Hafdís Hannesdóttir fæddist í Reykjavík 19. febrúar 1950. Hún lést á Landspítalanum 24. júlí 2019. Foreldrar hennar eru Hannes Þórólfsson, f. í Litlu-Ávík í Árneshreppi 9. des. 1922, d. 24. nóv. 1990, lögregluþjónn, og Guðrún Kjartansdóttir, f. í Sveinatungu í Norðurárdal 19. nóvember 1925, d. 5. júlí 2005, verslunarmaður. Systir Hafdísar er Þórey Hannesdóttir, f. 4. febrúar 1952, framhaldsskólakennari og hjúkrunarfræðingur. Maður hennar (skildu) Baldur Pálsson, f. á Aðalbóli í Hrafnkelsdal 16. júlí 1949.
Börn Þóreyjar, og systurbörn Hafdísar, eru Nína Guðrún Baldursdóttir, f. 10. maí 1989, Hrafnhildur Baldursdóttir, f. 22. janúar 1991, og Hannes Kjartan Baldursson, f. 29. ágúst 1996.
Hafdís ólst að mestu upp í Vogahverfinu í Reykjavík. Var í sveit hjá föðurbróður sínum norður í Árneshreppi um skeið og vann í sumarbúðum KFUK í Vatnaskógi nokkur sumur. Einnig vann hún hjá erfðafræðinefnd og sem aðstoðarmaður félagsráðgjafa á Kleppi 1972-1973. Hún lauk námi frá Kvennaskólanum í Reykjavík, lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970 og stúdentsprófi frá sama skóla 1971. Hún fór til náms í Ósló í Noregi 1973 og lauk félagsráðgjafanámi 1976 frá Det Norska Diakonhjem, einnig lauk hún djáknanámi (cand. diakonos) við sama skóla 1977. Hún vann sem félagsráðgjafi hjá Oslo Indremisjon, Hammersborg, eftirmeðferðarheimili fyrir geðsjúka 1977-1979. Heimkomin til Íslands var hún félagsráðgjafi við Öskjuhlíðarskóla frá 1980, en starfið taldist bæði við skólann og athugunar- og greiningardeild, sem þá heyrði undir skólann og var í Kjarvalshúsi. Við lagabreytingu varð deildin að Greiningarstöð ríkisins. Hafdís var þar í fullu starfi, og sem yfirfélagsráðgjafi frá 1994. Hún lét af störfum af heilsufarsástæðum 1998.
Hafdís greindist með MS-sjúkdóminn meðan hún var enn í Noregi. Hún átti um skeið sæti í stjórn MS-félagsins og á fjölmörg greinaskrif í ritum útgefnum af MS-félaginu og Öryrkjabandalagi Íslands. Einnig var viðtal við hana í sjónvarpsþætti um sjúkdóminn og þolendur hans. Hún sat í framkvæmdastjórn Öryrkjabandalags Íslands 1987-1995. Í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra 1988-1992 og starfaði einnig í kjaranefnd, fræðslunefnd og siðanefnd SÍF og var endurskoðandi reikninga félagsins. Sat í stjórn KFUK og síðan samstjórn með KFUM frá vori 1997. Einnig var hún í stjórn Landssambands sömu félaga til 2003. Hún tók þátt í starfi VG og var á framboðslista í sveitarstjórnarkosningum í Kópavogi. Hafdís veiktist illa vorið 2007 og flutti í framhaldi af því á Sjálfsbjargarheimilið í Hátúni 12. Þrátt fyrir mikla fötlun hélt hún áfram að taka þátt í félagsstarfi og fylgdist vel með samfélagsmálum.
Útför Hafdísar fór fram frá Digraneskirkju 2. ágúst 2019.

Nú er slokknað á lífsljósinu hennar Hafdísar minnar.
Þrátt fyrir næðinginn frá veikindum og mótlæti var loginn alltaf nógu skær til að lýsa henni og öðrum. Hún var ljóssins barn. Hún trúði á Guð og hann var leiðtogi lífs hennar. Ung tileinkaði hún sér þessi orð Jesú: Ég er ljós heimsins sá sem trúir á mig mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.
Það var alltaf svo hreint og bjart í kringum Hafdísi. Ég var svo lánsöm að kynnast henni í Kristilegu Skólastarfi, KSS, sem er hluti af starfi KFUM og K. Með okkur tókst dýrmæt vinátta, sem hefur haft mótandi áhrif á líf mitt.
Fljótt kom í ljós hvaða mann hún hafði að geyma. Þarna fór ung metnaðargjörn stúlka,  gædd góðum gáfum og  hugrekki, sem hafði þegar mótað sér ákveðnar skoðanir: Allir skyldu hafa jafnan rétt.
Í boðskap Jesú Krist fann hún þeim samhljóm og farveg fyrir því sem hún vildi mennta sig í og berjast  fyrir. Var hún tryggur stuðningsmaður Kristilegra Sósíalista.
Á Noregsárunum, þar sem hún lærði félagsráðgjöf við Diakonhjemmets Sosialskole, og síðar Vinstri grænna.
Ég á margar skemmtilegar minningar frá sumarvinnu okkar Hafdísar við Diakonhjemmets Sykehus, en þar lagði hún drög að norskukunnáttunni. Þá var nú margt brallað og mikið fjör í félagslífinu.
Hafdís var mjög virk félagslega og sat í ýmsum nefndum og ráðum til að fylgja eftir hugsjón sinni. Hún var eftirsótt og mikils metin hvert sem hún fór enda eignaðist hún marga vini á lífsleiðinni.
Vinum og samstarfsfólki var hún mikil og góð fyrirmynd.
Hún var mikill bókaormur og áttu nokkrar Uglur samastað á heimili hennar, enda vel við hæfi.
Við Hafdís vorum svo lánsamar að vinna saman í Vatnaskógi tvö sumur ásamt vinkonu okkar beggja Kristínu Sverrisdóttur.
Það var mjög gaman að vinna með henni, hún var skörungur til verka, enda vön sveitavinnu á sumrin, þegar hún var yngri. En á þessum tíma var kominn fylgifiskur hennar um lífstíð, MS púkinn, eins og hún kallaði hann. Við áttuðum okkur ekki á því þá, en eftir greiningu nokkrum árum síðar í Noregi, fékkst það staðfest.
Að loknu námi og vinnu í Noregi, flyst Hafdís til Íslands um sama leiti og við Kolli frá námsdvöl í Bandaríkjunum. Sjúkdómurinn sagði til sín og Hafdís áleit best að vera nærri fjölskyldunni í glímunni við hann.
Við vorum fljótar að taka upp þráðinn, ég ófrísk af fyrsta barni af fjórum, sem Hafdís reyndist síðan ótrúlega vel og eiga þau María Sólveig, Hjalti, Helga og Kári margar minningar frá dýrmætum stundum með henni, þar sem hún var þeim bæði leiðbeinandi og góður vinur og eiga henni margt að þakka. Sama má segja um þrjú börn Doddý systur: Nína Guðrún, Hrafnhildur og Hannes. Hún var ómissandi þáttur í lífi þeirra, og þau hennar. Við vorum oft eins og ein stór fjölskylda. Enda kölluðum við okkur systur sameinaðar af börnunum 7 sem deildu með sér bestu frænku í heimi.
Ég fylgdist með þessari jákvæðu, heilbrigðu vinkonu minni heyja hverja baráttuna af annarri við MS púkann, alltaf skrefi á undan honum, alltaf undirbúin fyrir næsta áfall. Þó stundum kæmi hann aftan að henni og hún varð að aflýsa hinu og þessu, sem til stóð að taka þátt í.
Þá gat hún oft slegið á létta strengi og haft þannig yfirburði gagnvart veikindunum, sem léku hana svo oft grátt.
Seiglan og einbeitti viljinn sem ég hafði skynjað strax í byrjun kynna okkar, kom berlega í ljós, þegar Hafdís stundaði vinnu, fór á fundi, sat í stjórnum og nefndum eða ferðaðist á ráðstefnur erlendis, þar sem hún oftar en ekki, var með erindi.
Ég gleymi aldrei ferð okkar á Kvennaheimsþingið í Finnlandi.  Þangað fór hún sem fulltrúi ÖBÍ og flutti þar erindi og stjórnaði umræðum af skörungsskap. Þá sem oftar var ég stolt af vinkonu minni og naut þess í botn að vera með henni.
Svo framarlega sem hún var ekki í MS kasti, þá oftast liggjandi uppí rúmi, gat ekkert stoppað hana. Og við hin horfðum á í undrun og aðdáun.
Hækjur, hjólastóll, Hafdís undir stýri og að endingu Ferðaþjónusta fatlaðra, gerðu henni kleyft að komast ferða sinna. Því framgangur sjúkdómsins var slíkur, að í hvert skipti sem hún reis upp úr MS  kasti, hafði eitthvað tapast.
Ekki má gleyma Guðrúnu  móður hennar, sem var henni ómetanleg hjálparhella og létti henni lífið með kærleiksríkri þjónustu sinni.
Eitt árið tókum við þátt í Kvennahlaupinu, hún í stól og ég skokkandi með hana. Það var nú gaman. Upp frá því varð hún sér alltaf úti um bolina.
Hafdís var félagsráðgjafi af lífi og sál, enda farsæl sem slík.
Hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins var hennar starfsvettvangur. Þvílíkur fengur fyrir þá stofnun og alla hennar skjólstæðinga, sem nutu starfskrafta Hafdísar.
Árið 2007 urðu straumhvörf í lífi Hafdísar. MS-inn hafði sannarlega tekið sinn toll, en þá fær hún bráðahvítblæði og var vart hugað líf. Þá myndaðist í kringum hana vinkvennahópur, sem skipti með sér yfirsetu á gjörgæslunni, og síðar eftir að hún flyst á Sjálfsbjargarheimilið, áttu þær hver sinn heimsóknardag.
Þannig var það þessi 12 ár, sem hún bjó þar og og ber þessi umhyggja Hafdísi fagurt vitni. Við sem nutum slíkra  samvista við hana erum ríkari fyrir vikið.
Færum við starfsfólki heimilisins bestu þakkir fyrir ummönnun þeirra og þjónustu, gengum árin. Eins naut hún góðra og mikilla samskipta við Doddý systur og börnin hennar: Nínu Guðrúnu, Hrafnhildi og Hannes, sem reyndust henni svo vel. Þau Hannes áttu gæðastundir á hverjum laugardegi.
Hún gat aldrei neytt fæðu uppfrá þessu áfalli. Í staðinn fyrir að bugast, tók hún þá afstöðu til matar að njóta ilmsins og ekki spillti ef hann var fallega borinn fram.
Hún sótti tryggilega þriðjudagsfundi Ad KFUK, þar leið henni vel, naut þess að syngja og meðtaka. Þessi trúfasti hópur kvenna bað fyrir henni og fyrirbænir þeirra og annarra, ásamt umhyggju og kærleika vina og vandamanna, gáfu henni byr undir báða vængi, þótt vængstífðir væru.
Ég minnist elsku Hafdísar minnar með hlýju og full þakklætis.
Ég hef bara stiklað á stóru, hafði ekki undan að skera niður í skrifum mínum til hennar. Enda stór persónuleiki með litríkt líf.
Mig langar að enda þessi skrif mín á að birta þrjú erindi úr afmælisljóði, sem ég samdi henni til heiðurs á sextugs afmælinu.
Hún fór sannarlega uppörvuð og glöð inní sjöunda áratuginn.



Í Sjálfsbjargarhúsinu haldin er veisla

því heiðra skal sextuga konu í dag.

Hún Hafdís af stolti og gleði má geisla

er gestirnir syngja´ henni afmælisbrag.

Því Hafdís er hetjan sem dáumst við að
og hrós á hún skilið, já meira en það.

Á sextíuárum hún ýmislegt gerði
og ástríða mikil í hjartanu brann.
Í málefnum fatlaðra var hún á verði
að velferð og hagsmunum barna hún vann.
Af réttsýni´og röggsemi  annaðist mál
því ráðgjafi var hún af lífi og sál.

Já Hafdís er guðsbarn og gleymir því ekki
hún gaf honum snemma sitt trúnaðarheit.
Þótt MS og púkar hans mjög hana svekki,
hún mætir þeim kjörkuð og takmörk sín veit
og áskorun tímans hún tekur með stæl
svo tendruð af lífinu þakklát og sæl.Hvíl þú í friði.

Hafðu þökk fyrir allt og allt,

Þórdís Klara Ágústsdóttir.