Sigríður Pétursdóttir, Sísí, fæddist í Keflavík 19. apríl 1968. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu í Keflavík 18. ágúst 2019.
Foreldrar hennar eru Kristín Guðmundsdóttir, f. 5. janúar 1945, og Pétur Guðmundsson, f. 17. ágúst 1945.
Sammæðra er yngri systir hennar, Hrefna Magnea. Samfeðra eru þau Eva Pétursdóttir, Sólrún Pétursdóttir og Óskar Pétursson.
Sigríður lætur eftir sig eina dóttur, Kristínu Leu Sigríðardóttur, f. 18. febrúar, 1988. Eiginmaður hennar er Vigfús Þormar Gunnarsson. Eiga þau tvo drengi, Jökul Þormar Vigfússon, f. 23. júlí 2012, og Frosta Gunnar Vigfússon, f. 1. júní 2014.
Útför Sigríðar fór fram frá Keflavíkurkirkju 29. ágúst 2019.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst svona stórbrotinni manneskju eins og þér mamma mín. Ég hef verið að hugsa undanfarið hvað lífið var ekki alltaf sanngjarnt við þig, en aldrei kvartaðir þú, bara beist á jaxlinn eins og hetjan sem þú varst.  Lærðir að ganga, tala og allt upp á nýtt eftir slysið. Það var ekki einfalt, en þú gafst ekki upp. Þú gafst mér líf og heimili. Einstæð móðir sem barðist í áratug við að fá viðurkennda eftirmála af slysinu. En það gastu. Ég dáist svo að þér. Sérstaklega eftir að ég er að byrja að lesa allar dagbækurnar sem þú skildir eftir. Alltaf varstu jákvæð. Alveg sama hvað var, þá skrifaðirðu í bókina að dagurinn í dag væri yndislegur. Það lýsir þér vel.


Í æsku vorum það bara við tvær. Heima að spila og drekka kakó og hlusta á Bylgjuna. Þú jafnvel að spá í Tarot fyrir mér á eldri árum. Oft áttum við stefnumót og fórum á Langbest út að borða og svo í kaupstaðarferð í Hafnarfjörð eða á rúntinn um Reykjanesið eða á Stafnes. Það fannst mér vera okkar augnablik. Við tvær, þurftum ekkert annað.

Mér fannst svo gott að kúra í mömmu holu. Það breyttist ekkert þegar ég varð eldri. Alltaf þegar ég kom til þín þá kúrði ég mig hjá þér í sófanum og þú straukst lappirnar mínar eða hárið með blíðu höndunum þínum. Þarf með talið í síðasta skiptið sem við komum til þín. Dásamleg stund sem ég varðveiti í mínu hjarta.

Þegar ég hugsa um okkar stundir í gegn um tíðina þá er það mikið við tvær að syngja og dansa saman, þá var mikið hlegið. Í kjallaranum hjá Sísí ömmu að dansa við Sálina eða í garðinum að syngja við Smokie. Ég tengi líka alltaf Boney M jólalagið við þig, hlógum alltaf svo mikið þegar það kom í útvarpinu því þér fannst það svo gott en ekki okkur. Tónlistin var aldrei langt undan. Það var húmorinn ekki heldur. Mér fannst ekkert leiðinlegt að fíflast í ykkur ömmu, að láta alveg eins og bjáni, spila og syngja um ykkur á gítar eða grínast í ykkur og fá ykkur til að hlægja. Það var svo gaman að stríða þér, þú varst svo auðtrúa. En alltaf grétum við saman úr hlátri, ég þú amma og Hrefna. Fyrsta svoleiðis minningin er af okkur öllum á jólunum að spila Er ég banani? Og svo ófáar minningarnar eftir það.

Þú vast alltaf til í að vera með í fíflalátunum. Ofarlega í minningunni er þegar við klæddum okkur upp og sungum í karaoki heima. Það var svo fyndið. Þú varst ekki beint þekkt fyrir að vera besta söngkonan í bænum, og skrækirnir sem komu upp og brosið og hláturinn er það besta sem ég veit um. Sem betur fer var Hrefna með myndavél og við getum hlegið með þér um ókomna tíð.

Það er svo gott að þú áttir svo björt síðustu árin í lífi þínu. Þú varðst amma og kynntist Einari þínum sem þú ætlaðir að elska að eilífu. Varst með fasta punkta í þinni rútínu, varst dugleg og áhugasöm um ræktina og leist svo vel út. Skvísan sem þú varst með bleika varalitinn og alltaf sólgleraugu á höfðinu, þó að úti væri engin sólin, við gátum nú hlegið að því.

Minningarnar verða svo viðkvæmar og dýrmætar þegar svona yndisleg sál eins og þú tekin svona snöggt frá okkur. Ofar öllu þakklæti er að þú gast verið með okkur á brúðkaupsdaginn okkar og leitt mig upp að altarinu. Fyrir þá minningu er ég ævinlega þakklát.

Ég er svo þakklát fyrir samband þitt og ömmustrákanna þinna. Þeir elskuðu ömmu afar heitt og skilja ekki alveg að þeir fá ekki að hitta þig aftur. Ég segi þeim að amma sé orðin engill sem lifir í hjartanu okkar. Við rifjum upp dásamlega tíma með þér þegar þú komst í heimsókn þá fóruð þið alltaf að leika inni í herbergi. Þeir skemmtu sér ekkert minna en þú. Nóg af knúsum og alltaf vildi amma halda í höndina á strákunum sínum. Ekki bara þeim, heldur mér líka, svo straukstu með þumlinum á handabakið og sagðir: ástin mín. Dásamlega nærveran þín nær engri átt, ég sakna þín meira en orð fá lýst, elsku mamma mín.


Þú stóðst alltaf með mér í blíðu og stríðu. Mömmuhjartað var svo stórt.
Þú kenndir mér að faðma og elska. Vigfús segir oft að allt það góða í mér kemur frá þér, ég tek undir hvert einasta orð. Ég ætla að kenna strákunum okkar allt sem þú kenndir mér og heiðra þessa fallegu sál sem þú ert. Sálin sem er núna í blíðum höndum hjá Sísí ömmu.

Við Hrefna höldum að milli þess sem þú ert að passa okkur að  þú sért að spila olsen við Sísí ömmu og fá þér kaffi og sígó. Laus við allar áhyggjur og frjáls eins og vindurinn.  Ég veit að þú trúðir á það að endurfæðast. Því trúi ég líka og ég trúi að þú fáir annað tækifæri þar sem lífið leikur við þig eins og þú ein átt skilið ljósið mitt. Ég passa ömmu og Hrefnu og strákana og veit að þú ert með mér í hverju skrefi.

Elska þig, dýrka og dái fallega drottningin mín.

Þín einka prinsessa,

Kristín Lea Sigríðardóttir.