Guðlaug Halldóra Guðmundsdóttir fæddist á Brandsstöðum í Reykhólasveit 27. ágúst 1933. Hún lést 4. október 2019 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.
Foreldrar hennar voru Júlíana Sveinsdóttir, f. 6. júlí 1902, d. 2. ágúst 1997, og Guðmundur Guðmundsson, f. 15. maí 1906, d. 3. janúar 1979. Systkini Guðlaugar eru Hafsteinn, f. 4. janúar 1935, Sveinn, f. 1. júní 1937, Valgerður, f. 17. desember 1938, d. 18. maí 2018, Kristrún, f. 24. apríl 1941, d. 16. september 2011, og Bryndís Guðrún, f. 10. október 1946.
Eiginmaður Guðlaugar var Grímur Arnórsson, f. 26. apríl 1919, d. 23. janúar 2001. Foreldrar hans voru Ragnheiður Grímsdóttir, f. 2. desember 1893, d. 3. janúar 1971, og Arnór Einarsson, f. 9. október 1880, d. 27. mars 1969.
Synir Guðlaugar og Gríms eru: Hörður Már, f. 5. mars 1962, kvæntur Fjólu B. Benediktsdóttur og búa þau á Tindum í Reykhólasveit. Þau eiga fjögur börn, Sigurð Fannar, Guðlaugu Hörpu, Helenu Ýri og Eydísi Sunnu, og barnabörnin eru tvö. Börkur, f. 19. júlí 1964, kvæntur Guðrúnu Kristínu Sigurgeirsdóttur og búa þau í Kópavogi. Þau eiga tvær dætur, Evu Brá og Sædísi Birtu.

Börn Gríms með fyrri eiginkonu sinni, Jónínu Ragnheiði Guðjónsdóttur, eru Arnór, f. 22. nóvember 1943, kvæntur Sóleyju Vilhjálmsdóttur, Guðjón Grétar, f. 10. apríl 1945, kvæntur Ástu Garðarsdóttur, og Ragnheiður, f. 6. maí 1946, gift Guðmundi Kristjánssyni.
Guðlaug ólst upp á Höllustöðum í Reykhólasveit fyrstu ár ævinnar en fjölskyldan flutti í Skáleyjar í Breiðafirði þegar hún var 11 ára. Guðlaug bar sterkan og hlýjan hug til Breiðafjarðareyja eftir að hafa alist þar upp í þröngu samfélagi sem einkenndist af samheldni og dugnaði. Þar mynduðust líka sterk vináttubönd sem entust út ævina.
Guðlaug fór ung kona til starfa í Reykjavík bæði sem heimilishjálp og við ýmis störf. Síðar lauk hún námi frá Kvennaskólanum á Blönduósi. Þau Grímur bjuggu á Tindum frá 1963 allt þar til Hörður sonur þeirra tók við búi 1989. Um þriggja áratuga skeið starfaði Guðlaug jafnframt hjá Pósti og síma og síðar Íslandspósti bæði sem talsímavörður en lengst af sem stöðvarstjóri í Króksfjarðarnesi. Um nokkurra ára skeið bjuggu þau Grímur í íbúð stöðvarstjóra þar. Þegar leið að starfslokum fluttu þau svo aftur í Tinda í hús sem þau höfðu komið upp og bjuggu sér þar notalegt heimili. Eftir að Grímur féll frá 2001 bjó Guðlaug ein. Henni féll aldrei verk úr hendi og einkenndist allt hennar líf af dugnaði og jákvæðni. Guðlaug flutti á dvalarheimilið Barmahlíð á Reykhólum 2017.
Guðlaug verður jarðsungin frá Reykhólakirkju í dag, 19. október 2019, og hefst athöfnin kl. 14. Jarðsett verður í Garpsdalskirkjugarði.

Andlit hennar var hlátur og góðvild, þar var aldrei græsku eða pretti að finna. Svo var um far hennar allt og breytni, alla tíð.
Hún var ellefu ára, elst fimm systkina þegar þau komu í Skáleyjar og það sjötta bættist við þar árið eftir.
Ég var sex ára, fimmti í röð sex systkina, það sjöunda bættist við tveimur árum síðar.
Það fór ekki hjá því að þessir tveir systkinahópar þyrftu að þola saman súrt og sætt uppvaxtarárin. Það hefur örugglega verið mótandi.
Hún var fötluð frá fæðingu og gekk hölt, en hún lét það ekkert aftra sér frá að vera með í leikjum. Í boðhlaupi gat hún ekki keppt við jafnaldra sína þegar reynt var að stilla upp tveimur liðum. Aldursmunur okkar jafnaði og mér var þá stundum stillt upp á móti henni, þegar enginn strákur var til að jafna við mig. Oft stækkaði hópurinn. Því ollu skólakrakkar á vetrum, sumarkrakkar á sumrum.
Hún gekk að æðarleitum á vorin og dúnhreinsun, sem aðrir. Að heyskap á sumrin, þar til kom að heyburðinum til skips, við honum var henni hlíft. Meðan ég var ekki vaxinn upp í heyburðinn vorum við oft saman með rakapokann.  Að taka rökin var léttara verk en að bera heyið.
Hún lét fötlunina ekkert aftra sér í að vera forsprakki í ærslum og áflogum, svo rækilega var henni gleðin í blóð borin. Strákar af hæfilegri stærð voru henni óskabráð, hún var stór og sterk, lagði svona stráka auðveldlega að velli og hlammaði sér svo ofan á þá fallna. "Skassið hún Guðlaug" sögðu þeir og stundum fékk hún stelpu af réttri stærð til að elta uppi bráðina því "hún var lengi á löppº, sögðu þeir. Hún kom á eftir.
Hún var vaxin stúlka 1953 og farin að taka þátt í pólitískri umræðu. Þá kom Gunnlaugur Þórðarson lögmaður í framboðsferð það kosningavor. Hann réð hana til heimilisstarfa á heimili sínu og konu sinnar Herdísar Þorvaldsdóttur leikkonu. Eftir þá vetrarvist kom hún heim með syni þeirra tvo, börn að aldri,  Hrafn og Þorvald. Það var þeirra fyrsta sveitavist. Í kjölfarið urðu fleiri eyjarstúlkur vinnukonur á heimili Gunnlaugs og Herdísar. Það hefur svo trúlega verið veturinn 1953-54 sem Gulla var til náms í Húsmæðraskólanum á Blönduósi. Veturinn 1956-57 var hún í þjónustunni á Hvanneyrarskóla.
Það var að líkindum vorið 1958 að tekin var mynd í Skáleyjum af þeim atburði er færði henni forlagadóminn, eða svo sagði hún síðar.
Myndin sýnir Blíðfarann við bryggju, en uppi á klöppum standa Gulla og Aðalsteinn í Látrum á tali.
Þarna færði hann henni boð Ólafs í Króksfjarðarnesi um laust símstöðvarstarf þar.
Í Króksfjarðarnesi kynntist hún Grími á Tindum. Sonur þeirra Hörður fæddist 1962.
Við tók búskapur þeirra á Tindum, sem stóð þar til Hörður tók við.
Drengir þeirra, Hörður og Börkur, voru litlir þegar ég réðst til þeirra vetrarpart við að laga lítilsháttar í gamla húsinu.
Við eigum vafalaust eftir að búa í þessu húsi næstu tíu árin, sagði hún.
En þau urðu færri en það árin þar til komið var nýtt íbúðarhús.
Í búskapartíð þeirra voru einnig byggð gripahús. Fjósið á Tindum var í röð þeirra er ruddu braut um nýtt fyrirkomulag.
Þegar drengir þeirra voru að komast á legg tók Gulla aftur við stjórn Pósts og síma í Króksfjarðarnesi. Þangað fluttu þau Grímur þegar Hörður tók við búskapnum á Tindum.
Er þau létu af störfum við Póst og síma keyptu þau hús sem þjónað hafði um árabil sem skóli og fundahús í Gufudalssveit.
Fluttu það að Tindum og bjuggu í því þar. Ég átti oft glaða stund hjá þeim sem gestur. Við Gulla höfðum margt skemmtilegt upp að rifja, bæði það sem við þekktum sjálf eða höfðum heyrt. Grímur hafði orð á að þá ykist hlátur í húsi þegar eyjarmaður kom í heimsókn.
Þegar ég var þar í áðurnefndri vist í upphafi þeirra búskapar voru foreldrar Gríms þar og höfðu séríbúð, þótt gamla húsið væri ekki stórt. Það var reyndar fyrsta verk mitt þarna að mála íbúðina þeirra. Einnig var til heimilis á Tindum roskinn maður, Bjarni Sigvaldason. Almannarómur út á við dæmdi svo að hamingja byggi á Tindum.
Margoft á Gullu ævitíð var af kunnáttumönnum spáð í möguleikana á að lækna hennar fötlun.
Það var loks þegar hún var orðin vel roskin að þekkingu og tækni hafði vaxið fiskur um hrygg svo að óhætt þótti að reyna. Þetta kostaði hverja aðgerðina á fætur annarri og sjúkrahúslegu mánuðum saman. Hana þraut aldrei þolinmæði eða von. Viðmótsþýð og brosandi beið hún árangursins. Hann varð sá að hún gekk á jafnlöngum fótum, stafnum mátti hún aldrei sleppa, en hún gekk.
Grímur dó 23.1. 2001.
Það urðu örlög okkar Gullu að verða bæði safngripir í safnhúsi byggðarlagsins, Barmahlíð. Það er ágætt og við vorum ánægðir félagar bæði rétt eins og í æsku. Við vorum nú í lokin ein um að vera innfædd, aðrir vistmenn eru aðfluttir. Sveitin er það fámenn að hún framleiðir ekki gamalmenni á færibandi, en Barmahlíð býr við gott orðspor.
Gulla var jafnan forsprakki í því að spiluð væri vist, oftast tókst að manna eitt borð en þó ekki alltaf. Vönustu spilamenn deyja líka sem aðrir.
Það var núna síðustu fjórar til sex vikurnar sem áberandi hröð var afturför hennar. Einhvern tíma á þeim vikum lagði hún spilunum endanlega.
Ég þakka samfylgdina og bið Guð að blessa afkomendum hennar framtíðina í minningu hennar.

Jóhannes Geir Gíslason.