Steinunn Áskelsdóttir fæddist 27. júlí 1948 í Reykjavík. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 29. ágúst 2019 eftir stutta baráttu við krabbamein. Foreldrar hennar voru Áskell Einarsson, f. 3. júlí 1923, d. 25. september 2005, og Þórný Þorkelsdóttir, f. 4. september 1920, d. 31. mars 1961.
Steinunn ólst upp í Vogunum í Reykjavík fyrstu 10 ár ævi sinnar. Fjölskyldan fluttist til Húsvíkur 1958 þegar Áskell var ráðinn bæjarstjóri þar.
Alsystir Steinunnar er Ása Birna Áskelsdóttir, f. 1952. Hálfsystkini Steinunnar eru Guðrún, Ólafía og Einar Áskelsbörn. Stjúpbróðir er Valdemar Steinar Guðjónsson.
Hinn 21. júní 1969 giftist Steinunn Birgi Steingrímssyni, f. 31. október 1945, syni hjónanna Steingríms Birgissonar og Karítasar Hermannsdóttur. Börn þeirra eru Steingrímur Birgisson, f. 1969, kvæntur Ólöfu Kristinsdóttur. Sonur Ólafar og fóstursonur Steingríms er Snorri Viðarsson. Þórný Birgisdóttir, f. 1973, gift Ólafi Gunnarssyni. Synir þeirra eru Björn Steinar og Birgir Örn. Áskell Geir Birgisson, f. 1981, unnusta Elva Rún Jónsdóttir og eiga þau saman Rúnar Frey. Fyrir á Elva Rún soninn Sæþór Má Ólafsson.
Steinunn vann mestallan sinn starfsferil sem lífeindafræðingur á Sjúkrahúsinu á Húsavík, sem nú er Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.
Útförin fór fram frá Húsavíkurkirkju 14. september 2019.

Fallin er frá of snemma mín bezta vinkona Steinunn Áskelsdóttir, hún háði barráttu við þann ægilega sjúkdóm krabbamein. Það varð mér mikill harmur að hann skildi sigra og nú er komið að kveðju.
Steinunn er gift frænda mínum og vini Birgi Steingrímssyni. Í raun kynntumst við tvisvar. Sem smádrengur dvaldi ég á Húsavík með móður minni, Gunnu Dóru Hermanns. og systrum hennar, þeim Kæju og Þuríði sem báðar eru fallnar frá. Alltaf og hvar sem systurnar hittust var mikið fjör. Í minningu drengs þá fylgdi þeim mikill hlátur og gleði. Þrátt fyrir mikinn aldursmun voru þær mjög nánar. Þegar gleðskapur var og spilað á hljóðfæri fengu aldnir sem ungir að vera með enda gengið fallega um gleðinnar dyr á slíkum stundum.

Leiðir okkar Steinunnar og Birgis liggja aftur saman í gegnum Laxá í Aðaldal. Ég var við veiðar í Nesi og hafði ekki hugmynd um hvað ég fara fara útí en ég stökk til og leitaði eftir aðstoð til frænda Bibba og eignaðist mitt uppáhalds veiðifljót. Þá gerði ég mér ekki grein fyrir því að Laxá væri margskipt í veiðisvæði. Síðan hef ég og Jóhannes Sigmarsson, vinur og veiðifélagi, veitt með þeim bræðrum Bibba og Ásgeiri á hverju sumri.  Ég eignaðist einstaklega góða félaga við Laxá.  Það hefur verið mín ánægja og tilhlökkun að hitta þessa deild sem er full af ómetanlegum veiðimönnum og höfðingjum. Ég er þeim endalaust þakklátur fyrir sögur og ráð við þessa á. Sérstaklega vil ég þakka Bibba sem hefur miðlað og gefið mér ró, nánd og skilning við Laxá. Vinskapur minn við Steinunni og Birgi varð það góður að þau fóru að heimsækja mig til Spánar.  Sú dvöl var yndislegt fyrir mig og gaf mér mikið. Þar styrktust okkar kynni, skemmtun, gleði og endalaus hlátur sem og sögustundir. Við Steinunn náðum einstökum vinskap og áttum með okkur svo mikið trúnó eins og sagt er í dag.  Ég treysti henni fyrir öllum mínum hlutum enda var ég ekki við fulla heilsu um tíma. Þar var manneskja hlaðin fegurð sem og ráðum sem reyndust vel. Ekki má gleyma matarástinni sem ég hafði á henni. Þegar hún kynnti mig fyrir Ossobuco var ég ekki mjög áhugasamur og gleymdi nafninu trekk í trekk.  Við fórum saman að versla, á meðan horfðu Bibbi og Evita Peron (hundurinn minn) á fótbolta. Við keyptum í Ossobucco og ég grínaðist með að það tæki alveg hálfan mánuð að elda svona þykk bein. Steinunn fór létt með þetta á einu kvöldi.  Í dag er þetta einn af mínum uppáhalds réttum.

Að lokum einn sönn saga úr Laxá. Aldrei þessu vant var Steinunn mætt til veiða  ásamt Birgir og áttu þau Kistukvísl að vestan. Ég og Jói áttum Miðstykkið. Þau ákveða að fara upp í Háfholu í bríararíi þar sem það var rólegt. Við höfðum áður rætt Sporðaköstin hans Eggerts og ævintýri þar. Þá hvellur yfir bakka og með hennar glampa í augum, hnefi á lofti og gellur hátt í henni: Nú heiti ég á þig Grani! (Helgi Bjarnason frá Grafabakka), fluga fer í Háfholu og það er allt í keng með það sama og stóð rúmar 30 mínútur, svo byrjar trampið niður allt. Við stöndum á austurbakkanum og sjáum fiskinn. Þetta var þykkur moli nærri 30 pundum, sporðblaðkan maður minn... Þessi höfðingi fór af, og sagan segir að það hafi verið af því að Bibbi tók við stönginni. Í hvert skipti þegar ég yfirgaf Laxá var alltaf kjöt í karrý hjá frú Steinunni og borðaði ég mig svo saddan að það var ferlegt, en dásamlegt.

Ég þakka þér samferðina mín kæra vinkona og mun ég ávallt elska þinn vinskap og skal reyna að hætta að gráta og gleðjast þinni fegurð sem okkar vinskap.

Við skulum vera eins og Steinunn dugleg að knúsa hvort annað. Yfirgefið hefur þetta líf stór hetja og miklu stærri en allur Jökuldalur sem henni var afar kær.

Kæra vinkona, Guð fylgi þér og geymi ásamt öllum sem þurfa á styrk í þeirra sorg sem þitt fráfall er. Birgir, Steingrímur, Þórný, Áskell Geir og fjölskyldur, ég votta ykkur mína innilegustu samúð.

Þórir Hlynur Þórisson.