Sigvaldi Páll Gunnarsson fæddist á Ólafsfirði 19. desember 1962. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 8. ágúst 2019.
Foreldrar hans eru Fjóla Bára Finnsdóttir, f. 8. október 1939, og Gunnar Þór Sigvaldason, f. 15. október 1938.
Systkini hans eru: Sigurbjörn Finnur, f. 24. mars 1960, maki Bozena Ewa Borchert, f. 24. janúar 1967. Börn hans eru Steingrímur Arnar og Bára; Sigríður, f. 23. október 1964, maki Hjörtur Hjartarson, f. 13. október 1961. Börn hennar eru Sebastian Atli og Gunnar Hubert.
Sigvaldi giftist Bjarnheiði Erlendsdóttur 26. ágúst 1995. Börn þeirra eru: Freydís Björk, f. 18. nóvember 1990. Sambýlismaður Þorbergur Atli Þorsteinsson, f. 8. október 1984, og Gunnar Þór, f. 8. september 1998. Sambýliskona Eva María Oddsdóttir, f. 14. maí 1999. Fyrir átti Bjarnheiður tvö börn: Evu Björk Ægisdóttur, f. 25. ágúst 1977, og Adam Bjarka Ægisson, síðar Sigvaldason, f. 24. janúar 1981. Á hann þrjú börn: Tönju Björk, f. 14. mars 2007, Hrafnkel Inga, f. 19. október 2008, og Veigar Jökul, f. 8. desember 2015. Adam á einn stjúpson, Þorstein Inga Aðalheiðarson, f. 3. apríl 2001.
Sigvaldi ólst upp í föðurhúsum á Ólafsfirði til átján ára aldurs. Hann hélt suður til Reykjavíkur til að afla sér frekari menntunar. Hann fór í Iðnskólann og nam þar bifvélavirkjun. Hann starfaði við það í nokkur ár en þá togaði sjómennskan. Hann var til sjós á skipum í eigu fjölskyldunnar. Fyrst á Sólbergi ÓF og síðan á frystitogaranum Mánabergi ÓF. Þegar hann kynntist Bjarnheiði fór hann aftur í land og starfaði með henni fyrst hjá garðyrkjudeild Hafnarfjarðarbæjar og síðar fóru þau saman til starfa hjá Keflavíkurbæ, við sameiningu Reykjanesbæjar, og störfuðu þar saman í allmörg ár, Sigvaldi sem verkstjóri garðyrkjudeildar/forstöðumaður vinnuskóla en Bjarnheiður sem garðyrkjustjóri. Þeir bræður Sigvaldi og Finnur ráku saman Eðalvagnaþjónustuna og Vitamin.is um árabil og síðar bílaþvottastöðvar, sem varð þeirra aðalatvinna.
Útför Sigvalda fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 23. ágúst 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.
Það er því ekki ofsögum sagt að Sissi var einstaklega hughraustur, réttsýnn og ákveðinn maður sem lét úrtölur og neikvæðni aldrei hafa áhrif á sig og laðaði með því fram það besta í fari þeirra sem hann umgekkst. Hann stappaði í aðra stálinu þegar á móti blés og hvatti fólk áfram með sínum jarðföstu skoðunum til góðra verka enda ef eitthvað bjátaði á þá var hann manna fyrstur til að bjóða fram hjálp án nokkurra skuldbindingar annarrar en að fólk gerði eitthvað af viti við líf sitt og göfgaði það sem miður fór. Það voru mannkostir sem voru dýrmætari en allt annað eins og kom margoft í ljós á hans stuttu en litríku ævi, hvort sem litið er á viðskiptahliðina, ábyrgðarstörf, fjölskylduna eða vináttu við annað fólk.
Ég mun aldrei geta þakkað Sissa á þann hátt sem ég vildi gjarnan geta gert, fyrir hvað hann gerði fyrir mig sem eiginmaður bestu vinkonu minnar - í gegnum súrt og sætt, aðgætinn, opinhuga og bjartsýnn. Því þakka ég honum í huganum, frá djúpi sálar minnar og óska honum góðrar ferðar inn í óendanleika guðlegs almættis. Ég er ekki í vafa um að æðri máttur hefur tekið jafn vel á móti honum og Sissi sjálfur tók á móti sínum gestum, og samferðafólki í lífinu, því hann var höfðingi heim að sækja í orðsins fyllstu merkingu.
Ég sendi Heiðu mínar dýpstu samúðarkveðjur, börnum, systkinum og öldruðum foreldrum sem kveðja nú einstakan mann, sem skildi svo margt fallegt eftir sig og stráði ljósi í huga hvers og eins. Minning hans og lífsmottó mun lifa um ókomin ár í huga þeirra sem hann elskaði og var elskaður af, og flytja hugarró og gleði í gegnum þennan djúpa harm sem á alla er lagt, sorgina yfir að honum auðnaðist ekki að öðlast bata þrátt fyrir hversu hart hann barðist. Sálarstyrkur hans þegar allt brást er okkur öllum til eftirbreytni og minning um góðan dreng verður aldrei frá okkur tekin.
Ef öndvert allt þér gengur
og undan halla fer,
skal sókn í huga hafin,
og hún mun bjarga þér.
Við getum eigin ævi
í óskafarveg leitt
og vaxið hverjum vanda,
sé vilja beitt.
Þar einn leit naktar auðnir,
sér annar blómaskrúð.
Það verður, sem þú væntir.
Það vex, sem að er hlúð.
Þú rækta rósir vona
í reit þíns hjarta skalt,
og búast við því bezta,
þó blási kalt.
Þó örlög öllum væru
á ókunn bókfell skráð,
það næst úr nornahöndum,
sem nógu heitt er þráð.
Ég endurtek í anda
þrjú orð við hver mitt spor:
Fegurð, gleði, friður
mitt faðirvor.
(Kristján frá Djúpalæk)
Blessuð sé minning þín.
Hellen Linda Drake.