Haraldur Sveinsson fæddist í Reykjavík 15. júní 1925. Hann lést í Brákarhlíð í Borgarnesi 21. september 2019.
Foreldrar hans voru Sveinn M. Sveinsson, forstjóri Völundar, f. 17. október 1891, d. 23. nóvember 1951, og kona hans, Soffía Emelía Haraldsdóttir, f. 8. maí 1902, d. 19. maí 1962. Systkini Haraldar voru Sveinn Kjartan, f. 1. júní 1924, d. 11. september 2008, Leifur, f. 6. júlí 1927, d. 15. febrúar 2014, og Bergljót, f. 10. apríl 1935.
Haraldur kvæntist 15. júlí 1952 Agnesi Jóhannsdóttur, f. 19. janúar 1927. Foreldrar hennar voru Guðrún Pétursdóttir, f. 23.janúar 1899, d. 22. september 1984, og Jóhann Gunnlaugur Guðjónsson, f. 31. maí 1897, d. 26. júlí 1980.
Börn Haraldar og Agnesar eru: 1) Soffía, f. 9. febrúar 1955. Börn hennar eru a) Haraldur Civelek, f. 28. desember 1976, maki Edda Civelek, f. 21. ágúst 1993, dóttir þeirra er Eva, f. 20. júlí 2015. b) Marta Eiríksdóttir, f. 14. júní 1985, maki Benoit Branger, f. 5. janúar 1984. Börn þeirra eru Emilía, f. 12. október 2006, Jóhanna, f. 31. október 2009, og Soffía, f. 14. desember 2017. 2) Ásdís, f. 9. ágúst 1956. Dóttir hennar er Agnes Jónasdóttir, f. 17. apríl 1992. 3) Jóhann, f. 13. ágúst 1959, maki Gréta Pape, f. 25. nóvember 1961. Synir þeirra eru a) Daníel, f. 6. nóvember 1979, maki Amber Allen, f. 30. júní 1979. Börn þeirra eru Adeline, f. 14. september 2010, Oliver, f. 10. september 2013, og Zachary, f. 17. janúar 2018. b) Alexander, f. 2. júní 1989. 3) Sveinn, f. 11. júlí 1962, maki Pétur Guðmundsson, f. 21. október 1956, d. 9. nóvember 2006.
Haraldur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944. Hann var sölumaður hjá Timburversluninni Völundi hf. 1945-1951 og forstjóri 1951-1968. Haraldur var framkvæmdastjóri Árvakurs hf. 1968-1995. Hann sat í stjórn eftirfarandi fyrirtækja og félagasamtaka: Í stjórn Árvakurs hf. frá 1951 og var formaður 1954-1969 og frá 1995-2005, í stjórn Timburverslunarinnar Völundar hf. 1951-1987, í stjórn Verslunarráðs Íslands 1954-1980 og formaður 1968-1970, í stjórn Félags íslenskra prentsmiðjueigenda 1969-1971, Félags íslenska prentiðnaðarins 1971-1983, og sem formaður 1976-1983, í sambandsstjórn Vinnuveitendasambands Íslands 1969-1986 og í framkvæmdastjórn 1978-1985, var formaður stjórnar Lífeyrissjóðs blaðamanna 1970-1999, Í stjórn Hestamannafélagsins Fáks 1951-1955 og 1958-1966, í stjórn Landssambands hestamannafélaga 1961-1979. Hann var félagi Í Rotaryklúbbi Reykjavíkur frá 1952 og forseti 1963-1964.
Hestamennska og sveitalíf átti hug Haraldar alla tíð. Hann var í sveit á sumrin, á Mýrum og í Mývatnssveit. Hann var kaupamaður og vetrarmaður á ýmsum bæjum, t.d. á Efra-Núpi í Miðfirði, Hjarðarholti í Borgarfirði og á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Þau Haraldur og Agnes eignuðust jörðina Álftanes á Mýrum árið 1957 þar sem var þeirra annað heimili. Haraldur ferðaðist mikið um landið með fjölskylduna en einnig á hestum í góðra vina hópi.
Haraldur verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 9. október 2019, klukkan 11.

Merkur maður er fallin frá, 94 ára að aldri. Hann afi minn, Haraldur Sveinsson.
Það eru ótal minningar sem hafa komið upp í huga minn síðustu daga og allar eru þær dásamlegar og mér svo dýrmætar.

Þú varst mikill áhrifavaldur í viðskiptalífinu og mér finnst mikilvægt að deila því hversu mikill áhrifavaldur þú varst í mínu lífi.
Ég hef ávallt heyrt að hann afi hafi fengið mig í afmælisgjöf en ég fæddist daginn á undan 60 ára afmælinu hans. Það var alltaf heiður minn að deila afmælisdögunum með honum og mér hefur alltaf fundist svo gaman þegar þeim var jafnvel slegnið saman og fagnað með fjölskyldunni.
Ljúfmennska þín og léttlyndi voru engu lík og alltaf var stutt í glensið. Það var alveg sama í hvaða gleðskap við vorum saman, matarboð, jólin, afmæli en í miðri hringiðunni í látunum þá þurfti ég ekki annað en að mæta augunum þínum og að launum fékk ég eitt blikk. Þetta blikk gaf mér ómælda hlýju í hjartastað og mér leið alltaf eins og þú sæir mig. Mér er minnisstæð ein bílferð sem við fórum upp á Álftanes um páska. Við sóttum þig og ömmu í Brákarhlíð og við sátum í kremju í aftursætinu hlið við hlið. Orðin voru fá en í hvert sinn sem augu okkar mættust kom blikkið eða þú fettir upp á þér nefið með bros á vör. Þú tókst svo í höndina mína og kysstir hana.
Ég hafði svo mikla ánægju að koma til þín upp í hesthús og verja með þér stundum með hestunum þegar ég var lítil stelpa. Þú kenndir mér hvernig ætti að sitja hest og hvernig ætti að haga sér með virðingu í kringum þessi stórmerkilegu dýr. Hvernig ætti að kemba þeim og gefa þeim að borða og slíkt. Svo gátum við rabbað um daginn og veginn á kaffistofunni, nartandi í gráfíkjukexið góða. Hestalyktin, heylyktin og sjávarilmurinn mun ávallt minna mig á þig.
Ég gleymi því aldrei þegar þú gafst mér hestinn minn, hann Trausta. Þvílík gleði fyrir litla stelpuhnátu að eignast sinn eigin hest. Það fyllti mig stolti þegar þú hvíslaðir að mér að hann væri þinn uppáhaldshestur því ég hugsaði hvað það væri mikill heiður að eiga hlut í þínu uppáhaldi. Mér fannst ég vera sérstök. Eitt sinn riðum við saman í nágrenni hesthúsanna í Víðidal, ég á Trausta og þú á Gram. Allt í einu tekur Trausti á rás og þeytist alla leið að hesthúsinu og ég var logandi hrædd. Þú fylgdir mér fast á eftir og þegar Trausti nam staðar heyrði ég hlátrasköllin í þér og þú sagðir Var þetta ekki gaman? Með sannfærandi röddu svo að hræðslan hvarf.
Það er erfitt að lýsa hversu miklum forréttindunum ég naut að hafa alist upp á Álftanesi. Allar stundirnar sem við fjölskyldan áttum þar eru svo stór partur af mínu lífi. Mér fannst og finnst enn eins og ég týnist algjörlega og fari inn í einhvern töfraheim þar sem frelsi og engir fjötrar eru um leið og við keyrum inn í landið. Það er þér að þakka, elsku afi, að ég lærði að meta töfra náttúrunnar. Það er þér að þakka að ég þekki alla fugla og fuglahljóðin. Það er þér að þakka að ég fékk áhuga á jurtum, flóði og fjöru og sjávarlífinu og hestunum og hef upplifað óteljandi sólarlög. Einnig var ómetanlegt að fylgjast og finna fyrir þeim mikla vinskap á milli þín og pabba og sjá ykkur brasa saman á Álftanesi.
Þessi staður hefur mótað mig sem manneskju og er svo stór partur af mér. Nú geta dætur mínar fengið að upplifa það sama og fyrir þessa ómetanlegu gjöf verð ég ávallt þakklát. Ég mun gera allt mitt besta til að varðveita þennan stað og halda heiðri þínum uppi.
Það er ljúfsárt að kveðja þig afi en hjartað mitt fyllist þakklæti að vita af þér í ljósinu með augun þín bæði starfandi. Ég mun tileinka mér seiglu þína, ljúfmennsku og gjafmildi í mínu lífi sem og dætra minna.  Ég loka augunum og sé þig fyrir mér standandi á pallinum í Kvíslhöfða. Útbúinn í reiðgallanum horfir þú á hestastóðið sem stendur á sandinum og bíður eftir þér. Hafnarfjallið, Ljósufjöll og Snæfellsjökullinn hneigja sig fyrir þér og blika á ásýnd þinni þar sem þú stendur tignarlegur. Það er lygnt yfir, fuglasöngurinn ómar og kyrrðin er nánast snertanleg. Þú sest á bak Trausta sem ber þig út á sand á móts við hina gæðingana. Saman þeysist þið á harðaspretti á móts við sólina og frelsið sem taka á móti þér með hlýju faðmlagi.

Ég berst á fáki fráum
fram um veg.
Mót fjallahlíðum háum
hleypi ég.
Og golan kyssir kinn.
Og á harða, harða spretti
hendist áfram klárinn minn.

Það er sem fjöllin fljúgi
móti mér,
sem kólfur loftið kljúfi
klárinn fer,
og lund mín er svo létt,
eins og gæti ég gjörvallt lífið
geisað fram í einum sprett.

Hve fjör í æðar færist

fáknum með.
Hve hjartað léttar hrærist.
Hlær við geð
að finna fjörtök stinn.
Þú ert mesti gæðagammur,
góði Léttir, klárinn minn.
(Hannes Hafstein)

Góða ferð elsku afi minn.

Þín

Marta.