Gísli Jónsson fæddist í Reykjavík 9. ágúst 1949. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 22. júní 2019 eftir baráttu við bráðahvítblæði í á þriðja ár.Foreldrar hans voru Lea Eggertsdóttir, f. 10.5. 1910 að Kleifum í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp, stúdent frá MA, cand. phil., kennari og húsfreyja, d. 26.11. 1994, og Jón Gíslason dr. phil, skólastjóri Verzlunarskólans, f. 23.2. 1909 í Dalbæ í Gaulverjahreppi, d. 16.1. 1980. Bróðir Gísla var Eggert Jónsson, f. 25.8. 1941, fyrrverandi borgarhagfræðingur, d. 11.10. 2016.
Gísli kynntist Höllu Árnadóttur, f. 28.10. 1948, fyrrverandi starfsmanni Landsbanka Íslands, 1973 og kvæntist henni 22.12. 1978. Foreldrar Höllu: Árni Ingvar Vigfússon, f. 10.7. 1914, leigubifreiðastjóri hjá BSR í Reykjavík, d. 16.4. 1982, og Hulda Halldórsdóttir, f. 10.5. 1920, húsfreyja, d. 12.2. 2000. Gísli og Halla skildu 1985. Þeirra börn eru: 1) Jón Gíslason, f. 1.3. 1977, tamningarmaður. Hans börn eru Danival Orri Jónsson, f. 25.2. 2004, og Kristján Gísli Jónsson, f. 8.4. 2005. 2) Hulda Gísladóttir, f. 22.4. 1979, MBA og master í Evrópufræði, sérfræðingur á sviði mannauðs og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg. Hennar barn er Seifur Salvarsson, f. 14.10. 2016.
Fyrir átti Halla Önnu Guðrúnu Guðnadóttur, f. 18.12. 1969, sölustjóra Forlagsins, hún er í sambúð með Sigurjóni Ólafssyni, verslunarstjóra hjá Hagkaup, þeirra börn eru Aníta Sigurjónsdóttir, f. 27.10. 1991, Guðmundur Óli Sigurjónsson, f. 22.4. 1994, Selma Björk Hermannsdóttir, f. 23.7. 1997, Viktor Andri Hermannsson, f. 17.8. 2001, og Særún Sigurjónsdóttir, f. 12.8. 2005.
Gísli lauk stúdentsprófi frá MR 1969 og viðskiptafræði, cand. oecon, frá Háskóla Íslands 1977, Þjóðhagskjarna, hagrannsóknasviði. Gísli var háseti á Kofra sem stundaði línuveiðar frá Súðavík á árunum á milli menntaskóla og háskóla. Hann hóf störf sem viðskiptafræðingur á skattstofu Reykjanesumdæmis 26.1. 1977 og varð deildarstjóri atvinnurekstrardeildar og yfirviðskiptafræðingur frá 1. júlí 1977 til ágúst 1990. Hann var stundakennari í bókfærslu við MH tvær haustannir árin 1976 og 1977 og í skattskilum við Tækniskóla Íslands 1987 til 1990. Hann var í stjórn kjaradeildar ríkisstarfsmanna innan Félags viðskipta- og hagfræðinga (FVH) frá 13. maí 1982 til 1984. Hann starfaði hjá ríkisskattanefnd frá september 1990 til júní 1992 og hjá yfirskattanefnd frá júlí 1992 sem yfirviðskiptafræðingur til ársloka 2016, í hálfu starfi frá 2015.
Útför Gísla fór fram í kyrrþey að hans ósk.
Við pabbi vorum náin og lík á margan hátt. Við deildum sameiginlegum áhugamálum, svo sem göngum, fugla- og bókmenntaáhuga. Við þurftum ekki alltaf að tjá okkur með orðum en skildum hvort annað með augnaráðinu einu saman og nutum samverunnar.
Fyrstu minningar mínar eru frá þeim tíma þegar mamma og pabbi bjuggu saman í Vesturbergi 144. Í þeim stigagangi bjuggu börn í öllum íbúðum utan einnar og þannig var það með flesta stigaganga í Breiðholtinu á þessum tíma. Sennilega svipað því sem Hlíðarnar voru á hans uppvaxtarárum. Daglegt amstur og uppeldi okkar systkina féll í hlut mömmu en hann var duglegur að gera skemmtilega hluti með okkur. Hann fór til dæmis mjög mikið með okkur í sund, í fjöruferðir í Gróttu, á Kaffivagninn og í bíó. Ég hef oft hugsað til þess með hlýhug að áður en ég gat lesið textann í bíómyndum las hann alltaf alla myndina upp fyrir mig, við höfum pottþétt ekki verið vinsælir sessunautar.
Einn besti dagur í lífi mínu var þegar hann keypti óvænt hest handa mér, þá átta ára gamalli. Þetta gerðist einmitt á gamla Kópavogsbænum við hliðina á þar sem líknardeildin er í dag. Þetta var um vor, hesturinn hét Hafurbjörn, var vel í holdum og þegar hann kom aftur í hús í janúar eftir að hafa verið í hagabeit frá sumri var hann svo feitur að ég þurfti að byrja á því að ríða berbakt á meðan það var sérpöntuð gjörð sem náði utan um hann. Stuttu seinna keypti hann líka hest fyrir Jón bróður minn sem átti eftir að starfa við tamningar alla tíð síðan. Sá hestur var mjór og spengilegur og hét Fálki.
Við pabbi fórum í göngur sem urðu oft lengri en áætlað var. Þegar ég var á unglingsaldri fékk hann mig til að koma í stutta göngu um Viðey sem ég man nú ekki hvað var löng en í minningunni vorum við í Viðey allan daginn að skoða listaverk og fuglalíf og gengum heil ósköp. Fleiri en ég eiga minningar um skemmtilegar göngur með honum sem urðu oft ansi langar. Hann fór mikið í göngur og naut þess að vera úti í náttúrunni.
Um verslunarmannahelgina árið 2000 fórum við vestur í Fjarðarhorn í Seyðisfirði og áttum dásamlega helgi saman, fengum okkur bjór, einn saman, fórum í göngu, keyrðum í bæjarfélögin í kring og stoppuðum svo í Flatey á heimleiðinni en þá tókum við Baldur frá Barðaströnd til Stykkishólms. Fjarðarhorn í Seyðisfirði stendur á æskuslóðum Leu ömmu minnar sem ólst þar upp á bænum Kleifum og þangað fór pabbi eftir því sem ég best veit öll sín uppvaxtarár sumarlangt með foreldrum og Eggerti bróður sínum. Á einhverjum tímapunkti fékk faðir hans, Jón Gíslason, viðurnefnið Jón Stormur af því að það vildi gera vitlaust veður þegar þau fjölskyldan mættu á svæðið. Þessi ferð okkar pabba, árið 2000, var dásamleg ferð og svo gaman að sjá litla bárujárnshúsið aftur en ég hafði ekki komið þangað í mörg ár. Mamma og pabbi höfðu farið með okkur þarna á sinni tíð saman og þá vorum við þarna öll saman með ömmu Leu. Pabba þótti alltaf afar vænt um Fjarðarhorn og fór oft þangað á sumrin og naut þeirrar kyrrðar sem þar ríkir og fegurðar.
Annar reitur sem var honum kær var lóð sem nemendur Verzlunarskóla Íslands gáfu pabba hans, doktor Jóni, og stendur við Hafravatn. Jón afi minn gróðursetti myndarlegan trjálund þar, setti niður kartöflur og ræktaði jarðarber og pabbi hélt áfram með það starf sem hann hóf þar. Stundum gekk hann þangað ýmist frá Reykjavík eða Mosfellsbæ og var þar oft langt fram á kvöld og jafnvel fram á nótt í bjartasta sumrinu. Þetta var melur þegar Jón afi byrjaði að gróðursetja þarna og það fór mikil vinna í að grjóthreinsa og setja niður tré. Pabbi bjó til skjólveggi úr grjótinu sem hann tíndi og þeir hleðsluveggir sem hann gerði eru mesta prýði. Hann vildi hafa gönguleiðir greiðar um lóðina en hafa þetta að öðru leyti eins og skógarbotn þar sem fugla- og plöntulíf fengi notið sín, sem það gerði svo sannarlega. Hann var oft þarna á afmælinu sínu og þá kom ég með kók, köku og prins póló. Mér er minnisstætt að eitt árið, ég held að það hafi verið árið 2005, var einstaklega hlýtt í veðri, logn, Hafravatnið spegilslétt og stórt fuglager flögraði yfir okkur, svo stór var það að við höfðum hvorugt upplifað annað eins. Það var yndisleg stund en við sátum oft þarna í þar til gerðri laut, fylgdumst með fuglalífinu og horfðum á svifdrekana.
Aðrar eftirminnilegar ferðir sem við fórum saman í voru ferðir með yfirskattanefnd. Ein er mér sérstaklega eftirminnileg og ljúf minning, en þá fórum við með rútu frá Höfða á slóðir Einars Ben undir leiðsögn Guðrúnar Ásmundsdóttur, leikkonu. Við vorum bæði alveg heilluð og lásum og ræddum talsvert um bókina: Þegar sálin fer á kreik: æviminningar Sigurveigar Guðmundsdóttur eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur en Guðrún Ásmundsdóttir studdist við þá bók í ferðinni.
Bókmenntaáhuginn tengdi okkur. Ég hef búið víða um veröldina og ferðast mikið en það fór ekki framhjá mér að um leið og ég var komin á nýjan stað fór pabbi á flug og las sér til um staðhagi, pólitík, bókmenntir og menningu á hverjum stað og það brást ekki að þótt ég væri á staðnum þá var hann betur inn í staðarháttum. Ég flakkaði mikið þannig að hann mátti hafa sig allan við, en ég bjó um tíma í Sádi-Arabíu, Norður-Afríku, Lúxemborg, Frakklandi og síðast í sitt hvor tvö árin í Vancouver í Kanada og Brighton í Bretlandi. - Árið 2000 fór ég í þriggja vikna ferð með Björgu frænku minni með Kínaklúbbi Unnar til Kína. Mig hafði lengi langað að fara og heillaðist af kínverskri menningu og því landslagi sem ég naut í ferðinni. Það brást ekki að pabbi fór að lesa mikið um Kína og fylgdist vel með fréttum þaðan og framkvæmdum alla tíð síðan.
Pabbi var mikill hobbímaður og stundaði bæði golf og billjard, þeir Árni, æskuvinur hans, voru mikið saman í því. Og pabbi fór í nokkrar golfferðir með Árna og Katrínu konu hans auk fleiri æskuvina. Hann hreyfði sig jafnframt mikið og auk gönguferðanna fór hann mikið í sund og synti og var líka farinn að stunda köldu böðin í Laugardalslauginni. Hann hafði gaman af því að tefla eins og margir af æskuvinum hans en sennilega enginn meira en Bragi.
Hann var mikill áhugamaður um veður og það var annað sem hann fylgdist alltaf vel með og ræddi um hvar sem ég bjó hverju sinni í heiminum. Honum fannst það einstaklega álkulegt af mér hvað ég fylgdist lítið með veðurfréttunum. Það er yndislegt hvað veðrið var gott þegar við fórum í stutta göngu daginn fyrir andlát hans og gátum setið úti á verönd. Dánardagurinn hans var líka sólríkur, hlýr og fallegur. Jarðarförin fór fram í kyrrþey en þar áttum við sem stóðum honum næst yndislega stund saman í litlu kapellunni í Fossvogi og veðrið var svo milt. Nokkru seinna jarðsettum við hann á með þeim heitari og sólríkari dögum sem gerast hér á landi. Hann hafði sjálfur óskað eftir svörtum steini með hvítum stöfum en við það ákvað ég að bæta kríu. Á meðan á athöfninni stóð var kría komin og flögraði yfir vatninu sem gröf hans snýr að. Seinna um daginn þegar ég kom aftur voru þær orðnar tvær. - Mér þótti vænt um að á afmælisdeginum mínum rifjaði hann upp ár hvert hvað það hefði verið sólríkur og fallegur dagur þegar ég fæddist og hann vildi meina að það væri alltaf sól á mínum afmælisdegi. Hann mundi ekki eftir öðru.
Ég eignaðist drenginn minn, Seif Salvarsson, í október 2016 í Brighton og pabbi samgladdist mér mjög með hann. Hann átti samt smá erfitt með nafnið fyrstu mánuðina og kallaði hann ýmsum öðrum nöfnum sem mátti skilja sem tillögur að öðru nafni. Hann var nefnilega ekkert mikið fyrir nýjungar og hélt fast og að sumu leyti of fast í gamlar venjur og siði. Hann var hrifinn af öllum barnabörnunum sínum, leit oft við hjá Jóni bróður og fylgdist með strákunum hans, þeim Danival Orra Jónssyni og nafna sínum Kristjáni Gísla Jónssyni. Það var líka yndislegt að sjá hann með Seifi mínum sem er alveg hömlulaus knúsari og mikill gleðigjafi.
Í veikindum pabba kynntist ég vinum hans sem ég hafði þar til þá heyrt meira um en hitt. Þeir voru stoð hans og stytta í veikindunum. Þeir voru svo sannarlega til staðar fyrir vin sinn en með því voru þeir mér og fjölskyldunni ómetanleg stoð og stytta og ég finn ekki rétta orðið yfir það hversu þakklát ég er fyrir þeirra hlýju og þörfu nærveru. Saman vorum við systkinin, mamma okkar, æskuvinirnir og bróðursynir hans til staðar fyrir pabba þegar hann þurfti á okkur að halda.
Ég þekkti pabba sem fullorðinn mann og föður en daginn fyrir jarðarför pabba átti ég samtal við Árna æskuvin hans þar sem hann lýsti fyrir mér hvernig það var að alast upp í Hlíðunum á uppvaxtarárum þeirra. Þeir vinirnir eru fæddir árið 1949 og eins og Árni sagði bjuggu þeir allir í kringum Klambratúnið en sá radíus var ógurleg vegarfjarlægð fyrir krakka þannig að þau skiptust í hópa eftir því hvar þau bjuggu. Þannig voru Benni, Bragi og pabbi vinir frá unga aldri þar sem þeir bjuggu allir í Úthlíð. Aðrir komu inn í vinahópinn síðar sem átti eftir að stækka. Margir þeirra áttu eftir að kynnast í Austurbæjarskóla og Gaggó Aust. Pabbi talaði oft með mikilli hlýju um uppvaxtarárin í Hlíðunum og sérstaklega eftir að veikindin hófust. Ég heyrði að Árni mundi þetta eins og hann, krakkager úti að leika, mömmur að kalla út um glugga á sín börn að koma inn, bíósins og skólanna.
Pabbi var orðinn þreyttur, var með ólæknandi sjúkdóm og líf hans var orðið eins og hann orðaði það sjálfur ekkert líf. Orkan var lítil og ég veit að það var honum erfið tilhugsun og erfitt í raun þegar hann gat ekki annað en þegið aðstoð annarra. Hann bað mig mikið um að gera það sem þurfti að gera fyrir hann en vildi síður þiggja hjálp frá starfsfólki spítalans. Mér þykir vænt um þetta, mín upplifun var sú að honum liði best með mig í kringum sig og það er nokkuð sem hann hefði aldrei sagt mér með orðum en á þessu tímabili varð ég þess áskynja.
Eftir að hann kom inn á líknardeildina var hann mjög þreyttur og máttfarinn. Föstudagseftirmiðdaginn 21. júní fékk hann orkuskot, hitti okkur systkinin, vildi komast á Kaffivagninn úti á Granda en við sannfærðum hann um að koma frekar með okkur í stutta göngu við fjöruna, settumst svo út á verönd, horfðum á sjóinn og akkúrat á því augnabliki kom Árni æskuvinur hans og fékk sér kaffi með okkur. Þetta var ómetanleg og dásamleg stund. Pabbi varð síðan þreyttur og vildi leggja sig. Ég vakti hann þegar Eiríkur bróðursonur hans kom um kvöldmatarleytið og þá fórum við þrjú aftur út á verönd og nutum útsýnisins.
Þegar ég kom aftur næsta morgun var ljóst hvert stefndi. Hann var með fullri meðvitund fram á síðustu stund. Ég fékk tíma til að segja honum allt það sem ég vildi hafa sagt og fyrir það er ég þakklát. Ég er jafnframt þakklát fyrir að hafa verið með honum á þessari stund, haldið í hendur hans, faðmað og hughreyst. Við systkinin vorum öll hjá honum. Starfsfólki Landspítalans er ég þakklát og sérstaklega starfsfólki blóðlækningadeildar og líknardeildar.
Ég hef hér í mjög stuttu máli reifað minningar sem eru mér kærar um pabba minn og náinn vin sem ég þekki ekki lífið án en er þakklát fyrir að hafa fengið 40 ár með. Ég er og var frá fyrstu tíð svo stolt af því að eiga svona flottan pabba. Mér fannst hann svo myndarlegur, mikill herramaður og svo var ég líka alltaf svo montin af menntun hans og starfi.
Nú hafa orðið ljósaskipti, hvíl í friði elsku pabbi minn. Minningin lifir áfram með mér og öllum þeim sem þér unnu.
Hulda Gísladóttir