Rósa María Guðbjörnsdóttir fæddist 24. júlí 1946 í Reykjavík. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 1. september 2019.
Foreldrar hennar voru Guðbjörn Sigursteinn Bjarnason, f. 16. júní 1904 í Reykjavík, d. 10. janúar 1953, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, og kona hans, Þóra Jenný Valdimarsdóttir, f. 14. janúar 1908 í Reykjavík, d. 25. mars 1979. Systkini Rósu voru Hjálmar, f. 13. nóvember 1932, d. 26. september 2005, bifreiðastjóri; Bjarni, f. 5. desember 1933, d. 4. október 2000, vélstjóri; og Aðalsteinn, f. 15. janúar 1937, d. 20. mars 1997, tæknifræðingur.
Rósa María giftist 27. desember 1964 Jóakim Snæbjörnssyni, f. 3. apríl 1931 í Reykjavík, d. 11. maí 2007, þau skildu. Dætur þeirra eru: 1) Sigríður, f. 1. nóvember 1964, gift Kjartani Viðari Sigurjónssyni, sonur þeirra er Árni Þór, f. 18. ágúst 1993, sambýliskona hans er Árný Margrét, f. 23. september 1994, sonur þeirra er Askur Andri, f. 6. ágúst 2017. 2) Jenný, f. 5. september 1968, börn hennar eru: Arnar Ingi Þórsson, f. 16. apríl 1994, sambýliskona hans er Rakel Rún Magnúsdóttir, f. 6. maí 1994; Ellert Andri Þórsson, f. 8. júlí 1996; Rósa Maren Vinson, f. 4. júní 2013.
Rósa María giftist 5. desember 1981 eftirlifandi eiginmanni sínum, Auðuni Unnsteini Jónssyni vinnuvélastjóra, f. 1. október 1946 í Litlu-Hlíð í Víðidal. Dóttir þeirra er Þórdís Dögg, f. 15. desember 1976.
Rósa María ólst upp á Sólvallagötu 37 og gekk í Melaskólann í Reykjavík, hún nam um tíma smurbrauðsgerð í Danmörku. Rósa María vann lengi við verslunarstörf í Vörumarkaðinum í Ármúla, við ýmiss konar veitingastörf og á skrifstofu símaskrár hjá Póst- og símamálastofnun þar til hún hætti störfum vegna veikinda.
Útför Rósu Maríu fór fram frá Fossvogskapellu 11. september 2019 í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Okkur systrum langar að minnast móður okkur sem lést sunnudaginn 1.
september síðastliðinn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Mamma
var sterk kona sem ól okkur upp ein í mörg ár áður en hún giftist aftur. Þó
svo að oft væri erfitt í búi hjá einstæðri móður þá fundum við aldrei að
við lifðum við skort. Mamma var ein af þessum fyrirmyndar húsmæðrum sem
alltaf vann úti en bjó okkur falleg heimili hvar svo sem við bjuggum en við
fluttum oft þegar við vorum krakkar, má segja að hún hafi verið með okkur í
húsnæðishrakningum ansi lengi. Þegar mamma leitaði eitt sinn til
félagsmálayfirvalda til að finna varanlegt húsnæði þá var henni sagt að þar
væri ekki hjálp að fá þar sem hún væri einfaldlega of dugleg. Þar var mömmu
vel lýst. Mamma ólst upp hjá ömmu á Sólvallagötu 37, húsinu sem amma og afi
höfðu byggt saman. Mamma var ekki nema sex ára þegar hún missti pabba sinn.
Eftir það ól amma upp sín börn ein og bjuggu mamma og eldri bræður hennar
þrír seinna í húsinu með sínar fjölskyldur. Enn í dag lítum við systur á
húsið á Sólvallagötu sem ættaróðalið, þó það sé löngu komið í annarra manna
hendur. Við Sirrý og Jenný bjuggum með mömmu þar um tíma, fyrst í
kjallaranum og seinna á efstu hæðinni. Mamma gekk í Melaskólann og fór svo
ung í nám til Danmerkur til að læra smurbrauðsgerð hjá Idu Davidsen. Þó svo
hún hafi ekki lokið náminu þar þá lagði það grunninn að því sem mamma var
vel þekkt fyrir. Hún kunni að galdra fram dýrindis veislur og þau voru ófá
köldu borðin sem hún reiddi fram fyrir fjölskyldumeðlimi í fermingum og
öðrum veislum. Þegar við settumst niður um daginn til að rifja upp með
prestinum ævi mömmu þá var það einmitt maturinn hennar sem kom ansi oft
upp. Mamma hreinlega elskaði að dunda sér í eldhúsinu og blaða í
uppskriftum. Við munum vel þegar við aðstoðuðum hana við veislurnar sem
krakkar við að skera niður grænmeti, setja á snittur eða hræra í sósunni.
Bestu stundirnar hennar mömmu voru þegar hún bauð fjölskyldunni í mat og
var ánægðust þegar allir nánast borðuðu yfir sig af kræsingunum. Á hverju
ári í mörg ár bauð hún bræðrum sínum og þeirra fjölskyldum í mat á annan í
jólum. Þar galdraði hún fram hlaðborð úr þeim afgöngum sem til voru eftir
hátíðarnar. Þó svo mamma hafi lengi unnið í verslun langt fram á kvöld í
desember var allt gert frá grunni fyrir jólin. Það voru bakaðar smákökur og
kryddbrauð, soðið rauðkál og rauðbeður, gerðir síldarréttir, paté og fleira
góðgæti sem síðan var borið fram yfir jól og í veislunni á annan í jólum.
Þetta gerði hún ekki af skyldurækni heldur vegna þess að hún hafði
einfaldlega gaman að því. Síðustu árin voru það svo sunnudagssteikurnar sem
hún reiddi fram fyrir okkur systur og okkar börn. Þegar hún var orðin slæm
til heilsunnar þá mýttum við systur, og elduðum og lögðum á borð, en þá
alltaf með verkstjórn frá mömmu sem var alltaf með allt á hreinu í
eldhúsinu í Tjaldhólunum á Selfossi. Matarstússið hennar mömmu varð til
þess að sú yngsta af okkur, Þórdís, skellti sér í matreiðslunám í
Danmörku, við hinar erum síðan alveg ágætis kokkar þó við segjum sjálfar
frá. Það má segja að við höfum alla tíð verið lærlingarnir hennar mömmu,
hún var okkur innblástur í svo mörgu, hvort sem það var að elda mat, sauma
eða prjóna. Þegar við vorum litlar stelpur saumaði mamma alltaf á okkur
jólafötin oft með aðstoð ömmu sem vann lengi sem saumakona. Mamma prjónaði
líka mikið og ekki bara á okkur stelpurnar heldur líka á allar dúkkurnar
okkar sem fengu sín föt, bæði saumuð og prjónuð. Svo var prjónað á
barnabörnin, Árna Þór, Arnar Inga, Ellert Andra og á Rósu Maren sem í dag
er sex ára fékk líka sitt, þó heilsan hjá mömmu væri þá farin að segja til
sín. Mamma var stolt af barnabörnunum sínum og passaði í ófá skiptin þegar
strákarnir voru litlir, en um það leyti sem þeir fæðast var hún hætt að
vinna og þegar heilsan leyfði þá aðstoðaði hún okkur með pössun og naut
þess að fá þá í heimsókn. Ef mamma kom heim til okkar að passa, þá reyndi
maður að hafa allt í röð og reglu, því annars vissum við að hún myndi ekki
bara passa heldur líka óbeðin brjóta saman þvottinn og skúra jafnvel yfir
gólfin ef henni fannst það þurfa. Þannig var mamma, alltaf tilbúin að veita
aðstoð hvar sem hennar var þörf og stundum þurftum við að hafa okkur við að
benda henni á að fara sér ekki of hratt. Hún var hreinlega alltaf að á
meðan hún hafði heilsu til. Í mörg ár vann mamma í Vörumarkaðnum í Ármúla
lengi á kassa og svo var hún fengin til að elda matinn þegar veitingahorn
var sett þar upp og boðið upp á heitan mat í hádeginu. Við báðar sem eldri
erum unnum líka í Vörumarkaðnum þegar við höfðum aldur til. Seinna komumst
við að því að mikið að starfsfólkinu hafði ekki hugmynd hvað við hétum, við
vorum einfaldlega dæturnar hennar Rósu. Mamma vann á skrifstofu símaskrár
hjá Póst og símamálastofnun þegar hún varð að hætta að vinna vegna veikinda
aðeins rétt tæplega fimmtug, hún hafði áður lengi glímt við veikindi öðru
hvoru sem læknunum reyndist erfitt að greina. Mömmu létti þegar greiningin
loks kom, hún var með Lupus eða rauða úlfa, sem hafði verið að hrjá hana
svona lengi. Sá sjúkdómur reyndist henni erfiður, en á milli veikinda naut
hún lífsins eins og hún gat, ferðaðist víða, keyrði um alla Evrópu og fór í
sólina þar sem henni leið vel í hitanum og til Danmerkur til Þórdísar.
Draumurinn hennar um að eignast hús á Spáni varð síðan að veruleika loksins
í nokkur ár þar sem hún naut þess að vera í sólinni og búa sér og Auðunn
fallegt heimili. Veikindin hennar ágerðust síðan og úr varð að hún flutti
aftur alfarið heim til Íslands þegar hún veiktist það alvarlega að henni
var ráðlagt að sleppa öllum ferðalögum. Það var henni þungbært. Hún og
Auðunn keyptu sér síðan hús á Selfossi að Tjaldhólum 19. Þangað var farið í
Sunnudagsbíltúrana í mat til mömmu. Hún naut þess að fá okkur, barnabörnin
og síðan langömmubarnið Ask Andra, son Árna Þórs í heimsókn. Það var alltaf
vel tekið á móti hópnum og séð til þess að enginn færi svangur heim.
Elsku mamma, við söknum þín, minning þín og allt það sem þú kenndir okkur
mun lifa með okkur.
Með kveðju,
Sigríður, Jenný og Þórdís Dögg.