Erna Særún Vilmundardóttir fæddist 10. janúar 1936 á Ísafirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 14. september 2019.
Foreldrar hennar voru hjónin Vilmundur Guðbrandsson, f. 4. júní 1913 á Grenivík, d. 25 apríl 1981, og Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, f. 1 desember 1917 á Suðureyri við Súgandafjörð, d. 13. desember 1980. Erna Særún átti fjögur alsystkini, þau Kristján, f. 8. desember 1938, Vilmund, f. 12. maí 1941, d. 22. mars 2008, Guðbjörgu, f. 28. september 1947, og Örn Rósmann, f. 4. maí 1951, d. 13. mars 1959. Hálfsystkini Ernu Særúnar samfeðra eru Hulda, f. 26. nóvember 1936, Magnús, f. 22. maí 1938, og Emil, f. 22. maí 1938.
Hinn 25. desember 1954 giftist Erna Særún Björgvini Jónssyni, f. 6. desember 1928, d. 6. desember 2016. Foreldrar hans voru hjónin Jón Einarsson, f. 14. maí 1894 í Kolstaðagerði, Vallahreppi, S-Múlasýslu, d. 18. júlí 1973, og Þórstína Pálsdóttir, f. 5. janúar 1896 á Þiljuvöllum í Berufirði, d. 12. febrúar 1982.
Börn þeirra eru: 1) Smári, f. 13. júlí 1954, í sambúð með Kristínu Arnardóttur, f. 10. maí 1956. Smári á þrjú börn úr fyrri sambúð með Sigríði Kjartansdóttur: Ernu Björgu, f. 3. september 1980, Bjarka, f. 21. mars 1983, og Alidu Ósk, f. 6. apríl 1988. Kristín á þrjú börn úr fyrri sambúð: Örn Elías, f. 4. september 1976, Erlu Sonju, f. 10. desember 1979, og Helgu, f. 17. ágúst 1993, saman eiga þau níu barnabörn. 2) Þorsteinn Örn, f. 7. apríl 1959, giftur Huldu Sigurðardóttur, f. 18. mars 1960, og eiga þau þrjú börn: Ástu Særúnu, f. 17. febrúar 1979, Sigurð Heiðar, f. 2. mars 1988, d. 14. nóvember 2008, Birki, f. 23. október 1989, og tvö barnabörn. 3) Vildís, f. 4. mars 1963, gift Charles Magnússyni, f. 1. maí 1960, og eiga þau þrjá syni: Björgvin Orra, f. 30. maí 1984, Aron Huga, f. 8. apríl 1990, og Arnar Tjörva, f. 2. júní 1994, og eiga þau eitt barnabarn.
Erna flutti fjögurra ára gömul með fjölskyldunni til Neskaupstaðar og bjó þar til 2011 er þau hjón fluttu til Reykjavíkur. Árið 2015 flutti Erna á sjúkradeild á Eir og dvaldi þar til æviloka.
Erna Særún vann við ýmis störf auk þess, sem sjómannskona, að sjá um heimili og barnauppeldið að stórum hluta í fjarveru eiginmanns. Hún vann á barnaheimili, við síldarsöltun, á hóteli en lengst af starfsævinnar vann hún á rannsóknarstofu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.
Útför Ernu Særúnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 23. september 2019, kl. 15.

Ef ég ætti að velja eitt orð til að lýsa mömmu þá kemur orðið manngæska upp í hugann.
Henni var annt um að allir hefðu það sem best, hvort sem það var nánasta fjölskyldan, vinirnir og þeirra börn eða alls ókunnugir sem þurftu á stuðningi meðborgaranna að halda.
Eitt sinn kom sölumaður á Mýrargötuna og fór ein sonardóttirin til dyra. Kynnti hann sig og sagðist vera að selja bækur þá heyrist í þeirri stuttu: þú ert í alveg réttu húsi, því amma kaupir allt.

Mig langar að minnast hennar með nokkrum lýsandi sögubrotum.
Mamma var alla tíð mikil matmanneskja. Við systkinin öll vorum fremur grannholda og voru því gerðar ýmsar tilraunir til að bæta úr því. Frægur er rjóma fitukúrinn, sem fólst í því að drekka  aukalega eitt glas af rjóma á dag. Við þyngdumst ekki um eitt gramm. Þá tók við maltkúrinn, sem var á sömu nótum. Árangurinn hinn sami. Þá fylgdi ávallt lýsi og Sanasól.
Mamma var mikið fyrir að versla og þá ekki síst föt. Þá þótti henni fátt skemmtilegra en að komast á útsölur. Innan um og saman við lenti þá töluvert af góðum flíkum á herðatré inni í skáp jafnvel með verðmiðanum á og biðu fötin þar næstu þyngdarlækkunar til að verða hæf til notkunar.
Tónlist var í miklum metum hjá mömmu, bæði hlustaði hún mikið á tónlist af ýmsu tagi og var í mörg ár í kirkjukórnum í Neskaupstað. Hlustunin var þó oft á þeim nótum að hlusta á sömu plötuna aftur og aftur og t.d má tala um sumarið sem Demis Roussos lá undir nálinni. Þegar Mahalia Jackson hljómaði um húsið var hinsvegar kominn desember. Þessi siður yfirfærðist síðan með í bílinn og reyndi þá mest á barnabörnin. Þegar fjölskyldan var á ferðalagi á Norðurlöndunum og 15 ára unglingurinn fékk að sitja einn að aftursætinu hjá afa og ömmu, kom að því við eitt stoppið að hann vildi komast í bílinn með foreldrunum og tveim yngri bræðrum er sátu fyrir á fleti. Þegar hann var spurður að því hvort ekki væri allt í lagi var svarið: jú, jú ég er bara orðinn leiður á Hallbirni.
Við systkinin fengum fremur frjálslegt uppeldi og ekki mikið um boð og bönn og skammir. Þó giltu að sjálfsögðu þessar almennu uppeldisreglur m.a. um útivistartíma. Eina sumarnóttina, þegar ég var 14 ára, var veðrið eins og best gerist í Neskaupstað, logn og  spegilsléttur sjórinn sem fjallahringurinn speglaðist í. Eftir að hafa verið í fótbolta fram undir miðnætti fórum við félagarnir niður í bæ og síðan aftur upp á fótboltavöll og lékum okkur þar langt inn í nóttina.
Þegar heim kom syrti þó í álinn. Húsið harðlæst, sem tíðkaðist ekki á þeim árum í Neskaupstað. Ég vildi að sjálfsögðu ekki raska nætursvefni mömmu, þannig að það var rifa á herbergisglugganum mínum og ég gat smokrað mér þar inn og lagst til hvílu. Þar fann mamma mig um morguninn og ég held að hún hafi orðið mjög glöð, því engar fékk ég skammirnar og húsið ekki læst í framhaldinu.
Mömmu fannst gaman að keyra. Þegar hún var búin að setja upp grænu leðurhanskana, festa beltið og komin í gírinn, kom stundum lítill Schumacher í hana og hún lenti öfugu megin við hraðamörk. Nokkrum sinnum ræddu laganna verðir við hana en ekki er okkur kunnugt um að hún hafi verið sektuð.
Mamma bókaði mig einu sinni í aukatíma í stærðfræði. Ég mætti að sjálfsögðu og voru umræður fremur skrítnar. Öllum spurningum varðandi hvað ég kynni ekki og ástæðu komu minnar var svarað af minni hálfu: ég veit það ekki, mamma sendi mig. Eftir að hafa reiknað nokkur dæmi var mér tjáð að ég hefði ekkert hér að gera. Þá var svar mitt: ég veit það en mamma sendi mig.
Þetta var eini aukatíminn, sem ég fór í á öllum skólaferlinum.
Þetta var dæmigerð mamma. Hún vildi svo vel.
Hún var með létta lund og góðan húmor og þá ekki síst fyrir sjálfri sér.
Þessir eiginleikar fylgdu henni alla tíð og reyndust henni og öðrum vel ekki síst síðustu árin þegar hún dvaldi á alzheimer-deild á hjúkrunarheimilinu Eir og minnið að mestu horfið. Hún naut eftir sem áður stundarinnar og var mikið hlegið þegar hún var heimsótt, sem var nánast alla daga ársins.
Þá var hún dugleg að labba um og ræða við og knúsa aðra skjólstæðinga á deildinni og reyna að láta öllum líða sem best. Ein konan á deildinni sagði við mig þegar hún frétti af andláti mömmu: hún var svo góð kona og þegar hún sá að mér leið ekki nógu vel kom hún og talaði við mig og lét mig hlæja, við vorum góðar vinkonur. Þannig var mamma.
Elsku mamma. Þín verður sárt saknað en góðar minningar munu veita gleði og framkalla bros.
Þinn sonur,

Smári.