Haraldur Reynisson fæddist 1. desember 1966 í Reykjavík. Hann lést 15. september 2019.
Foreldrar hans eru hjónin Reynir Haraldsson, f. 3. júní 1942, og Jóna Gunnlaugsdóttir, f. 9. janúar 1935. Systkini Haraldar eru Hjördís, f. 6. febrúar 1960, Linda Björk, f. 19. nóvember 1961, gift Brynjari Björnssyni, og Gunnlaugur, f. 1. desember 1966, giftur Erlu Björk Hauksdóttur.
Hinn 31. ágúst 1991 giftist Haraldur eftirlifandi eiginkonu sinni Steinunni Margréti Sigurbjörnsdóttur, f. 28. nóvember 1966. Foreldrar hennar eru hjónin Sigurbjörn Sigurðsson, f. 30. júní 1941, og Melkorka Benediktsdóttir, f. 9. júlí 1945. Systkini Steinunnar eru Sigurborg Hrönn, f. 15. apríl 1970, gift Sveini Sigurðssyni og Sigurður, f. 29. maí 1976.
Synir þeirra eru Steinar, f. 19. febrúar 1994, í sambúð með Írisi Einarsdóttur, Reynir, f. 22. júlí 1995, kærasta hans er Alda Þyri Þórarinsdóttir, og Sölvi, f. 11. desember 2005.
Halli ólst upp í Breiðholtinu og gekk í Breiðholtsskóla alla sína grunnskólagöngu. Hann reyndi fyrir sér við ýmis störf og nám að grunnskólanámi loknu. Má þar m.a. nefna grunnnám í trésmíði, nám og störf við framreiðslu og fleira.
Frá árinu 1991 starfaði Halli í nokkur ár nær eingöngu við tónlist. Hann var afar afkastamikill tónlistarmaður, gaf m.a. út níu sólóplötur og kom sú fyrsta út árið 1993. Hann fór í fjölmargar tónleikaferðir og tók tvisvar þátt í undankeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva. Í fyrra skiptið árið 2011 og aftur árið 2013.
Halli starfaði við gítarkennslu um tíma og árið 2008 hóf hann að kenna tónmennt í Ölduselsskóla. Eftir að hafa kynnst kennarastarfinu í Ölduselsskóla hóf Halli nám í Háskóla Íslands og útskrifaðist með B.Ed-gráðu í grunnskólakennslu frá HÍ árið 2012 og lauk meistaragráðu og hlaut kennsluréttindi árið 2015. Halli starfaði í Ölduselsskóla til dánardags.
Halli og Steina hófu búskap árið 1988 á Rauðarárstíg 7 og árið 1991 festu þau kaup á sinni fyrstu íbúð í Breiðholtinu. Árið 1998 fluttu þau til Danmerkur og bjuggu þar í 4 ár. Frá árinu 2002, þegar þau fluttu aftur til Íslands, hafa þau búið í Seljahverfi.
Útför Haraldar fer fram frá Seljakirkju í dag, 27. september 2019, klukkan 15.
Ég gleymi aldrei þegar við hittumst fyrst Halli. Það var á Rauðarárstíg 7, ég var að fara að hitta nýja kærastann hennar Steinu Möggu systur. Ég gekk upp stigann en þú varst á leið niður. Þú heilsaðir mér vingjarnlega en hélst svo áfram. Ég hélt áfram upp á næstu hæð og þar mætti ég þér aftur og aftur kastaðir þú á mig vinalegri kveðju. Ég stóð ringlaður eftir, en áttaði mig síðar á því að þetta var bara hann Gulli bróðir þinn sem var á sömu leið og þú að hjálpa þér að bera upp dót.
Má ég nokkuð þvo bílinn þinn? Ætli þetta hafi ekki verið með fyrstu samtölum okkar heima á Vígholtsstöðum hérna um árið þegar við hittumst fyrst þar. Það var auðsótt mál að fá að þvo bílinn þinn. En þú vissir fljótlega eins og allir að aðalástæðan var kannski ekki bara áhugi á bílaþrifum, heldur áhugi á að fá að keyra. Ég lagði þennan þvott á mig til að fá að keyra bílinn þinn af bílastæðinu við húsið heima og að fjárhúsunum og til baka eftir þvott. Og ekki man ég hversu oft ég þvoði bílinn þinn en það var mjög oft og mér þótti vænt um það og mér fór að þykja vænt um nýja kærastann hennar Steinu systur og hélst sú væntumþykja alla tíð.
Þú tókst mér svo vel frá fyrstu kynnum Halli minn og vinátta okkar hefur verið traust og trú alla tíð og fundir okkar verið margir þar sem við deildum daglegum raunum okkar, jákvæðum sem neikvæðum, gömlum sem nýjum. Við héldum trúnað hvor við annan og í seinni tíð sagðir þú við mig að ég væri eins og bróðir þinn. Nú síðast sagðir þú það við mig þegar við áttum eitt af þessum samtölum okkar í fallega sumarhúsinu ykkar Steinu systur fyrir vestan, helgina sem þú féllst frá. Og nú er þessi síðasti fundur okkar mér svo ólýsanlega kær. Við kvöddumst svo innilega og sögðum hug okkar hvor til annars. Það var gott.
Þú varst svo einstakur maður Halli og þú átt þátt í svo mörgum fallegum púslum í mínu lífi og ég get nefnt svo margt. Ég á svo yndislega minningu þegar þú varst að taka upp fyrsta diskinn þinn, Undir hömrunum háu. Þú lofaðir mér að vera með þér og fylgjast með öllu ferlinu. Vera með þegar lögin voru tekin upp í stúdíóinu. Þegar þú fórst með Einari Óla frænda þínum upp í Borgarfjörð að taka myndina framan á diskinn. Þú varst vinur minn og bróðir, og þannig hefur það alltaf verið. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið húsaskjól hjá þér og Steinu í Maríubakka og Jörfabakka þegar ég var í framhaldsskóla. Eftir að ég fékk bílpróf treystir þú mér fyrir því að keyra þig á þá staði sem þú fórst að spila á og ég var í miðasölunni. Þú brostir og talaðir oft um það hvað það væri fínt að hafa mig í miðasölunni því þá fengir þú peningana slétta og rétt flokkaða.
Ég á svo margar minningar með þér Halli sem ekki er hægt að skrifa um allar hér. Við töluðum oft um söguna þegar við vorum á leiðinni vestur einn veturinn og ég gekk á undan í blindbyl til að finna stikurnar og við fengum gistingu á sveitabæ. Og það þurfti endilega að vera eini sveitabærinn þar sem ekki var neitt sjónvarp. En við spiluðum og töluðum fram í nóttina og komumst í sveitina okkar daginn eftir.
Við fórum stundum saman að veiða. Það var alltof sjaldan. Takk fyrir alla hjálpsemina þegar ég þurfti einhvern til að hjálpa mér við að leggja parket, flísar eða eitthvað í þá áttina. Og síðast en ekki síst langar mig að þakka þér sértaklega fyrir ástina sem þú sýndir strákunum mínum alla tíð. Hvað við erum þakklátir fyrir bátsferðirnar og fyrir örlætið þitt varðandi fjórhjólin þín. Þau hafa veitt okkur mikla gleði í gegnum árin.
Helgina 13.-15. september síðastliðinn fór ég vestur með strákana mína eins og svo oft áður. Þú fórst líka vestur. Þú varst að fara að hjálpa Jóa og fjölskyldu í Gröf við að smala. Samband ykkar Jóa og fjölskyldu var einstakt og fallegt og þú varst að koma vestur til þess að hjálpa þeim við að smala fénu heim. Ég fékk mér göngutúr til þín þessa helgi og við spjölluðum saman vel og lengi eins og við gerðum svo oft í sveitinni þegar við hittumst.
Þegar ég skrifa þetta er ég í raun ekki enn búinn að átta mig á því að þú sért farinn frá okkur Halli minn, en minningarnar um þig eru fallegar og þær hafa sko verið sagðar síðustu daga og munu verða sagðar um ókomna daga og ár og tónlistin þín og textar munu hljóma áfram. Takk fyrir að hafa verið svona góður við fólkið þitt, strákana mína og foreldra mína alla tíð.
Ást og friður.
Sigurður mágur.