Jóna Kristjana Möller Björnsdóttir fæddist í Hrísey 22. maí 1948. Hún lést á sjúkrahúsinu á Akureyri 14. ágúst 2019.Foreldrar Jónu voru Alvilda María Fiðrikka Möller, f. 10.12. 1919, d. 1.1. 2001, og Björn Kristinsson, f. 23.8. 1911, d. 24.2. 1997. Jóna var næstelst sex systkina: Friðbjörn, f. 1945, Nanna, f. 1949, Vilhelm, f. 1952, Sigurður, f. 1954 og Almar, f. 1959.

Jóna ólst upp í Hrísey og gekk þar í grunnskóla en var einn vetur í skóla á Núpi á Dýrafirði, eins og algengt var meðal unglinga í Hrísey á þeim árum. Veturinn 1966-67 stundaði hún nám við húsmæðraskólann á Laugalandi.

Hinn 22. ágúst 1971 giftist Jóna eftirlifandi eiginmanni sínum, Baldri Árna Beck Friðleifssyni, f. 24.2. 1946. Börn þeirra eru: 1) Friðbjörn Möller, f. 1971, kvæntur Aðalheiði Guðmundsdóttur. Börn þeirra a) Birgir Arnór, eiginkona hans er Sigurdís Björg, b) Evíta Möller, unnusti Andrés Helgi og eiga þau Alexander Hinrik, c) Alexandra Möller. 2) Steinar Rafn Beck, f. 1974, kvæntur Auði Sigurbjörnsdóttur. Börn þeirra Aníta Ósk, Ásta Karítas og Baldur Leví. 3) Telma Lind, f. 1975. Synir hennar eru Orri Freyr, unnusta Silja Þorbjörg, og Egill Darri.

Jóna vann m.a. við síldarsöltun á Siglufirði, sem ráðskona í Flatey á Skjálfanda, á Sjúkrahúsinu á Akureyri veturinn 1968-69 og sem skólaliði í Dalvíkurskóla. Frá 1998-2015 vann Jóna við umönnun aldraðra á Dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík.

Baldur og Jóna bjuggu fyrstu árin sín í Karlsrauðatorgi á Dalvík en haustið 1974 fluttu þau í Mímisveg 13 þar sem þau bjuggu til ársins 2017, en þá fluttu þau til Akureyrar.

Útför Jónu fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku yndislega Jóna,
Ég var nýbyrjuð í háskólanámi á Akureyri þegar skólasystur mínar þar sögðu mér ýmsar sögur af dásamlegri konu á Dalvík, sem kölluð var Jóna Baldurs og var m.a. þekkt fyrir fyndin mismæli og orðtök. Ég hugsaði með mér að þar væri á ferð mikill snillingur sem gaman yrði að kynnast en grunaði ekki hversu góð vinkona mín og hversu stóran þátt hún ætti síðan eftir að eiga í mínu lífi. Ég gleymi því heldur aldrei deginum sem við hittumst, nokkrum árum seinna. Með hálfgerðan kvíðahnút í maganum keyrði ég á Dalvík eitt hádegi að sumarlagi, í þeim tilgangi að hitta foreldra Steinars míns í fyrsta skipti. Sá kvíðahnútur var fljótur að hverfa þegar dyrnar á Mímisveginum opnuðust og þið Baldur tókuð á móti mér og mínum með hlýju faðmlagi og brosi á vör. Þannig voru raunar allar móttökur ykkar hjóna, allir boðnir velkomnir og alltaf heilsað og kvatt með kossi á kinn og þéttu faðmlagi.
Börnunum mínum varstu yndisleg amma og fyrir þau hafðir þú alltaf tíma. Í ótal skipti fengu þau að gista hjá ykkur afa og þá var sko alltaf gaman! Við Steinar röfluðum stundum yfir því að þau þyrftu nú ekki þrjú engjaþykkni á mann í morgunmat og ótakmarkað magn af ís í Olís eftir kvöldmat, en alltaf var svarið það sama frá ömmu Jónu: hjá ömmu og afa ráðum við, ekki þið hjá ömmu og afa má þetta og þar með var það útrætt. Það var svo margt sem börnin okkar fengu að upplifa með ömmu og afa sem er algjörlega ómetanlegt fyrir þau að eiga sem minningu í hjarta sínu. Veiðiferðir á bryggjuna á Dalvík, gönguferðir að andapollinum, ferðir á húsbílnum, spilamennska, að ógleymdum ferðum á ströndina ykkar á Dalvík allt eru þetta hlutir sem þið Baldur gerðuð með barnabörnunum ykkar og allir höfðu gaman að. Það var varla það fótbolta- eða handboltamót hjá Baldri Leví sem þið mættuð ekki á og alltaf varstu fyrst til að koma á danssýningar hjá Ástu Karítas, prinsessunni þinni. Mikið vorum við svo öll heppin að þið Baldur skylduð flytja til Akureyrar en þá var enn einfaldara að kíkja við í kaffi þegar manni datt í hug. Svo ég tala nú ekki um hversu glöð börnin voru að fá ömmu og afa nær, enda ófá skiptin sem Baldur Leví hjólaði til ykkar eftir skóla og æfingar, gjarnan með vini sína með, því allir voru velkomnir í ömmu og afa hús. Síðustu mánuði leið varla sú helgi sem Baldur Leví gisti ekki í ömmu og afa rúmi og þar kúrðuð þið saman og horfðuð á Harry Potter og nutuð samverunnar.
Þú varst frábær í öllu því sem þú tókst þér fyrir hendur og allt sem þú gerðir kláraðir þú vel. Þú hafðir unun af ýmiss konar handavinnu og ótal mörg listaverkin sem eftir þig liggja. Ég veit ekki hversu oft ég hringdi í þig af því mig vantaði smá hjálp og ráðleggingar með minn prjónaskap og alltaf var hægt að treysta á þig, þú vissir nákvæmlega hvernig leysa ætti málið. Það sama átti við um hvers kyns eldamennsku og bakstur það fór enginn svangur úr þínu húsi. Reyndar þurfti maður oft að passa sig á því að koma ekki saddur í heimsókn, því ef einni sortinni var neitað var sú næsta dregin fram, og svo sú næsta og næsta þar til maður þáði nú örugglega eitthvað!
Það var aðdáunarvert að fylgjast með hversu samstíga þið Baldur voruð. Samstilltari og nánari hjónum hef ég ekki kynnst og munuð þið ávallt vera fyrirmynd okkar Steinars í þeim efnum. Ekki breyttist það eftir að þú veiktist og vék Baldur ekki frá þér þetta ár sem veikindin herjuðu á. Þú barðist eins og hetja við krabbameinið og ætlaðir þér alltaf að sigra það. Ég er alveg handviss um að þér hefði tekist það hefðirðu fengið aðeins lengri tíma, og lengri tíma hefðirðu svo sannarlega átt að fá.
Elsku Jóna mín, ein mesta lukka mín í lífinu er að hafa kynnst Steinsa okkar en lukkan að fá ykkur Baldur sem tengdaforeldra í kaupbæti er ekki minni. Fyrir mér varstu ekki aðeins tengdamamma, þú varst mér sönn og góð vinkona og mikið sem ég á eftir að sakna þín. Ég gæti haldið endalaust áfram að rifja upp minningar um þig, enda er af nógu að taka. Minningarnar munum við öll geyma áfram í hjörtum okkar, hugga okkur við og rifja upp.
Takk fyrir allt og allt. Ég kveð þig nú með orðunum sem þú kvaddir okkur öll svo oft með:
Guð varðveiti þig, elsku hjartans vinan mín.
Þín tengdadóttir og vinkona,

Auður.