Ólafur Jón Einarsson fæddist í Reykjavík 10. september 1950. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 29. september 2019.
Foreldrar hans voru Einar Ólafsson frá Keflavík, f. 12.11. 1912, og Liss Mudie Ólafsson frá Kaupmannahöfn, f. 30.12. 1924. Ólafur var elstur þriggja systkina, systur hans eru Marianna, f. 18.11. 1952, gift Þorsteini Marteinssyni, og Guðrún, f. 1.3. 1958, gift Einari Páli Svavarssyni. Dætur Ólafs eru Lísa, f. 27.9. 1973, gift Birgi Jónssyni, Þórunn, f. 17.4. 1988, og Arna, f. 21.8. 1989, maki hennar er Friðrik Þór Hjartarson. Barnabörnin eru sex talsins, Daníel, Kári, Sindri, Alex, Aníta og Edda.
Útför Ólafs Jóns fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 9. október 2019, klukkan 15.

Ég hef alltaf séð ykkur tvö sem eitt, þú komst alltaf skoppandi á eftir honum sagði kær fjölskylduvinkona þegar hún hringdi frá Svíþjóð til að votta mér samúð. Og ég skottaðist svo sannarlega á eftir honum, lítill klóni, fyrst um Vesturbæinn og Keflavík, svo á flakki um Norðurlöndin þangað sem nám hans og störf leiddu okkur. Á köflum vorum við tvö ein í heimili, svo vissulega urðum við kannski ekki eitt en ótrúlega náin, bundin sterkri taug. Taug sem aldrei rofnaði og tognaði eiginlega ekki heldur, þrátt fyrir sjálfstæðistilburði unglingsáranna, ótal verkefni hversdagsleikans eða landfræðilegrar fjarlægðar.
Pabbi minn var sonur Keflavíkur og Kaupmannahafnar, hann ólst upp við ástríki og aga yndislegra foreldra, átti dásamlegar systur sem fyrirgáfu honum endalausa stríðni og stóðu með honum í gegnum þykkt og þunnt. Hann lék sér í hermannaleik í móanum þar sem bandarískir hermenn athöfnuðu sig á næsta leiti og ungi Keflavíkurdrengurinn þvældist stóreygur um stræti stórborgarinnar á heimahögum Liss mömmu. Þar lék hann við dönsku frændsystkinin, skoðaði fallbyssurnar á Kastellet og fylgdist spenntur með vaktaskiptum hermannanna við Amalienborgarhöll.

Áhugi drengsins á hermennsku þróaðist síðar í mikinn áhuga á mannkynssögunni og um tíma ætlaði hann sér að læra sagnfræði. Mér skilst að pabbi hans hafi sannfært hann um að læknisfræðin væri praktískari og hann var nú ekkert ef ekki praktískur hann pabbi minn! Sagnfræðin hefði samt örugglega hentað honum vel, hann var maður sem gat verið fullkomlega sokkinn ofan í verkefnin sín þannig að annað og aðrir komust ekki að. Hann gekk að öllum verkefnum með sömu ákefð og dugnaði, hvort sem um var að ræða stóran aðgerðadag, gróðursetningu í sumarbústaðarlandinu eða einfaldlega ferð í banka og Byko. Flesta morgna gat maður fundið verkefnalista á eldhúsborðinu og pabbi var sjaldan í rónni fyrr en hann var tæmdur.
Ef þú ætlar að gera eitthvað, skaltu gera það vel, sagði hann oft og lifði eftir því í flestu. Hann var líka hreinn og beinn, sagði hlutina eins og þeir voru en hin hliðin á þessari einbeitningu og hreinskiptni gat stundum verið smá klaufaskapur í samskiptum, stundum óþarflega hastur yfir litlum atriðum sem fóru úrskeiðis og hann átti það til að láta eitthvað flakka sem hefði mátt kyrrt liggja.

Pabbi var svo lánsamur að hafa ástríðu fyrir starfi sínu en þrátt fyrir að hafa unnið mikið í gegnum árin, átti hann einnig ótal áhugamál sem hann sinnti af kappi. Sem ungur maður tileinkaði hann sér skáklistina og hún fylgdi honum í gegnum lífið. Seinna gerðist hann golfari, skotveiðimaður og ástríðufullur skógarbóndi og var öllum hlutverkunum sinnt af sama kappi.
Í gegnum leik og störf varð hann ríkur af vinum, átti auðvelt með að tengjast fólki, var trygglyndur þannig að vinabönd rofnuðu ekki áratugum saman, þrátt fyrir að lönd og höf hafi stundum skilið að. Trygglyndið var svo sannarlega endurgoldið, ekki síst nú síðustu misserin þegar vinirnir þjöppuðu sér um hann og báru á höndum sér í gegnum erfiða tíma.
46 ára gömul pabbastelpa hugsar nú til baka til óteljandi stunda. Kítl  og knús við undirleik Eninga Meninga í kjallara á Bárugötunni, risavaxið snjóhús í sænskum ævintýraskógi, danskur ís á sólkysstum strætum Kaupmannahafnar, löng sumarfrí þar sem ekið var um Evrópu þvera og endilanga og veiðiferðir í íslenskum heiðavötnum.
Í gegnum árin þykknaði taugin okkar og á hana uxu nýjar greinar, fyrst þegar systur mínar tvær sem við elskum svo undur heitt, bættust í hópinn og svo eftir að barnabörnin komu til sögunnar. Þá lagði hann mikið upp úr því að halda hópnum saman, miðla áfram af áhugamálunum og að sinna hverju og einu þeirra, gefa góð ráð og kenna sterkar skákbyrjanir.
Já, nærvera pabbi er óendanlega stór í mínu lífi, einhvern veginn órjúfanlegur hluti af sjálfinu. Hann lék ótal hlutverk, foreldrið með stórum staf, leiðbeinandi, vinur. Fastinn í tilveru sem var á stundum rótlaus. Hann er mín fyrirmynd á svo margan hátt, hann kenndi mér vinnusemi og seiglu en líka að muna eftir að leika, hann miðlaði fróðleiksfýsn og sýndi mér heiminn á ferðalögum um fjarlægar og nálægar slóðir, hann færði mér tungumál á silfurfati. En fyrst og fremst var hann alltaf fullur af ást, algjörlega ófeiminn við að sýna hlýju, taka í fang, svæfa, syngja og róa. Orðin ég elska þig runnu eðlilega og auðveldlega af munni hans, fyrir það er eg svo óendanlega þakklát.
Síðasta eina og hálfa árið barðist pabbi af krafti en þó alltaf með raunsæið að leiðarljósi, við krabbameinið. Hann sýndi allar sínar bestu hliðar, lifði til fulls, forgangsraðaði og gafst aldrei upp. Hann var sjálfum sér líkur til síðasta dags, alltaf bjartsýnn og þakklátur, aldrei bitur. Þetta er hátíðisdagur sagði hann við okkur systur þegar hann lagðist inn á líknardeildina og ljóst var að endalokin voru handan við hornið. Hann gladdist yfir fallegu útsýni á voginn sinn síðustu dagana sem hann lifði og var við stjórnvölinn fram á síðustu stund. Þar sem ég sat á sólríkum dögum á rúmbríkinni við Kópavoginn og horfði í fallegu brúnu augun svo full af ást, fylltist ég óendanlegu þakklæti, þakklæti fyrir agann og aðhaldið, fyrir ferðalögin, tungumálin, gleðina en fyrst og fremst fyrir að hafa alist upp í hlýju og takmarkalausri ást sem ég vona að mér takist að skila áfram til komandi kynslóða.
Á fögrum sunnudegi í september tók hin ramma taug á sig nýja mynd, hún teygir sig nú yfir í aðrar víddir en vex þó áfram hérna megin í okkur sem eftir sitjum.
Söknuðurinn er óbærilegur, þakklætið takmarkalaust.

Lísa Ólafsdóttir.

Í dag kveðjum við Óla tengdapabba en hann lést á fallegum haustdegi eftir hetjulega baráttu við helvítis krabbameinið. Óli greindist fyrir um einu og hálfu ári síðan og strax var vitað að baráttan myndi tapast, þetta væri aðeins spurning um tíma. Óli var auðvitað skurðlæknir og sem slíkur vissi hann manna best hvernig staðan var, hann teiknaði þetta upp fyrir okkur öll og sagði svo þið sjáið að þetta gengur aldrei, eins og við ættum eitthvað að skilja það, eða vildum eitthvað skilja það.  Þetta var eins og að heyra bifvélavirkja útskýra að vélin í bílnum væri farin, fagleg og praktísk greining. Þetta er búið, bara spurning um tíma.

Þegar hann var búinn að útskýra þetta fyrir allri fjölskyldunni, tók hann afastrákana sína alla á eintal yfir næstu daga og ræddi við þá. Ég veit ekki hvað þeim fór á milli en það var augljóst að öllum leið betur, hann gat útskýrt þetta fyrir þeim í ró og næði og þeir skynjuðu hvað hann var yfirvegaður og það róaði þá. Tíminn sem svo fór í hönd var bæði erfiður og fallegur en við gátum gert alveg ótrúlega mikið saman og skapað margar og fallegar minningar. Það er lærdómsríkt að uppgötva að fallegustu minningarnar eru ekki bara utanlandsferðir og ævintýri heldur ekki síst hversdagurinn, sitja saman og borða heimilismat, horfa á fréttirnar, taka létta skák, vaska upp og spjalla um allt og ekkert.

Óli fór í gegnum þetta stríð af festu og yfirvegun og var alltaf opinn og jákvæður. Ég átti gott spjall við hann þegar endalokin nálguðust og sagði við hann: Jæja Óli minn, þú hefur skarað fram úr í næstum öllu sem þú hefur gert og nú ætlar þú líka að vera bestur í því að deyja! Hann glotti og gerði lítið úr því en skildi skilaboðin, hann var búinn að sjá til þess að fólkið hans fór í gegnum allt þetta ferli með eins auðveldum hætti og nokkur kostur er. Hann sló tóninn sjálfur, blandaði yfirvegun, jákvæðni og æðruleysi saman við botnlausa ást og húmor.

Hann kvaddi allt sitt fólk, faðmaði og kyssti. Settist við gluggann og gladdist yfir því hvað haustið var fallegt í Kópavoginum  og svo dó hann í fanginu á stelpunum sínum sem hann elskaði svo mikið. Óli var alls ekki saddur lífdaga en samt sáttur við að allt hans fólk vissi að hann elskaði það og að hann hafi lifað lífinu á sínum forsendum,  hann hafi gengið til góðs. Sönn fyrirmynd.

Þegar við Lísa byrjuðum saman fyrir hartnær 15 árum stóðum við frammi fyrir því verkefni að setja saman fjölskyldu því hvort lögðum við til tvo stráka í púkkið. Það vita þeir sem þetta hafa gert að þetta er ekki einfalt verkefni enda miklar tilfinningar í spilinu. Óli tók mér með smá fyrirvara fyrst um sinn en þegar hann áttaði sig á því hver minn vilji var þá tók hann mig í sinn faðm eins og sinn eigin son og studdi mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur í lífinu. Það er meira en að segja það því ég tók upp á alls konar hlutum sem hann átti kannski ekki alveg von á og pössuðu ekki alveg í kassann hans. Hann kynntist mér sem fyrirtækjastjórnanda en á löngu tímabili breyttist kauði í þungarokkara sem spilaði allar helgar og leit ófrýnilega út. Óli skildi ekki tónlistina en mætti þó á tónleika, ég man eftir honum í Hörpu þegar Dimma spilaði með Sinfóníuhljómsveit og honum fannst þetta bara alveg ágætt. Spurði oft: Jæja Biggi minn ertu ekkert að gigga um helgina?

Í fyrrasumar fórum við öll til Köben þar sem Óli var búinn að safna saman hópi af sínum fjölmörgu dönsku vinum og fjölskyldu. Hann leigði flott hús fyrir alla fjölskylduna, hélt fínustu garðveislu þar sem hann hélt skörulega ræðu. Hann fór yfir lífshlaupið sitt, útskýrði að hann væri dauðvona og henti nokkrum góðum bröndurum með áður enn hann kvaddi allt þetta fólk sem hafði fylgt honum í gegnum lífið. Mér er til efs að ég hafi nokkru sinni fundið til eins mikillar virðingar fyrir nokkrum manni eins og þegar ég horfði á hann halda þessa löngu ræðu á meðan fólkið hans horfði á hann tárvott en samt hlæjandi. Hann gerði þetta svo fullkomlega rétt, þetta var eins og í góðri kvikmynd.

Við Óli ferðuðumst saman til Danmerkur við þetta tilefni, fórum aðeins á eftir hópnum því hann var að klára meðferð. Það var spurning um hvort hann mætti fara utan en hann sagði við mig að það myndi ekkert stöðva hann, við myndum brjótast saman út af Landsspítalanum ef það væri eitthvað kvak í læknunum. Hann ætlaði að hitta sitt fólk. Það var á to do listanum og hann kláraði listann alltaf.

Við spjölluðum mikið saman í fluginu þennan dag og ég var svo glaður með að hafa getað þakkað honum fyrir allt sem hann gerði fyrir mig og mína. Í raun og veru var hann kletturinn okkar allra. Hann hjálpaði okkur Lísu að búa til okkar fjölskyldu með því að sýna fordæmi og senda skilaboð. Óli afi segir að svona sé þetta og þá er það bara þannig. Hann varð strax afi strákana minna, Alex og Daníels, og aldrei, ekki einu sinni, var það spurning um að hann væri ekki alvöru afi þeirra. Óli var sko alvöru afi, tengdapabbi og pabbi alla leið og fyrir það er ég honum svo innilega þakklátur. Hann mun lifa í gegnum Kára, Sindra, Alex og Danna því sögurnar frá Óla afa eru endalausar og leiðarljósið sterkt.

Ég kvaddi Ólaf Jón Einarsson rétt áður en hann lést, hann faðmaði mig þar sem hann lá í rúminu og glottandi sagði hann mér að hann hefði alltaf kunnað vel við mig en augun sögðu svo miklu miklu meira. Hann bað mig að passa Lísu og strákana fyrir sig og ég ætla ekki að klikka á því smáatriði, svo ég noti nú hans orðfæri.

Hvíl í friði elsku Óli minn og takk fyrir allt og allt.

Þinn tengdasonur



Birgir Jónsson.