Timo Sakari Karlsson fæddist í Helsingfors 7. desember 1954. Hann andaðist þar 30. júlí 2019.
Hann var MA í móðurmáli sínu, finnsku, og kennari að ævistarfi í heimalandinu og erlendis. Á Íslandi var Timo sendikennari í finnsku 1985-1992, í Alta í Noregi 1993-1997 og í München 1997-2002, en upp frá því til æviloka finnskukennari innflytjenda í Ammatillinen aikuiskoulutuskeskus í Helsingfors. Þar fór útför hans fram 22. ágúst 2019. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Fleiri vinum og nemendum Timos Karlssons en mér mun hafa verið harmur í hjarta þegar þeir fréttu að hann hefði orðið bráðkvaddur aðeins sextíu og fjögurra ára gamall. Framundan voru formleg starfslok hans og hann var að búa sig undir Noregsferð til fundar við vin sinn og starfsbróður og ferðalög með honum  eins og oft áður í löndum beggja.

Fundum okkar Timos Karlssons bar fyrst saman 1985, árið sem hann gerðist hér sendikennari í finnsku. Hjá mér vaknaði snemma vinarhugur í garð Norðurlandaþjóðanna allra án frekari aðgreiningar og áhugi á að kynnast þeim og löndum þeirra. Vegna starfa minna síðar, einkum í útvarpi og á sviði bókmennta, félags- og menningarmála, eignaðist ég vini og starfssystkini þaðan, og síst drógu persónuleg kynni mín af Finnum úr áhuganum. Því varð það úr að ég skráði mig fljótlega í finnskunám hjá nýja sendikennaranum.

Kennslan fór nær öll fram í Norræna húsinu þar sem var aðsetur norrænu lektoranna. Nemendur voru sjaldnast svo margir í tímum að þeir kæmust ekki fyrir í herberginu. Það skapaði nánd og samstöðu og flýtti fyrir góðum kynnum í hópnum. Hann fylltu bæði karlar og konur á ýmsum aldri, með ólíkan bakgrunn og af ólíku þjóðerni og ýmsum ástæðum. Þau yngstu hugðu kannski á nám í Finnlandi, önnur komu til að dusta rykið af ryðgaðri finnsku. Loks sættu þó nokkrir erlendir háskólanemar eða starfsmenn háskólans úr öðrum námsgreinum lagi að bæta við sig finnsku úr því að hún var í boði á Íslandi.

Einn þeirra er Oskar Vistdal frá Noregi sem kynntist Timo fyrst á Íslandi og var hér samtímis honum, en var sendikennari í norsku í Háskóla Íslands.

Það er hann sem átti Timos von til Noregs þegar kallið kom og minntist hans í fallegri minningargrein í Helsingin Sanomat 22. ágúst. Báðir urðu þeir ágætir íslenskumenn og landi, þjóð og tungu haukar í horni í orði og verki í og eftir Íslandsvistina.

Nemendum Timos Karlssons varð fljótt ljóst hve góður kennari hann var, kennsla hans skýr og skipuleg og hlýtt viðmót hans og framkoma orkaði hvetjandi á þá. Hann bjó að traustri menntun í móðurmáli sínu og málvísindum yfirleitt og bókmenntum einneginn, sem vel var því til þess fallið að kveikja áhuga á námsefninu og halda honum við. Ef ég man rétt var starfsheiti sendikennarans á finnsku Suomen kielen ja kultuurin lehtori fól sem sagt í sér kennslu bæði í finnskri tungu og menningu. Það var þess vegna ekki ónýt viðbót við námið í málinu sjálfu að Timo hafði sér við hlið orðabókahöfundinn Tuomas Järvelä sem var stundakennari og veitti nemendum víðtæka sýn og yfirferð um uppruna, sögu, mál og menningu Finna sem náði til flestra þátta þjóðlífsins að fornu og nýju. Ekki munaði heldur minnst um að Timo Karlsson var tugumálagarpur og náði svo góðu valdi á tungu okkar að naumast mátti sjá eða heyra á máli hans í ræðu og riti að hann væri ekki borinn og barnfæddur Íslendingur, enda hef ég fyrir satt að á íslensku hafi hann haft mest dálæti þeirra erlendu mála sem hann lærði.

Meðan hann dvaldist hér settu þeir Tuomas Järvelä saman Íslensk-finnskt (1990) og Finnsk-íslenskt (1990) orðakver til nota við nám og kennslu og jafnframt var Timo einn af höfundum kennslubókar í íslensku: Finn Lecturan Islannin kielen oppikirja (2004). Á Íslandsárunum samdi hann líka og flutti í Ríkisútvarpinu eða Norræna húsinu pistla og erindi í kynningarskyni um finnskar bókmenntir og fleira, svo sem um bækur frá Finnlandi sem tilnefndar voru til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs eða af öðrum tilefnum. Nokkrar smásögur íslenskra höfunda birtust líka í þýðingu hans í tímaritinu Parnasso . Í Noregi samdi hann fyrstu finnsku bókmenntasöguna á norsku, Utsyn over Finlands litteratur (1993), og vandaða kennslubók í finnskri málfræði, Finsk språklære (2001). Skáldhneigður var Timo og samdi bæði ljóð og smásögur, en þau verk hans hafa ekki komið út.

Timo Karlsson var allt í senn geðþekkur, kurteis og alúðlegur maður á besta aldri eins og ég man hann, grannvaxinn, sviphreinn og ljós yfirlitum.

Stutt var í brosið, enda var hann gæddur notalegri, hófstilltri kímni og hafði góða nærveru eins og nú er sagt. Hann var hraustlegur ásýndum og stundaði hreyfingu og útivist. Oftast sá ég hann gangandi með bakboka eða tösku um öxl eða á reiðhjóli, ef ég man rétt  sem þá var fátíðari sjón í Reykjavík en í seinni tíð. Veðrin héðra setti hann ekki fyrir sig og sagðist einhvern tíma vera talven lapsi vetrarbarn, þegar hann var spurður út í hvernig honum félli veðurfarið og loftslagið hér á landi, enda er hvítur og frostkaldur vetur Finnum ekki framandi. Þess vegna var ekki nema rökrétt að næst eftir Íslandsvistina fluttist hann til Alta. Hvorki varð honum heldur óhóf né misnotkun miður hollra nautnameðala að aldurtila. Í því sambandi minnist ég þess að hann hafði orð á því að það yrði Íslendingum ekki gæfuspor þegar bjórsölubanninu var aflétt á dvalartíma hans hér. Hann lifði heilbrigðu lífi og sóttist eftir lífsnautninni frjóu samkvæmt skilgreiningu Jónasar. Að því skapi er söknuðurinn sárari og meiri við fráfall hans.

Allrar veraldar vegur víkur að sama punkt. Þeim punkti verður ekki haggað. Genginn er góður drengur sem víða átti vinum að mæta. Verka hans sem víða sér stað njóta þeir áfram og þakklátur hugur leitar horfinna stunda í ríki minninganna.

Hjörtur Pálsson.