenni sem grundvölluðu starfsárangurinn, en voru kannski líka orsök þess að ákvörðunin um starfslok var ekki eins erfið og ætla mætti; starfsárangurinn hafði komið eftir baráttu við kerfið. Stofnun göngudeildar sykursjúkra og ráðning Þóris sem yfirlæknis hafði mætt andstöðu hjá stjórnendum spítalans. Til að koma deildinni á laggirnar þurfti þrýsting frá Samtökum Sykursjúkra og beina íhlutun frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri studdi stofnun deildarinnar. Þessi átök höfðu tekið á og litað áframhaldandi starf á Landspítalanum. Góðar hugmyndir gátu átt erfitt uppdráttar í íslensku spítalapólitíkinni þar sem persónulegur metnaður var stundum hærra settur en hagsmunir sjúklinga.

Eftir stofnun deildarinnar stóð Þórir í ströngu við stjórnendur spítalans til að fá nægilegan starfskraft og betri starfsaðstöðu. Göngudeildarstarfsemi á Landsspítalanum var hornreka á þessum árum. Enda hefur einkarekstur lengi verið hluti af kjarabarátta lækna og áhrifamiklir læknar, sem dreymdi um að íslenska heilbrigðiskerfið yrði líkara því ameríska, versta heilbrigðiskerfis hins vestræna heims, höfðu nokkur áhrif á stefnuna í þessum málum.

Í viðtali við Jafnvægi, tímarit Samtaka sykursjúkra, lýsti Ástráður Hreiðarsson göngudeildaraðstöðunni þegar hann kom til starfa 1981: Á Göngudeild sykursjúkra var einungis eitt skoðunarherbergi þar sem tveir læknar unnu í senn og aðeins tjaldað á milli. Næringarráðgjafi deildi herbergi með meinatækni og hjúkrunarfræðingi. Þegar hjúkrunarfræðingur þurfti að gefa sjúklingi insúlínsprautu eða leiðbeina um spraututækni var salernið eina afdrepið. Þetta voru auðvitað aðstæður sem voru óboðlegar sjúklingum og ollu Þóri hugarangri.

Eftir starfslok átti Þórir mörg góð ár með eftirlifandi eiginkonu sinni Auði sem hann dáði, enda góð ástæða til þess. Seinni ár hafði hann þó tekist á við alvarlegan lungnasjúkdóm og hjartakvilla og var orðinn máttminni. Tveimur dögum áður en hann dó hafði hann hrasað og fengið rifbrot og mikla blæðingu inní brjósthol. Þórir hafði staðið ýmislegt af sér en þessi alda reyndist of stór. Fram á síðasta dag hélt hann persónutöfrum sínum og fallegu brosi. Eflaust hefur nákvæmismaðurinn Þórir oft hugsað sitt og haft góða ástæðu til að gagnrýna tengdason frá Vestmannaeyjum. En það gerði hann aldrei því ofar nákvæmninni og gangrýnni hugsun var heiður, vinsemd, og virðuleg framkoma.

Þórir þótti afburðakennari í klíník og góður fyrirlesari. Eftir stofnun göngudeildarinnar leiðbeindi hann líka aðstoðarlæknum, m.a. Magnúsi Jónassyni og Ragnari Daníelssyni, sem náðu að birta greinar um sykursýki í alþjóðlegum læknisfræðitímaritum undir handleiðslu Þóris.

Rannsóknir Þóris beindust að faraldsfræði sykursýki og fylgikvillum hennar. Mér er minnisstætt að undir lok áttunda áratugs síðustu aldar sátum við nokkrir læknanemar með Þóri og Magnúsi Jónassyni aðstoðarlækni nokkrar kvöldstundir og flettum í gegnum alla lyfseðla í Reykjavík fyrir sex mánaða tímabil. Til að tryggja að rannsóknin á tegund 1 sykursýki næði til allra slíkra sjúklinga fór Þórir þá leið að finna alla sem notuðu insúlín á landinu. Seinna velti ég þessari aðferð fyrir mér, en þá hvarflaði ekki að mér að í þágu vísindarannsókna væri nokkuð athugavert við að skoða alla lyfseðla á höfuðborgarsvæðinu til að finna síðustu sykursýkisjúklingana.

En hafi eitthvað verið við þetta að athuga þá bættu æðri máttarvöld fyrir og seinna gerðu yngstu dóttur Þóris, Helgu, að forstjóra Persónuverndar. Hinar dætur Þóris og Auðar urðu læknar, Anna Sesselja smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum og Hilda Klara lyflæknir og klínískur prófessor við Kaliforníuháskóla í San Diego.

Það var í ofangreindri rannsókn Þóris á tegund 1 sykursýki þar sem fram kom að tíðnin var óvenjuhá hjá drengjum sem fæddust í október, niðurstöður sem bentu til þess að árstíðabundnir þættir hefðu áhrif á kynfrumur foreldra eða fóstrið þannig að þeir stuðluðu að sykursýki seinna á ævinni.  Í grein sem þeir Þórir og Magnús fengu birta 1981 í Lancet  stungu þeir uppá því að mikil hangikjötsneysla um jólin gæti valdið sykursýkishvetjandi skemmdum í kynfrumum foreldra sykursjúkra barna.

Það verður að segjast að þetta voru róttækar hugmyndir um meingerð tegundar 1 sykursýki. Það var því Þóri mjög í mun að leita eftir frekari stuðningi fyrir þessari tilgátu. Í þeim tilgangi fór hann í samstarf við vísindamenn í Aberdeen þar sem hann hafði numið sykursýkisfræðina og setti upp rannsóknir í músum. Grein sem lýsir þessum rannsóknum birtist 1982, líka í Lancet, og  studdi þá tilgátu að hangikjöt gæti haft áhrif á meingerð sykursýki.

Umhverfisþættir eru mikilvægir orsakavaldar tegundar 1 sykursýki, en við skiljum illa hvað það er í umhverfinu sem veldur sykursýki. Með nýrri tækni verður hægt að skoða hvort fæðuefni eins og stökkbreytandi nítrósó sambönd geti valdið DNA breytingum sem hafa áhrif á insúlín-myndandi frumur í brisi eða frumur ónæmiskerfisins.

Það kæmi mér ekki á óvart ef hugmyndir Þóris um umhverfisáhrif í tegund 1 sykursýki eigi eftir að koma upp á yfirborðið aftur.

Bogi Andersen