Helgi Steinar Guðmundsson fæddist í Bakkagerði á Stöðvarfirði 17. nóvember 1945. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 3. október 2019.
Foreldrar hans voru Guðmundur Björnsson, f. í Breiðdal 15.3. 1920, d. 28.3. 1981, og Rósalinda Helgadóttir, f. á Stöðvarfirði 13.11. 1921, d. 14.10. 2008. Systkini Steinars eru: Björn Hafþór, f. 16.1. 1947, maki Hlíf B. Herbjörnsdóttir; Arnlaug Heiðdís, f. 22.2. 1948, maki Viðar Jónsson; Halla Hafdís, f. 9.6. 1954, maki Sigurður Jóhannesson; Kristín Bryndís, f. 26.4. 1957, maki Andrés Pétursson; Linda Hugdís, f. 13.7. 1959, maki Hreinn Pétursson; Ásta Snædís, f. 23.11. 1960.
Eiginkona Steinars var Kristey Jónsdóttir, f. 3.7. 1951. Þau skildu árið 1988. Börn þeirra eru: a) Valgeir Þór, f. 14.3. 1970, maki Gunnhildur Lilja Gísladóttir. Þau eiga þrjú börn, Kristeyju Lilju, Ívar Örn og Ægi Þór. Kristey Lilja er í sambúð með Birni Þorsteinssyni og eiga þau óskírðan son. Ívar Örn er í sambúð með Andreu Rán Ragnarsdóttur Breiðfjörð. b) Rósa Guðný, f. 21.8. 1972, maki Magnús Ástþór Jónasson. Þau eiga þrjá syni, Steinar Aron, Vigni Frey og Andra Hrannar. Steinar Aron er í sambúð með Söndru Sif Karlsdóttur. c) Linda Jónína, f. 23.12. 1980. Hún á tvo syni með fyrri maka sínum, Arnþóri Birni Reynissyni, Bjarka Fannar og Marinó Frey. Síðari maki Lindu Jónínu er Einar Ás Pétursson. Þau eiga eina dóttur, Hörpu Rós. Börn Einars frá fyrri sambúð eru Indíana Dögg og Ísabella Dís, sem lést nýfædd.
Steinar ólst upp á Stöðvarfirði. Að loknu námi í barnaskólanum þar var hann í framhaldsnámi í Reykjanesskóla við Ísafjarðardjúp árin 1961 til 1963. Eftir það hóf hann nám í Kennaraskóla Íslands, en lauk því ekki. Hann lauk prófi sem fiskiðnaðarmaður frá Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði árið 1992. Sem unglingur vann hann í Hraðfrystihúsi Stöðvarfjarðar og stundaði áfram ýmis störf á Stöðvarfirði, fyrst á síldarplani föður síns og síðar hjá fleiri fyrirtækjum á staðnum, m.a. við skrifstofustörf. Hann vann sem skrifstofustjóri hjá Hraðfrystihúsi Stöðvarfjarðar í meira en áratug, eða þangað til hann flutti til Reykjavíkur árið 1990. Þar rak hann m.a. fiskbúð um tíma uns hann stofnaði fyrirtækið Álftafell hf. sem annaðist sölu á notuðum fiskvinnsluvélum og tengdum vörum í sjávarútvegi. Árið 2004 flutti Steinar í Egilsstaði þar sem hann bjó til æviloka og starfaði áfram að ýmsum verkefnum sem tengdust útgerð og fiskvinnslu.
Útför Steinars fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag,19. október 2019, og hefst athöfnin kl. 14.

Enn frá blómum æskudaga
ilminn leggur fyrir vit,
ennþá finn ég fanga og draga
forna tímans sólskinsglit.
Minninganna margt er sporið
markað djúpt í helga jörð.
Aldrei gleymist æskuvorið
yndislegt við Stöðvarfjörð.
(Björn Jónsson frá Kirkjubóli)


Hinn 17. nóvember 1945 fæddist frumburður foreldra okkar, drengur sem skírður var Helgi Steinar í höfuðið á móðurforeldrunum. Eins og títt er um fyrsta barn varð hann strax yndi allra í fjölskyldunni, en á næstu fimmtán árum bættust við sex önnur börn, einn drengur og fimm stúlkur, sem líka kröfðust athygli.

Það var gaman að alast upp á stóru heimili, en auk þessarar níu manna fjölskyldu bjó einnig á æskuheimilinu móðurafi sem orðið hafði ekkill árið 1957. Það segir sig sjálft að á heimilinu var oft fjör, mikill erill, skoðanaskipti og jafnvel rifist um stirtlurnar af signa fiskinum við eldhúsborðið. Allir höfðu sitt hlutverk og fórum við systkinin ung að vinna á síldarplaninu hjá pabba eða öðrum fyrirtækjum sem hann stóð að og tengdust sjávarútvegi. Það var því eðlilegt að Steinar bróðir skyldi ætíð velja sér atvinnu í þeirri grein, enda var hann líkastur föður okkar, útsjónarsamur og naut þess að aðstoða fólk. Þekking hans í sjávarútvegi varð yfirgripsmikil og nutu margir góðs af. Hann lauk prófi frá Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði sem fiskiðnaðarmaður árið 1992. Síðar á ævinni var hann af mörgum í greininni kallaður reddarinn, því það gagnaðist oft að leita til hans, þegar menn vantaði fiskvinnslutæki í rekstri sínum.

Snemma bar á tónlistarhæfileikum Steinars. Sem ungur maður spilaði hann á harmonikku, en síðar á gítar, bassa, saxófón og greip jafnvel í trommur.  Þessa hæfileika erfði hann frá móðurfólkinu, en bræðurnir báðir, ásamt fleiri  félögum á staðnum, gerðu garðinn frægan í hljómsveitinni Essgó, sem átti vinsældum að fagna á Stór-Stöðvarfjarðarsvæðinu á síldarárunum og síðar. Einnig sungu þeir í Karlakór Stöðvarfjarðar, meðan hann var og hét. Ekki er hægt að segja það sama um systurnar fimm sem töldu sig ekki nógu lagvissar til að komast í kór, hvað þá að þær gætu spilað á hljóðfæri. Þær voru þó ekki alveg hæfileikalausar, því þegar kom að dansmennt, sem erfðist frekar úr föðurættinni, höfðu þær vinninginn, enda nýttu þær sér langa ganginn á Vengi óspart til að æfa polka, ræl og vals.

Á uppvaxtarárunum þurftum við systkinin að klára skólaskyldu annars staðar en í heimahögum og var talið eðlilegt að allir færu í Eiðaskóla til að ljúka henni.  Svo var ekki með Steinar því hann, ásamt nokkrum æskuvinum, ákvað að fara heldur í Reykjanesskóla við Ísafjarðardjúp.  Lengra var varla hægt að fara í þessu skyni og tóku ferðalögin langan tíma.  Þarna eignaðist hann marga góða vini og tveir þeirra giftust síðar stúlkum frá Stöðvarfirði og settust þar að, eftir að hafa komið austur til að vinna á síldarplaninu. Þá var hann einnig í námi við gamla Kennaraskólann, en starfaði aldrei sem kennari.  Þar sem síldarárin gáfu vel í aðra hönd eignaðist hann snemma bíl og kom fljótlega höndum yfir eina eðaltegund þeirra tíma, Mustang. Var hann þá aðalgæinn á svæðinu, krullhærður með brilljantín í hárinu, spaugsamur og spilaði í hljómsveit. Árið 1964 fór hann til Bournemouth í Englandi, dvaldi þar sumarlangt og kom til baka með fremur ræfilslega skjaldböku í farteskinu.  Hvernig honum tókst það fengum við aldrei að vita, en ekki varð hún langlíf blessunin. Nokkuð víst er þó að hún freistaði ekki matmanna á heimilinu og minnumst við þess ekki að þar hafi verið elduð skjaldbökusúpa.

Steinar var á yngri árum félagslyndur og einn af máttarstólpum Lionsklúbbs Stöðvarfjarðar. Vegna tengsla hans við útgerðina á staðnum fékk hann þá snjöllu hugmynd að fá skipverjana á togurunum til að koma með að landi öll hrogn, sem til féllu í aðgerðinni um borð, en þeim var löngum hent að stærstum hluta. Síðan tóku klúbbfélagar við hráefninu undir hans stjórn, gengu frá því í tunnur og að lokum var innihaldið selt fyrir gott verð. Með þessu móti hafði Lionsklúbburinn fundið óvenjulega og góða tekjulind og lét því margt gott af sér leiða á þessum árum. Einnig tók Steinar virkan þátt í starfi Umf. Súlunnar á Stöðvarfirði í langan tíma og var gjaldkeri félagsins um nokkurra ára skeið. Hann tók knattspyrnuna á staðnum upp á arma sína, aflaði tekna m.a. með því að selja auglýsingar við knattspyrnuvöllinn, svo annað eins hafði ekki sést þar um slóðir.  Ennfremur var hann fremstur meðal jafningja, þegar að því kom að þökuleggja hinn illræmda malarvöll á staðnum. Átti hann öðrum fremur þátt í að koma því verki í höfn, útvegaði land fyrir þökuskurð og tæki til að skera þær. Hið sama gilti um öll tæki, sem nýtt voru við flutning á þökum á endastað. Fékk hann einstaklinga og fyrirtæki til að leggja til tæki þeirra að stærstum eða öllum hluta endurgjaldslaust. Fórnfýsi foreldra og iðkenda við þökulagninguna sjálfa er nánast fordæmalaus og var ánægjulegt fyrir marga að taka þátt í því ævintýri, þegar ungmennafélagsandinn á Stöðvarfirði reis hvað hæst.

Faðir okkar var matmaður mikill, sem átti erfitt með að láta kartöflurnar og kjötið á matardiski sínum passa saman, eins og hann sagði sjálfur einhverju sinni, þegar holdafar hans bar á góma. Því til staðfestu minnumst við þess, að þegar eitthvert okkar systkinanna fór af bæ í uppvextinum, þá spurði pabbi okkur gjarnan, heim komin: Fékkstu góðan mat? Þessu sneri Helgi móðurafi okkar út úr, en hann var síður en svo hrifinn af mjólkurvörum þeirra tíma. Næst þegar tækifæri gafst var hann á undan pabba og sagði: Fékkstu góða mjólk? Varð það síðan að vana hjá okkur systkinunum að segja; Fékkstu góða mjólk? þegar veisluföng bar á góma í okkar hópi. Fátt gladdi Steinar meira en góður matur og eftir að hann stofnaði eigið heimili og fjölskyldu átti hann það til að gera sér ferð á æskuheimilið til að gá í búrskápinn hjá mömmu og skófla í sig köldum afgöngum. Tókum við á það ráð, ef hann gleymdi einhverju heima á Vengi að setja það í skápinn góða svo hann gæti gengið að því vísu þar.  Aldrei leið honum betur en við matargerð. Væri hann búinn að gera sér 100 fiskibollur, snyrta til ýsu og þorsk, kinnar eða gellur og setja í frysti þá voru honum allir vegir færir.  Eftir að hann flutti í veikindum sínum á hjúkrunarheimilið Dyngju á Egilsstöðum var hann staðráðinn í því að á næsta afmælisdegi sínum skyldi boðið upp á saltaðar gellur.  Af því verður ekki, því hann lést um 6 vikum áður en sá dagur rann upp, eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm.

Steinar upplifði á lífsgöngu sinni bæði gleði og sorg. Hið síðarnefnda markaði hann mjög og gerði hann einrænan eftir því sem aldur færðist yfir. Börnin þrjú, barnabörn og nýfætt langafabarn urðu hans mestu auðævi, enda var hann afar stoltur af þeim og vildi veg þeirra allra sem mestan. Í eilífðarbirtu liðins sumars var haldið systkinamót á Stöðvarfirði. Sökum veikindanna gat hann ekki mætt, en hafði á orði við eitt okkar í síma að það veitti sér gleði að vita að við hin ætluðum að gleðjast saman.

Nú þegar höggvið hefur verið stórt skarð í hóp okkar systkinanna sjö kveðjum við að leiðarlokum okkar ástkæra bróður í hinsta sinn og þökkum honum samfylgdina.  Hans verður sárt saknað og mun minning hans ylja okkur um ókomin ár. Hann hvíli í friði.
Systkinin frá Vengi,

Björn Hafþór, Arnlaug Heiðdís, Halla Hafdís, Kristín Bryndís, Linda Hugdís, Ásta Snædís.