Ólöf Elín fæddist á Siglufirði 6. ágúst 1930. Hún lést 11. september 2019.
Foreldrar Ólafar voru hjónin Kristjana Margrét Árnadóttir, f. 22. janúar 1908, d. 1970, og Davíð Guðjónsson húsasmíðameistari, f. 16. september 1902, d. 12. maí 1984. Móðursystir Ólafar var Pála Sigríður Árnadóttir, f. 7. febrúar 1912, d. 7. janúar 1995.
Eiginmaður Ólafar var Egill Skúli Ingibergsson, f. 23. mars 1926, verkfræðingur og síðar borgarstjóri. Börn þeirra eru: 1) Kristjana, f. 27. júní 1955, maki Þórólfur Óskarsson. Börn: Egill Skúli, Elín, maki Guðjón Ágústson, Margrét og Bryndís. 2) Valgerður, f. 30. júní 1956, maki Gunnar Helgi Sigurðsson. Börn: Hildur Pála, maki Guðjón Guðjónsson, Inga Rán, maki Theodór Jónsson, Atli Freyr, maki Lára Hjörleifsdóttir, og Illugi Þór, maki Valgerður Fjóla Einarsdóttir. 3) Inga Margrét, f. 12. desember 1960, maki Ólafur Björnsson. Börn: Ólöf Sif, maki Kristófer Ari Te Mai Haroa, Andri Björn, Ágústa Margrét, maki Guðjón Örn Sigurðsson, og Skúli Geir, maki Bertha María Arnarsdóttir. 4) Davíð, f. 22. janúar 1964, fv. kona var Shannon M. Sears. Börn þeirra Sóley Alexandra og Soffía Elín. Maki er Fanney Dóra Hrafnkelsdóttir og hennar börn eru Ásdís Sigurðardóttir og Ásgeir Sigurðsson. Alls eru barnabarnabörnin orðin 18.
Eftir fæðingu Ólafar lá leiðin til Reykjavíkur í Skerjafjörðinn. Ólöf gekk í skóla þar, fór svo í gagnfræðaskóla og í Húsmæðraskóla. 1952 giftist Ólöf manni sínum Agli Skúla og fluttist til Danmerkur með honum þar sem þau dvöldu meðan hann var í verkfræðinámi. Eftir komuna heim settust þau að í Skerjafirðinum með tvö yngstu börnin. Frá 1960-78 fluttist fjölskyldan reglulega frá Mjólkárvirkjun til Flateyrar og svo til Búrfells- og Sigölduvirkjana og börnunum fjölgaði í fjögur. Enn urðu breytingar 1978 þegar Egill Skúli var ráðinn borgarstjóri Reykjavíkur. Með því kom meira
álag og ábyrgð bæði heima fyrir og opinberlega. Ólöf var alltaf félagslynd og vinföst og vinmörg. Hún vann sjálfboðaliðastörf með Rauða krossinum og Hringnum og vann um skeið í verslun.
Útförin fer fram frá Neskirkju í dag, 23. september 2019, klukkan 15.

Eftir sólríkt sumar er komið haust. Lauf taka að falla af trjám, haustlitir færast yfir, og daginn tekur að stytta. Á einum slíkum  dimmum haustdegi kvaddi tengdamóðir mín Ólöf Elín Davíðsdóttir þetta jarðlíf, en hún lést 11. september síðastliðinn á hjartadeild Landspítalans, eftir stutt en snörp veikindi, á 90 aldursári.

Kynni okkar Ólafar hófust fyrir liðlega 34 árum er ég kynntist dóttur hennar, Ingu Margréti eiginkonu minni, árið 1985. Sveitastrák úr Biskupstungum kveið nokkuð fyrir að hitta þau hjón í fyrsta sinn, en það var ástæðulaust, mér var strax vel tekið á þáverandi heimili þeirra hjóna í Skerjafirðinum, þeirra  Egils Skúla og hennar. Málin æxluðust svo þannig að við Inga hófum fljótlega búskap í þeirra skjóli og leigðum hjá þeim fyrstu árin. Það var góður tími og börnin áttu fljótt athvarf hjá ömmu þegar foreldarnir þurftu að bregða sér frá, eða sinna námi.

Ólöf var fædd 1930 og bjó í Reykjavík mest alla ævi, fyrst í Fáfnisnesi 11 í Skerjafirði þar sem foreldar hennar Davíð Guðjónsson trésmíðameistari, ættaður úr Vestmannaeyjum og Kristjana Árnadóttir frá Hofsósi, bjuggu um áratugaskeið. Þar við Fáfnisnes 8 reistu þau Skúli sér svo hús árið 1960 í samvinnu við foreldra Ólafar, og bjuggu þar um áratuga skeið.

Ólöf var mikil fjölskyldu manneskja, ung kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum sínum Agli Skúla Ingibergssyni verkfræðingi, og saman fóru þau til náms til Danmerkur. Heim kominn 1954 tók að fjölga í fjölskyldunni, og á 10 árum fæddust þeim fjögur börn, Kristjana, Valgerður, Inga Margrét og Davíð. Ólöf sá um heimilið á þessum árum, en Skúli vann þá oft langt að heiman, enda staðarverkfræðingur við margar stórvirkjanir hér á landi um áratugaskeið. Raunar var Ólöf þá einnig oft með honum út á landi, og þurfti þá að sjá um margvísleg störf í kringum uppbyggingu virkjananna, t.d. í Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum, þar sem þau voru með marga menn í vinnu. Þá bjuggu þau mörg sumur á Búrfelli þegar verið var að byggja Búrfellsvirkjun.

Auk barnanna voru foreldrar Ólafar í heimili hjá þeim um árabil og því mikið starf að hugsa um þetta stóra heimili. Seinna tóku við önnur verkefni m.a. að standa við hlið eiginmanns síns er hann var borgarstjóri í Reykjavík árin 1978 til 1982, en því starfi fylgdi nokkur erill og ferðalög er Ólöf sinnti með prýði eins og öllu öðru sem hún tók sér fyrir hendur. Eftir að börnin voru farin að heiman hóf hún verslunarstörf í fataverslunum, síðast í Kringlunni, eða allt þar til hún fór á eftirlaun. Áttu þau störf vel við hana enda mannblendin  smekkmanneskja sem hafði gaman af sölumennsku. Síðustu 25 árin bjuggu þau í endaraðhúsi að Kringlunni 43 í Reykjavík, þar sem þau Skúli undu hag sínum vel, og sinntu vel um fjölskylduna, sem stækkað hefur mikið en afkomendur þeirra eru nú 33. Eru jólaboðin sem þau stóðu fyrir um áratugaskeið sérstaklega eftirminnileg, en þar var Ólöf hrókur alls fagnaðar.

Ólöf hafði gaman af ferðalögum og varð ég þeirra gæfu aðnjótandi að fá að ferðast nokkrum sinnum til útlanda með þeim hjónum og þá oftast með börnum okkar Ingu. Var afar gott að vera með Ólöfu í slíkum ferðum, enda jafnan glatt á hjalla í kringum hana. Einnig ferðuðumst við lítillega innanlands og fórum í einstaka veiðiferðir saman, en Ólöf stundaði stundum laxveiði með Skúla manni sínum  og góðum vinum, einkum Pálínu frænku sinni og Andrési hennar manni í Grímsá í Borgarfirði. Voru það góðar stundir og jafnan stutt í brosið hjá henni, enda var hún lunkinn veiðimaður og hafði gaman að því að skáka öðrum á þessu sviði, sem töldu sig mikla veiðimenn. Fjölskyldan fór einnig saman til veiða í Laxá í Hrútafirði um árabil og naut Ólöf þeirra stunda með börnum og barnabörnum.

Eftir að við Inga fluttum á Selfoss, áttum við jafnan athvarf hjá þeim Ólöfu og Skúla. Kom ég þar iðulega í mat eða kaffi á leið minni í eða úr höfuðborginni, ýmissa erinda, og stundum var gist. Það var alltaf gaman að koma til Ollu, eins og hún var jafnan kölluð af fjölskyldunni, og vel tekið á móti manni með góðum veitingum. Spjallað var um heima og geyma og kom maður aldrei að tómum kofanum hjá henni, hún var víðlesin og fylgdist vel með öllu og öllum, ekki síst fjölskyldunni. Spurði hún jafnan frétta að austan og fylgdist vel með í sveitinni.

Ég þakka Ólöfu fyrir samfylgdina öll þessi ár, fyrir ráðgjöf og stuðning við mig og mína fjölskyldu og fyrir okkar góðu vináttu sem aldrei bar skugga á. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þinn tengdasonur

Ólafur Björnsson.