Valey Jónasdóttir fæddist á Siglufirði 21. nóvember 1931. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 28. júlí 2019. Foreldrar hennar voru Jónas Jónasson, f. 3. mars 1892, d. 6. jan. 1962, og Jóhanna Jónsdóttir, f. 4. júlí 1889, d. 10. feb. 1942. Systkini Valeyjar voru Kári, Gísli, Ingibjörg (Abba) og Valtýr.
Valey giftist 1957 Gunnari Jóhannssyni sjómanni, f. 6. febrúar 1927, d. 23.4. 2015, og byrjuðu þau búskap sinn á Lindargötunni, fluttu síðar á Laugarveg 12. Síðar keyptu þau hjónin Knattborðsstofu á Lækjargötu 8 og svo bjuggu þau að Hafnartúni 4. Síðustu árin dvaldi Valey í Skálarhlíð og síðan á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.
Börn Valeyjar og Gunnars eru Óðinn, maki Una Agnarsdóttir, Jóhanna, maki Arnbjörn Eyþórsson, Jökull, maki Ásta Sigfúsdóttir, og Ingibjörg, maki Björn Tryggvason. Fyrir átti Valey son, Arnþór Þórsson, sambýliskona Brynja Baldursdóttir.
Valey ólst upp á Siglufirði en kornung fór hún í sveit á sumrin í Tungu, á Barði í Fljótum og síðan að Höfða á Höfðaströnd. Um 16 ára fékk hún vinnu við konfektgerð, síðan fór hún og vann eitt sumar í Vestmannaeyjum.
Valey fór í Kennaraháskólann og lauk því námi 1955 og stofnaði hún smábarnaskóla fyrir sex ára börn sem hún rak í nokkur ár og hóf síðar kennslu við barnaskóla Siglufjarðar þar sem hún hætti vegna aldurs.
Valey fékk lömunarveikina níu mánaða gömul og lamaðist hún öll hægra megin. Hún fékk mátt aftur að hluta til eftir fjögurra ára aldur en hún var ávallt lömuð í hægri hendi.
Valey starfaði mikið í Sjálfsbjargarfélagi Siglufjarðar sem var stofnað 9. júní 1958 og var Valey fyrsti formaður Sjálfsbjargar á Íslandi.
Valey hafði mikinn áhuga á gönguskíðum og fylgdist vel með öllum skíðamótum. Hún var mjög handlagin og hafði unun af að mála og vinna við keramik og dvaldi hún oft í vinnustofu Sjálfsbjargar á Siglufirði við slíkt.
Útför Valeyjar fer fram í dag, 10. ágúst 2019, og hefst athöfnin klukkan 14.
Það er ekki hægt að tala um mömmu án þess að pabbi komi við sögu þannig
að þetta verður svolítið minningar mínar um þau.
Fyrstu minningar mínar eru frá Laugarvegi 12. Það var um jól og við
krakkarnir vorum þvílíkt spennt þar sem stofan var búin að vera læst í
nokkra daga fyrir jól þannig að við vissum ekkert hvað var á seyði. Þegar
kirkjuklukkan hringdi inn jólin var stofan opnuð og öll fínheitin blöstu
við. Búið var að kveikja upp í arninum, einhverjir pakkar voru undir
fallega skreyttu jólatrénu og í sófanum sat nokkuð stór jólasveinn sem leit
mjög raunverulega út í mínum augum. Mamma hafði saumað kauða til þess að
gleðja krílin sín sem henni svo sannarlega tókst.
Mamma og pabbi höfðu ekki alltaf mikið á milli handanna þannig við
krakkarnir vorum mikið í fötum af öðrum og síðan saumuðum fötum upp úr
gömlum fötum. Man að ég fékk fyrstu búðarkeyptu flíkina, sem enginn annar
hafði notað á undan mér, þegar ég var ca. 7 ára en það voru rauð köflóttar
stretch-buxur með teygju undir ilina, man hvað ég var ánægð.
Þegar við fluttum í Lækjargötuna þá var ég orðin 7 ára og minningarnar
verða fleiri og fleiri. Lækjargatan var hálfgerður fjársjóður fyrir okkur
krakkana því þar var háaloft sem ekki hafði verið tæmt þannig að þar var
ýmislegt spennandi að skoða þar sem krakkarnir sem höfðu búið þar áður voru
töluvert eldri en við. Knattborðsstofan niðri var líka spennandi þar sem
mamma og pabbi ráku billiardstofu og síðan voru þau líka með þvottahús sem
sá um þvott af t.d. skipum. Við eldri krakkarnir hjálpuðum til við það sem
við gátum. Man eftir því að strauja lök og sængurver í stórri strauvél með
mömmu og ryksuga gólfið undir billiardborðunum. Síðan unnum við Óðinn í
sjoppunni á billiardstofunni þegar við vorum aðeins eldri.
Þegar ég var 10 ára þá var haldið heljarinnar afmæli, öllum
bekkjarsystkinum mínum var boðið, bæði strákum og stelpum sem var ekki
venjan á þessum tíma. Stelpurnar í árganginum mínum minnast oft á það þegar
við hittumst hvað þetta var skemmtilegt. Nokkuð viss um að mamma átti
hugmyndina að þessu.
Rétt áður en mamma dó heimsótti Hanna Ásta æskuvinkona mín hana á
sjúkrahúsið og hafði mamma mjög gaman af því. Þegar Hanna Ásta vissi að
mamma væri dáin þá sagði hún mér að hún minntist margra góðra tíma
á heimili okkar, sagðist t.d. hafa lært að spila vist af mömmu og
pabba.
Árið 1970 var keyptur fyrsti bíll heimilisins, beinskipt Ford Cortína,
rauður og flottur bíll með stýrið hægra megin. Mamma ætlaði sér að læra að
keyra bílinn þess vegna var stýrið haft hægra megin. Útbúin var hilla sem
hægt var að skella á hurðina þar sem mamma gat látið lömuðu höndina (purku
eins og hún kallaði hana stundum) hvíla á. Þá gat hún látið höndina halda
aðeins um á meðan hún skipti um gír. Einnig var útbúin í bílinn
kennslugræja farþega megin þannig að kennari gæti kennt mömmu á bílinn.
Eftir að mamma var búin að læra að keyra þá fór pabbi stundum með okkur
yfir á gamla flugvöllinn og leyfði okkur að stýra en var sjálfur á kúplingu
og bremsu farþega megin. Þetta fannst okkur krökkunum meiri háttar gaman.
Fjölskyldan fór síðan í margar eftirminnilegar ferðir í þessari eðal
drossíu.
Pabbi var með útgerð í mörg ár og man ég eftir því að hafa verið að hnýta
öngla og setja í stokk, það var svo gaman að geta hjálpað, ef maður var þá
að hjálpa eða bara að læra að vinna.
Mamma var óþreytandi að hjálpa okkur systkinunum með heimanámið því hún
ætlaði okkur að mennta okkur sem við síðan öll gerðum. Ég gerði mér ekki
grein fyrir því á þeim tíma sem við vorum að mennta okkur fyrstu árin
hversu miklu foreldrar okkar fórnuðu til þess að geta veitt okkur þetta.
Þau leyfðu sér ekki neitt, allar krónur fóru í okkur og okkar menntun. Það
kostar sitt að senda 4 börn í skóla til Reykjavíkur án þess að fá nein
námslán.
Pabbi átti líka sinn þátt í að mennta okkur. Alltaf á fimmtudögum eftir
kvöldmat þá var spurningakeppni sem innihélt spurningar úr því sem var að
gerast í heiminum, hvaða lönd voru hvar, hvar var hin og þessi höfuðborgin,
hver var forsætisráðherra í hinu og þessu landinu og þar fram eftir
götunum.
Árið 1972 fluttum við frá Lækjargötunni í Hafnartúnið þar sem mamma og
pabbi bjuggu þangað til pabbi flutti á hjúkrunarheimilið á Siglufirði og
mamma flutti í Skálahlíð sem er húsnæði fyrir eldri borgara. Mamma ákvað
sjálf að tími væri kominn að flytja í Skálahlíð og einnig þegar tími var
kominn til þess að fara þaðan og yfir á hjúkrunarheimilið. Hún var alltaf
sátt nema að geta ekki bjargað sér sjálf. Hún talaði oft um það hvað
starfsólkið á sjúkrahúsi Siglufjarðar væri gott við sig.
Takk mamma og pabbi fyrir að hafa komið mér til manns. Takk mamma og
pabbi fyrir að stuðla að menntun minni. Takk mamma og pabbi fyrir að
styðja mig í þeim ákvörðunum sem ég hef tekið í gegnum lífið. Takk mamma og
pabbi fyrir að vera til fyrir mig, manninn minn, börnin okkar og öll
barnabörnin.
Jóhanna.