Sigrún Einarsdóttir fæddist á Bárðarstöðum í Loðmundarfirði 8. nóvember 1922. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 25. september 2019.
Foreldrar hennar voru Einar Sölvason (1889-1965) og Þórey Einarsdóttir (1887-1953) og bjuggu þau lengst af á Klyppstað í Loðmundarfirði. Systkini Sigrúnar voru Sigurlilja Ingibjörg (1912-1988), Friðberg (1913-1986), Marteinn Baldur (1916- 1974), Aðalheiður (1919-2005) og Hólmfríður (1924-1983).
Sigrún giftist 16. júní 1945 Halldóri Sigurðssyni, f. 24. júní 1923, d. 28. maí 1997, frá Bæjum á Snæfjallaströnd. Þau skildu. Foreldrar hans voru Sigurður Ólafsson (1882- 1959) og María Rebekka Ólafsdóttir (1880-1970). Börn Sigrúnar og Halldórs eru: 1) Einar Þór, f. 9. janúar 1945, maki Gerður Guðrún Aradóttir, f. 19. júní 1945. Börn þeirra eru: a) Bjarghildur Margrét, f. júní 1963, d. 6. júlí 1997. Maki Sigurður Ormar Sigurðsson. Þeirra börn eru Davíð Þór, maki Edda Ósk Gísladóttir og Arna Kristín, maki Helgi Pétur Ottesen. Börn Davíðs og Eddu eru: Arnór Daði, Erika Rún, Ellý Björk og Eyvör Stella. Börn Örnu og Péturs eru Díana Ingileif og Sara Margrét. b) Erla Sigrún Einarsdóttir, f. 23. okt. 1964, maki Jóhann Bremnes, fyrrv. maki Þórhallur Þórhallsson. Sonur þeirra Brynjar Freyr, maki Auður Hlín Rúnarsdóttir. Börn þeirra eru Kormákur Brjánn og Steinberg Móri. c) Halldór Örvar Einarsson, f. 2. júlí 1973. Maki Anna Dís Jónsdóttir. Börn þeirra eru Antoníus Bjarki, Katrín Anna og Lísbet Eva. 2) Hlynur Kristinn, f. 12. janúar 1950, maki Edda Kristín Björnsdóttir, f. 29. apríl 1951. Sonur þeirra er Fjölnir Björn, f. 23. mars 1975, maki Linda Therese Fransson. Barn þeirra Baldur Jarl. 3) Sigrún, f. 30. des. 1959, maki Svein Johnsen, fyrrv. maki Ísleifur Helgi Guðjónsson. Þeirra börn: a) Dagný Helga, f. 3. sept. 1982, maki Páll Finnbogason. Börn þeirra eru Almar Máni, Hafdís Lilja og Maren Birta Pálsdóttir. b) Bryndís Dögg, f. 1. des. 1986, maki Thomas Gjøystdal. c) María Rebekka, f. 20. nóv. 1994, maki Philip Ferreira. 4) Sigurður Mar, f. 15. febrúar 1964, maki Þórhildur Kristjánsdóttir, f. 27. apríl 1964. Börn: Sara Björk, f. 4. apríl 1989, og Urður María, f. 4. apríl 1989, maki Ásgrímur Helgi Gíslason. Barn þeirra er Fenrir Máni.
Sigrún Einarsdóttir ólst upp á Klyppstað í Loðmundarfirði. Eftir fermingu fór hún í vist á Seyðisfirði en um tvítugt gerðist hún starfsstúlka við Bændaskólann á Hvanneyri. Þar kynntist hún Halldóri, tilvonandi eiginmanni sínum. Þau bjuggu fyrst í Bæjum, Gunnarsholti og Reykjavík en lengst af bjuggu þau á Héraði. Fyrst á Eiðum en á Miðhúsum frá 1965.
Sigrún verður jarðsungin frá Egilsstaðakirkju í dag, 3. október 2019, klukkan 14.

Sigrún Einarsdóttir var amma mín, nágranni og vinur í 44 ár. Eins og gefur að skilja, þá þekki ég hana á seinni hluta ævi hennar og sá fyrri er fyrir mér aðeins frásögn hennar. Ég var mjög mikið hjá henni sem barn, og sem fullorðinn fékk ég hana sem nágranna með húsinu þegar ég keypti það af henni. Hún var hæglát, tilgerðarlaus og með hrafnsvart þykkt hár, sem hélst svart nær alla tíð, það var rétt svo að það gránaði aðeins eftir nírætt. Hún elskaði liti og klæddist oft litríkum fötum, og valdi gjarnan litsterka málningu ef eitthvað þurfti að mála. Hún treysti alltaf mikið á mig og ég sá um allskonar mismikilvæga hluti fyrir hana, að fara í búðina, fara í bankann, skutla henni til læknis, merkja takkana á myndbandstækinu, lesa leiðbeiningar og þessháttar. Tvennt kunni hún alls ekki. Það að stæra sig af einhverju eða tala illa um aðra. Hún var heldur ekki það sem kallað er áhættusækin, hún sjálf fór með löndum og svaf ekki róleg ef hún vissi af einhverjum í fjölskyldunni á ferð í vondu veðri. Hún kenndi mér þann góða sið að láta vita af sér þegar maður er kominn á leiðarenda. Hún hafði ekki bílpróf, og því þurfti hún einhvern til að fara í sendiferð.  Á tímabili átti hún samt bíl. Forláta Lödu Station með fimm gíra kassa. Það gæti verið gott fyrir einhvern að fá hann lánaðan sagði hún. Hún talaði oft um æsku sína í Loðmundarfirði og hversu allt var af skornum skammti, en hversu vel mömmu hennar gekk að halda heimili og laga mat. Sláturbáturinn sem kom á haustin og tók lömbin og aðrar afurðir búsins kom í sömu ferð með allar vörur og hráefni sem duga þurfti fram til næsta hausts. Þessi hagsýni og nýtni sem hún var alin upp við í æsku hefur sennilega litað allt hennar líf, og um fáa veit ég sem gætu talist jafn nýtnir og sælir með alla sína hluti alla tíð. Hún keypti sér ísskáp upp úr 1950 og var búin að smíða í hann allar hillur og hólf a.m.k. einu sinni þegar ég náði að sannfæra hana um að hann gæti verið hættulegur vegna rafmagnselda. Það var um 2010 og ég held að það hafi verið vegna þess að skömmu áður fékk hún heyrnartæki, og tjáði mér að nú væri hún farin að heyra í honum og klukkunni. Hún reyndi samt sitt allra besta til að finna honum ný not. Ef einhver heldur að þetta sé dæmi um nísku, get ég fullvissað alla um að ekkert er fjæ sanni, því örlæti var annað sterkt persónueinkenni ömmu minnar. Þegar hún sendi mann í búð til kaupa gjöf handa einhverjum leið manni stundum eins og í sendiför fyrir auðkýfing, engu var til sparað þar. Hún var höfðingi heim að sækja og bruggaði hið besta Brasilíukaffi sem gat rétt af alla vankanta veraldarinnar á augabragði. Alltaf með hraðsuðukatli og kaffikönnu sem stóð á eldavélarhellu. Hún þurfti að hella upp á, allt annað var fúsk. Með þessu var yfirleitt borin fram hersing af kökum og ef það var ekki fjall af upprúlluðum pönnukökum með sykri, eða rjóma, þá var það rúllukaka, lagkaka eða dreifbýlingur. En það var alltaf jólakaka einhvers staðar í öllum samsetningum. Jólakaka var hennar aðalsmerki og hún lét sér ekki nægja að bjóða mér þær með kaffinu, heldur færði hún mér alltaf köku til að eiga. Þegar ég fór til Reykjavíkur í skóla sendi hún þær gjarnan með flugi suður og sagði mér að sækja þær á völlinn ef of langt hafði liðið frá því ég kom heim til að fylla á birgðirnar. Kökunum var pakkað inn í endurnýtta kornflexpakka að sjálfsögðu. Hún ásamt fleiri konum á Egilsstöðum fjármagnaði stóran hluta byggingar húss björgunarsveitar og slysavarnafélags með bakstri, og var húsið kallað Kökuhúsið í daglegu tali. Amma var léleg í hnjánum og var það örugglega afleiðing mikillar vinnu og þegar ég var lítill þá notaði hún óspart drauga sem stjórntæki til að létta sér lífið. Það var draugur í kjallaranum, í fjárhúsunum, í Eyvindarárgilinu og bara út um allt á stöðum þar sem ég átti ekki að vera, og hún átti erfitt með að elta mig á.  Í seinni tíð grunar mig að þetta hafi komið í bakið á henni, því hún var nokkuð myrkfælin sjálf, og þegar hún var ein heima fékk hún mig alltaf til að gista hjá sér. Hún gat samt jafn vel spunnið upp hinar ótrúlegustu lygasögur og ævintýri fyrir svefninn í þessum gistiferðum, svo við bæði gætum hrotið í kór. Þegar árin færðust yfir og við nágrannar, náði hún stundum líka að hrella mig illilega. Þá var hún orðin slæm til gangs og fór afar hægt og algerlega hljóðlaust yfir. Þá gat hún skotið upp kollinum allt í einu, hvar og hvenær sem var án þess að gera boð á undan sér. Yfirleitt var samt erindið að bjóða mér í kaffi. Amma fór í skóla í Stakkahlíð, en þar var kennsla hluta vetrar. Þar lærði hún að lesa, skrifa og reikna en ég held að hún hafi verið nokkuð glúrin þrátt fyrir afar litla hefðbundna menntun.  Hún var send í vist á Seyðisfjörð um fermingu, ein systkina sinna, næstyngst. Ég spurði hana af hverju það hefði verið, og hún svaraði því til að það hefði bara ekki verið nóg til fyrir þau öll. Það hefði verið haldinn fjölskyldufundur og eitt þeirra hefði þurft að fara. Hún hefði verið send því hún hafi átt auðveldast með að takast á við það. Strákarnir hefðu verið eldri og getað hjálpað til við bústörfin, svo þeir hafi ekki komið til greina.  Þegar hún var að kveðja mig á tröppunum á heimili sínu til áratuga til að dvelja varanlega á hjúkrunarheimili, spurði ég hana hvort hún væri leið. Nei, mér hefur alltaf liðið vel þar sem ég er. Amma var svo á Seyðisfirði í vist á ýmsum stöðum, og fór bara heim á sumrin, þar til að hún flutti á Hvanneyri. Þar fékk hún vinnu sem þjónustustúlka, en það voru bara strákar í skólanum. Þar hitti hún afa. Amma var matselja eða ráðskona hjá Landgræðslunni Gunnarsholti, og afi ráðsmaður þegar Hekla gaus 1947. Þá stóð hún allt í einu frammi fyrir því að hafa alla sveitina í mat og vist þar til gosi lauk. Hún talaði um að þá hefði hún haft í nógu að snúast. Þegar vistinni í Gunnarsholti lauk fluttu þau í Eiða og bjuggu þar, þar til að þau fluttu í Miðhús. Þessi saga er pínu einfölduð því Bæir á Snæfjallaströnd og Reykjavík eru líka þarna á milli í litlu hlutverki, sem og Klyppstaður.  Á Eiðum eignaðist hún marga góða vini, nemendur jafnt sem starfsfólk. Þessi partur ævi hennar er mér minnst kunnur, en mig grunar að þarna hafi hún notið sín best. Hún var einn sá mesti dýravinur og náttúruunnandi sem ég hef kynnst. Þær voru ófáar flugurnar sem voru veiddar með bómull og sleppt út, og ég held að ég viti ekki um neitt dæmi þess að hún hafi gert flugu mein, og ef svo var þá hefur það verið alveg óvart. Meðan búskapur var stundaður á Miðhúsum var endalaus smíði og aðstöðusköpun fyrir kindur og lömb svo allir mættu hafa það sem allra, allra best. Mér er til efs að hún hafi sofið dúr á sauðburði. Sama var með hænurnar, endurnar, hestana, hrafnana, mýsnar, kettina og hundana, já bara allt sem lifði, tré, blóm og runna. Hún var alltaf að hlúa að þeim sem minnst máttu sín, veikasta hlekknum, hvort sem það var tré, planta eða dýr, og það var alltaf einver sem var það. Þeir verða að fá séns sagði hún. Amma mín var skapandi einstaklingur alla sína tíð. Hún var stöðugt að sauma, prjóna eða smíða. Það var samt ekki nokkur von til þess að það sem hún var að gera hefði einhverja fyrirmynd, allt var einhvern veginn frá grunni gert. Sniðin hönnuð og klippt út úr gömlum kornflexpökkum, og best var ef gripinn var hægt að smíða úr afsagi af einhverju, en nytjahlutur skyldi það vera. Aldrei sá ég hana fylla út krosssaumsmynd eða slíkt fyrirframhannað föndur. Hún elskaði efnið. Sumt var samt einfaldlega of fallegt til að nota það, og það setti hún inn í skáp. Hún prjónaði og saumaði föt á börnin sín og barnabörn en sennilega var hún alfarið farin að snúa sér að smíðum þegar barnabarnabörn komu til sögunnar. Ég held líka að hún hafi aldrei keypt jólakort eða merkimiða fyrir fjölskylduna. Það var allt framleitt, pressaðar fallegar jurtir og lauf sem hún tíndi á sumrin, límd á pappír með vatnsþynntu trélími.  Hún elskaði börnin sín og þeirra fjölskyldur og var alltaf til taks fyrir alla ef á þurfti að halda. Fyrir henni var hið eina sanna listaverk mynd eftir barn. Hún var alsæl með safnið sitt, og tók glöð við öllum verkum, hversu tilraunakennd og frumleg sem þau voru. Dýrgripir algerir. Mig grunar að amma hafi verið nokkuð höll undir vinstri væng pólitíkurinnar, því eftir að Ólafur Ragnar var kjörinn forseti hengdi hún hann upp á vegg í ramma. Hún setti líka fjarstýringuna fyrir augun svo hún sæi ekki á tækið ef forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins voru í sjónvarpinu, en að öðru leyti tók hún engan þátt í pólitísku vafstri og ræddi það aldrei. Amma lifði lang lengst af sínum systkinum og varð 96 ára. Einu sinni spurði ég hana af hverju hún yrði svona miklu eldri og þá svaraði hún umhugsunarlaust ég reykti aldrei. Hvort sem það var rétt eða ekki, þá var það rétt að hún reykti hvorki né drakk. Hún fór samt einu sinni í ríkið með Heiðu systur sinni og keypti púrtvín. Sú púrtvínsflaska er til ennþá, örugglega 20 árum síðar. Heiða frænka kom á hverju ári og heimsótti ömmu. Þær voru miklar vinkonur og hún var sami höfðinginn og amma, og það var alltaf tilhlökkunarefni að hitta hana. Því miður á ég ekki miklar minningar af öðrum systkinum hennar, en ég veit að amma er loksins komin til þeirra, og ég veit að hún saknaði þeirra og foreldra sinna. Hún fór yngst að heiman, rétt um fermingu, og er langsíðust heim aftur. Hún var samt að fara að hitta þau. Hún sagði mér það.
Takk fyrir allt, elsku amma mín, ég fæ hjá þér jólaköku þegar ég kem.

Fjölnir Björn Hlynsson.