Guðbrandur Þórir Kjartansson fæddist í Reykjavík 22. september 1941. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 24. júlí 2019.
Foreldrar hans voru hjónin Eydís Hansdóttir verkakona, f. 1917, d. 2008, og Kjartan Guðbrandsson flugmaður, f. 1919, d. 1952.
Guðbrandur var elstur þriggja systkina. Systkini hans eru Magdalena Margrét, myndlistarmaður, f. 1944, gift Ingólfi Steinari Óskarssyni, f. 1941, og Magnús Ólafur, myndlistarmaður, f. 1949, d. 2006, kvæntur Kolbrúnu Björgólfsdóttur leirlistamanni, f. 1952. Fyrri kona Guðbrands var Lína Kragh, tannsmiður og kaupmaður, f. 1938, d. 1992, þau skildu. Börn Guðbrands og Línu eru Kjartan, einkaþjálfari, f. 1966, börn hans eru Sindri Valur og Ariel Avon. Eydís Gréta, f. 1970, eiginmaður hennar er Kjartan Antonsson, f. 1968. Börn Eydísar Grétu eru Arnar, f. 1987, sambýliskona hans er Inga Lóa Ragnarsdóttir, f. 1993, börn Bríet Lóa, Embla Rán og Alexander Breki. Tinna Rán, f. 1993, sambýlismaður hennar er Smári Leó Leifsson, f. 1992, börn Natan Elí og Máni Hrafn, og Breki, f. 1995. Lína átti fyrir synina Svein, f. 1959, d. 2019, og Þorstein, f. 1961, d. 2017.
Árið 1981 kynntist Guðbrandur eftirlifandi eiginkonu sinni, Öldu Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 1958, og hófu þau fljótlega búskap. Sonur hennar er Gunnar Örn Haraldsson tölvunarfræðingur, f. 1979, sambýliskona hans er Ásta Eyfjörð Arnardóttir, f. 1972, börn hans eru Aron Örn og Sóley Líf.
Guðbrandur ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1962 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1969. Að loknu námi starfaði hann sem héraðslæknir í Raufarhafnar- og Kópaskershéruðum, Hvammstangahéraði og Akraneshéraði. Árið 1979 flutti Guðbrandur aftur til Reykjavíkur og starfaði hann lengst af á lungnadeild Vífilsstaðaspítala, Landspítala, og síðustu árin í starfi á hjúkrunarheimilinu Eir.
Guðbrandur tók virkan þátt í félagsstarfi Lions fyrr á árum og sat þar í stjórnum. Hann sat einnig í stjórn Hestamannafélagsins Fáks um árabil auk þess að vera varaformaður Landssambands hestamanna um nokkurt skeið.
Útför hans fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 14. ágúst 2019, klukkan 13.
Það var sárt að horfa upp á það síðustu dagana hvað hafði dregið mikið af honum á stuttum tíma og þá vanlíðan sem fylgdi. Ég hugsaði með mér eins og veðrið hafði leikið við okkur í sumar að það væri nú ráð að fara saman á fallegu hlýju sumarkvöldi og veiða t.d. á Þingvöll eða við Langavatn. Fyrir stuttu sátum við á spjalli og áður en ég kom orðum að því fór hann að minnast á veiði svo ég nefndi við hann hvort hann treysti sér ekki til þess að koma og "skrattast" aðeins og kíkja saman í veiðitúr þar sem væru góðar aðstæður og hægt væri að sitja í stól á bakkanum. Hann hélt það nú og ætlaði einmitt að nefna það sama sagði hann. Sú tímasetning sem leit út fyrir að koma til greina var um það bil sá tími sem hann var að heyja sína hinstu baráttu, það var of seint.
Það var annað sem mig hafði langað að gera og beið eftir rétta tækifærinu en það var að segja honum hversu mikið ég væri þakklátur fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig og börnin í gegnum tíðina, kennt mér á lífið, bæði auðmýkt og þakklæti, virðingu fyrir mönnum og dýrum, virðingu fyrir náttúrunni og svo margt annað. Hann átti í raun svo stóran þátt í því að gera mig að þeim manni sem ég er í dag. Við Aron sonur minn sátum við hliðina á Guðbrandi þar sem hann lá og barðist fyrir lífi sínu, það var svo vont að geta ekkert gert en ég segi við Aron hvað ég sé þakklátur og eigi Guðbrandi mikið að þakka, áður en ég næ að klára grípur Aron orðið og klárar setninguna og segir "nákvæmlega, hann hefur gefið manni svo mikið og gert mann að þeim manni sem maður er í dag". Það var svo gott að heyra að hann upplifði nákvæmlega sömu hluti og ég efast ekki um að Guðbrandur hefur haft mikil áhrif á svo marga í gegnum tíðina bæði nánustu fjölskyldu sem og aðra samferðamenn og konur.
Það er ljúfsárt að rifja upp allar minningarnar um hann og þau ævintýri sem við höfum lent í en hann hefur verið mér sem faðir eins lengi og ég man eftir mér. Þegar ég var smá pjakkur þvældist ég mikið með honum, við bjuggum á Vífilsstöðum, sem var nú hálfgerð sveit í borg, hestarnir í girðingu við hliðina á húsinu og auðvitað þurfti að bera á hagann, gera við girðingar o.þ.h. en oftar en ekki fór ég með honum í það. Eins man ég eftir því að hafa þurft að vakna eldsnemma á morgnana til að fara út í kuldann og vitja um net í vatninu, mér fannst það að sjálfsögðu spennandi en viðurkenni það alveg að maður var ekki alltaf æstur í að vakna svona snemma til að athuga með einhverja fiska, en í dag eru þetta æðislegar minningar.
Ég var mikið með foreldrum mínum í hestunum þegar ég var yngri og man eftir flestum hestunum sem þau áttu, en þeir voru þó nokkrir, það var samt alveg merkilegt með þessa sem voru kallaðir litli kútur það voru ungir hestar, sem ég hugsa svona eftir á að hann hafi ekki séð fyrir sér að eiga til lengri tíma, en þessir litlu kútar enduðu yfirleitt á því að kasta mér af baki. Einn þeirra náði meira að segja að henda mér tvisvar í sama drullupollinn. Guðbrandur kenndi mér það að maður gefst ekki upp og sest aftur í hnakkinn þó svo maður detti, en þá á ég ekki bara við í bókstaflegri merkingu, þó svo það hafi líka átt við.
Við höfum farið í nokkuð margar hestaferðir saman í gegnum tíðina, fyrst minnir mig að ég hafi verið 7-8 ára þegar ég fór á honum Glóa til Þingvalla en við fórum víða í þeim túrum sem við fórum. Ég gleymi því ekki þegar við fórum ríðandi yfir jökulána við Hagavatn en þá hef ég verið lítið eldri, kannski kringum 10 ára gamall, einhvern vegin hvarflaði ekki að manni þá að það gæti verið einhver hætta fólgin í því, maður bara gerði eins og hann sagði og hélt að allir vegir væru færir, vertu á traustum hesti, ekki horfa niður og haltu í hnakkinn eða faxið sagði hann. Í annarri ferð lentum við í mestu rigningu sem hafði mælst á landinu, það var langur dagur í gegnum úfið hraun og allir rennandi blautir og kaldir, trússbílnum seinkaði og kom seint á áfangastað svo það voru engin þurr föt eða matur, ég fann spagettí í skálanum og við elduðum það í sameiningu fyrir hópinn, þetta var besta spagettí í heimi sem hefur nokkurn tíma verið gert. Alltaf komum við nú heilir heim og hann vissi alltaf hvar við vorum, hvar svo sem það var á landinu og hvernig sem skyggnið eða veðrið var.
Í þessum ferðum lærði maður líka mikið um náttúruna, veðuröflin, hvernig á að klæða sig og hegða sér eftir aðstæðum, kunna að meta það að vera einhvers staðar úti í buskanum og gleyma öllu öðru en að vera til á þeim stað á þeirri stundu.
Seinna meir fór hann að taka mig með í skotveiði og svo laxveiði og kenndi mér bæði en þeir eru ófáir túrarnir sem við höfum farið saman á gæsaveiðar. Stundum veiddum við vel og stundum ekki eins og gengur og gerist en það breytti því ekki að alltaf var gaman og í þessum túrum sköpuðust margar eftirminnilegar minningar. Túrarnir sem við fórum í kvöldflug upp á heiði aftur og aftur og komum iðulega tómhentir heim eða þessir túrar og fallegu morgnar sem við höfum átt í Landeyjunum eða fyrir norðan í Krossanesi og víðar. Hann var alltaf til í að gera eitthvað með okkur strákunum og fara í einhver ævintýri.
Ég man þegar ég var lítill og velti því fyrir mér hvort ég mætti kalla hann pabba og spurði svo á endanum. Að sjálfsögðu var það í góðu lagi en einhverra hluta vegna gerði ég það nú ekki nema örfá skipti, nema þá þegar ég kallaði hann Guggi eins og hann var kallaður af fjölskyldunni þá var mín merking frábrugðin annarra að því leyti að það var meira eins og pabbi fyrir mér. Skýringin á þessu er trúlega sú að ég á annan pabba líka sem ég hef alltaf verið í sambandi við og fannst skrítið að kalla tvo aðila pabba þó svo að Guggi hafi alið mig upp og reynst mér ofboðslega vel sem faðir.
Það var alveg sama hvað hefur komið upp í gegnum tíðina, hann var svo traustur vinur, maður gat alltaf sest niður með honum og rætt hvað sem er án þess að vera dæmdur eða annað slíkt. Hann var alltaf tilbúinn að hlusta og veita ráð ef hann gat, nú eða hjálpað manni að tala um hlutina og hlustað svo maður kæmist sjálfur að niðurstöðu. Ég hugsa að mjög margir hafi upplifað hann á svipaðan hátt.
Nú eftir að hann hefur kvatt okkur er maður aftur og aftur að upplifa tóm sem situr eftir við óvæntar aðstæður sem maður hafði ekki hugsað út í, það situr í mér atvik sem kom upp fyrir nokkrum dögum en ég ákvað að fara einn seinnipart í veiði. Komast út í náttúruna á fallegum degi til að hreinsa hugann sem er kannski ekki í frásögu færandi. Nema hvað að ég er staddur á Snæfellsnesi, það er bæði fallegt veður og umhverfi, sólin að setjast yfir fjöllunum, maður sér jökulinn og fjallgarðinn en þá hellist yfir mig þetta tóm og í smá stund langaði mig ekki að vera þarna, fann fyrir því að það vantaði svo stóran part af mér og tilfinningin að vita að maður getur ekki sest niður við eldhúsborðið hjá honum eða á rúmið og spjallað um svona stundir, hverjum á maður þá að segja frá? Ég horfði yfir fjallgarðinn og sólroðann og fannst ég vita af honum vakandi yfir fjöllunum, þessi augnablik eru breytt, nú er hann með í mómentinu í staðinn.
Mikið vildi ég að við gætum farið saman einn túr enn.
Enn er hann að kenna mér þó svo maður hafi lært ýmislegt í gegnum tíðina og séð þessa hluti betur og betur með aldrinum en þá er það aldrei of oft sagt, maður á að segja það sem mann langar að segja þegar mann langar, gera það sem maður vill gera núna, sinna fjölskyldunni, hugsa um heilsuna, vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, nýta þann tíma og tækifæri sem gefast, annars gæti það verið of seint.
Tilhugsunin um að hann sé búinn að hitta Snilla sinn aftur yljar manni nú samt, sjá hann fyrir sér svífandi um á sólbjartri sumarnótt ríðandi á dúndur góðum moldargötum einhvers staðar í buskanum, og já það er nú engin spurning að hann fer fremstur ef þeir eru fleiri saman.
Guð blessi þig og minningu þína.
Gunnar Örn Haraldsson.