Jónatan Ólafsson fæddist á Hesti við Hestfjörð í Ísafjarðardjúpi 24. janúar 1925. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 15. september 2019.
Hann var níunda barn foreldra sinna þeirra Maríu Rögnvaldsdóttur, 1891-1989, og Hálfdánar Ólafs Hálfdánarsonar, 1891-1973.
Þeim hjónum fæddust þrisvar sinnum einburar og sex sinnum tvíburar, þau eru öll látin, alls 15 börn á 16 árum sem voru: Ósk Ólafsdótir, 1916-2010, Guðrún Ólafsdóttir, 1917-2009, Karitas Ólafsdóttir, 1919-1919, Einar Ólafsson, 1919-2010, Kristín Ólafsdóttir, 1920-2009, Rögnvaldur Ólafsson, 1920-1964, Fjóla Ólafsdóttir, 1922-2018, Lilja Ólafsdóttir, 1922-2009, Jónatan Ólafsson, 1925-2019, Helga Svana Ólafsdóttir, 1926-2018, Hálfdán Ólafsson, 1926-1999, Halldóra Ólafsdóttir, 1928-2013, Haukur Ólafsson, 1928-2014, María Ólafsdóttir, 1932-2018, og Ólafur Daði Ólafsson, 1932-1992.
Auk þess ólst Ármann Leifsson, 1937-2006, að mestu upp hjá þeim hjónum og þau systkinin litu ávallt á hann sem bróður.
Öll börnin komust upp nema Karitas, en hún lést nokkurra mánaða gömul. Þá fóru þrjú barnanna í fóstur til náinna ættmenna þannig að 11 ólust upp hjá foreldrum sínum auk Ármanns.
Jónatan kvæntist Sigrúnu Sigurdríf Halldórsdóttur, f. 9.9. 1930, hinn 1. apríl 1961 og lifir hún mann sinn. Sigrún var þá ekkja með fjóra unga drengi sem ólust upp hjá þeim og þeir eru: Daði Hálfdánarson, ?kvæntur Ráðhildi Stefánsdóttur, þau eiga sjö börn og 11 barnabörn. Rúnar Hálfdánarson, kvæntur Ingu Helgu Björnsdóttur, þau eiga tvo syni. Kristján Hálfdánarson, kvæntur Jóhönnu S. Hansen, þau eiga þrjú börn og sex barnabörn. Brynjar Bragason, kvæntur Önnu Þorbjörgu Ingólfsdóttur, þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn.
Jónatan og Sigrún eignuðust þrjú börn: 1) Sigurdríf, f. 4. des. 1960, maki Björn J. Sighvatz. Börn: 1a) Gunnfríður, f. 1982, m. Ólafur Helgi Þorkelsson og eiga þau dæturnar Natalíu, f. 2009, og Elísabetu, f. 2011. 1b) Jónatan, f. 1991, í sambúð með Tinnu Ósk Agnarsdóttur. 2) Ólafía, f. 16. nóv. 1963, maki Haukur Konráðsson. Þeirra dóttir: 2a) Sigrún María, f. 1995. 3) Rögnvaldur, f. 19. okt. 1966, maki Ásdís Reykdal Jónsdóttir. Þeirra synir: 3a) Heiðar Snær, f. 1998, í sambúð með Melissu Subra. 3b) Breki Blær, f. 2005. Auk þess á Rögnvaldur tvær stjúpdætur frá fyrri sambúð, þær Guðrúnu Lilju, f. 1979, og Kolbrúnu Heiðu, f. 1981.
Þegar Jónatan var finm ára gamall fluttu foreldrar hans með barnahópinn innan úr Djúpi til Bolungarvíkur. Þar gekk hann í barnaskóla og ólst upp við almenn sveitastörf. Sem fulltíða maður vann Jónatan við sjómennsku og ýmis önnur störf. Laust fyrir 1950 fór hann til Reykjavíkur að læra múrverk sem hann svo starfaði við fram til 1965 er þau Sigrún tóku við búskap í Meirihlíð í Bolungarvík. Árið 1971 brugðu þau búi og fluttu til Akureyrar. Þar vann Jónatan við ullarlitun í Gefjun í tæpan áratug, síðan sinnti hann næturvörslu á hótel Varðborg og hjá ÚA.
Í Bolungarvík sinnti Jónatan ýmsum félagsmálum. Hann var einn stofnenda Lions þar og tók þátt í leikuppfærslum kvenfélagsins til margra ára. Á Akureyri söng hann með Karlakór Akureyrar og kór aldraðra, var virkur í starfi félags aldraðra þar sem hann gegndi formennsku um skeið og sótti fundi hjá klúbbnum Karli II. til síðasta dags. Félagsvist og brids stundaði hann og krossgátur voru einnig hans áhugasvið.
Jónatan kvaddi þennan heim í birtingu á kyrrum og fallegum sunnudagsmorgni og verður útför hans gerð frá Glerárkirkju í dag, 24. september 2019, klukkan 13.30.

Jónatan hélt því alla tíð fram með stolti að hann væri eini bróðirinn sem væri heill. Hinir bræðurnir væru allir hálfir enda voru þeir tvíburar á móti einhverjum stelpum sem þeir kölluðu ekta systur sínar.

Þegar Jónatan var hálfs annars árs og 4. tvíburarnir nýfædd þurfti móðir þeirra að leggjast inn á sjúkrahús á Ísafirði og því varð að koma börnunum fyrir tímabundið á meðan. Jónatan var látinn fara með elstu systur sinni, Ósk, sem þá var 10 ára, til móðurbróður þeirra sem var kvæntur föðursystur þeirra og einnig voru móðurforeldrar þeirra á sama bæ. Þar var mannmargt og stór barnahópur. Óvitinn Jónatan þekkti ekkert af þessu skyldfólki sínu og vildi engan þýðast á bænum nema Ósk systur sína og hún varð því alltaf að hafa hann með sér er hún gekk til heyvinnu með öðrum á bænum sem og við önnur verk. Kannski að þarna hafi verið lagður grunnur að sterku systkinasambandi þeirra Óskar og Jónatans. Síðar meir var ávallt haft á orði að engin hinna systranna sem næstar gengu Ósk í að gæta yngri systkinanna réði neitt við Jónatan því hann vildi enga þeirra þýðast nema Ósk. Enda sagði Ósk ítrekað á efri árum að hún ætti meira í Jónatan en hinum systkinunum.

Jónatan var 5 ára gamall þegar fjölskyldan flutti innan úr Djúpi að Tröð í Bolungavík árið 1930 en þá voru öll börnin fædd nema yngstu tvíburarnir, þau María og Ólafur Daði. Þegar kom að því að skíra þau var ekki til spariklæðnaður á allan hópinn og því augljóst að ekki var hægt að fara með allan hópinn til kirkju. Guðrún, sú næstelsta var sett í það að passa þau yngri sem voru skilin eftir heima þ.á.m. Jónatan sem þá var 7 ára. Hann var ekki sáttur og elti kirkjufólkið en Guðrún reyndi að stöðva hann með litlum árangri enda var hann reiður og vildi ekkert með þessa systur sína hafa. Hún náði þó að tefja nógu mikið fyrir honum þannig að í sundur dró með honum og kirkjufólki. Hann varð því að játa sig sigraðan og lagðist grátandi niður rétt við hús gamallar konu sem Hervör hét og sú tók nú við að reyna að hugga drenginn sem vildi ekki snúa heim með Guðrúnu systur sinni. Hervör reyndi að sefa drenginn með því að bera í hann gjafir, forláta blómavasa sem hann vildi í fyrstu ekkert með hafa. Er Jónatan hafði grátið nægju sína tók hann blómavasann og hélt heim með Guðrúnu. Eftir þetta var blómavasinn aldrei kallaður annað en táravasinn hans Tana honum til mikillar gremju. Og ekki bætti úr skák þegar Einar, elsti bróðirinn þá 13 ára, orti vísu á þessa leið:

Fram, fram öll Tanatár,
fram í blómsturvasa
því táravasi hann nefndur er.



Ekki er vitað til að Einar hafi gert fleiri vísur um sína daga.

Eitt af því sem þessi barnahópur ólst við var að móðir þeirra steikti handa þeim hveitikökur í hverri viku og var skammturinn ein slík á hvert barn. Þau fengu skammtað með þessum kökum smjörklípu sem hvert um sig setti í heild á eitt horn kökunnar og átu svo kökuna þurra þar til þetta eina horn var eftir sem þau kölluðu alltaf síðasta bitann. Síðasti bitinn var langbestur.

Smá saman óx hópurinn úr grasi og hjálpaði til við heyskap og umhirðu búfjár eftir aldri og getu hvers og eins. Um leið og Jónatan hafði aldur og þroska til fór hann að vinna fyrir sér eins og alsiða var á þeim tíma. Hann stundaði m.a. sjómennsku og laust fyrir 1950 fór hann 2 vetur til Reykjavíkur að læra múrverk sem hann vann síðan við fram á miðjan 7. áratuginn. Hann tók bílpróf og keypti sér Willys-jeppa. Eftir það átti Jónatan alltaf bíl og keyrði fram yfir nírætt. Honum fannst erfitt að þurfa að hætta akstri.

Sem ungur maður var hann virkur í félagslífi Bolungavíkur. Hann lék gjarnan stórar rullur í leikritsuppfærslum kvenfélagsins og um tíma var sagt að hann væri í kvenfélaginu auk Bjarna í Tröð sem oftar en ekki leikstýrði uppfærslum fyrir kvenfélagið. Þá var Jónatan einn af stofnendum Lions klúbbsins sem starfræktur var í Bolungavík og sinnti margs kyns góðgerðarmálum. Brids spilamennska og félagsvist hafa alla tíð fangað huga hans.

Jónatan var kominn yfir þrítugt þegar hann festi sér konu, ekkju með 4 unga drengi, þá Daða, Rúnar, Kristján og Brynjar. Konan heitir Sigrún Sigurdríf Halldórsdóttir. Fljótlega fæddist þeim fyrsta barnið, Sigurdríf, f. 1960, sem var skírð um leið og þau giftu sig þ. 1. apríl 1961. Þau settu upp sitt fyrsta heimili að Völusteinsstræti 17 í Bolungavík. Það hljóta að hafa verið mikil viðbrigði fyrir Jónatan að fara úr því að vera einhleypur maður í það að vera kvæntur maður með 5 börn á framfæri en stjúpsynirnir 4 voru á aldrinum 5 10 ára þegar Jónatan og Sigrún voru að draga sig saman. Á Völusteinsstrætinu bætist undirrituð í hópinn haustið 1963. Vorið 1965 færa þau sig um set og flytja fram í dal, að Meirihlíð, þar sem við tekur blandað fjár- og kúabú í stað múrverks. Þá var búið að ferma 2 elstu drengina. Annað haustið í Meirihlíð fæðist yngsta barn þeirra hjóna, Rögnvaldur f. 1966. Meirihlíðarárin voru um margt gefandi og kynnin af dýrunum ógleymanleg. En þessi ár voru líka erfið. Fjölskyldan stór og heimilið þar af leiðandi þungt og vinnan var bæði mikil og erfið. Þar kom að heilsubrestur sagði til sín. Sigrún var bakveik frá ungaldri og Jónatan var orðinn magaveikur. Þau urðu að bregða búi. Fyrir valinu varð að fara til Akureyrar þar sem Sigrún hafði gengið í skóla 2 vetur sem unglingur og verið þá á heimili móðursystur sinnar sem þegar þarna var komið sögu fallin frá en uppkomin dóttir hennar var búsett á Akureyri sem og elsta systir Sigrúnar og hennar fjölskylda. Ein af systrum Jónatans var hins vegar bóndakona í Skagafirði og Sigrún átti bróður búsettan á Sauðárkróki. Til Akureyrar fór fjölskyldan sumarið 1971.

Fyrstu 4 árin á Akureyri bjó fjölskyldan í gömlu húsi í innbænum. Nú fór heimilið að léttast og strákarnir 4 að týnast að heiman. Jónatan fékk vinnu í ullarlituninni á Gefjun og vann oft langan vinnudag fyrstu árin á Akureyri enda héldu magavandamálin áfram allar götur meðan hann vann á Gefjun. Heimþrá risti djúpt fyrstu árin fyrir norðan og það var ekki fyrr en einn af stjúpsonum Jónatans fékk hann til að ganga til liðs við karlakór Akureyrar að vinabönd tóku að myndast við vandalausa. Þá var fjölskyldan komin í nýtt raðhús úti í Glerárþorpi. Eftir tæpan áratug á Akureyri hóf Jónatan störf sem næturvörður á hótel Varðborg og þá loks fór hann að verða mun betri í maga þó aldrei hafi hann alveg losnað undan þeirri ánauð. Um tíma var hann næturvörður hjá ÚA en flutti sig svo aftur yfir á hótel Varðborg þar sem hann kláraði sinn vinnuferil auk þess sem hann bar út moggann í mörg ár. Fljótlega eftir að fjölskyldan flutti út í Glerárþorp fór Sigrún einnig að vinna utan heimilis.

Haustið 1983 fluttu þau úr raðhúsinu inn í Oddeyrargötu þar sem þau bjuggu til 1992 og var yngsti sonurinn, Rögnvaldur, sá eini af barnahópnum sem bjó eitthvað hjá þeim þar. Síðan eru þau í 4 ár uppi í Þórunnarstræti og fara loks í Lindasíðu, í blokk sem eingöngu er ætluð 60 ára og eldri.

Allar götur frá því að flutt var til Akureyrar hafa Jónatan og Sigrún verið dugleg að ferðast innanlands í öllum sínum fríum. Fyrst með börnin sín 3 sem enn voru í foreldrahúsum uns þau voru bara orðin 2 ein svo lengi sem heilsan leyfði.

Jónatan gekk til liðs við Félag aldraðra á Akureyri um leið og tilskildum aldri var náð og hellti sér út í starfið þar af lífi og sál og gegndi um tíma formennsku. Hann var virkur félagi í klúbbnum Karli II. til hins síðasta. Einnig söng hann í nokkur ár með kór aldraðra á Akureyri. Sigrún fylgdi manni sínum eftir. Eftir að launaðri vinnu lauk fór einnig að gefast meiri tími til að stunda brids og félagsvist að ógleymdum krossgátum. Til margra ára sendi hann inn lausnir á verðlaunakrossgátum en aldrei í eigin nafni, heldur notaði hann nöfn barnabarna sem oft fengu krossgátuverðlaun og viðurkenningar. Um leið og börnin voru komin með nöfn sendi hann inn lausnir á nöfnum þeirra og ég held að sá yngsti hafi verið 2ja mánaða gamall þegar hann fékk sín fyrstu krossgátuverðlaun. Við fermingu voru þau svo tekin út af listanum.

Jónatan labbaði aldrei hægt. Hann fór alltaf jafn hratt og fætur gátu borið hann og ekki var alltaf auðvelt að halda í við hann. Í útilegum með fjölskyldunni á fyrri tíð fór hann alltaf eldsnemma á fætur og var búinn að ganga á eitthvert nærliggjandi fjall þegar aðrir tjaldbúar voru að skríða úr svefnpokunum.

Jónatan kunni ekki að læðast. Bílhurðum sem og öðrum hurðum var gjarna skellt aftur og hann var snöggur að því og varð pirraður ef fundið var að þessu við hann. Vissulega þurfti hann að skella hurðum á gömlu jeppunum sínum til að loka og kannski var bara betra að halda í gamla venju sem alltaf hafði virkað.

Það var farið að birta af degi þegar Jónatan kvaddi þennan heim en enn þá var kyrrt. Hann var vanur að drífa sig snemma út í daginn og var ekkert að breyta út af þeirri venju sinn hinsta morgun. Það vantaði bara að hurðarskellurinn heyrðist.


Ólafía Jónatansdóttir.

Elsku afi minn.
Ég veit ekki almennilega hvernig ég á að vera. Inni í mér bærast svo margar ólíkar tilfinningar. Brottför þín var alls ekki tímabær. Þú sem ert svo ungur enn! Og yngdist með hverju árinu! Hvað ætli við höfum grínast oft með það að við værum alveg að fara að mætast? Við ætluðum að halda upp á 100 ára afmælið þitt, var það ekki? Hvern hefði grunað að eftir síðasta samtalið okkar, þú hress og kátur að vanda að segja mér frá ævintýrum daganna, að aðeins örfáum dögum seinna yrðir þú farinn? Ég bjóst við að fá að hafa þig hjá okkur þónokkuð lengur. Ég sakna þín svo mikið. Ég sakna þess að hafa þig ekki í Lindarsíðunni, hjá ömmu. Ég sakna þess að geta ekki lengur farið með þér út í búð, það var svo gaman, alltaf eftir sömu rútínunni. Ég sakna þess að geta ekki spjallað við þig um daginn og veginn, rifjað upp sögur frá því í gamla daga, af böllunum og samferðafólkinu, hvernig lífið var hjá ykkur ömmu, dægurþrasið í fréttamiðlunum, um sjúkraþjálfunina og leikfimina sem þú sóttir allt fram undir það síðasta. Það varstu mjög ánægður með og sagðir alltaf að þetta væri alveg þrælsniðugt. Ég sakna þess að geta ekki farið oftar með þér á kaffihús, spariferð á Bautann eða í matarboðin í Akurgerðinu. Hvernig verður nú skötuveislan með engum afa? Mig svíður að hafa ekki getað hitt þig eins oft og ég hefði viljað síðustu ár. Elsku afi minn. Tómleikinn og söknuðurinn er æpandi. En ég er líka þakklát. Ég er svo þakklát fyrir að þú varst afi minn. Skrýtni og skemmtilegi afi minn, klappandi Villu þinni á kollinn, hallandi undir flatt, hlæjandi. Ég er svo þakklát fyrir allar stundirnar okkar saman og minningarnar. Græna bjallan þín, vá hvað mér fannst hún flott. hunangs-cheerios með sykri, hráu eggin, grænar baunir með fiskinum, grasið eins og þú kallaðir grænmetið. Mér fannst matarvenjurnar hans skrýtna og skemmtilega afa oft skrýtnar og skemmtilegar. Mér er það ógleymanlegt þegar þú vannst leiksigur á sviði með systkinum þínum á einu ættarmótinu, hugsa, hugsa, hugsa, hugsa syngjandi Kasper og Jesper og Jónatan með ykkar lagi, ég hlæ alltaf við endurminninguna. Enda lékstu í mörgum leikritum, ásamt ömmu, áður en börnin komu til. Þegar ég var að æfa mig á píanóið og þú komst alltaf og söngst hástöfum með þegar ég spilaði lagið Dagný hans Sigfúsar Halldórssonar. Þú varst svo mikill söngmaður eins og þú áttir kyn til. Eða þegar við böksuðumst við að rifja upp textann við Fjallgönguna, Urð og grjót upp í mót ... Þú varst ljóðsins maður og vildir hafa stuðla og höfuðstafi og hefðbundið form, allt annað var ekki kveðskapur að þínu mati! Frá 14 ára aldri átti ég alltaf athvarf hjá ykkur ömmu, þegar ég var í sveitinni og seinna þegar ég fór í framhaldsskóla. Fastur liður var að koma í mat einu sinni í viku til ykkar ömmu ásamt systkinum mínum. Það voru alltaf gleðistundir. Ég hafði það fyrir sið eftir skóla að koma við hjá ykkur á Bautanum þar sem þið voruð fastagestir, áttuð ykkar föstu sæti og fenguð alltaf helling af auka súkkulaði með kaffinu, sem ég nýtti mér óspart og laumaði upp í mig þó ekki drykki ég kaffið. Þú sagðir mér alltaf að taka með mér nokkra mola, þekktir þinn súkkulaðigrís. Ófá skiptin kom ég við hjá þér í vinnunni þegar þú varst að vinna á hótelinu og sat gjarnan hjá þér á bakvið að spjalla. Ég man eftir þér berandi út Moggann á fullu spani, þú varst alltaf svo duglegur að ganga út um allt alla tíð. Ég man líka eftir bókastöflunum sem þú sást um að keyra út. Þú gafst mér, bókaorminum, allar Ísfólksbækurnar og margar fleiri góðar kiljur. Við deildum áhuganum á krossgátugerð en þar varst þú mér fremri eins og í mörgu. Þú kenndir mér þá reglu að maður ætti alltaf að fara svangur í veislu, því eini tilgangurinn með veislum væri að éta! Svo hlóstu prakkaralegur á svip. Ég fór stundum með ykkur ömmu í spilavistina á Bjargi, þú spilaðir en við amma aðstoðuðum við kaffið. Þú varst svo virkur í félagsstarfinu, félagslyndur, alltaf að. Með fasta áskrift í lottóinu og happdrættinu, að eilífu bjartsýnn á stóra vinninginn sem alltaf var á næsta leiti. Svo hlógum við. Afi minn, þú varst sjálfur stóri vinningurinn. Ég gisti oft hjá ykkur ömmu og eitt sinn bjó ég hjá ykkur stuttan tíma. Þá varð nú eldamennskan okkar fræg að endemum, manstu afi? Átti ekki annars að sjóða kjötið jafn lengi og fiskinn? Og amma sat bara og hristi hausinn yfir ruglinu í okkur, brosandi út í annað. Við alltaf eitthvað að bulla og amma glottandi yfir ruglinu í okkur. Það var gaman hjá okkur. Minningabrotin eru endalaus. Elsku afi, þú ert fyrirmynd okkar hinna í því að vera glaður og hamingjusamur, jákvæður og tilbúinn í alla hluti, orkumikill og duglegur, sáttur við sitt og ekkert vesen. Þú kvaddir með þínum hætti, snöggur að þessu, sofnaðir í stólnum þínum góða. Ég sakna þín óendanlega mikið. Ég reyni að hugga sjálfa mig með því að nú ert þú búinn að hitta öll systkini þín á ný, gengið sameinað hjá Maju langömmu og langafa. Bjössi frændi, Stefán afi, Olla amma, Gunna á Geirastöðum og allir hinir hafa eflaust tekið á móti þér með opinn faðminn. Nú hefst fjörið fyrst afi er mættur á svæðið. Skemmtilegi og góði afi. Ég skal passa ömmu vel, ásamt okkur öllum hinum, ég lofa því. Elsku afi, hvíldu í friði, saddur lífdaga, þú hefur svo sannarlega skilað þínu.
Þitt stelpuskott, villan þín,

Vilborg.