Hákon Guttormur Gunnlaugsson fæddist á Fæðingarheimili Reykjavíkur 19. maí 1991. Hann andaðist í Madrid 10. ágúst 2019.
Hákon var fimmta og næstyngsta barn eftirlifandi foreldra sinna, Gunnlaugs Sigurðssonar og Ragnheiðar Þormar. Samfeðra er elsta systir hans, Svanhildur, fædd 15. júní 1970, maki Þorsteinn Tryggvi Másson. Móðir hennar er Þórey Axelsdóttir. Alsystkini Hákonar eru Elísabet, fædd 3. ágúst 1973, maki Pierre Mounoud; Alexandra, fædd 26. apríl 1978, maki Atli Aðalsteinsson; Helga, fædd 19. febrúar 1985, maki Arnar Már Magnússon; Andrea Júlía, fædd 12. júlí 1988, maki Magnús Felix Tryggvason; Höskuldur, fæddur 26. september 1994, ókvæntur. Systkinabörn Hákonar eru börn Svanhildar, Sunneva og Tómas Þorsteinsbörn; börn Elísabetar, Clara Nora og Ulysse Guttormur Mounoud; börn Alexöndru, Benjamín, Lúkas og Emma Júlía Atlabörn; og dóttir Andreu Júlíu, Ísadóra, og ófætt systkini hennar, Magnúsarbörn.
Hákon lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi 2011, diplómu í margmiðlun frá háskólanum í Steinker í Noregi tveimur árum síðar og stundaði síðan nám í nokkrum greinum í HR og HÍ. Meðfram námi og að því loknu vann Hákon að ýmsum verkefnum á sviði margmiðlunar ásamt því að stunda smíða- og byggingarvinnu. Hann kynnti sér á undanförnum árum ítarlega samvinnufélagið í Modragon í Baskalandi og hugmyndafræði þess. Hann hafði nýverið verið á ferðalagi um héraðið þegar hann lést í Madrid um hádegisbil laugardaginn 10. þessa mánaðar.
Útför hans var gerð frá kapellu San Isidro í Madrid fimmtudaginn 15. ágúst 2019.
Minningarathöfn um Hákon Guttorm fer fram í Kópavogskirkju í dag, 22. ágúst 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

Vindur blés um Kársnesið og við vorum í bílskúrnum að sinna sínu hugðarefninu hvor, ég að koma tauti við bílskrjóð en þú á talsvert háleitari vegferð um tækniheima að smíða þyrlu. Alvöru þyrlu og hafðir fundið langa mjóa fjöl og varst að ljúka við að negla tvær þunnar krossviðarplötur á sinn hvorn enda hennar. Þetta yrði þyrluspaðinn og spurðir mig hvort ég gæti hjálpað þér með það sem eftir væri. Það yrði að vera pláss fyrir tvo í henni, þig og litla bróður þinn, sagðir þú og í stóru augunum þínum brá ekki fyrir minnsta efa um að pabbi gæti smíðað það sem upp á vantaði úr því aðalatriðið var jú komið, sjálfur þyrluspaðinn.

Fimm ára og varst sannfærður um að heimurinn hefði beðið eftir þér lengi og myndi nú fagna þér af heilum hug nú loksins að þú varst kominn. Það gerði hann enda, systur þínar fylgdust spenntar með vexti þínum í kvið móður þinnar og fjölskyldubíllinn slapp óskaddaður yfir 7 gatnamót á rauðu ljósi á leiðinni frá Kársnesinu að Fæðingarheimili Reykjavíkur þegar þú vildir án tafar sjá heiminn snemma nætur í síðustu snjókomu vetrarins þetta vor að morgni hvítasunnunnar.

Og heimurinn tók þér vel þótt hann væri ekki alltaf viðbúinn þeirri takmarkalausu andagift sem birtist í uppátækjum þínum en hreifst þó með og undraðist einlægnina í tilraun ykkar bræðra til að sjóða annað gúmmístígvélið litla bróður þíns, hann 5 ára og þú 8, eftir að hafa horft á Gullæðið með Chaplin hvert kvöld í heila viku. Suðuð það í stærsta pottinum á gaseldavélinni og höfðuð fært það upp á fat nokkrum sinnum en reyndist hvert sinn jafn ólseigt og fyrr. Hvort það gæti verið vegna þess að þeir hefðu ekki sett nóg salt í vatnið, stakk bróðir þinn upp á við mömmu ykkar þegar hún kom heim úr vinnunni og horfði með blöndu af hluttekningu og aðdáun á síðustu tilraun ykkar til að hluta stígvélið í sundur með beittasta hnífnum í hnífaparaskúffunni.

Efnisheimurinn var þannig stundum dálítið tregur til leiks en þú bættir það upp með snemmfenginni fimi huga og handar og listfengi sem gerði viðureign stormfuglins og blettatígursins í sama leikritinu að hádramatísku sjónarspili. Sviðið var stofan eða holið á miðju loftinu í ævintýralegu húsi yst á Kársnesinu en leikmunir voru stólar, sófi og sófaborð. Þú lékst báða karakterana og af slíkri innlifun að var sem þér yxi geysivítt vænghaf Stormfuglsins og langt stél hans og enn lengra skott Blettatígursins þar sem hann læddist í veiðihug um gresjuna, dró kviðinn en langt skottið stóð lóðrétt upp úr hávöxnu grasinu og nú nálgaðist hann, einbeittur og slægur, þennan konung háloftanna þar sem hann sat á háum kletti og horfði yfir víðáttur Afríku hvössu augnaráði. Uggði þó ekki að sér um aðsteðjandi ógnina af Blettatígrinum fyrr en sá lyfti sér upp á afturfæturna, sló skottinu aftur og niður og hóf sig upp á hamarinn í einu stökki. En Stormfuglinn var líka snöggur í hreyfingum og það eina sem Blettatígurinn náði að slæma beittum klónum í var ein fjöður úr stéli hans. Hún liðaðist um loftið smástund á brún hamarsins en féll svo með þokkafullu flöktandi svifi til jarðar.

Með aldri og skólagöngu var þrengt að ímyndunaraflinu úr ýmsum áttum og komst heim með miða frá skólastjóranum einn daginn og rauðbláa kúlu á enninu. Heimilisfræði í 6. bekk og Ingvi vinur þinn átti að þurrka með rauðleitu viskustykki það sem þú skyldir vaska upp eftir máltíð dagsins. Þér hafði verið ögrað af tveim riddurum á brynjuðum hestum sem stungu oddhvössum spjótum í herðakamb nautsins til að slæva banvænt viðbragð þess þegar það reyndi endurtekið að stinga löngum hornunum í síðu kvalara síns í hringnum og nú sveiflaði nautabaninn klútnum ögrandi en nautið fnæsti, stappaði niður framfótunum og skók hausinn. Nautabaninn stóð kaldrifjaður og sem steinrunninn andspænis tveim hornum og tveim blóðhlaupnum augum uns hann á síðustu stundu vék sér til hliðar en skriðþungt nautið stangaði rauðleitt viskustykkið og borðbrúnina sem Ingvi hafði staðið við. Stór rauðblá kúla á enni sem skólastjórinn tók sem sönnun þess að þú hefðir gert lítið úr menntunargildi heimilisfræðinnar. Stíllinn í bréfi hans var hátíðlegur og textinn þéttriðinn skírskotunum í langan hegningarlagabálk skólans. Við keyptum rjómaís til að halda upp á atburðinn.

Við smíðuðum aldrei þyrlu, ég lét nægja að hefla tvo fláa á litla fjöl og negla hana með einum nagla um miðjuna á prik og fórum út með þetta undratæki sem snerist þegar þú beittir því upp í vindinn og lést það nægja þér um sinn að minnsta kosti í stað þyrlunnar. Hugmyndin vakti þó í mismunandi tilbrigðum en dreifði sér í ýmis áform önnur. Bílskúrinn hýsti hljómsveit þína og nokkurra félaga þinna eins og bílskúr á auðvitað að gera og með árunum miðlaðir þú mörgum viðfangsefnum þínum en ekki síður annarra af listrænni sköpunargáfu þinni og tæknikunnáttu og áfáar voru heimasíðurnar, tónlistarmyndbönd og teikniseríur sem þess nutu. Ófáir voru þeir sem nutu hæfileika þinna og hjálpsemi en aldrei varð ég var við að þú bæðir neinn um að hjálpa þér og það krafðist sérstakrar athyglisgáfu að koma auga á að þú þarfnaðist einhvers fyrir þig sjálfan. Þú gafst og þú gafst en með því áþreifanlega sem við þáðum af þér fylgdi dásamlegur andi þinn, gjöfull, skapandi og sjálfstæður. Þú sást kosmíska fegurð í minnstu smáatriðum, hvernig kisi þinn, Felix Catus, bærði ekki á sér nema hvað bláendinn á skottinu tifaði til merkis um það vitundarlíf sem 6 milljörðum ára eftir Stóra hvell hafði loksins orðið til á örlítilli plánetu sem við köllum jörð. En sérstaklega birtir þú okkur óendanlega kómískt eðli tilverunnar og af því urðu bæði kisi og hundurinn ykkar bræðra, Kútur, sem höfuðpersónur í forn-grískum gamanleik. Þú gæddir þá svo ríkulegum persónuleika að okkur varð eðlilegt að deila með þér djúpstæðri elsku þinni á þeim. Sama var um fólk, þú dvaldir ekki við bresti þess og það sem ekki vakti hjá þér kímni eða samúð leiddir þú hjá þér. Þú leiddir og hjá þér mest af sora heimsins sem ekki var við ráðið, lélegar kvikmyndir, heimskulegar athugasemdir, smekkleysu og almenna vonsku en einbeittir þér að því sem mögulega yrði barist gegn á sviði stjórnmála og hugmyndafræði. Þú lagðir af mörkum gegn stofnanavæddri valdníðslu og arðráni af öllu tagi. Þú varðst í senn mildur í dómum og róttækur í skoðunum og kynntir þér í þaula skrif hugsuða á borð við Peter Kropotkin og Noam Chomsky.

En kannski ofmastu þær varnir sem næmur hugur þinn hafði andspænis vonsku heimsins. Þú tókst nærri þér margt það sem venjuleg fáfræði eða skeytingarleysi ver okkur gegn og svo fór að þú fékkst skýra viðvörun um að yrðir að gæta þín. Það reyndir þú vissulega að gera og safnaðir kröftum á ný með þeim hætti sem þér var eiginlegt, gafst og gafst af þér og áttum ógleymanlegar stundir saman í nokkrum verklegum framkvæmdum sem við tókum að okkur okkur til upplyftingar og kláruðum með þeim stæl sem þér var lagið, handlaginn, hugkvæmur, verkfús og sá besti vinnufélagi og vinur í verki sem ég hef átt. Á áliðnu sumri léstu svo verða af því áformi sem lengi hafði blundað með þér, að fara til Mondragon á Baskalandi að kynna þér víðfrægt samvinnufélag þeirra með það fyrir augum að staldra þar við í vinnu og námi. Egun ono veit ég fyrir þín orð að þýðir góðan dag á basknesku en þar áttir þú samt ekki eftir að skíga þín hinstu skref í þessu lífi þínu. Varst á ferðalagi um Madrid og skráðir þig inn á hótel.

Næturvörðurinn þar sagði okkur að þú hafir komið laust eftir miðnætti á aðfaranótt laugardagsins 10, rólegur, brosmildur og kurteis ungur maður. Við fórum þangað með blómin sem skreyttu útför þína frá kapellu San Isidro í borginni Við sátum langa stund með því góða fólki sem varð það síðasta sem sá þig í þessu lífi og það fyrsta eftir andlát þitt, herbergisþerna og Carlos sem vinnur í gestamóttökunni. Hann sýndi okkur herbergið sem þú hafðir gist í og túlkaði frásögn herbergisþernunnar af samskiptum ykkar um morguninn og af þeim þöglu ummerkjum sem vitnuðu um hinstu örlög þín um hádegisbil þann sama dag. Á samri stund urðum við ekki ein í sorginni, herbergisþernan hafði misst yngri bróður sinn úr ofneyslu eiturlyfja og Carlos hafði nýverið misst móður sína án þess að geta sagt henni hversu heitt hann elskaði hana og við grétum í faðmi hvers annars, hverri annarri ókunnugar manneskjur fyrir stundu, sem vegna þín voru nú sem náin systkini.

Þú dvaldir stutt í því fræga samvinnufélagi í Mondragon í þetta sinn og stutt á þessari jörð en sýndir okkur með lífi þínu og við hinstu örlög þín vitnaðist okkur að slá sama takti hjörtu okkar allra. Ástarþakkir fyrir það, ástarþakkir fyrir allt sem þú gafst okkur, hjartans vinur minn kæri.


Gunnlaugur Sigurðsson.

Hákon, Hákon Konungur, eins og nafn hans merkir, niðji hins göfuga. Hkon, Kux, Kox, Schölle, Schölledechon, Shocon.

Nafni hans, Hákon gamli Noregskonungur, og Hkon vinur okkar áttu það eitt sameiginlegt að þeir voru báðir helvítis kóngar.

Öll þessi nöfn eru nöfnin þín. Allt frá skírnarnafni þínu yfir til skemmtilegustu blæbrigða gælunafna. Þau lýsa þeim endalausu krókum og kimum sem við gátum leyft spjalli okkar að reika um heima og geima. Frá fyrstu stundu hafði Hkon sérkennilegt aðdráttarafl, eitthvað óútskýranlegt sem ekki var hægt að horfa framhjá.

Hugmyndaflug Kox var botnlaust og er það minnistætt þegar Hkon fór að gera myndasögur. Hann var frábær teiknari og skapaði heima utan okkar víddar. Í þokkabót gerði hann skriflegan útgáfusamning við systur sína sem bjó í Frakklandi og fékk nokkur hundruð krónur fyrir hvert eintak sem hann sendi út til hennar. Þessi snilld vakti áhuga fólksins í kringum hann og gerðust nokkrir svo frægir að fá að leggja hönd á plóg.  Schölle útbjó þá skriflegan vinnusamning við viðkomandi sem hljóðaði upp á prósentu af laununum hans ef einhver teiknaði mynd. Hann borgaði samviskusamlega fyrir afköstin, sama hversu léleg þau kunnu að hafa verið. Allir fengu að vera með, það var konunglegt.


Konungurinn keypti sér rafmagnsgítar. Hann var ótrúlega lunkinn að tileinka sér blæbrigði hvers og eins íkons sem við litum upp til. Já, þessi kóngur var auðmjúkur. Hann gat lagt stolt sitt og sjálf til hliðar og sá að hann gat lært af öðrum. Ekki er víst að nafni hans Noregskonungur hafi haft slíka kosti. Frá fyrstu nótu hafði Hkon sérstakan hljóm. Hann var farinn að semja flóknar lagasmíðar einn síns liðs í 7.bekk.

Hljómsveitarmeðlimir fengu skýr fyrirmæli - Hann sýndi trommaranum hvaða taktur væri við hæfi, gaf rytma-gítarleikaranum hljómagang svo melódíur hans á gítarnum og söngur gætu fengið réttan og fullkominn hljómgrunn. Að auki benti hann bassaleikaranum á hvaða grunnnótur væru í hverjum hljóm svo þykkt, dýpt og heild lagsins kæmu heim og saman. Lagasmíðarnar voru flóknar og fallegar þó svo textarnir bæru þess merki að hljómsveitarmeðlimir væru ungir að árum. Enda varstu ekki fullkominn.  Enginn er fullkominn, en þú fórst helvíti nálægt því Schölledechon.


Niðji hins göfuga fór að fullorðnast og hvolpavitið tók yfir. Margt og mikið var brallað á unglingsárunum.


Hvað er konunglegra en gott partí? Jú, betra partí.

Við kunnum svo sannarlega að skemmta okkur saman og oftar en ekki var boðið upp á öl með. Málglaðir tóku til máls, leyndarmál voru sögð og tilfinningar fengu að fljúga. Það er okkur minnistætt að konungur vor hóaði hersveit sína saman í ránsferð til bæjar. Okkar maður hafði tekið eftir glufu í öryggiskerfi ónefnds skemmtistaðar sem við gátum nýtt okkur til góðs.

Bruggað var á ráð að ræna ölkút og skipulagði Shocon konungur skothelt plan fyrir hersveit sína. Aðgerðin gekk áfallalaust fyrir sig, við hverju öðru var að búast? Við komumst hólpnir heim í konungdæmi okkar, Vesturbæ Kópavogs, þar sem þýfinu var komið vel fyrir. Seinna þennan mánuð átti Hkon okkar 18 ára afmæli og blásið var til veislu. Orðið var látið berast um sveitir Stór-Vesturbæjarkópavogs og var mæting eftir því. Fólk hvaðanæva úr bænum kom til að heiðra nærveru Kux okkar sem stýrði þessum hátíðarhöldum með silkihönskum. Jú silkihönskum, því ólíkt öðrum konungum stjórnaði þessi drengur okkur ekki með skipunum heldur með frjálsu flæði og engu óþarfa poti. Skemmtu gestir sér konunglega enda var nóg af veigum í boði fyrir alla. Boðið var upp á þýfi, jú því það er það sem alvöru kóngar gera.


Kjálkameistarinn var sá allra myndarlegasti maður í okkar lífi,  algjört Hot stöff.


Hkon var einn sá allra fyndnasti. Húmorinn var lúmskur og smaug inn að beini.

Hann hafði þann einstaka hæfileika að gera hvað sem er fyndið. Snerpa Hkons í hugsunum og næmni dansaði fullkominn dans við húmortaugar hans.


Það var alltaf gott að vera í kringum Schölle. Við eyddum mörgum stundum í spjall og spekúleringar um heiminn og hafði hann alltaf eitthvað frumlegt og nýtt til málanna að leggja. Hkon bjó yfir þeim magnaða eiginleika að draga fólk á mikla dýpt og sýna þeim stærra samhengi. Oftar en ekki kom þessi mannlega speglun okkur í opna skjöldu, skyndileg sprenging í heilahvelið. Hákon Guttormur fékk okkur til að hugsa.


Hkon var afar hlýr, vinur vina sinna og með eindæmum traustur. Öll eigum við okkar sögu af hjálpsemi konungsins, hvort sem um er að ræða parketlögn, píanóburð, málningarvinnu, barnapössun eða hvatningu og hughreystingu.


Öll höfum við þekkt Konunginn frá barnæsku og hefur hann verið dýrmætur vinur okkar allra í gegnum árin. Þegar við höfum hist undafarna daga hafa minningarnar streymt fram og skýrt komið í ljós hversu mikilvægur og stór hluti hann var í lífi okkar allra.


Elsku Hákon okkar, það er þyngra en tárum tekur að þurfa kveðja þig. Þú munt alltaf vera í hjarta okkar og erum við  þér ævinlega þakklát fyrir þig og allt sem þú hefur gefið okkur. Nærvera þín verður ávallt hluti af okkur. Við elskum þig og söknum þín.


Þínir vinir,




Agnar, Arnar, Aron, Glódís, Ingvi, Jóhann, Steinar, Þorsteinn & Ævar.